Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 17:49:50 (670)

1997-10-20 17:49:50# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[17:49]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra er nú orðinn eins og gagnfræðaskóladrengur sem settur hefur verið í skammarkrókinn. Þetta eru ekki fullyrðingar mínar sem ég er að fara með, eins og hann segir. Ég er ekki að fullyrða eitt eða neitt. Ég er að vitna til aðila sem segist sem forgöngumaður hagsmunaaðila hafa samið um þetta, ekki við nefndina heldur við stjórnarflokkana. Úthafsveiðinefndin með aðild fulltrúa stjórnarandstöðunnar samdi ekki um neitt við Kristján Ragnarsson. Það er ósatt. Hann segist sjálfur hafa samið sem hagsmunaaðili við stjórnarflokkana og samningurinn hafi verið á þá lund að hugmyndir sjútvrh. um gjaldtöku fyrir veiðiheimildir úr norsk/íslensku síldinni hafi verið kastað fyrir róða gegn því að í staðinn yrði sett ákvæði um að þeir afsöluðu sér 15% í ígildum talið á móti þeim aflaheimildum sem þeir fengu. Þetta er engin fullyrðing mín. Þetta er það sem formaður LÍÚ segist hafa samið um við stjórnarflokkana og segir að það séu tryggðarof af hálfu þeirra þegar farið er að ræða um aðrar útfærslur. Þetta er ekki mín fullyrðing, virðulegi forseti. Þetta er fullyrðing mannsins sem sat við samningaborðið með hæstv. sjútvrh. og stuðningsmönnum hans í stjórnarflokkunum. Þetta er hans frásögn. Og þá spyr ég hæstv. ráðherra: Er Kristján Ragnarsson að segja ósatt? Hann er ekki að fást við fullyrðingu mína heldur frásögn Kristjáns Ragnarssonar. Segir Kristján Ragnarsson ósatt?