Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 17:42:58 (2057)

1997-12-12 17:42:58# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., LMR
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[17:42]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla mér að ítreka skoðanir mínar um fjárhagsvanda heilbrigðisþjónustunnar með tilliti til þess sem er að gerast í málefnum sjúkrahúsa, einkum stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík.

Enn vil ég vekja athygli á því og það ekki í fyrsta skipti hversu mér finnst umræða um jafnmikilvægan málaflokk og heilbrigðismál liggja oft hjá garði en smærri og afmarkaðri hagsmunamál verða hins vegar að háværum umræðum í þingsal. Umræður um heilbrigðismál, áherslur, framtíðarsýn og stefnu hafa lítið heyrst á hinu háa Alþingi. Það er löngu kominn tími til að taka umræður um þennan stóra og viðkvæma málaflokk til sérstakrar meðferðar og láta hann ekki takmarkast við upphrópunarviðbrögð í utandagskrárumræðum eða í heildarumræðum eins og ég sagði hér í fyrrakvöld við umræður um fjáraukalög þar sem heilbrigðismál skjóta upp kollinum sem hluti af margbrotnum umræðum og hverfa þar af leiðandi oft í þeirri hít.

Umræður á hv. Alþingi hafa ekki leitt til samþykkis á heildarstefnu í heilbrigðismálum. Það er ekki hægt að segja að vilji Alþingis sé skýr í þessum málum hvað þá heldur í málefnum stóru sjúkrahúsanna. Þeirra afdrif hafa gífurleg áhrif á uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í framtíðinni. Hins vegar, eins og ég hef áður sagt, hefur af hálfu viðkomandi stjórnvalda og embættismanna verið unnið dyggilega að því að hlúa að þeirri stefnu sem þjóðin hefur ekki fylgt eða stutt samkvæmt þeim könnunum sem gerðar hafa verið á undanförnum árum. En í þeim könnunum hefur komið fram skýlaus vilji almennings um að heilbrigðisþjónusta eigi að njóta meiri forgangs.

[17:45]

Hv. Alþingi hefur ekki látið í ljós skýran vilja sinn eins og ég hef ítrekað bent á heldur hefur verið fjallað um heilbrigðismálin með plástrameðferðinni eins og ég vil kalla hana, þ.e. í utandagskrárumræðum að miklu leyti, og það þykir ekki góð læknisfræði þegar um þann sjúkling er að ræða sem þessi málaflokkur er.

Fram til þessa ber umræðan um fjárlög og fjáraukalög nú í vikunni merki um slík vinnubrögð gagnvart heilbrigðisþjónustunni. Á sama tíma eykst miðstýring stjórnvalds og embættismanna. Samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga er gert ráð fyrir því að leggja eigi til hliðar 200 millj. kr. í einn sjóð eða pott til að mæta uppsöfnuðum rekstrarvanda sjúkrahúsa á landsbyggðinni. Þeim fjármunum er í sjálfu sér unnt að fagna þar sem sjúkrahús landsbyggðarinnar hafa orðið að vísa frá sér ýmsum verkefnum sem þau eru fær um að sinna en hafa ekki haft bolmagn til vegna fjárþurrðar. Framkvæmd úthlutunar er hins vegar umdeilanleg eins og ég vil víkja að á eftir.

Fyrst vil ég geta þess að uppsafnaður vandi stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík var, þegar samningur ríkis og borgar var gerður í september, þá þegar kominn upp í 455 millj. kr. Þá voru ekki öll kurl komin til grafar enda var áætlunin byggð á áætlunum spítalanna í ársbyrjun að því er mér er tjáð af starfsfólki spítalanna. Sú áætlun fyrir árið 1997 var byggð á samkomulagi fjmrh. og borgarstjóra í Reykjavík í ágúst 1996 en ekki út frá rekstrartölum á árinu 1996. Síðan var samningurinn í september sl. að miklu leyti byggður á forsendum ársgamals samkomulags og þess sparnaðar sem áætlaður var á þeim tíma í stað þess að styðjast við rauntölur sem hefði t.d. verið hægt að notast við, t.d. miðað við hálfsársuppgjör í júní sl. Þá er ekki að furða að mikið beri á milli. Við erum að ræða um meira en ársgamlar forsendur að ýmsu leyti þó ekki sé hægt að telja það samt sem áður fyllilega þær forsendur þar sem í raun var líka tekið talsvert tillit til þess hvernig reksturinn hefur gengið á því tímabili. Samningur ríkis og borgar í septembermánuði sl. kveður síðan á um sparnað stóru sjúkrahúsanna upp á 205 millj. árið 1998 og 255 millj. árið 1999 sem kemur þá til umfjöllunar í umræðu um fjárlög á næsta ári.

Nú fyrir 2. umr. um fjárlagafrv. var fyrir séð að fjárvöntun stóru sjúkrahúsanna í Reykjvík næmi um 900 millj. kr., þ.e. 487 milljónum vegna Ríkisspítala og 414 milljónum vegna Sjúkrahúss Reykjavíkur. Tillaga fjárln. um 300 millj. kr. sérstakan nýjan lið til fjárveitinga sem lagt yrði í sjóð eða pott til allra, og ég endurtek allra sjúkrahúsa á landinu, mun því ná skammt til að bæta rekstrarstöðu stóru sjúkrahúsanna. Þótt þær kæmu allar til þeirra sjúkrahúsa vantar enn um 600 millj. kr. og jafnvel þótt sparnaðartillögur samkvæmt samningi ríkis og borgar gangi eftir vantar enn rúmlega 400 millj. kr.

Greinilegt er að finna verður aðra og betri lausn á vanda sjúkrahúsanna ef ekki á að draga seglin verulega saman. Sjúkrahúsin úti á landi gætu hugsanlega tekið eitthvað af verkefnum en þá með sérfjárveitingu en ekki úr 300 millj. kr. pottinum sem ég nefndi hér fyrr. Sú lausn er hins vegar skammvinn því lækningar á stóru sjúkrahúsunum eru í dag mjög flóknar, mannafla- og tækjafrekar og ekki ætlaðar öðrum en háþróuðum stofnunum. Það er því fyrir séð að starfsemi stóru sjúkrahúsanna mun að miklu leyti verða óbreytt eða dragast saman frá því sem nú er. Verkefni sem færð yrðu til minni sjúkrahúsa mundu nefnilega að sjálfsögðu létta byrðina og ekki síður ef hjúkrunaraðstaða fengist fyrir þá hjúkrunarsjúklinga sem þar eru nú.

Við skulum hafa í huga að með slíkum tilfæringum verður aukið rými á stóru sjúkrahúsunum sem verður að sjálfsögðu þrýst á að fylla með öðrum og dýrari sjúklingum sem nú eru á biðlistum þeirra sjúkrahúsa. Við skulum líka hafa það í huga að reynslan hefur sýnt að eftirspurn eftir þessari þjónustu hefur aukist með fjölgun landsmanna, auknu hlutfalli eldra fólks, meiri kröfum til betri líðanar yfir æviskeiðið o.s.frv. Því er nauðsynlegt fyrir okkur að marka okkur stefnu í heilbrigðismálum og ræða opinskátt um skipulag og stefnu þeirra og forgangsröðun. Skýrsla um forgangsröðun var unnin af heilbrrn. og hefur nýlega verið kynnt en það þarf að ræða þessi mál á hinu háa Alþingi af meira innsæi og gefa því meiri tíma en mér finnst hafa verið gert á undanförnum árum með allri virðingu fyrir Alþingi og mínum ágætu félögum sem þar starfa. Nauðsynlegt er að taka þessa skýrslu um forgangsröðun inn í umræðu um stefnu- og skipulagsmál heilbrigðisþjónustunnar.

Eins og ég minntist á er 300 millj. kr. á nýjum fjárlagalið ætlað að leysa vanda allra, og ég endurtek aftur, allra sjúkrahúsa á landinu og samkvæmt fjáraukalögum skal leysa uppsafnaðan vanda sjúkrahúsa á landsbyggðinni um 200 millj. kr. Þessar upphæðir verða líklega lagðar í sinn pottinn hvor og þessir pottar eiga enn að leysa vanda allra. Þá er spurt: Hvernig verður ráðstöfun úr þessum sjóðum? Jú, fjármununum verður ráðstafað pólitískt, skulum við segja, með ákvörðun embættismanna eða stjórnvalda, alla vega sérfræðinganefndar, ekki með formlegum vilja Alþingis sem hefur ekki fjallað um þessi mál nema í þessum umræðum hér, sem sagt um heildarstefnu í heilbrigðismálum. Nú á að stofna enn eina nefnd um nánustu framtíð heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi, ekki framtíðarmótun, nei --- nánustu framtíð. Ég spyr aftur, eins og ég spurði í fyrrakvöld í umræðum um fjáraukalögin, hversu margar slíkar nefndir hafa starfað í einu eða öðru formi á undanförnum árum? Ef heilbrrh. kæmi í salinn væri afskaplega forvitnilegt að fá þar svar um eða með öðrum hætti þannig að þjóð viti.

Þessi nefnd skal heita stýrinefnd eins og við sjáum í fjárlögum og annars staðar. En ég sagði í fyrrakvöld og ég segi aftur: Mætti hún ekki gjarnan heita sínu sanna nafni sem er miðstýrinefnd. Varla, segir í áliti, því þar eiga að koma að fulltrúar með sérþekkingu á málefnum stærri og smærri sjúkrahúsa og skilgreina starfssvið einstakra heilbrigðisstofnana, semja við sérhverja um þá þjónustu sem veita skal og styrkja stjórnun þeirra og bæta eftirlit. Nú hef ég ekki fullvissu um hvernig þessi mál munu endanlega skipast en að því er mér skilst mun nefndin skipuð þrem fulltrúum úr fjmrn. og heilbrrn. --- allir embættismenn og í fullu starfi þar í dag sem að sjálfsögðu taka mið af vilja stjórnvalda í þessum efnum. Alþingi fær ekki og hefur ekki sagt sitt þar um. Heilbrrn. ætlar sem sagt að fá til nefndarmenn utan ráðuneytis jafnt sem innan til að sinna hinu mikilvæga máli, þ.e. að deila og drottna yfir fjármunum til sjúkrahússreksturs á Íslandi á árinu 1998.

Þar sem ég bý yfir svolítilli reynslu í þessum málum er mér hreint út sagt óskiljanlegt hvernig hægt er að ætlast til þess að nefnd þriggja manna, sem eru í fullu starfi annars staðar, getur sinnt þessu verkefni. Nú ætlar hv. Alþingi enn að opna dyrnar upp á gátt, eins og ég sagði áðan, og gefa embættismönnum og sérfræðingum sem fram að þessu hafa mest og flestallt um þennan málaflokk að segja, ákvörðunarvaldið, ekki bara tæknilega heldur líka pólitískt. Og ég spyr aftur: Hvers vegna? Hvað liggur að baki? Ég spyr ekki aðeins út frá hagsmunum okkar Reykvíkinga heldur allra landsmanna því það er aldrei of oft sagt að helmingur þeirra sjúklinga sem liggja á þessum stóru sjúkrahúsum yfir árið er ekki af höfuðborgarsvæðinu heldur annars staðar frá. Þannig er þetta hagsmunamál ekki bara hagsmunamál höfuðborgarsvæðisins heldur ekki síður landsbyggðarinnar allrar.

Ég vil halda því fram að stóru sjúkrahúsin séu hvað helst í þessu skotmarki sem verið er að vinna að í dag. Alþingi hefur í þeim umræðum sem fram hafa farið um starfsemi sjúkrahúsanna stuðst við upplýsingar úr skýrslum ráðgjafa og sérfræðinga sem hafa verið ráðnir af stjórnvöldum og með aðstoð embættismanna. Og maður spyr sig til hvers voru þessar skýrslur gerðar og hver átti í raun og veru að vera ákveðinn endapunktur í þessum skýrslum? Ég segi þetta að gefnu tilefni vegna reynslu minnar þar af þó ég vilji ekki veikja eða fara illa með þá skýrslu sem nýverið hefur komið út frá VSÓ vil ég spyrja þessarar spurningar. Er í raun og veru verið að sýna fram á betri rekstrarmöguleika? Er verið að sýna fram á aukin þjónustugæði eða er verið að sýna fram á afköst eða hagræðingu? Höfum við ekki sýnt fram á að afköst og gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu eru fyllilega sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum? Ég vil aftur spyrja: Það skyldi þó ekki vera að við gætum fengið aðrar tölur og hlutlausari, ef þær eru til, en þær sem okkur hafa verið sendar af stjórnvöldum og embættismönnum lands okkar eða erindrekum þeirra? Ég vil aftur með fullri virðingu fyrir þeirri vinnu sem lögð hefur verið fram af VSÓ-skrifstofunni segja að þær niðurstöður að unnt verði með viðeigandi breytingum að spara á sjötta hundrað stöðugildi á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík með þeim breytingum sem lagðar eru til, eru vægast sagt ótrúverðugar að mínu áliti, settar fram á þann hátt sem þær hafa verið sérstaklega í umræðu manna á meðal. Þessi stöðugildi hverfa nefnilega ekki, þau fara yfir til hjúkrunarheimilanna, sem sjúklingunum verður væntanlega vísað til og vonandi vísað til, og í þau erfiðu verkefni sem bætast við stóru sjúkrahúsin þegar minni sjúkrahús og hjúkrunarheimili hafa tekið við þeim sjúklingum sem þau geta sinnt.

Í ráðstöfunum stjórnvalda síðastliðinna áratuga --- ég ítreka það sem ég sagði áður að þetta er ekki vandamál líðandi stundar heldur langtímavandamál sem við höfum verið með í háa herrans tíð --- hefur verið búið í haginn fyrir stórbreytingar á heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Það eru breytingar sem hefur aðeins átt eftir að rita niður á pappír í formi frumvarpa á Alþingi eða reglugerða frá ráðuneyti. Ég vil leggja áherslu á að alþingismenn eiga brátt ekki kost á því að snúa þeim breytingum til baka og það verður því að taka á. Alþingi á kröfu til að fá betri upplýsingar, upplýsingar sem ekki eru litaðar pólitískum eða fagpólitískum vilja sérfræðinga um heilbrigðisþjónustu, sem hefur því miður á stundum endurspeglað um of valdabrölt, vil ég kalla það svo, innan heilbrigðisgeirans. Upplýsingar til Alþingis verða að sýna hlutlaust hver þróunin hefur verið og hver staðan er á hverjum tíma. Síðan eiga hv. alþm. að ræða heilbrigðismál í heild sinni og draga ályktanir sínar. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að við höfum ítrekað verið með stóru atvinnuvegina í langri dagskrá en þegar um jafnviðamikið mál er að ræða og mál sem tekur jafnstóran bita af fjárlögum sem Alþingi samþykkir ár hvert er full ástæða til þess að eyða góðum tíma í umræðu um stefnumótun og framtíðarsýn í þessum málaflokki.

Ég hef eins og mínir ágætu félagar vita, hæstv. forseti, ítrekað bent á nauðsyn þess á undanförnum árum að Alþingi hefði frumkvæði um heilbrigðismál og mótaði stefnu þar um. Umræðan hefur ekki farið lengra en í hástemmdar yfirlýsingar og þegar allt hefur verið komið í kring og torfan fer kyssa --- við skulum ekki segja neitt meir --- brotthorfna heilbrigðisþjónustu eða alla vega form á heilbrigðisþjónustu, samanber dæmið þegar Landakot og Borgarspítali voru sameinuð, þá hefur lítið verið hægt að gera við því inni á þingi vegna þess að tæknilega er búið að ganga frá öllum endum. Við höfum séð það gerast að það eina sem hefur blasað við í þinginu er að búið er að taka ákvörðun og þingið hefur hugsanlega ekki fengið það yfirlit sem nauðsynlegt er til að sjá hvað er að gerast í þessum geira.

[18:00]

Með þessum aðferðum sem við erum að samþykkja núna, ef það verður samþykkt um sjóði eða potta sem við notum miðstýrt til að skammta í tóma sjóði sjúkrahúsanna, enn frekara olnbogarými embættismanna eða sérfræðinga og stjórnvalda ef menn vilja hafa það svo.

Ég beini einkanlega athygli þingheims að því sem nú heyrist frá heilbrrn. að sameina eigi stóru sjúkrahúsin í Reykjavík. Ekkert og ég endurtek ekkert hefur komið fram tölulega sem sýnir svart á hvítu að slík sameining muni til frambúðar spara eða draga úr útgjöldum okkar til heilbrigðisþjónustu. Þvert á móti má leiða að því getum að þar verði dregið úr metnaði hvað snertir gæti þjónustunnar, jafnvel hagræðingu til langs tíma litið eða aðhaldi í sparnaði. Hvað verður um valfrelsið, það er að segja ef við ætlum að reyna að byggja upp ákveðið valfrelsi í þessari þjónustu? Hvað verður síðan um framhaldið í framtíðinni um samanburð eða sjálfsgagnrýni? Ekki förum við að bera saman rekstrarkostnað eins stórs spítala við spítala sem hefur jafnmikið umfang, t.d. í Skotlandi eða Norðurlöndunum? Það eru bara allt önnur hlutföll sem gilda í ársreikningum þeirra þannig að auðvelt sé að gera samanburð þar á.

Hins vegar bendi ég enn og aftur á það að aðgerðir síðustu ára og tillögur stjórnvalda eru þannig að þessi sjúkrahús eru nánast að komast að því marki að samþykkt Alþingis verði að þau renni saman innan mjög skamms tíma. Ég spyr hvort það er þetta sem þingheimur vill, án þess að þingheimur sé búinn að fjalla um þetta á þann hátt sem hann getur best gert því ég hef mikla trú á þingheimi.

Svo spyr ég aftur: Hvað verður sameinað næst? Verða það minni sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu? Það hefur heyrst. Verður það Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem verður komið undir hattinn þarna líka? Ekki ólíklegt. Aðgerðir síðustu ára benda til að stefna stjórnvalda og ráðgjafa sé eindregið miðstýring á heilbrigðisþjónustuna um allt land og þetta hef ég fyrir löngu heyrt, ekki bara eftir að ég settist inn á hið háa Alþingi heldur hefur þetta verið í pípunum árum saman. Vonandi fer fólk að átta sig á því að 10 ára hugmyndir um rekstur heilbrigðisstofnana eru kannski ekki beinlínis í gildi í dag.

Að lokum: Alþingi verður að hafa meiri afskipti og auka til muna umræður um heilbrigðismál, heildarstefnu, hagræðingu, aðgerðir og forgangsröðun. Alþingi verður að fá upplýsingar sem tengjast ekki þeim hugmyndum sem uppi hafa verið á síðastliðnum áratug og eru eins og ég sagði áðan margar í takt við tímann.

Á tímum mikilla þjóðfélagsbreytinga, flutninga á milli landshluta, tækni- og samgöngubreytinga er nauðsynlegt að hafa yfirgripsmikla framtíðarsýn sem setur ekki eðlilegri þróun stólinn fyrir dyrnar. Ég held því fram að sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík sé ekki tímabær. Ekki hefur verið sýnt fram á hagræðingu, aukin gæði, minni kostnað eða bætta þjónustu með því einu að sameina þessi sjúkrahús.

Að lokum aftur í tengslum við stóru sjúkrahúsin í Reykjavík. Ef þau verða sameinuð á næstunni verður það ekki aftur tekið. Framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustunni hefur þó ekki sést og því getur sameining orðið afdrífarík og kostað okkur mun meira en að rjúka til án stefnu nú á næstu árum. Miðstýring með starfsmönnum eða sérfræðingum stjórnvalda er ekki til þess fallin að leysa úr vanda heilbrigðisþjónustu í anda við vilja almennings eða vilja fulltrúa hans. Og pro forma samþykki af hálfu Alþingis um stórbreytingar á framkvæmd í heilbrigðisþjónustunni er heldur ekki hægt að una við til lengdar. Slíkt hæfir ekki virðingu Alþingis. Á næstu árum þarf að leggja stefnuna þannig að það verði tryggður viðunandi fjárhagur fyrir sjúkrahúsin í Reykjavík, ég segi viðunandi að mati þingsins og landsmanna sem við á hinu háa Alþingi erum fulltrúar fyrir. Það þarf líka að vera með þeirri hagræðingu sem best er hægt að ná og með framtíðarsýn í huga. Þar þarf Alþingi að sjálfsögðu að koma að. Alþingi verður nefnilega að fara að vinna að þessum efnum sem öðrum í takt við tímann.