1997-11-20 10:46:04# 122. lþ. 30.92 fundur 98#B framkvæmd ráðherra í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar á 12. gr. jafnréttislaga# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[10:46]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu. Félmrn. hefur minnt á þetta ákvæði í bréfum sínum. Ég þori ekki að fullyrða að það hafi ævinlega verið gert, það kann að hafa fallið niður en þá af vangá því það er ásetningur minn að þetta fylgi öllum beiðnum um tilnefningar. Ég vitna til 12. gr. laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, en í henni segir, með leyfi forseta:

,,Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar. . .``

Rétt er að benda á að þó að greinin sé þannig orðuð eru áhöld um hvort hún geti staðist. Mér finnst ekki eðlilegt að stjórnvöld krefjist þess að félagasamtök skuli haga nefndaskipun sinni með tilteknum hætti. Það hlýtur að orka tvímælis að stjórnvöld íhlutist þannig í störf félagasamtaka. Frjáls félagasamtök í hinum vestræna heimi eru hornsteinn lýðræðisins.

Það liggur ljóst fyrir að eins og greinin er núna tryggir hún ekki jafnan hlut kynjanna í nefndum því að oftast eiga tilnefningaraðilar að tilnefna einn fulltrúa og hafa engar upplýsingar um það, a.m.k. í mörgum tilvikum hvernig tilnefnt er í nefndina frá öðrum tilnefningaraðilum. Ef tilnefningaraðilunum væri hins vegar skylt að tilnefna eina konu og einn karl, og það hef ég iðulega beðið um, getur sá sem skipar nefndina valið að hún nái þannig tilætluðum árangri.

Ég hef iðulega staðið frammi fyrir þeim vanda að þegar mér hafa borist tilnefningar og ég fæ bara að velja einn í nefndina, þá hafa tilnefningarnar verið mjög einsleitar, einungis annað kynið og stundum hef ég fallið í þá freistni að slást í hópinn og tilnefna t.d. konu þar sem einungis voru konur tilnefndar í nefnd.

Ég hef verið að láta athuga það undanfarið hvort ástæða sé til að breyta jafnréttislögunum eða taka þau til endurskoðunar. Nú er viðurkennt að við búum við einhver bestu jafnréttislög í heimi en þar eru ákvæði sem ég tel að sé ástæða til þess að skoða vandlega hvort ekki þurfi að breyta. Ég ætla að setja vinnu í gang og hún er reyndar komin að nokkru leyti í gang við að endurskoða jafnréttislögin og vænti þess að með vorinu, hugsanlega í vor eða næsta haust, muni ég leggja fram breytingar á jafnréttislögunum.

Ég stóð fyrir ráðstefnu snemma árs 1996 í Borgartúni með fulltrúum ráðuneytanna og m.a. til þess að kynna og undirstrika 12. gr. jafnréttislaganna. Ráðstefnan var mjög vel sótt. Mig minnir að það hafi verið á annað hundrað manns úr ráðuneytunum sem sóttu ráðstefnuna og hún tókst að mínu mati mjög vel. Ég átti von á því að eftir þetta yrðu nokkur þáttaskil því að allir sem boðaðir voru mættu til ráðstefnunnar.

Herra forseti. Að lokum vil ég geta þess að ég hef sent ráðuneytunum bréf til að minna á þessa 12. gr. og er tilbúinn að árétta það bréflega áður en langt um líður.