Utandagskrárumræða um málefni Sjómannaskólans

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:53:34 (997)

1997-11-05 14:53:34# 122. lþ. 19.94 fundur 80#B utandagskrárumræða um málefni Sjómannaskólans# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er sammála forseta um að við skulum fara að snúa okkur að efni málsins. En úr því að þessi umræða er á annað borð hér upp hafin þá er rétt að fylla inn í myndina og skýra frá því að strax og fréttir bárust af þessu málefni varðandi húsnæði Sjómannaskólans þá bar það á góma í þingflokki Alþb. og óháðra. Ég og hv. þm. Guðrún Helgadóttir ræddum málið þar. Það var ákveðið í kjölfarið að við mundum undirbúa fyrirspurn og leggja hana fram. Síðan kemur í ljós að samtímis hefur hv. þm. Kristján Pálsson og ef til vill fleiri þingmenn í Sjálfstfl. verið að taka málið upp þar, sem er fullkomlega eðlilegt og skiljanlegt, þ.e. að þetta mál væri tekið upp á fleiri en einum stað og í fleiri en einum þingflokki. Ég held að við eigum að nálgast þetta mál með því hugarfari að það er sama hvaðan gott kemur. Ekki veitir Sjómannaskólanum af öllum góðum liðsmönnum í þessu máli. Það er fullkomlega ástæðulaust að fara að missa málið hér í eitthvert karp um það hverjum hafi dottið eitthvað í hug á undan einhverjum öðrum. Það á enginn einkarétt á neinum hugsunum í þessu sambandi og þaðan af síður málum. Það er ósköp einfaldlega að hvort tveggja getur gerst, að menn óski eftir utandagskrárumræðu og að fram komi þingmál um sama efni. Það er eðlilegasti hlutur í heimi. Forseti verður að meðhöndla það mál í samræmi við þær leikreglur sem hér gilda og þau þingsköp sem forseta ber að fara eftir. Venjan er sú að þegar mál er komið á dagskrá þingsins sem formlegt þingmál þá er litið svo á að þar með sé því komið fyrir innan dagskrár og ekki þurfi að beita úrræðum utan dagskrár. Enda er það, eins og hér kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, að verða mesta vandræðamál þegar utandagskrárumræður sem eðli málsins samkvæmt eiga að vera brýnar, eru komnar á biðlista svo nemur mörgum vikum. Það er auðvitað ekki eðlileg staða í þinginu og við þurfum að vinna okkur einhvern veginn út úr þeim vandræðum. Ég held að það sé best gert með því að reyna jafnan að koma öllum málum sem hægt er innan dagskrár og aðeins þeim málum sem eru svo brýn að þau tímans vegna verði að meðhöndlast strax, utan dagskrár.