Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 14:42:38 (2021)

1997-12-12 14:42:38# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[14:42]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil eins og stundum áður byrja á því að þakka hv. meðnefndarmönnum mínum fyrir samstarf við alla þá vinnu sem liggur að baki því þingmáli sem hér er til umræðu. Allt hefur það samstarf verið með miklum ágætum þó að skoðanir séu eðlilega oft skiptar um einstök atriði, um áherslur, um markmið og leiðir. Það væri trúlega illbærilegt að starfa í þessari nefnd ef ekki legðu sig allir fram um góð samskipti og það tekst yfirleitt. En ekki síst vil ég þakka því góða starfsfólki sem alltaf er boðið og búið að létta okkur verkin, hvort sem við erum í meiri hluta eða minni hluta.

Áherslur minni hlutans í sambandi við þessa fjárlagagerð koma fram í ítarlegu nefndaráliti á þskj. 469 sem hv. frsm. nefndarálitsins hefur þegar farið yfir. Þar kemur fram rökstudd gagnrýni á fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar sem virðist ómarkviss og úr takt við þá þróun sem merkja má hér á landi og í kringum okkur.

Við bendum á þá alvarlegu staðreynd að ríkisstjórnin hefur ekki gætt þess í góðæri að safna fé til mögru áranna sem koma óhjákvæmilega. Það er jafnöruggt og að nótt fylgir degi heldur hefur auknu aflafé verið eytt jafnóðum og ekki enn náðst það markmið að ná hallalausum rekstri á ríkissjóði. Nú heyri ég fyrir mér gagnrýnisraddir fulltrúa meiri hlutans og þær hafa þegar komið fram í umræðunni sem segja lítið samræmi í málflutningi okkar þegar við gagnrýnum í öðru orðinu ríkisstjórnina og meiri hlutann fyrir að reka ríkissjóð með halla og í hinu orðinu viljum við hærri framlög til velferðarmála.

[14:45]

Hér er auðvitað ekki öll sagan sögð í þessu flókna dæmi. Þetta er spurning um áherslur og forgang, bæði hvað varðar tekjuöflun ríkisins og svo hitt hvernig þeim tekjum er varið.

Eins og fram kemur í lokaorðum nál. minni hlutans er það mat okkar að tekjuhlið frv. sé vanáætluð um 1--1,5 milljarða, og er reyndar ekki ólíklegt að meiri hlutinn viðurkenni það við endurskoðun tekjuáætlunar nú milli 2. og 3. umr. vegna þess að hann vill auðvitað sýna hallalausa niðurstöðu. Breytingartillögur meiri hlutans auka útgjöldin um rúmlega hálfan annan milljarð og hann vill mæta því með því að sýna auknar tekjur. Ég held að við verðum sammála um það mat. Ef minni hlutinn réði meiru um framkvæmd mála yrði farið skipulega í sparnað á öðrum liðum en þeim sem okkur finnst vanræktir en að auki teljum við góða möguleika á öflun meiri tekna. Það er t.d. staðreynd að atvinnulífið hefur notið verulegrar velvildar umfram almenning á síðustu árum. Hér hafa verið nefndir heilir fjórir milljarðar sem fluttir hafa verið af atvinnulífinu yfir á herðar almennings á síðustu árum og það er ekki spurning í mínum huga að fyrirtækin geta lagt meira af mörkum til samneyslunnar. Það væri því engin goðgá að hækka t.d. tryggingagjaldið.

Þá er það viðurkennd staðreynd og mat allra sérfróðra manna, og nú tek ég undir með hv. 5. þm. Vesturl. sem minntist á þetta atriði áðan, að a.m.k. 10--12 milljarðar kr. séu á sveimi í neðanjarðarhagkerfinu sem ekki nást inn í skattkerfið. Þeir munu auðvitað aldrei nást allir en þar verður að gera átak. Það verður að leggja meiri áherslu á að uppræta skattsvik og hvers konar undanskot sem eru allt of algeng. Það mun auðvitað kosta eitthvað meira fé. Það þarf að efla skatteftirlit og skattrannsóknir. Það kostar stundum peninga að afla peninga. (Gripið fram í: Það er rétt.)

Það er hinn almenni launamaður, ríkisstarfsmenn og venjulegt launafólk sem bera meginþunga skattbyrða einstaklinga og það eru heiðarlega rekin fyrirtæki sem leggja sitt af mörkum. Það eru allt of margir sem standa utan við. Úr því að ég er að fullyrða um þetta þá held ég að ekki saki að fram komi að ég held að það séu fyrst og fremst í veitingaþjónustu, í skemmtiiðnaðinum og í viðgerðaþjónustu sem pottur er brotinn. Það eru allt of margir sem ekki greiða sanngjarnlega til samneyslunnar. Það eru líka til óheiðarlegir aðilar á ýmsum stöðum í þjóðfélaginu sem leika t.d. þann leik að hlaupast frá skyldum og sköttum og skipta um kennitölur eins og skítug föt og að þessari meinsemd í þjóðfélaginu þarf að ráðast.

Herra forseti. Í nál. koma fram áherslur minni hlutans í þeim þáttum sem við teljum varða mestu um aðstæður og lífsskilyrði almennings í landinu. Hv. þingmenn ættu að þekkja þessi áhersluatriði, þau hafa vitanlega komið fram áður og m.a. við afgreiðslu fjáraukalaga sem voru til 2. umr. fyrr í vikunni. Þar var meginþungi gagnrýni okkar á ástandið í heilbrigðismálunum.

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt stjórnvöld með hæstv. heilbrrh. í fararbroddi mjög harkalega á undanförnum árum fyrir aðgerðir þeirra og raunar einnig aðgerðaleysi, þ.e. aðgerðarleysi og vitlausar aðgerðir sem þar hafa komið við sögu. Þessi gagnrýni stjórnarandstöðunnar er nú að skila sér. Hún er að skila sér en það er svo mikill skaði skeður að ekki dugir minna en stórátak og þá á ég sérstaklega við í sjúkrahúsmálunum. Samkvæmt brtt. meiri hlutans og yfirlýsingum hans og hæstv. ráðherra á að taka að nokkru leyti á vanda sjúkrahúsanna, þ.e. fyrst og fremst á þeim rekstrarvanda sem þar er við að glíma. Handahófskennd vinnubrögð yfirvalda við nauðsynlegt aðhald, og ég ítreka það, við nauðsynlegt aðhald og sparnað hefur sett stjórnendur og starfsfólk sjúkrahúsanna í ótrúlega erfiða aðstöðu þar sem þau hafa ár eftir ár fengið á sig flatan niðurskurð án tillits til mismunandi aðstæðna. Það verður að segjast eins og er að í rauninni hefur náðst ótrúlegur árangur í auknum afköstum í þjónustu við sjúka og aldraða við þessar aðstæður og sýnir okkur auðvitað að það var talsverð sóun í kerfinu og ekki var nægur hvati til sparnaðar. Það fellst ég á.

Það hefur náðst mikill árangur í afköstum sem sýnir sig í því að göngudeildarþjónusta hefur verið efld, fyrst og fremst á stærstu sjúkrahúsunum, aðgerðum hefur fjölgað, legutíminn hefur styst, hjúkrunarþyngd aukist, sjúklingum fjölgað á hvern starfsmann og lyfjakostnaður sjúkrahúsanna hefur lækkað. Þennan árangur ber að viðurkenna en hann hefur líka kostað miklar fórnir. Hann hefur kostað aukið álag á starfsfólk og hann hefur kostað aukið álag á sjúklinga og aðstandendur. Biðlistar eru of langir. Fólk bíður oft sárþjáð eftir aðgerð, það kemur veikara inn til aðgerðar og það er sent fyrr heim. Það leiðir reyndar í mörgum tilvikum til þess að sjúklingar koma aftur inn á sjúkrahúsið vegna þess að þeir hafa verið sendir of snemma heim. Þetta atriði þarf að kanna betur. Þetta hefur verið fullyrt en það þarf að kanna betur við hvaða rök þær fullyrðingar styðjast. En ég tel að þetta séu réttar fullyrðingar. En hvað sem þessum árangri líður, vandinn í sjúkrahúsrekstrinum er gríðarlegur og á honum verður að taka. Það er svo margt sem skiptir máli í þessari þróun. Hækkun meðalaldurs hefur t.d. mikið að segja. Hann hefur hækkað um fimm ár á síðustu 25 árum.

Góð heilbrigðisþjónusta er aðalsmerki þjóðar sem vill kenna sig við velferð og skiptir hvern einasta landsmann miklu og menn verða að skilja að brestir í þessum þætti velferðarkerfisins koma þungt niður á heimilum landsmanna. Niðurskurður síðustu ára til heilbrigðismála hefur því valdið ómældum erfiðleikum hjá stórum hópi fólks. Heilbrrh. og fulltrúar meiri hlutans hafa mótmælt því að um niðurskurð hafi verið að ræða. Ég skil ekki á hverju það er eiginlega byggt. Það er einfaldlega staðreynd að útgjöld í þeim málaflokki hafa ekki þróast í samræmi við kröfur um bætta heilbrigðisþjónustu og breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar, en eins og ég sagði áðan hefur meðalaldur fólks hækkað um fimm ár á síðasta aldarfjórðungi, síðustu 25 árum. Þekking og tækni hafa verið að breytast og eflast en það kostar líka peninga að nýta hana til aukinna hagsbóta fyrir sjúklinga og útgjöldin hafa ekki þróast í takt við aukinn hagvöxt allra síðustu ára.

Heilbrigðismálin eru mjög fjárfrekur málaflokkur, því er ekki að neita. Útgjöld til ráðuneytis heilbrigðis- og tryggingamála nema nær 59 milljörðum á næsta ári samkvæmt fjárlagafrv. og það mun vera um það bil 38,6% allra útgjalda ríkisins á greiðslugrunni en 36,2% á rekstrargrunni. Það er því í sjálfu sér skiljanlegt að reynt sé að halda þétt utan um þennan mikilvæga en fjárfreka málaflokk. Ráðdeild og sparnaður er því sígilt viðfangsefni á þessu sviði sem öðrum. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að gæta lögbundins réttar landsmanna til bestu fáanlegrar heilbrigðisþjónustu. Ég segi það enn og aftur að aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum hafa verið ótrúlega handahófskenndar og bitnað bæði á sjúklingum, öldruðum og aðstandendum og á starfsfólki á þessu sviði, sérstaklega í sjúkrahúsþjónustunni. Afgreiðsla fjárlaga þessa árs jók aðeins á vandann í heilbrigðiskerfinu og öll varnaðarorð minni hlutans í þeim efnum hafa reynst rétt. Sparnaðarhugmyndir voru enn einn ganginn fullkomlega óraunhæfar og að mestu óútfærðar eins og niðurstöður frv. til fjáraukalaga sýna glöggt þar sem auka þarf framlögin til heilbrigðiskerfisins á þessu ári um nær 2 milljarða kr. til hinna ýmsu liða og enn er stór hluti vandans óleystur. Þessi eini milljarður sem sjúkrahúsin vantar til reksturs hefur þannig dregist á eftir í rekstrinum ár frá ári og ljóst er að taka verður myndarlega á því máli. Af þessum milljarði er halli stærstu sjúkrahúsanna, þ.e. Ríkisspítalanna og Sjúkrahúss Reykjavíkur, enn nær 400 millj kr. í lok þessa árs þrátt fyrir 320 millj. kr. framlag á fjáraukalögum. Flest hin sjúkrahúsanna eru með einhvern halla í árslok allt frá 4 upp í 84 millj. kr.

Þannig er staðan sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt látlaust ár eftir ár og nú hefur sú gagnrýni borið árangur. Við 2. umr. fjáraukalaga var samþykkt sérstakt framlag að upphæð kr. 200 millj. sem ætlað er að taka á rekstrarvanda sjúkrahúsanna utan Reykjavíkur og ber að fagna því. Vonandi dugir það til en á það ber að líta að stærsta sjúkrahúsið í þeim hópi, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, er komið 84 millj. kr. rekstrarhalla nú í árslok. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Starfsemi hefur þar verið að aukast og upplýst er að nú er breytt staða á þann veg að sjúklingar sem áður komu í talsverðum mæli að norðan til stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík fá nú þjónustu fyrir norðan þannig að það kemur yfirleitt fram á þann veg við niðurskurð og sparnað að kostnaðurinn kemur fram annars staðar. Þetta er eitt dæmið um það. En það er ekki dæmi sem ber að harma í sjálfu sér að starfsemi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri aukist vegna þess að það þarf að hafa öflugt sjúkrahús á þessum stað á landinu.

[15:00]

Þá er það ekki minna áhyggjuefni að viðhald húsa og endurnýjun tækja hefur lengi setið á hakanum. Ástandið í þeim efnum fer sífellt versnandi og verður afar kostnaðarsamt að taka á þeim vanda. Sem dæmi má nefna Sjúkrahús Reykjavíkur sem er að verða háskalega illa farið af skorti á viðhaldi. Skýrsla liggur fyrir um ástandið þar og er áætlaður kostnaður vegna viðgerða utan húss nær 400 millj. kr. og það ástand stafar af frostskemmdum. Það lekur meðfram gluggum og ástandið er að öllu leyti orðið mjög slæmt og viðhald innan húss mun ekki kosta minna þegar í það verður farið.

Þannig mætti rekja fleiri dæmi því að víðast hvar blasir þörfin við og úrbætur ganga því miður hægt. Sums staðar er húsakosturinn í raun ekki boðlegur, hvorki sjúklingum né starfsfólki. Ég segi það enn og aftur að langvarandi sparnaður í viðhaldi er óskynsamlegur. Hann kemur fram í auknum kostnaði þegar til lengdar lætur og það er illa farið með eigur ríkisins að halda þeim ekki við á sómasamlegan hátt. Þess vegna minni ég á það sem sagt var hér í umræðunni um fjáraukalögin að ég tel óhjákvæmilegt að gera áætlun á svipaðan hátt og gert var í sambandi við uppbyggingu á höfnum, flugvöllum og vegum, gera áætlun til nokkurra ára um viðhald heilbrigðisstofnana og endurnýjun tækjakosts sem einnig er orðinn víða úreltur og úr sér genginn svo að þessar stofnanir og starfsemi þar grotni ekki niður í hirðuleysi.

Allur þessi vandi liggur fyrir. Hann er studdur gögnum og skýrslum frá stofnununum sjálfum og öðrum matsaðilum og ég tek undir það sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði áðan að við höfum sjaldan haft jafnmiklar og greinargóðar upplýsingar til þess að átta okkur á ástandinu og núna. Þessar hallatölur og hallinn í rekstrinum er raunverulegur og hann er ekki tilkominn vegna óráðsíu. Það er almennt viðurkennt að starfsfólk sjúkrahúsanna hefur lagt hart að sér og náð miklum árangri við erfiðar aðstæður á undanförnum 5--10 árum. Menn kann auðvitað að greina á um þetta mat en það er óhugsandi að slíkar tölur sem nefndar hafa verið séu úr lausu lofti gripnar og þó að um lægri tölur væri að ræða, þá er þetta nógu alvarlegur vandi, jafnvel þó að við skærum þær hugmyndir niður um helming. Því til sönnunar vil ég nefna úr skýrslum t.d. upplýsingar um reksturinn hjá Ríkisspítölunum þar sem því er lýst hvernig framleiðni spítalans, eins og það er orðað, hefur aukist umtalsvert. Mér finnst nú reyndar ekki skemmtilegt að tala um framleiðni inni á sjúkrahúsum en svona er þetta nú orðað. Framleiðnin hefur aukist með styttingu legutíma og bættri tækni við aðgerðir en um leið er ýmislegt sem því fylgir eins og ég lýsti áðan svo sem aukið álag á starfsfólk þar sem sjúklingum á hvert stöðugildi hefur t.d. fjölgað um 22,8%. Sjúklingum hefur fjölgað um 17,3% frá árinu 1993 og meðalkostnaður á hvern sjúkling lækkað. Stöðugildum hefur fækkað um 4,4%. Heildarkostnaður hefur hins vegar hækkað um 2,9% á þessu tímabili vegna aukins umfangs spítalans. Stytting meðallegutíma hefur gert mögulegt að veita fleiri sjúklingum þjónustu. Bráðleiki sjúklinga á spítölunum, eins og það er orðað en bráðleiki er meiri veikindi í sjálfu sér, hefur aukist en það þýðir eins og segir hér að sjúklingar eru að meðaltali veikari en áður. Rekstrarformi hefur verið breytt á nokkrum deildum þannig að fimm daga deildir og dagdeildir hafa verið teknar í notkun og sjö daga deildum fækkað að sama skapi. Þá hafa deildir verið sameinaðar og kostnaðaraðhald hert á öllum stigum starfseminnar. Þetta er staðfest í greinargerð Ríkisendurskoðunar frá því í mars 1996.

Eins og segir hér hefur hlutfall bráðasjúklinga aukist ár frá ári úr 58% á árinu 1993 í 72% á þessu ári. Fleira mætti tína til. Meðal annars hefur ýmsum aðgerðum fjölgað verulega. Þetta er að hluta til vegna þess að með nýrri og fullkomnari tækni í skurðlækningum er mögulegt að veita sjúklingum þjónustu sem ekki var hægt með gömlu tækninni og eftirspurnin hefur þannig aukist í rauninni eftir aðgerðum af því að þessi tækni gerir aðgerðina miklu léttari fyrir sjúklingana. Áður gengu sumir sjúklingar með sinn sjúkdóm árum saman af því að þeir treystu sér ekki í stóra skurðaðgerð.

Þannig mætti ýmislegt tína til en ég ætla ekki að tefja tímann með því. Ég vil aðeins endurtaka það sem ég sagði að heilbrrn. og meiri hluti fjárln. hafa vissulega tekið á þessum vanda. Það ber að viðurkenna og ekki síst með tilliti til þess að hæstv. heilbrrh. gagnrýndi það að ekki skyldi minnst á það sem vel er gert. Ég tel að við höfum gert það þó að gagnrýni okkar hafi verið hörð og ég geri það enn hér með. Það hefur verið tekið á þessu að hluta til með aukaframlögum á fjáraukalögum og sérstakri fjárveitingu að upphæð 300 millj. kr. sem er ætlað á fjárlög næsta árs og skipta á þeim á milli sjúkrahúsanna samkvæmt samningum við stofnanirnar. Þó að meira þyrfti til, þá er náttúrlega allt betra en ekkert. Það er mat forsvarsmanna þriggja stærstu sjúkrahúsanna að samtals vanti rúmlega 1 milljarð kr. upp á þær tölur sem koma fram í frv. til rekstrar þessara sjúkrahúsa til þess eins að halda starfseminni í því horfi sem nú er og þá er ekki reiknað með aukningu vegna nýrrar tækni eða auknum bráðleika eins og þróunin hefur í rauninni verið. Þess vegna blasir ekkert annað við en minnkandi þjónusta ef ekki verður brugðist við af meiri festu. Þess vegna er það niðurstaða minni hluta fjárln. að óhjákvæmilegt sé að taka almennilega til hendinni til að tryggja réttláta heilbrigðisþjónustu og létta áhyggjum og erfiði af sjúkum og öldruðum og aðstandendum þeirra því að þetta hefur bitnað verulega á heimilum landsins.

Herra forseti. Félagar mínir í minni hlutanum hafa gert og munu gera betri skil ýmsu því sem fram kemur af okkar hálfu í nál. og ég tel óþarft að eyða tíma þingsins í að endurtaka það. Ég vil aðeins fara nokkrum orðum um umhverfismálin sem vega æ þyngra í nútímasamfélagi eins og landsmenn hafa rækilega verið minntir á undanfarna daga. Það er líklega mesti og mikilvægasti árangurinn af fundahaldinu í Kyoto sem allir í heiminum vita hvar er á jarðarkringlunni. Þar er nýlokið þeim marg- eða títtnefnda fundi þó mikið sé enn þá óunnið við úrvinnslu þeirra niðurstaðna sem fundurinn komst loksins að eftir miklar og greinilega ekki með öllu þrautalausar umræður. En mesti og mikilvægasti árangurinn er líklega sá að fundurinn og allt í kringum hann beindi sjónum heimsins að líklega stærsta og alvarlegasta vandamálinu sem við er að fást á heimsvísu í umhverfismálum. Á okkar kalda landi, sem er þó hlýrra en búast mætti við eftir hnattstöðu, eru hagsmunir í þessu máli slíkir að í raun hefðum við átt að fara með rökstuddar kröfur um mikinn samdrátt í útblæstri gróðurhúsalofttegunda í stað þess að heimta sérstakt leyfi til að auka þann útblástur. En um þetta efni verður fjallað síðar hér á þessum stað, væntanlega eftir helgina eftir því sem heimildir mínar herma.

Það er auðvitað margt annað sem við er að fást hér á landi. Verkefnin eru óteljandi á sviði fræðslu, á sviði landverndar og uppgræðslu og hvers konar náttúruverndar. Það er því áhyggjuefni hversu illa er búið að stofnunum á vegum umhvrn. sem af allt of veikum mætti er að glíma við sívaxandi verkefni.

Stærsta áhyggjuefnið er staða Hollustuverndar ríkisins sem glímir við mikinn vanda í mannahaldi og rekstri vegna aukinna verkefna, einkum vegna ákvæða EES-samningsins og fleiri bindandi alþjóðasamninga. Um það efni nægir að vísa til faglegrar úttektar Skipulags og stjórnunar ehf. frá ágúst 1996 um mannaflaþörf stofnunarinnar en niðurstaða þeirrar úttektar var að alger lágmarksþörf, eins og það var orðað, væri fyrir aukningu um 20 og hálft stöðugildi til að stofnunin gæti staðið undir þeirri starfsemi sem lög, reglur og samningar við erlend ríki gera ráð fyrir. Stofnunin fór fram á verulega hækkun framlags nú í ár til að geta fjölgað í starfsliði. Þeirri beiðni til stuðnings má vísa til upplýsinga um kröfur af hálfu ESA, sem er Eftirlitsstofnun EFTA, vegna vanefnda á framkvæmd EES-samningsins sem íslensk stjórnvöld verða að bregðast við. Meiri hlutinn kom aðeins að litlu leyti til móts við óskir um eflingu stofnunarinnar og það er deginum ljósara að Hollustuvernd ríkisins er um megn að standa undir þeim kröfum sem til hennar eru gerðar eins og nú er að henni búið.

Um aðrar stofnanir og verkefni á sviði umhverfismála er það að segja að þær verða að fá aukinn stuðning á næstu árum ef þessi málaflokkur á að fá það vægi sem honum ber. Skilningur stjórnvalda í þeim efnum birtist ekki í frv. til fjárlaga næsta árs. Þar verður t.d. ekki séð hvernig ráðuneytið ætlar að vinna að nauðsynlegum aðgerðum til að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Þar duga engin vettlingatök ef þjóðin ætlar sér sómasamlegan sess í samfélagi þjóðanna. Ýmsar hugmyndir og beinar tillögur hafa komið fram um aðgerðir í skýrslum frá umhvrn. en engar hugmyndir um fjármagn eða tillögur fylgja þeim. Minni hlutinn leggur ekki til breytingar á framlagi á þessum málaflokki núna en leggur mikla áherslu á að stjórnvöld geri sér grein fyrir mikilvægi þessa málaflokks og geri betur við hann en fram kemur í frv. og brtt. meiri hlutans sem minni hlutinn styður að sjálfsögðu.

Herra forseti. Ég fer að ljúka máli mínu. Sú sem hér stendur er fulltrúi kvennapólitískra samtaka sem hafa það markmið að tryggja konum frelsi til að velja sér þann lífsfarveg sem þær kjósa, frelsi til að njóta hæfileika sinna í menntun og starfi, til þátttöku í félagsstörfum svo sem þingmennsku skulum við segja og menningarlífi og ekki síst að tryggja þeim möguleika til þess að sinna fjölskyldu- og heimilislífi meðfram því sem fyrr er talið. Í baráttunni fyrir öllum þessum sjálfsögðu þáttum hefur flestu þokað fram á við. Skilningur hefur aukist. Karlar, einkum reyndar af yngri kynslóðinni axla æ meiri ábyrgð innan fjölskyldu og heimilis og konur eru óragari við að krefjast réttar á eigin forsendum. Það er árangur sem ekki skal vanmetinn. Allt varðar þetta þjóðfélagið gríðarlega miklu vegna þess að það er hagur þjóðfélagsins í heild. Þetta er hagur okkar allra, kvenna, karla og barna og ekki síst atvinnulífsins í landinu. Það er hagur þess og okkar allra að hæfileikar og sértæk reynsla kvenna nýtist til fulls. Í því sambandi skiptir velferðarkerfið, heilbrigðisþjónusta og félagsleg þjónusta svo miklu máli. Þess vegna þarf að treysta stoðir velferðarkerfisins, ekki að riðla þeim. Þess vegna leggur Kvennalistinn alla áherslu nú á eflingu þessara þátta sem samfélag okkar hvílir á.