Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 22:30:11 (2094)

1997-12-12 22:30:11# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[22:30]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. 2. umr. fjárlaga gefur alltaf tilefni til þess að ræða ýmsa þætti sem snerta fjárlagagerðina og einstakar tillögur. Ég ætla að reyna að takmarka mig fyrst og fremst við það svið sem ég hef komið nálægt varðandi fjárlagagerðina að þessu sinni, þ.e. það sem snýr að umhverfisnefnd þingsins og umhverfismálum og það sem varðar tillögur í fjárlagafrv. þar að lútandi. En áður en ég kem að því vildi ég nefna fáein atriði sem ég sé ástæðu til að víkja að auk þessa.

Fyrst af öllu eru það ný vinnubrögð að því er varðar fjárlagagerðina og samskipti við aðrar fastanefndir þingsins sem upp voru tekin á þessu þingi að tilmælum forsrn. þingsins, þ.e. skiptingu svonefndra safnliða sem hv. formaður fjárln. vék að í framsöguræðu sinni í morgun. Þar er vissulega um nýmæli að ræða og ég tel af þeirri reynslu sem fékkst nú þurfi kannski að gæta svolítið að öðrum vinnubrögðum á næstunni eða framvegis varðandi þessi efni.

Það er sannarlega hið besta mál að aðrar fastanefndir en fjárln. komi að fjárlagagerðinni með öflugri hætti en verið hefur. Það var ágætt nýmæli sem upp var tekið á sínum tíma að tryggja meiri breidd í vinnu að fjárlagagerðinni og tengja þingnefndir aðrar en fjárln. við fjárlagagerðina. Þetta var í framhaldi af breytingu á þingsköpum 1991 og ef til vill var hugmyndin þá --- ég segi ef til vill vegna þess að ég hef ekki sérstaklega athugað það nú en mig minnir að hugmyndir hafi verið um það að þetta yrði meira og öflugra en gerst hefur síðan. Ég er ekki að kenna neinum sérstökum um, síst af öllu fjárln., að því hafi ekki verið framfylgt. Ég held að nokkuð skorti á að fjárlagafrv. sé af hálfu hæstv. fjmrh. lagt fyrir þingið í þeim búningi að auðvelt sé að tryggja afskipti fagnefnda eða annarra fastanefnda þingsins að fjárlagagerðinni með þeim hætti sem æskilegt væri.

Ég sakna þess mjög í sambandi við fjárlagafrv. og er hér vissulega, virðulegi forseti, um að ræða mál sem hefði verið ástæða til að ræða við 1. umr. fjárlaganna en ég leyfi mér að fara nokkrum orðum um þetta hér við 2. umr. Það vantar mikið á að stefnumörkun eða vísir að stefnumörkun fylgi af hálfu hæstv. fjmrh. með fjárlagafrv. tengt grg. þess. Það má finna ágæt dæmi þess á þingum nágrannalandanna í sambandi við fjárlagafrumvörp að þar eru mál lögð fyrir með allt öðrum og skilmerkilegri hætti en hér gerist þar sem veitt er yfirlit yfir stefnumörkun viðkomandi ríkisstjórnar til viðkomandi mála og áherslur hennar skýrðar um leið í sambandi við það fjárlagafrumvarp sem fram er lagt. Það er ekki gert hér og hefur ekki verið nema með mjög almennum hætti í grg. með fjárlagafrv. og ég lýsi eftir því að reynt verði að bæta þar úr. Ég hef vikið að þessu efni í sérstöku áliti sem ég lét fylgja af minni hálfu, virðulegi forseti, til fjárln. sem ég vík að á eftir og snertir m.a. safnliðina og skiptingu þeirra en líka þessa almennu áherslu.

Ég kynntist því fyrir allnokkrum árum í Noregi hvernig þar er t.d. haldið á stefnumörkun varðandi umhverfismál í tengslum við fjárlagagerð. Þar fylgir fjárlögunum eða fylgdi, ég hef ekki kannað það sérstaklega varðandi þetta fjárlagaár þar í landi eða síðasta en þetta er ekki fyrir löngu síðan, þá fylgdi fjárlagafrumvarpinu mjög greinargott yfirlit um stefnu viðkomandi ríkisstjórnar í umhverfismálum og sérstakt fylgirit, fyrir utan hina almennu greinargerð með fjárlagafrumvarpinu, sem kallað var græn bók þar sem voru skráð og færðar upp fjárveitingar til einstakra verkefna, ekki aðeins á vegum umhverfisráðuneytis Noregs heldur varðandi framlög á vegum annarra ráðuneyta sem auðvitað eiga og eru í einhverjum mæli að sinna því sem flokkast undir umhverfismál. Þannig fær þingið og þeir sem um málin fjalla mjög skýra mynd af viðkomandi sviði og hvert verið er að fara á viðkomandi sviði.

Við getum tekið annað svið, virðulegur forseti, sem hér hefur verið mikið rætt á þessum fundi í sambandi við fyrirliggjandi fjárlagafrv. þ.e. heilbrigðismálin. Mér finnst að afar mikið skorti á að sá málaflokkur hafi verið lagður fyrir þingið í tengslum við fjárlagafrv. sem vert væri. Hið sama gildir auðvitað um menntamál og önnur málasvið. Það gæfi þinginu og fjárln. þingsins og viðkomandi öðrum fastanefndum, sem við köllum stundum fagnefndir, miklu betri möguleika til að fjalla um mál og leggja mál fyrir þingið. Þetta varðar ekki síður almenning utan þings þannig að menn fái sæmilegan skilning á viðkomandi máli, málasviði og stöðu þess.

Mér þætti vænt um, virðulegur forseti, að einhver viðbrögð af hálfu talsmanna fjárln. yrðu við þeim hugleiðingum sem ég hef reifað í máli mínu. Mér finnst skipta miklu máli að í tengslum við afgreiðslu fjárlagafrv. þessa árs komi fram hugmyndir og vísbendingar um það sem gæti horft til betri vegar varðandi fjárlagagerð. Ég nefndi það í mínum þingflokki þar sem við fengum embættismenn, virðulegur forseti, frá fjmrn. til að skýra breytta uppsetningu fjárlagafrv. Þar var þetta mál svolítið rætt við þá hina sömu. Þar var m.a. fært til málsbóta fyrir það að grg. fjárlagafrv. er að sumu leyti enn þá rýrara en verið hefur á undanförnum árum, að farið hafi svo mikil vinna í hið breytta form fjárlaganna, hinn breytta grundvöll sem hér hefur verið lagður og ekkert er nema gott um það að segja. Vissulega hljóta menn að taka eitthvert tillit til þess að kannski er ekki efni til að taka stórt á þegar verið er að breyta svo þýðingarmiklum þáttum. En þetta varðar framtíðina og skiptir að mínu mati mjög miklu varðandi uppsetningu fjárlagafrv.

Ég ætla þá að víkja aðeins frekar að hinum svonefndu safnliðum og leyfi mér að vitna til þess sem hv. formaður fjárln. sagði í morgun samkvæmt handriti sem mér var afhent af hans ræðu en ég kom aðeins of seint til þingfundar af sérstökum ástæðum í morgun, virðulegur forseti. Ég leyfi mér að vitna í þetta:

,,Sú nýjung var nú tekin upp að svokölluðum safnliðum með úthlutun fjármagns til ýmiss konar félagasamtaka og ákveðinna verkefna var falið fagnefndum auk hefðbundinna umsagna fagnefnda um þætti sem tilheyrðu málefnasviði þeirra í frv. Þessi nýbreytni gafst í heildina vel og ég þakka nefndarmönnum í fagnefndum fyrir þá vinnu sem í þessa skiptingu var lögð, ...

Hér er ekki um miklar fjárhæðir að ræða miðað við heildina en margir umsækjendur eru um hituna. Heyrst hefur sú skoðun að Alþingi ætti að framselja þessa úthlutun til ráðherra viðkomandi málaflokka. Ég tel hins vegar`` --- það er hv. formaður fjárln. sem verið er að vitna til --- ,,ekkert að því að þingmenn hafi þessi tengsl við hin ýmsu samtök á sviði menntunar, menningar, líknar- og heilbrigðismála, sem sækja m.a. um fé undir þessum málaflokki.``

Ég hef undir höndum það bréf sem sent var til formanns fjárln. 21. október 1997. Þar kemur skýrt fram hver áformin voru í þessum efnum. Mér sýnist að í heldur mikið sé lagt og á kannski heldur óskýrum forsendum að þessu sinni og málið sé óþarflega seint upp tekið gagnvart fjárlagavinnunni og íhuga þurfi hvernig með skuli farið og hvernig á skuli tekið við næstu fjárlagagerð. Vert er að hafa í huga að ekki er um háar fjárhæðir að ræða oft og tíðum. Varðandi umhvn. þingsins sem ég starfa í, þá held ég að safnliðurinn sem svo er merktur í frv. nemi 10 millj. kr. og hafi verið skertur verulega frá síðasta ári eða úr 18 millj. Þetta er sagt eftir minni, virðulegur forseti. Það lá í rauninni ekkert fyrir af umsóknum nema ein, í hæsta lagi tvær, í þennan safnlið og það varð niðurstaða meiri hluta í fjárln. sem skilaði áliti að ekki væri rétt að skipta safnliðum, það væri ekki rétt að taka á þeirri einu eða tveimur umsóknum sem fyrir lágu varðandi fé úr þessum safnlið eða til þingsins. Það var ekki ósk um úthlutun úr safnlið sérstaklega heldur bara almennt erindi sem sent hafði verið fjárln. um tiltekna fjárveitingu. Auðvitað var nefndinni nokkur vandi á höndum og spurning vaknaði að sjálfsögðu: Á að fara að gera tillögur um það sem á vantar þannig að nefndin taki upp úr sínum hatti tillögur frá eigin brjósti til að deila út þessum safnlið. Þetta varð ekki niðurstaðan. Ég taldi rétt og lét það koma fram í sérstöku áliti mínu til fjárln. að verða við þeirri ósk sem fyrir lá í þessu efni þó að ég tæki einnig undir efasemdir um málsmeðferðina almennt séð og er að skýra mín sjónarmið að þessu leyti hvað þetta varðar. Ég held að það sem hv. formaður fjárln. sagði, virðulegur forseti, í sinni framsögu að þó að það sé ágæt hugsun sem þar kemur fram, þá er mjög erfitt að verða við henni hér og nú á þessum tíma vegna þess að almenningur utan þings veit ekkert um þessi breyttu vinnubrögð, veit ekkert um að þarna sé matarholu hugsanlega að finna. Ég er alveg sannfærður um að ef og eftir að vitneskja berst um það, þá mun ekki skorta umsóknir um fjárveitingar því að þörfin er auðvitað mjög víða.

Það er annað atriði sem snertir almenning í sambandi við þetta stóra mál sem við ræðum hér, fjárlagagerð. Það er spurningin um miðlun upplýsinga af hálfu Stjórnarráðsins, af hálfu fjmrn., um möguleika almennings og almannasamtaka til að leita eftir framlögum af ríkisins hálfu, að reglurnar þar að lútandi séu skýrar, leikreglurnar sem ljósastar og hvert eigi að beina erindum. Mér er kunnugt um að um þetta efni ríkir mikil óvissa, lítil þekking úti í samfélaginu og það er mjög tilviljunum háð hverjir kunna að bera sig eftir björginni og geri það á þá leið sem líkleg er til árangurs. Þarna finnst mér að þurfi að gæta samræmis, þarna þurfi að miðla upplýsingum til almennings með auglýsingum. Mér er vissulega kunnugt um að þetta er gert í vissum tilvikum að auglýst er í blöðum eftir slíku eða eitthvað sem tengist þessu. Ég hef ekki sett mig sérstaklega inn í það en mér er þó kunnugt um að það hafi verið gert m.a. varðandi viðtöl við fjárln. þannig að það á að liggja fyrir.

Virðulegur forseti. Til að gera langa sögu stutta að þessu leyti, þá ætla ég að leyfa mér að vitna til þeirrar álitsgerðar sem ég lét fylgja séráliti mínu um frv. til fjárlaga fyrir árið 1988 sem minni hluti umhvn. Það er prentað sem fskj. með áliti meiri hluta fjárln. og ég held að tryggara sé að vitna beint í það. Þar segir, með leyfi forseta:

[22:45]

,,Undirritaður, sem skipar minni hluta umhverfisnefndar, vekur athygli á afar alvarlegri stöðu`` --- og þá kem ég líka að umhverfismálunum og hef það sem formála fyrir ýmsu því sem á eftir kemur og ég ætlaði að gera að meginmáli hér --- ,,sem er að skapast í umhverfismálum hérlendis, m.a. vegna allsendis ónógra fjárveitinga árum saman til stofnana og verkefna á vegum umhverfisráðuneytis. Sá vandi sem af þessu hlýst hleður utan á sig og niðurstaðan birtist í versnandi ástandi umhverfismála hér á landi á mörgum sviðum. Í fjárlagafrumvarpi er engin tilraun gerð til að varpa ljósi á stöðu eða fjárþörf umhverfismála hérlendis. Þarf ekki að leita lengra en til Noregs til góðra fyrirmynda um undirbúning fjárlagagerðar á þessu sviði þar sem að jafnaði fylgir sérstök ,,græn bók`` með fjárlagafrumvarpi. Eru þar og í greinargerð með norska fjárlagafrumvarpinu dregnar fram fjárveitingar og tillögur vegna næsta árs til umhverfismála óháð því hvaða ráðuneyti fer með og fjármagnar einstaka þætti. Er þetta borið saman við stefnu og áherslur stjórnvalda og fæst þannig sæmileg heildarmynd sem sýnir hvert stefnir um málaflokkinn af hálfu stjórnvalda og fjárveitingavalds.

Enga slíka viðleitni er að finna í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1998. Er þar raunar um augljósa afturför að ræða frá frumvörpum síðustu ára og var þó ekki úr háum söðli að detta. Greinargerð með frumvarpinu að því er varðar umhverfisráðuneytið er í brotum og einskis samræmis gætt. Hlaupið er yfir stórar stofnanir án þess að nokkuð sé um þær fjallað, Hollustuverndar ríkisins t.d. í engu getið í greinargerð! Ekki er hirt um að gefa heildstæðan samanburð á framlögum milli ára.

Af hálfu umhverfisnefndar var leitast við að afla upplýsinga frá umhverfisráðuneyti og stofnunum þess til að fylla í eyðurnar. Það tókst þó ekki nema að nokkru leyti á þeim skamma tíma sem nefndin hafði til að fjalla um frumvarpið. Yfirsýn umhverfisráðuneytis yfir málefni stofnana þess, fjárveitingar sem annað, virðist enn lakari en áður og er m.a. borið við breyttri tilhögun við fjárlagagerð og auknu sjálfræði stofnana um ráðstöfun fjármagns. Á sama tíma og stjórnvöld víða erlendis gera sér ljósari en áður þá staðreynd að sporna verður við sívaxandi mengun og annarri umhverfisvá er flest látið reka á reiðanum hérlendis. Við þessar aðstæður ætti umhverfisnefnd Alþingis að setja fram skýrar kröfur um úrbætur og aukið fjármagn þar sem þörfin er brýnust. Meiri hluti nefndarinnar kaus ekki að standa þannig að máli heldur setur fram álit sem lítið gagn er að fyrir málaflokkinn og fjárlaganefnd.

Undirritaður kemst ekki hjá því að vekja athygli á hversu óheppilegt það er`` --- hér kemur nýr þáttur, virðulegur forseti, sem gott væri einnig að fá viðbrögð við --- ,,fyrir vinnulag fagnefnda, sem að tillögum forsætisnefndar er nú ætlað aukið hlutverk með skiptingu svo nefndra safnliða, að í nefndunum skuli sitja fulltrúar sem jafnframt eiga sæti í fjárlaganefnd þingsins. Ljóst er að þingsköp hamla ekki slíkri tilhögun, en ástæða væri til að breyta þeim og tryggja að þeir sem í fjárlaganefnd sitja hverju sinni skuli ekki kosnir í aðrar fastanefndir þingsins. Væri slíkt eflaust einnig til bóta fyrir vinnu og verklag fjárlaganefndar.``

Virðulegur forseti. Ég tek skýrt fram að hér er á engan hátt verið að víkja að einstaklingum eða þeim sem lúta þeirri reglu sem nú er uppi, að sjálfsögðu ekki, heldur er eingöngu um ábendingu almenns eðlis að ræða. Ég læt tilvitnun í álitið lokið en því fylgja nokkrar beinar tillögur og ábendingar er snerta einstaka liði fjárlagafrv. að því er varðar umhvrn. Um það efni má segja að á sumu af því var tekið af hálfu hv. fjárln. og orðið við óskum sem auðvitað komu víða að og lágu fyrir hv. fjárln. þó að ég væri að minna á það sérstaklega í mínu áliti. Ég nefndi fyrst af öllu Hollustuvernd ríkisins og geri á sérstöku þskj. brtt. við fjárveitingu til þeirrar stofnunar. Ég kem kannski nánar að því á eftir efnislega. Það var lítils háttar hækkun á framlagi vegna tiltekins verkefnis, mig minnir varðandi loftgæðin, loftgæðatilskipun Evrópusambandsins, tengt því sem hv. fjárln. leggur til nú við 2. umr. en það er svo afar langt frá því að svara þeim þörfum sem uppi eru í sambandi við þessa stofnun.

Um ýmsa aðra liði er um tillögur að ræða frá meiri hluta fjárln. eins og til Náttúruverndar ríkisins, Náttúruverndarráðs, Landmælinga Íslands, sem ég nefndi í mínu séráliti og allt er það góðra gjalda vert sem til rétts vegar horfir í þeim efnum og vil ég ekki draga úr því. Það sama gildir um rannsóknarstöðina á Kvískerjum svo að dæmi séu tekin þar sem um er að ræða tillögu ekki ósvipaða því og nefnd var í þessu áliti.

Virðulegur forseti. Ég veit að það efni sem ég vék að varðandi setu fjárlaganefndarmanna í öðrum nefndum þingsins, þá er að sjálfsögðu um álitamál að ræða en ég tel að þetta sé samt þýðingarmikið mál, að afstaða verði tekin til þess og leita þar breytinga.

Það háttar svo til, virðulegur forseti, að í umhvn. þingsins nú um stundir, svo dæmi sé tekið, sitja ekki færri en fjórir fulltrúar sem jafnframt eiga sæti í fjárln. þingsins og hefur orðið að haga störfum nefndarinnar með nokkru tilliti til þess í samkomulagi við forustu í fjárln. Það fer auðvitað ekkert hjá því, virðulegur forseti, að umfjöllun fagnefndar þar sem hátt í helmingur fulltrúa á sæti í fjárln. sjálfri, hlýtur að hafa áhrif á umfjöllunina þar sem viðkomandi aðilar telja sig hafa möguleika á því að beita sér í fjárln. með sínar áherslur, koma fram með þær þar varðandi það atriði sem ég hef nefnt sérstaklega, skiptingu safnliða, og fram koma tillögur um að skipta ekki því litla sem sótt er um, þá er alveg ljóst að svigrúm er síðan til þess að fjalla um það mál í fjárln. Þetta getur átt við um ýmsa fleiri þætti þó að ekki sé um sama atriði að ræða. Ég tel því að þetta sé mál sem brýnt er í raun að fá rætt og af því að virðulegur aðalforseti þingsins stýrir hér fundi, sem ég fagna, óska ég eftir að þetta efni, reynslan varðandi safnliðina, verði tekin til frekari umræðu í samráði við fjárln. sem og spurningin um það hvort eðlilegt og rétt sé að þeir sem sæti eiga í fjárln. þingsins eigi jafnframt sæti í öðrum fastanefndum. Ætla ég þá ekki að orðlengja það atriði frekar.

Ég ætla þá, virðulegur forseti, að víkja að brtt. sem ég stend að og heimild er til að ræða, og ég vona að ég hafi hér undir höndum, þ.e. brtt. við frv. til fjárlaga á þskj. 506. Ég ætla að gera grein fyrir þeim tillögum sem þar er að finna og ástæðunni fyrir tillöguflutningnum í aðalatriðum. Ég fylgi því sem fram kemur á þskj. Þetta eru fimm tölusett atriði með undirliðum og kem þá fyrst að tillögu sem varðar sjútvrn., nánar tiltekið Hafrannsóknastofnun, þar sem gerð er tillaga af minni hálfu að veitt verði fé að upphæð 25,3 millj. kr. til rannsókna á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins. Þessi tillaga sem þykir kannski nokkuð stór í sniðum er flutt hér með vísan til fyrirliggjandi till. til þál. um sama efni og sem ég er flutningsmaður að, þar sem skorað er á ríkisstjórnina að gera Hafrannsóknastofnun kleift að gera átak í rannsóknum á áhrifum veiða og veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins á Íslandsmiðum. Til verkefnisins verði veitt afmörkuð fjárveiting næstu þrjú ár með hliðsjón af áætlun frá stofnuninni. Með þessari till. til þál., sem ekki er enn komin til nefndar, er að finna greinargerð sem Hafrannsóknastofnun tók saman að beiðni flutningsmanns. Það er bæði efnisleg greinargerð en einnig áætlun um fjárveitingu til slíks átaksverkefnis, skipt á þrjú ár. Sú tillaga sem ég hef tekið hér upp til að minna á þetta mál tekur beinlínis mið af þessari skiptingu og áætlun Hafrannsóknastofnunar til þessa verkefnis. Ég skil það auðvitað mætavel, virðulegur forseti, að fjárln. hefur ekki haft ástæðu til að fjalla um þetta sérstaklega. Ég mun ekki láta reyna á þetta efni í atkvæðagreiðslu við 2. umr. fjárlaga þannig að nefndinni gefst tækifæri til að skoða málið til 3. umr. ef vilji er til þess. En hér er um að ræða verkefni sem hvað heildina snertir er röskar 60 millj. kr. á þremur árum til þessa mjög svo mikilvæga verkefnis, sem er umgengni við hafsbotninn og áhrifin á lífsskilyrði og uppeldisskilyrði þeirra tegunda sem þar dafna og þar eiga heima og verða fyrir gífurlegu raski vegna veiða á okkar miðum, botnvörpuveiðanna sérstaklega. Ekki meira um þessa tillögu sérstaklega.

Kem ég þá að öðrum lið sem er um ýmis verkefni hjá samgrn. Þar er gerð tillaga um að veittar verði 20 millj. kr. vegna rafknúinna farartækja. Hér er ekki hugmyndin að skjóta saman, virðulegur forseti, í bifreið fyrir ráðherra eða starfsmenn ráðuneytis eins og kannski mætti álykta af texta tillögunnar þó að það gæti auðvitað verið álitaefni og gæti haft sitt gildi að þar væri sýnt fram á notagildi rafknúinna farartækja, heldur er haft í huga að samgrn. beiti sér fyrir rannsóknum og úttekt á stöðu þessara mála og möguleikum í þessum efnum. Það er skammt að leita ástæðna til að taka þetta mál upp sérstaklega við þessa fjárlagagerð þar sem eru þeir samningar sem ég vænti að hæstv. umhvrh. hafi sett fangamark sitt undir eða menn í hans umboði austur í Kyoto í Japan fyrir fáum sólarhringum, og kalla á það að við breytum til í ýmsum efnum og reynum að nýta okkar eigin orkulindir eins og völ er á til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þessi tillaga tengist vissulega því máli og þeirri hugsun að nýta innlendar orkulindir til samgangna. Hér er ekki eingöngu um að ræða möguleika á rafknúnum bifreiðum sem eru þegar til staðar í einhverjum mæli og þar sem tækni fleygir fram, heldur er einnig sú hugsun að til álita gæti komið að koma hér upp járnbrautum, sem við köllum svo, í einhverju formi, sporvögnum eða farartækjum á teinum knúðum rafmagni. Ég held að full ástæða sé til þess, virðulegur forseti, að þau mál séu gaumgæfð og nokkru fjármagni sé varið í því skyni þegar á næsta ári. Það eru uppi tillögur, er mér kunnugt um, um að bæta samgöngur t.d. til Keflavíkur með tvöföldun Reykjanesbrautar. Það er ekkert óeðlileg áhersla borin fram af þingmönnum þess kjördæmis en allir þekkja nú málið og geta haft á því skoðun. En er það úr vegi, virðulegur forseti, að athuga og það sem fyrst hvort það sé raunhæfur kostur og skynsamlegt með tilliti til margs að leggja sporvagn, leggja spor og koma upp rafknúnum samgöngum í járnbraut til Keflavíkur, í gegnum byggðarlögin á leiðinni, til þess að draga úr umferð einkabíla og létta á þeirri umferð sem fer fram á Reykjanesbrautinni. Ég bið um að hugmynd af þessu tagi sé ekki tekin svo að verið sé að stefna þessu gegn einhverju. Mér eru fyllilega ljós rökin fyrir því að bæta aðstæður á Reykjanesbraut sem er slysagildra eins og dæmin sanna og auðvitað full þörf á að leita úrbóta. Þetta er nefnt hér sérstaklega vegna þess að þarna er tiltölulega fjölfarin umferðaræð og ekki löng auk þess sem þörfin á úrbótum er augljós. Það sama mætti auðvitað segja um ýmis önnur svæði.

[23:00]

Nú fer mjög í vöxt að flytja vörur á landi, ekki aðeins varning til sölu í verslunum heldur hráefni af ýmsum toga landshorna á milli, m.a. fisk til úrvinnslu. Það hlýtur að hafa áhrif á forsendur og möguleika til að leita annarra úrræða en að flytja þetta á vöruflutningabílum með þeirri mengun og orkueyðslu sem því fylgir. Ég vek athygli á að t.d. leiðin austur á Höfn í Hornafirði er að mestu á sléttu landi, aðeins smáhaft sem auðvelt er að bora í gegnum, milli Dyrhólahverfis og Víkur í Mýrdal. Annars er þetta allt á sléttu landi. Það hlýtur að koma að því að lagt verði spor í kringum landið áður en langt um líður og aðrir hættir en nú tíðkast í við flutninga, ekki síst á varningi og þungaflutningum.

Þá kem ég, virðulegur forseti, að tölul. 3 í þessari brtt. Ég ætla að fara orðum um fjóra liði.

Í fyrsta lagi vil ég minnast á tillögu um að veittir verði til náttúrugripasafna á landsbyggðinni styrkir að upphæð 5 millj.kr. Hér er um að ræða óskipta upphæð. Hún fjallar um stuðning við náttúrugripasöfn utan höfuðborgarinnar, því hér í höfuðstaðnum er um að ræða náttúrugripasafn sem rekið er af hinu opinbera. Víða á landsbyggðinni eru náttúrugripasöfn og ég hef tekið eftir því að undanfarin ár hefur verið veitt fjárveiting til eins náttúrugripasafns sérstaklega og nú hefur hún verið hækkuð um 1 millj. Ég á við náttúrugripasafnið í Vestmannaeyjum. Það er vafalaust góðra gjalda vert og ástæða til að styðja við þá merku starfsemi, en ég hlýt að spyrja: Er þarna verið með einhverja sérreglu að því er varðar þessa stofnun, en láta aðrar sitja án stuðnings ríkisins? Mér er ekki kunnugt um að fyrir liggi opinber samningur milli rekstraraðila safnsins í Vestmannaeyjum og ríkisins, um fastan stuðning samkvæmt fjárlögum. Ég hygg þetta sé í þriðja sinn sem liður er sérmerktur að þessu leyti. Ég vakti athygli á því síðast, ekki með tillögu um það að dregið verði í land með þennan stuðning við Vestmannaeyjar, heldur með vísan til þess að auðvitað verði að vera einhver jafnræðisregla í gildi ef teknar eru upp fastar fjárveitingar með þessum hætti. Í umhverfisnefnd fékk ég frá ráðuneytinu þær skýringar að þetta hefði upphaflega verið samþykkt á Alþingi en síðan hafi ráðuneytið sérmerkt þetta vegna þess að Alþingi hefði samþykkt þetta einu sinni. Ég er ekki sáttur við þessa framsetningu og hef því flutt hér tillögu um óskiptan lið að upphæð 5 millj. kr. sem hliðstæð söfn á landsbyggðinni gætu sótt til. Skipting þeirra yrði ráðin af fjárln. þingsins á grundvelli umsókna og mjög gjarnan að fengnu áliti frá umhverfisnefnd þingsins. Engin skuldbinding þarf að fylgja því að nota allan liðinn ef ekki þykja rök fyrir umsóknum. Ég vænti þess að litið verði á þessa tillögu í ljósi þess sem hér er mælt.

Virðulegi forseti. Hér er tillaga um fjárveitingu til félags sem kallar sig Félag um verndun hálendis Austurlands, 1 millj. kr. Félagið sótti um stuðning til fjárln. þingsins með erindi 7. október sl. Nú kann að vera að brugðist hafi verið við þessu efni. Mér gafst ekki tími til að fara yfir alla framsögu formanns fjárln. að þessu leyti, en það skýrist þá hér á eftir. Tillagan fylgdi frá fjárln. til umhvn. og var reyndar eina tillagan sem þangað kom. Ég studdi í mínu áliti þessa fjárveitingu en meiri hluti umhvn. tók ekki afstöðu og lagði til að liðurinn yrði óskiptur. Þar með var málum aftur vísað til fjárln. Mér þótti leitt að þetta varð niðurstaðan. Áður var verulega rúmt um í þessu efni og verði farið fylgja þessa reglu er auðvitað eðlilegt að viðkomandi fagnefnd taki afstöðu til umsóknar. Ég ætla ekki að lesa hér erindi félagsins en það ber fram skýr rök fyrir ósk sinni. Ég vona að á það verði litið af velvilja, hafi málið ekki þegar verið sett í farveg eins og vera kann. Ég gat ekki fylgst með í upphafi þessa fundar, skilagrein frá form. fjárln.

Virðulegi forseti. Hér er tillaga merkt ,,Þjóðgarðar á miðhálendinu, undirbúningur``, að upphæð 5 millj. kr. til ýmissa verkefna á vegum umhvrn. Ástæða þessarar tillögu er sú að flutningsmaður hennar telur skynsamlegt og raunar aðkallandi að hafist verði handa um að afmarka og undirbúa friðlýsingu stórra hluta af miðhálendi Íslands með það að markmiði að gera hluta miðhálendisins að þjóðgörðum. Ég gæti varið talsverðu máli í þetta efni. Ég ætla ekki að gera það hér og nú en get vísað til þess að í umsögn til skipulags ríkisins eða samvinnunefndar um svæðisskipulag á miðhálendinu 10. desember sl. hef ég gert grein fyrir þessu efni. Þar ber ég fram óskir um að í framhaldi af auglýsingu eftir athugasemdum verði á svæðisskipulagi miðhálendisins tekið í athugun að koma upp nokkrum þjóðgörðum á miðhálendinu. Þar mundu jöklarnir á svæðinu mynda kjarnann. Á jöklana yrði litið sem hluta væntanlegra þjóðgarða og síðan lagt til þeirra svæði utan jöklanna. Þar eru stór svæði tengd jöklunum sem sumpart eru nú þegar undir friðun samkvæmt náttúruverndarlögum eða samkvæmt tillögu svæðisnefndarinnar sem skilað hefur sínu áliti. Í þessum tillögum skortir á að gefið sé til kynna hvernig tekið verði á málinu. Mjög margir í landinu hafa óskað eftir að miðhálendið verði lýst þjóðgarður og stundum einfalda menn málið með því að segja allt miðhálendið. Ég hef sagt m.a. úr þessum ræðustól að tillaga sé ekki raunsæ ein og sér, þó hugsjónin á bak við sé góðra gjalda verð. Þegar eru komin allveruleg áform um framkvæmdir á þessu svæði af ýmsum toga og svæðisskipulagsnefndin hefur tekið tillit til þess í sínum tillögum og gert ráð fyrir ákveðnum mannvirkjabeltum sem liggi þvert norður-suður, meðal annars um miðhálendið. En mikið er eftir af landi þar enn, og jöklarnir eru augljóslega almenningar, væntanlega að öllu leyti, þó ég hafi ekki farið yfir þetta mál sérstaklega. Auðvelt ætti að vera að telja þá til þjóðgarða og mörg aðliggjandi svæði þeirra og ná þannig tökum á verkefninu. Á því er mikil þörf. Ég geri raunar ráð fyrir, virðulegi forseti, að flytja mál um þetta efni á þingi áður en langt um líður. Sú hugsun sem að baki liggur ætti þá að vera þinginu ljósari. Slík tillaga gæti legið fyrir öðru hvoru megin hátíðanna.

Þá er hér hér tillaga um áætlanir sveitarfélaga um sjálfbæra þróun. Það er tillaga um fjárveitingu upp á 5 millj. kr. Hún tengist tillögu sem verið hefur til meðferðar í umhvn. þingsins og er þar nú öðru sinni. Ég geri ráð fyrir, virðulegi forseti, að hún verði afgreidd frá nefndinni innan skamms svo sem um hefur verið talað í umhvn. Fyrir liggur minnisblað frá umhvrn. sem tekur undir að eðlilegt sé að hún verði samþykkt sem ályktun þingsins og æskilegt væri að með fylgdi fjárveiting til að auðvelda ráðuneytinu stuðning við þetta mál: áætlanir sveitarfélaga um sjálfbæra þróun. Í því sambandi er nefnd upphæðin 3--5 millj. kr. Þetta er bakgrunnur tillögunnar.

Töluliður 4 á brtt. er um Náttúruvernd ríkisins, tillaga um þjóðgarða og friðlýst svæði, um fjárveitingu sem nemur 15 millj. kr. til viðbótar við þjóðgarða og friðlýst svæði og nægir af minni hálfu, virðulegi forseti, að vísa til erinda frá Náttúruvernd ríkisins um þetta efni, þeirra sem við í umhvn. þingsins fengum aðgang að á undirbúningsstigi fjárlagagerðar, og erinda sem bárust fjárln. 12. nóvember sl. um ýmis brýn verkefni á vegum Náttúruverndar ríkisins. Meiri hluti fjárln. gerir nú tillögur um smávegis viðbætur til Náttúruverndar ríkisins. Því miður tel ég það allsendis ófullnægjandi og leyfi mér því að leggja til hækkun frá fjárlagafrv. sem nemur 15 millj. kr.

Kem ég þá, virðulegi forseti, að síðasta liðnum á þskj. 506 sem er um fjárveitingu til Hollustuverndar ríkisins. Efni væri til að ræða það mál en ég ætla að spara mér að fara mörgum orðum um þessa tillögu því fyrir liggur í þinginu sérstakt frv. sem varðar m.a. þessa stofnun og þá mun það mál rætt. En ég vísa til margítrekraðra erinda, sem snerta Hollustuvernd ríkisins, þar á meðal erinda til umhvrn. frá 21. apríl 1997, vegna frv. til fjárlaga. Ég leyfi mér að nefna, með leyfi forseta, að þar segir meðal annars: ,,Í þessum tillögum er aukning ríkisframlags til starfseminnar rúm 61 millj. kr.`` Þannig er beiðni stofnunarinnar sl. vor til ráðuneytisins.

[23:15]

Það er síðan rökstutt, m.a. með þörf fyrir auknum mannafla. Stórar greinargerðir liggja að baki um þörfina fyrir slíkt og þetta efni er síðan ítrekað í erindi til fjárln. þingsins 10. nóv. sl. þar sem óskað er leiðréttingar frá fjárlagafrv. Tillagan sem ég flyt, sem rúmar samkvæmt hugsun minni einnig þær 10 millj. sem fjárln. hefur nú lagt til að verði komið fram sem hækkun vegna sérstaks verkefnis á vegum Hollustuverndar, er að heildarupphæðin, viðbótin við fjárlögin, verði 50 millj. kr. Það svarar til þess að hægt að sé ráða til starfa fimm starfsmenn eða bæta við fimm stöðugildum og smávegis til viðbótar sem er rétt til þess að verða við allra brýnstu þörf sem er í raun metin sem svartalágmark sem svo er kallað, 20 stöðugildi hjá stofnuninni. Ef öllu réttlæti væri framfylgt og gert ráð fyrir að stofnunin gæti sinnt lögboðnum verkefnum sómasamlega þá voru tillögur stjórnskipaðrar nefndar sem starfaði á vegum umhvrn. í hittiðfyrra og vísað var til við þáverandi fjárlagagerð. Það voru tillögur upp á um 60 stöðugildi sem mætti kannski þrengja niður í 40 og svo var óskað eftir því, það var algert svartalágmark, það voru 20,5 stöðugildi. Ekkert af þessu hefur síðan gengið eftir síðan. Nú er verið að leggja til breytingar á högum þessarar stofnunar sem leiða engan veginn til að draga úr þessari þörf sem slíkri en þær breytingar verða væntanlega ræddar innan tíðar í þinginu.

Virðulegur forseti. Ég tel ástæðu til að koma á framfæri við þingið og fjárln. sérstaklega alvarlegri viðvörun af minni hálfu varðandi þessa stöðu. Hér er um að ræða þá stofnun í landinu sem er ætlað að sinna eftirliti og vöktum varðandi mengun og standa að fjölþættu starfi sem lýtur að því fyrir utan það að tengja Ísland þeirri laga- og réttarþróun sem fram fer innan hins Evrópska efnahagssvæðis sem við erum aðilar að og hefur aukið gífurlega starfsálag í stofnuninni.

Virðulegur forseti. Ég hef reynt að gera grein fyrir breytingartillögum sem ég flyt við fjárlagafrv. Ég tek undir þær áherslur sem koma fram hjá minni hluta fjárln. um frv. Ég tek sérstaklega undir brtt. sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og Svavar Gestsson flytja á þskj. 504 um aukið framlag til niðurgreiðslu á rafhitun til að jafna húshitunarkostnað. Ég þakka fjárln. og meiri hluta hennar fyrir margar og góðar skynsamlegar tillögur sem hún hefur borið fram og liggja fyrir við umræðuna. Ég ætla ekki að lengja tímann með því að fara í þau efnisatriði. Þar er margt sem horfir til góðs vegar í þeim efnum og ánægjulegt er að sjá margt af þeim tillögum sem þar eru sem ég mun vissulega styðja þegar þær koma til afgreiðslu og horfa til rétts vegar. Það er gott fólk, virðulegur forseti, sem starfar í fjárln. og leggur sig fram um störfin. Það tel ég alveg auðsætt og af kynnum af vinnu þeirra og ég vona að við náum að afgreiða frv. með gerðum breytingum og að litið verði til þeirra tillagna sem minni hluti í þinginu og einstakir þingmenn flytja.