Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 13:32:11 (2010)

1997-12-12 13:32:11# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[13:32]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég óska eftir því að til verði kallaðir þingflokksformaður Sjálfstfl. og þingflokksformaður Framsfl. Ég get hafið ræðu mína en ég bið sérstaklega um um að þeir verði við. Það er ástæða til að vekja athygli á því, herra forseti, að ekki einn einasti ráðherra telur ástæðu til að vera viðstaddur þessa umræðu frekar en vant er. Þeir leggja þetta á sína púlshesta sem eru reyndar ekkert síður í stjórnarandstöðu en stjórnarliðar í nefndum. Það er ástæða til að menn séu við. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. og viðskrh. fyrir að mæta í salinn. Ég á sérstaklega erindi við, herra forseti, og bið um að ráðstafanir verði gerðar til að undir minni ræðu verði viðstaddir hv. þm. ...

(Forseti (GÁ): Forseti hefur heyrt bón hv. þm. og vekur athygli á því að þingflokksformaður Framsfl., Valgerður Sverrisdóttir, er í húsinu og mun hann gera ráðstafanir til að hún hlýði kalli ræðumanns. Síðan hafa fregnir borist af því að þingflokksformaður sjálfstæðismanna, Geir H. Haarde, er á leið í húsið.)

Ég þakka fyrir, hæstv. forseti. Það er ótrúlegt að þurfa á hverju einasta ári að vekja máls á því, að almennt er ekki borin virðing fyrir störfum þingsins í neinu af hálfu ráðherra ríkisstjórnarinnar þótt svo hittist á að einn sé á staðnum. Ég átti viðræðu við þann hæstv. ráðherra um landbúnaðarmál fyrir skömmu síðan. Þá var hann staðgengill hæstv. landbrh. (Gripið fram í: Er enn.) og er kannski enn. Þá er kannski einmitt ástæða til að halda áfram þeirri ræðu, hæstv. landbrh. (Gripið fram í: Sitjandi landbrh.)

Það kom fram í máli manna áðan að menn voru að kvarta yfir kostnaðarsömum tillögum sem stjórnarandstaðan gerði um hækkun til ýmissra liða eins og gert er grein fyrir á sérstöku þingskjali. Það liggur við að maður segi, herra forseti, að hækkun um innan við tvo og hálfan milljarð af 130 milljörðum séu of hóflegar kröfur fram settar. Ekki nóg með það. Gerð hefur verið grein fyrir að við munum leggja fram tillögur á móti í tekjuöflun þannig að ekki er verið að rasa um ráð fram. Það er meira en segja má um hv. meiri hluta fjárln. sem hefur gert tillögur um 1.054 millj. kr. halla án þess að gera í nokkru grein fyrir hvernig eigi að afla tekna á móti. Það er meira en segja má um þann meiri hluta sem situr í fjárln. og gerir tillögur um 1.500 millj. kr. halla.

Þótt ég hafi byrjað að ræða um að menn mæti ekki til að vera við fjárlagaumræðuna eftir það púl sem menn hafa lagt á sig til að afgreiða þessi mál á þann máta sem verið að gera, vil ég nú, herra forseti, þakka öllum þeim sem hafa veitt upplýsingar til fjárln. um stöðu mála að undanförnu. Og ég vil segja að oft og tíðum hafa störfin gengið þannig að þeir sem hafa komið til fjárln. hafa skilað greinargerðum um hin ýmsu mál með ótrúlega skömmum fyrirvara. Það er með ólíkindum hvað stofnanir og einstaklingar sem leitað hefur verið til eru liprir og leggja mikið á sig til að koma með upplýsingar um hin ýmsu mál sem til umfjöllunar eru.

Mig langar að nota þetta tækifæri, þótt óvenjulegt sé, til að þakka starfsmönnum þingsins fyrir mjög góða samvinnu og einstaka lipurð við alla upplýsingaöflun sem þurft hefur á að halda, oft með miklu hraði og stundum utan eðlilegs vinnutíma. Þótt venjan sé að við 3. umr. séu bornar fram þakkir, geri ég það núna því ég tel vera ríka ástæðu til. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Ríkisendurskoðun sem hefur aðstoðað okkur í fjárln. í formi vinnu og upplýsinga. Ég vil þakka fyrir gagnaöflun úr ráðuneytum eins og ég kom að áðan. Reyndar er það þó þannig að ráðuneytin eru ekki öll undir sama hatti með það hve greiðlega upplýsingar koma frá þeim og það er ástæða til að hafa orð á því. Mörg eru þannig að upplýsingar koma þegar um þær er beðið, en frá einstaka seint og þá óljósar upplýsingar.

Ég vil nefna það hér af því að þannig stendur á hjá undirrituðum að þessi dagur er hátíðardagur í mínu lífi, að undirritaður hefur braggast og fengið góðan viðurgerning hjá ágætum starfsmönnum úti í fjárln. Ég vil sérstaklega nefna þær Bentínu Jónsdóttur og Ragnheiði Sumarliðadóttur og vil þakka þeim fyrir gott viðurværi og þjónustu. Mér finnst ástæða til að nefna það hér. (ÁRJ: Hvaða dagur er í dag?) (Gripið fram í: Áttu afmæli?)

Sérstaklega fær ritari fjárln. þökk fyrir veitta aðstoð, fyrir veitta hjálp við útreikning og upplýsingar sem hafa nauðsynlegar verið. Það hittir svoleiðis á, herra forseti, að fjárlagaumræðan er nú að fara fram á hátíðisdegi í mínu lífi, í þriðja eða fjórða skiptið, ávallt 12. desember. Þess vegna finnst mér ástæða til að fara fram á það að í áætlun þingsins sé gert ráð fyrir því, meðan ég er hér, að fjárlagaumræðan fari fram 12. desember. En þá fer ég líka fram á það, herra forseti, í leiðinni að orðið verði við ýmsum tilmælum og óskum minni hlutans varðandi fjárlög. (Gripið fram í.) (ÁRJ: Áttu afmæli í dag?)

Herra forseti. Oft og tíðum gerir fólk sér almennt ekki grein fyrir því að þrátt fyrir deilur um málefni og ýmis pólitísk atriði er Alþingi vinnustaður þar sem fólk vinnur samviskusamlega, að mínu mati, að því sem því er ætlað, bæði sem nefndarmenn og sem fulltrúar landsmanna. (Gripið fram í: En ráðherrar?)

Hvað sem mönnum kann að finnast um ýmsar smáuppákomur sem lúta að snöggum orðaskiptum eða að einhverjum verður á mismæli, eða vekur hlátur, þá eru þingmenn, að mínu mati, almennt vinnufélagar sem leysa það sem vera ber. (Gripið fram í: Er þetta hátíðarræða?)

Vík ég nú að fjárlagaumræðunni, herra forseti. Fjárlög við 2. umr. eru lögð fyrir með tekjuöflun sem nemur 163 milljörðum 484 millj. kr., en útgjaldahlið upp á 164 milljarða 550,3 millj. kr., sem þýðir að við 2. umr. er verið að leggja fram fjárlög með halla upp á 1 milljarð 45,8 millj. kr. Ég held í rauninni að það sé óviðunandi að svo sé í góðærinu. En það ber að gera grein fyrir því að meiri hluti fjárln. hefur ekki gert grein fyrir tekjuöflun og því er svo að við þessa umræðu er hallinn uppi á borðinu. Mér finnst ríkisstjórnin hafi ekki staðið sig. Mér finnst að ríkisstjórnin hafi ekki sýnt sig í að vera vandanum vaxin.

Lít ég þá helst til þeirra mála sem eru undirstaða atvinnulífs okkar og undirstaða þjónustu okkar á Íslandi. Ég vil nefna fyrst skólana. Skólarnir eru grunnurinn að því að við eigum gott mannlíf á Íslandi. Ég vil nefna að möguleikarnir í heilbrigðiskerfinu eru líka grunnur að því að fólk geti átt gott mannlíf. Þess vegna verðum við að bregðast við þeim vanda sem nú er, bæði í heilbrigðiskerfinu og skólakerfinu og efla það duglega. En við verðum að finna leiðir til að draga saman. Ég er ekki að segja að auka eigi útgjöld í samræmi við það sem tekjur aukast nema í þessum málaflokkum sérstaklega. Ég held því nefnilega fram, herra forseti, að unnt sé að skera ýmsa fitukeppi af sem hefur verið bent á að undanförnu.

Það er einnig ástæða til að skoða ýmsa risnupotta þjóðfélagsins þar sem þeir sem betur mega sín geta stungið rananum í risnuhunangið og nánast sogið óslitið til sín, herra forseti, og finnst það jafnvel eðlilegt og skilja ekki þegar verið er að fetta fingur út í slíkt, hvort sem það varðar bílafríðindi, ferðafríðindi, laxveiðifríðindi, dagpeningafríðindi, veislufríðindi, gjafafríðindi eða annað. Þarna er ástæða til að taka á. Það hefur komið fram að undanförnu að svo mikill lúxus finnst hjá minni hluta þessarar þjóðar að ástæða er til að gera alvarlega athugasemd við það og ég geri það hér með. Ég geri alvarlega athugasemd við það að ýmsir þjóðfélagshópar skuli vera þannig settir að þeir geti útdeilt sjálfum sér því að geta stungið rana sínum í þá risnupotta sem blasa við þeim.

Herra forseti. Hvað varðar brtt. meiri hluta fjárln. má segja að margir fá góða lausn sinna mála í þeim þótt misjafnt sé. Það fer ef til vill eftir því hver í hlut á. Flestar þessara tillagna mun ég styðja og er ástæða til að segja frá því. Þó er það svo að glöggir menn munu telja sig sjá fingraför einstakra fjárlaganefndarmanna á þessum tillögum. Ef til vill gerast hlutir á öllum tímum samt á þennan máta. Í sumum tilfellum gerist það vegna þess að einn þekkir betur til en annar.

[13:45]

Varðandi liðinn Ýmis framlög hefði ég viljað sjá betur gert í mörgum málum, en ætla ekki að fást um einstök mál. Ég tel það ekki við hæfi. Minni hluti fjárln. hefur gagnrýnt ómarkviss tök ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans varðandi stór mál svo sem heilbrigðismál, menntunarmál, samgöngumál og fleiri málaflokka. Minni hlutinn hefur gert grein fyrir tillögum um aukin útgjöld og er reiðubúinn til að gera tillögur um auknar tekjur þar á móti við 3. umr. þar sem hefð er fyrir að gera ráð fyrir jöfnun tekna og gjalda á jákvæðan máta. Þannig mun minni hlutinn skila sínum tillögum inn. Við höfum bent á ýmsa möguleika. Án þess að gera beina tillögu um það langar mig, herra forseti, benda á að niðurfelldar kröfur af hálfu ríkissjóðs nema milljörðum og hefur Ríkisendurskoðun gert alvarlega athugasemd um slíkt. Ég tel eðlilegt að menn sjái til þess að mönnum sé gert jafnt undir höfði með greiðslu skatta og skyldna. Mér þykir ekki mikið þó að minnsta kosti einn milljarður náist þar í tekjur. Ég vil benda meiri hlutanum á þessar leiðir og tek þar með undir með Ríkisendurskoðun. Eins er ástæða til að benda á að menn hafa rætt um að í neðanjarðarhagkerfinu, herra forseti, séu 11--14 milljarðar sem ekki koma til skila.

Búast má við að hægt sé að ná í einn til einn og hálfan milljarð af þessum 14 felumilljörðum í hagkerfinu. Ég bendi hv. formanni fjárln. og hæstv. viðskrh. á, úr því þeir eru staddir hér, að ástæða sé til að taka þarna á. Það er eðlilegt að biðja um að skilaboð komist til hæstv. fjmrh. sem lætur ekki svo lítið að koma inn fyrir þröskuld þessa húss meðan verið er að ræða fjárlög ríkisins. Ég þreytist ekki, herra forseti, við að áminna æðstu ráðamenn þessarar þjóðar. Þeir eiga að vera viðstaddir þessar umræður umfram allt annað. Mér finnst, herra forseti, til skammar, að þeir skuli ekki vera í húsinu. Ég mun nefna það nokkrum sinnum í ræðu minni.

Herra forseti. Ég gerði að sérstöku umræðuefni, við 1. umr. um ráðstöfun ríkisfjármála, þá ætlan ríkisstjórnar að minnka framlag til átaksverkefnis í framleiðslu og markaðssetningu á lífrænum og vistvænum matvælum. Vegna þess að þetta er undir 2. lið 6. gr. fjárlagafrv. get ég ekki látið vera að ræða þetta mál. Ég hafði vonast til að fá þau skilaboð frá formanni fjárln. að þessi aðgerð kæmi ekki til afgreiðslu við 2. umr., en þar sem þess var ekki getið í ræðu hans, sé ég mér ekki annað fært en ræða þetta mál. Þess vegna bað ég um að fá að ræða þetta við formenn þingflokkanna, hv. formenn Geir H. Haarde og Valgerði Sverrisdóttur. Ég fagna því að Rannveig Guðmundsdóttir, formaður þingflokks jafnaðarmanna er hér einnig, því ég á við hana erindi í þessu máli.

Ég ætla að ræða um átaksverkefnið sem fjallað er um í 2. lið 6. gr. fjárlagafrv. Þar er og tillaga sem þessir hv. þm. áttu aðild að með atkvæðagreiðslu og reyndar var hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir ekki þingflokksformaður Framsfl. en það var aftur hæstv. núv. iðnrh. sem nú gengur í salinn. Hann var þingflokksformaður Framsfl. þegar sú tillaga sem ég er að ræða um var gerð. Þá var samþykkt af 48 viðstöddum þm. að í fimm ár skyldi úthluta 25 millj. á ári vegna markaðsátaks við lífræna og vistvæna framleiðslu og vottunar íslenskra afurða. Ég verð að segja, herra forseti, að það er hreinlega til skammar ef hv. þm. sem ég hef nefnt hér, láta vaða svo yfir sínar tillögur á skítugum skónum að þetta framlag verði skorið niður. Vegna þessara fjármuna hefur náðst árangur þó ekki hafi verið farið að hugmyndum sem hv. þingflokksformaður Sjálfstfl. gerði grein fyrir í ræðu. Þar gerðu m.a. þáverandi þingflokksformenn ríkisstjórnarflokkanna, ráð fyrir að 25 millj. kr. framlag kæmi úr Framleiðnisjóði á móti, þannig að framlagið yrði ekki 25 millj. kr. á ári, heldur 50 millj. á ári. Þetta áttu að vera 250 millj. kr. framlag í heildina en Framleiðnisjóður er ekki tilbúinn að fylgja þeim hugmyndum eftir enda eru þetta ekki lög heldur tilmæli. Aðeins í einu verkefni hefur Framleiðnisjóður verið tilbúinn að leggja fjármuni á móti í þessu verkefni. Það var þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem þá var, tóku ákvörðun um að flytja lambakjötsfjall upp á 2.500 tonn til Bandaríkjanna. Málið var illa grundað en á því verkefni lærðu Íslendingar að þeir kunnu ekki að verka kjöt fyrir Ameríkumarkað og þeir kunnu ekki að pakka kjöti fyrir Ameríkumarkað. Þeir vissu ekkert hvaða umbúðir átti að nota. Þeir vissu ekki hvaða umbúðir átti að nota fyrir ýmist frosið kjöt eða ferskt kjöt. Þeir vissu heldur ekki hvernig flytja átti vöruna á ódýrastan máta frá Íslandi til Ameríku. Við höfum þó lært það á þessu verkefni og nú ganga þessir hlutir vel fyrir sig.

Hvað er svo að gerast á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn er að skera niður framlagið? Hæstv. ríkisstjórn gerir það þótt það sé á ábyrgð hæstv. landbrh. Hvað er að gerast í heiminum í kringum okkur? Hvað er að gerast hjá Norðmönnum? Jú, norska ríkisstjórnin hefur beitt sér sérstaklega fyrir því að öll matvæli úr landbúnaði verði vottuð af þeirra framleiðendum. Frá og með næsta vori á engin landbúnaðarvara fara frá Noregi í útflutning nema vottuð. Langt eigum við Íslendingar í land að ná því marki og lengra ef þetta verkefni verður lagt af. Ég treysti þingflokksformönnum sem hér eru til að beita sér fyrir því, við hv. ríkisstjórn, að þessi ætlan verði sett af og 2. liður 6. gr. verði felldur út úr tillögum sem ríkisstjórn hefur lagt fyrir Alþingi. Í Noregi er málum þannig háttað að afurðastöðvar munu ekki taka við framleiðslu frá bændum nema þeir séu vottaðir, komnir með viðurkennda búhætti. Við þurfum að fara að gá að okkur með þetta. Ég veit ekki hvort menn hafa tekið eftir því sem er að gerast með fiskinn okkar og finnst ástæða til að hv. þm. fylgist með því sem ég er að segja þeim nú. Á MTV-sjónvarpsstöðinni sem er í frjálsri útsendingu víða á Íslandi eru auglýsingar frá samtökunum World Wildlife Fund gegn fiskveiðum. Hvað haldið þið að þetta þýði? Þetta eru teiknimyndir þar sem maður gengur inn í verslun og nær sér í fisk og setur ofan í körfu. Þar á móti kemur net sem kippir manninum í burtu. Boðskapurinn er sá að fiskur sé vara sem fengin er með óeðlilegum hætti og þetta er bein árás á grundvallarafkomu okkar Íslendinga. Eini mótleikur okkar er að fá vottað að okkar fiskveiðistefna sé á eðlilegan máta. Með hverju er það gert? Með þeirri aðferð sem átaksverkefninu er ætlað að koma í gagnið. En á sama tíma ætlar ríkisstjórnin að skera þetta niður. Það er eðlilegt, herra forseti, að ég berjist fyrir þessu. Ég veit að hæstv. forseti er mér sammála mér um að þetta getur ekki gengið og á ekki yfir okkur að ganga. Það er rétt að nefna að í Svíþjóð eru menn komnir á sömu stefnu. Þar stefna menn á að 20% bændabýla verði lífræn, að öll þeirra vara verði vottuð og fari ekki úr landi öðruvísi. Þessu gerðu Svíar sér grein fyrir í tengslum við ESB. Þeir eru á hraðleið og við sitjum eftir. Ég tala nú ekki um ef þetta verkefni verður skorið niður eins og ætlun ríkisstjórnarinnar er að gera. Ég tek fram að innan næsta árs verða landbúnaðarafurðir ekki fluttar út frá Danmörku, Noregi eða Svíþjóð án þess að þær hafi verið vottaðar. Innan eins árs verða allar vörur að vera viðurkenndar. Þá þurfum við að fara að herða okkur. Hið sama gildir um innanlandsmarkað þeirra. Norðmenn segja að lengra sé í land hjá þeim varðandi innanlandsmarkaðinn en markaðinn erlendis.

Svo ég minnist á stefnumörkun í íslenskum landbúnaði. Hæstv. ríkisstjórn virðist ekki vita um það. Ég held að ástæða sé fyrir menn að líta eftir því sem þeir hafa verið settir yfir. Það er stefnt að því að allar landbúnaðarafurðir skuli vera vottaðar og einnig að beitilönd séu ekki ofnýtt. Setja skal fram leiðbeiningar um góða búskaparhætti. Þessar framkvæmdir hófust með átaksverkefninu og ég vil hæla þingflokksformönnum þáv. flokka, sem sátu á Alþingi 1995 sérstaklega fyrir það. Ég minni á að fjárhæðin var sett fram í tengslum við árið 1994, þjóðhátíð Íslendinga, þar sem við veittum sjálfum okkur 50 millj. vegna íslensks máls og 50 millj. til rannsókna í lífríkinu í hafinu umhverfis landið.

En þetta virta verkefni, á að skera niður. Ég skora enn á hæstv. ríkisstjórn, þótt hér sé aðeins einn hæstv. ráðherra viðstaddur, að við þessi áform verði hætt. Ég vil þakka hv. þingflokksformönnum Framsfl. og Sjálfstfl. fyrir að hlýða á mál mitt.

[14:00]

Ég held að það sé rétt að menn viti að í blöðum undanfarið sem kannski berast ekki inn á öll heimili, þ.e. bændablöðum, eru upplýsingar um þann árangur sem hefur verið að nást, ekki bara í lambakjöti, ekki bara við ræktun eða framleiðslu mjólkur eða fisks heldur eru menn farnir að tala um að sauðfjárbúskapur á sumum svæðum miðað við vistræna ræktun sé undirstaða byggðar og þá rukka ég um og spyr: Hvar er byggðastefna hæstv. ríkisstjórnar í sauðfjárbúskap? Hver er hún? Er það að leggja hann af í því formi að skera niður þetta fjárframlag?

Ég ætla ekki að eyða okkar tíma, herra forseti, í það að lesa mikið upp úr þessum blöðum en ég bendi mönnum á þrjár síðustu útgáfur Bændablaðsins. Sú síðasta kom á mánudaginn var. Þar er ríkuleg umfjöllun um þessi mál og bændur eru orðnir mjög vel meðvitaðir um að þetta er eitt af því sem þeirra framtíðarsýn getur byggst á. Þess vegna trúi ég þessu ekki fyrr en ég tek á því. Ég lýsi því hér yfir af því að ég hef verið að sinna þessum verkefnum að litlu leyti að ég mun víkja úr þeirri stjórn sem er eina stjórnin sem ég hef sinnt á vegum Alþingis, verði þetta skorið af. Ég tel að ekki sé rými fyrir nema 1--2 menn við þessi störf eftir að þessi aðgerð verður framkvæmd enda kvaddi ég þá félaga nú í morgun sem ég hef verið að vinna með að þessum málum undanfarið og sagði þeim að ef svo færi eins og líti út að þetta framlag yrði skorið af, þá væri þetta síðasti fundur sem ég ætti með þeim.

Ég ætla að ljúka mínu máli með þessu, herra forseti. Ég mun ræða frekar fjárlagatillögur þegar þær koma til umræðu við 3. umr. Ég vil þakka þingflokksformönnum Framsfl. og Sjálfstfl. fyrir að vera hér undir þessari ræðu minni um þessi sérstöku mál vegna þess að þetta snýr að þeirri framkvæmd sem gerð var þegar þingflokksformenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi 1995 fengu þessa tillögu samþykkta með 48 greiddum atkvæðum.