Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 15:21:54 (2024)

1997-12-12 15:21:54# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[15:21]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það ber í rauninni ekkert mikið á milli okkar hv. 12. þm. Reykn. í þessum efnum. Ég hef oft sagt það í ræðum úr þessum ræðustól að hækkun tryggingageirans er auðvitað fyrir það að bótaþegum hefur fjölgað m.a. vegna breyttrar aldurssamsetningar og það mun halda áfram að verða svo á næstu árum. Þess vegna er auðvitað nauðsynlegt fyrir okkur að hafa öflugt atvinnulíf og öfluga undirstöðu til að geta mætt þessum útgjöldum og öðrum sem eru vegna breytinga í þjóðfélaginu og m.a. varðandi umhverfismálin.

Ég man eftir því þegar verið var að berjast um það á Alþingi hálfan vetur hvort við ættum að stofna umhvrn. en umhvrn. er komið til að vera (Gripið fram í: Er það víst?) og það er með 2 milljarða í framlög á fjárlögum. Ýmis verkefni hafa verið til úrlausnar þar, spilliefnagjald, svo maður nefni einhver dæmi, endurvinnsla, sem er staðreynd nú en var ekki fyrir nokkrum árum. Í þessu eins og á svo mörgum öðrum sviðum verður meiri útgjaldaþörf á næstu árum. Hún mun vaxa spái ég vegna þess að auðvitað vilja menn taka á þessum málum og gera átak til þess og leggja okkar skerf af mörkum í baráttu gegn mengun umhverfisins. Það er alveg ljóst og þess vegna verður að hafa aðhald á sem flestum sviðum til þess að geta mætt hinum góðu málum sem við verðum að hafa framlög til á næstu árum.