Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 20:32:33 (2075)

1997-12-12 20:32:33# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[20:32]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Við getum öll verið sammála um að efnahagslegur stöðugleiki er frumforsenda þess að lífskjör í landinu geti haldið áfram að batna. Það er því afar áríðandi að fjárlögin verði afgreidd með afgangi. En við skulum gera okkur grein fyrir því að þegar við erum að tala um afgang á fjárlögum nú þá er það töluvert betri árangur en þegar við töluðum um þetta á síðasta ári vegna þess að nú er fjárlagafrv. lagt fram í formi rekstrargrunns en ekki greiðslugrunns eins og var. Það er um 3,5 milljarða munur á greiðslugrunni og rekstrargrunni í fjárlagafrv.

Fjárln. hefur í vinnu sinni tekið afstöðu til mikils fjölda mála sem hafa borist til nefndarinnar. Nefndin hefur einnig átt viðtöl við forstöðumenn stofnana og sveitarstjórnarmenn. Einnig hafa fulltrúar ráðuneyta skýrt einstaka liði í fjárbeiðnum sinna ráðuneyta.

Nefndin hefur tekið til afgreiðslu flest þeirra erinda sem borist hafa. Þó eru nokkur erindi sem verða að bíða til 3. umr. Það á einnig við um tekjuhlið frv. en eins og fram kemur í brtt. meiri hluta fjárln. þá leggur hún til samtals 1.567 millj. kr. hækkun í frv. Ýmsar vísbendingar eru hins vegar um að forsendur fyrir tekjuhlið frv. hafi breyst nokkuð frá því að það var lagt fram. Hækkanir á tekjuhliðinni munu því koma á móti en það mun fjárln. skoða á milli 2. og 3. umr.

Með afgreiðslu sinni á þessum brtt. nú fyrir 2. umr. er meiri hluti fjárln. að leggja nokkrar megináherslur og vil ég þá fyrst og fremst nefna að rannsóknanámssjóður Háskóla Íslands hefur verið hækkaður mjög verulega og sýnir áherslur fjárln. og óskir um að efla rannsóknanámið mjög verulega.

Einnig hefur fjárln. lagt til að ritakaupasjóður háskólans verði hækkaður og er það m.a. vegna eindreginna óska frá Háskóla Íslands.

Meiri hluti fjárln. hefur einnig lagt til að liðurinn Jöfnun á námskostnaði hækki um 50 millj. kr. Þarna er verið að leggja til að hækkað verði framlag til jöfnunar á námskostnaði framhaldsskólanema á landsbyggðinni. Kemur það einkum til góða þeim er sækja nám fjarri heimabyggð. Þetta eru auðvitað áherslur sem fjárln. leggur vegna þess hversu óskaplega dýrt það er fyrir landsbyggðarfólk og heimili á landsbyggðinni að senda börn sín til mennta. Það eru því eðlilegar áherslur þar sem framhaldsskólanámið er byggt upp á ákveðnum stöðum á landinu, að nemendum sem búa fjarri þeim stöðum verði gert það léttbærara að sækja sér menntun.

Í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu um byggðamál hefur það skýrlega komið í ljós að einn af þeim þáttum sem valda því að fólk flytur sig til með búsetu í landinu er hversu dýrt og erfitt það er fyrir heimilin á landsbyggðinni að senda börn sín burt til náms. Það eru því mjög eðlilegar áherslur að komið verði til móts við þennan mikla kostnað með því að leggja aukið fé til jöfnunar námskostnaði.

Annar er sá þáttur sem hefur reynst íbúum á landsbyggðinni vera ákaflega dýr en það er húshitunarkostnaðurinn. Meiri hluti fjárln. lagði því til að liðurinn Jöfnun húshitunarkostnaðar í fjáraukalögum verði hækkaður um 50 millj. kr. Það er reyndar skoðun mín að enn verði að gera betur til að réttlæti verði náð.

Auðlindir landsins skiptast að þessu leyti nokkuð misjafnlega því að svo vill til að Landsvirkjun hefur einokun á virkjunarkostum landsins og selur öðrum dreififyrirtækjum orkuna samkvæmt því fyrirkomulagi. Eins og fram kemur í áliti iðnn. en iðnn. segir í áliti sínu um fjárlagafrv., með leyfi forseta:

,,Í máli fulltrúa Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik) kom fram að Rarik kaupir raforku af Landsvirkjun og greiðir fyrir hana um 50% hærra verð en langtímajaðarkostnaður Landsvirkjunar er metinn á. Á næstu árum eru horfur á að Hitaveita Suðurnesja og Reykjavíkurborg framleiði raforku í nýjum virkjunum. Þetta leiðir til þess miðað við óbreytta stöðu að fyrirtækið verður enn frekar háð verðlagningu Landsvirkjunar. Um næstu áramót mun Landsvirkjun hækka gjaldskrá sína um 1,7%. Slíkt hið sama mun Rarik þurfa að gera en á sama tíma stefnir Rafmagnsveita Reykjavíkur að lækkun gjaldskrár um 2%. Því er ljóst að Rarik verður að lækka kostnað við orkuöflun verulega ef unnt á að vera að halda orkuverði niðri á landsbyggðinni. Þá hefur, í úttekt sem gerð var á vegum Hagvangs og Viðskiptafræðistofnunar Háskólans, sjónum verið beint að félagslegum þætti í rekstri og framkvæmdum Rariks sem skýrist m.a. af þjónustuskyldu fyrirtækisins við strjálbýl svæði. Verkefni tengd þessu eru þess eðlis að þau geta ekki borið uppi eðlilega ávöxtunarkröfu af því fjármagni sem í þeim þarf að binda. Í dag eru framlög til þessa þáttar endurgreiðsla 65% af arðgreiðslum þeim sem fyrirtækið greiðir í ríkissjóð og er það vegna endurnýjunar dreifikerfa í sveitum. Fulltrúar Rariks telja þetta ekki nægilegt og benda á mikilvægi þess að viðurkenning verði fengin á tilvist þessara verkefna þannig að markaður verði varanlegur tekjustofn fyrir þau, einnig að sett verði upp reikniregla til að meta stærð félagslegs þáttar í einstökum verkefnum. Nefndin vekur athygli á þessum atriðum er tengjast starfsemi Rariks og minnir á mikilvægi jöfnunar orkukostnaðar í landinu.``

Undir álit iðnn. skrifa allir hv. alþingismenn sem eiga sæti í iðnn.

Hæstv. forseti. Með tillögum fjárln. verður komist hjá umræddri hækkun en nauðsynlegt er að huga að öðrum tillögum sem fram koma í álitinu.

Við fjárlagagerðina nú hefur verið beitt nýjum aðferðum í menntmrn. til þess að ákveða fjárframlög til framhaldsskóla. Þetta nýja reiknilíkan er nú í þróun. Það skiptir mjög miklu máli að vel takist til við gerð þess. Í framtíðinni verði þannig hægt að byggja á slíku reiknilíkani og framhaldsskólarnir geti þá gert ráð fyrir því í rekstri sínum hvaða fjárframlög þeir hafa til að reka skólana. Einnig verður að gera ráð fyrir mismunandi rekstrarkostnaði í húsakosti framhaldsskólanna. Bæði er þar mismunandi viðhaldsþörf og ekki síður sá fasti kostnaður sem þarf til reksturs skólans, svo sem ferðakostnaður og einnig orkukostnaður og fleira sem tengist því, t.d. hvers konar húsakosti framhaldsskólarnir hafa yfir að ráða.

Það er alveg ótvírætt að framhaldsskólarnir í landshlutunum hafa mikil áhrif á að það takist að snúa við þeirri byggðaþróun sem hefur verið svo erfið sem raun ber vitni að undanförnu. Það skiptir gífurlega miklu máli að vel takist til í þróun þeirra og uppbyggingu.

Á Austurlandi hefur verið starfandi nefnd á vegum Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi (SSA) sem hefur hugað að uppbyggingu háskólanáms á Austurlandi. Nefndin hefur komist að því að rétt sé að gera tilraun til að koma á stofn miðstöð háskólanáms og endurmenntunar í landshlutanum. Nefndin fór fram á fjárveitingar að upphæð samtals 16 millj. kr., annars vegar til þess að kaupa búnað til kennslu með gagnvirku sjónvarpi og hins vegar til að ráða starfsmann til undirbúnings miðstöðvarinnar.

Meiri hluti fjárln. ákvað að koma til móts við þetta framsækna verkefni með því að leggja til 8 millj. kr. Það er ljóst að víða er áhugi á að vel takist til með þetta verkefni og þróun þess verði með þeim hætti að hægt verði að nýta þá reynslu sem menn afla sér til að byggja upp sams konar nám í öðrum landsfjórðungum og er þá sérstaklega horft til Vestfjarða þar sem ekkert háskólanám er í boði frekar en á Austurlandi. Það er alveg nauðsynlegt að þetta verkefni verði unnið í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og báðir þessir skólar hafa í rauninni sýnt verkefninu mikinn áhuga.

Það er nauðsynlegt að unnið verði tiltölulega hratt, stigin verði ákveðin og örugg skref til að byggja upp þetta nám. Háskólanám og endurmenntun verði byggð upp með fyllstu fagleg markmið í huga. Ef vel tekst til að byggja upp nám á háskólastigi og styrkja framhaldsnám og símenntun má öruggt telja að þeim Austfirðingum fjölgi sem leggi stund á framhaldsnám og háskólanám, bæði heima og erlendis. Þá er ljóst að slík miðstöð mun tengjast erlendum háskólum og gerir því fólki á Austurlandi kleift að ná sér í menntun víða að úr heiminum.

Þetta skiptir miklu fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni, eykur þjónustu, styrkir stöðu framhaldsskólans og síðast en ekki síst gerir það ákjósanlegra að setjast að og búa á landsbyggðinni. Það er einlæg von mín að vel takist til með þetta verkefni og reynsluna af því megi nýta sem víðast.

Eins og fram hefur komið í umræðum í dag hefur vandi sjúkrahúsanna í landinu hvort sem er hinna stærri eða hinna smærri verið mjög til umræðu hjá nefndinni. Fjárln. hefur kynnt sér þau mál og niðurstaðan er eins og menn þekkja að í fjáraukalögum var lagt til að farið yrði --- fyrir utan það reyndar sem kom fram í frv. um vanda stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík --- fram á 200 millj. kr. til þess að fást við vanda landsbyggðarsjúkrahúsanna og sérstaklega til að gera upp þann halla sem þar hefur safnast fyrir á undanförnum árum. Fjárln. leggur síðan til 300 millj. kr. fjárveitingu til að fást við rekstrarvanda allra sjúkrahúsanna í landinu. Tillögur eru um að stýrinefnd komi að verkefninu sem fái þá víðtækt umboð til þess að fjalla um málefni sjúkrahúsanna og geti unnið upp þjónustusamninga þar sem verði m.a. skilgreint starfssvið einstakra heilbrigðisstofnana og samið við sérhverja þeirra um þá þjónustu sem veita skal og fjárframlög til stofnananna. Slíkir þjónustusamningar ættu að styrkja mjög stjórnun stofnananna og auðveldara ætti að vera að hafa eftirlit og aðhald með rekstri þeirra.

Það er hins vegar ljóst að þetta verkefni er mjög stórt og engan veginn hægt að ætlast til að því verði lokið á mjög skömmum tíma því eins og við þekkjum er vandinn til mjög margra ára. Það er hins vegar nauðsynlegt að stýrinefndin hafi það að leiðarljósi að byrja að fjalla um þær stofnanir þar sem vandinn er hvað mestur þannig að komist verði hjá uppsögnum eða lokun einstakra deilda.

Við búum við góða heilbrigðisþjónustu. Það kemur m.a. fram í skýrslu VSÓ þar sem, með leyfi forseta, segir um faglega hæfni:

,,Gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu eru mikil og skarar Ísland fram úr öðrum þjóðum í meðferð sumra sjúkdóma. Fagfólk í heilbrigðisstétt sækir sérfræðimenntun sína til margra landa sem endurspeglast í einstakri færni við að tileinka sér fljótt nýjungar í tækni og meðferð sjúklinga.``

En þar segir jafnframt um fjárhagsleg atriði, með leyfi forseta:

,,Margir veikleikar eru við fjármögnun í heilbrigðiskerfinu. Launakerfi sérfræðinga er mjög flókið og ekki auðskilið. Sjúklingar eru ekki hvattir til að nýta sér hagkvæmustu leiðina til lækninga sinna sjúkdóma. Stjórnendur stofnana eru ekki hvattir til að tryggja í fyrsta lagi að sjúklingar séu skoðaðir og meðhöndlaðir á sem skilvirkastan hátt og í öðru lagi að nýting á fjármagni og þekking í heilbrigðiskerfinu sé sem best.``

Þetta segir eitthvað um þann mikla stjórnunarvanda sem er í heilbrigðiskerfinu í heild. Við þessu þarf að bregðast og það er ætlun fjárln. að það verði gert með þeim hætti sem fyrr greinir.

Hæstv. forseti. Ég ætla að minnast aðeins á tvö atriði til viðbótar. Það er í fyrsta lagi lögreglumál en til fjárln. bárust mörg erindi þar sem óskað var eftir því að veitt yrði meira fjármagn til löggæsluverkefna. Það er hins vegar mat ríkislögreglustjóra að mesta þörfin væri fyrir fjölgun starfa við embætti sýslumannsins á Seyðisfirði og ákveðið var að leggja til fjármagn til einnar stöðu lögreglumanns sem staðsettur yrði á Fljótsdalshéraði.

Staðan á Fljótsdalshéraði er sú að einungis eru þar starfandi tveir lögreglumenn í hinu víðfeðma héraði með yfir 3.000 manna byggð. Á Fljótsdalshéraði er mikil umferð m.a. ferðamanna. Þegar þessi staða lögreglumanns er komin þá eru 1.000 manns í stað 1.500 á bak við hvern lögreglumann en meðaltal er 300--500 manns á bak við hvern lögreglumann í landinu.

Ég vil einnig minna á að ástandið á Vopnafirði. Þar er einn lögreglumaður með 1.000 manna svæði þannig að ljóst er að vandinn er enn þá mjög mikill.

Að síðustu eilítið um vegamálin. Það er ljóst að leggja þarf til í þessu fjárlagafrv. að af mörkuðum tekjustofnum til vegamála skuli settur rúmur milljarður í ríkissjóð. Með tilliti til stöðu ríkisfjármálanna reyndist það nauðsynlegt eins og nú stendur. Við skulum minnast þess að verkefnin í vegagerð í landinu eru gífurleg. Við hljótum því að stefna að því að allar markaðar tekjur í Vegasjóð fari til uppbyggingar vegakerfisins. Verkefnin eru stór og æpandi og ég get nefnt það að á Austurlandi er talið að til brýnustu verkefna þurfi 8--9 milljarða á næstu árum. Brýnustu verkefnin á landinu öllu eru talin vera 35--40 milljarðar og það er því ljóst að á Austurlandi er mjög stór hluti þeirra verkefna sem talin eru brýnust á landinu. Ég ætla þó ekki að gera lítið úr þörfum á framkvæmdum í öðrum kjördæmum. Við vitum að um allt land brenna á mjög stór verkefni og nauðsynlegt er að leggja í þau verulegt fé á næstu árum.

Hæstv. forseti. Verkefni fjárln. eru ærin fyrir 3. umr. Það er ástæða til að þakka minni hluta fjárln. gott samstarf og ábyrg vinnubrögð og ég veit að svo verður áfram.