Frumvörp um almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 14:34:25 (2658)

1997-12-18 14:34:25# 122. lþ. 48.96 fundur 160#B frumvörp um almannatryggingar# (um fundarstjórn), GHelg
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[14:34]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég skal játa að ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að mál hæstv. heilbrrh. væri ekki komið til nefndarinnar. Það hefði hins vegar hingað til engu breytt. Þegar samhljóða frv. þingmanna hefur verið komið á borð þeirra er eðlilegt að þeir geri ráð fyrir að hraðafgreiðsla verði á frv. sem kemur frá ríkisstjórninni. Ég vil benda hæstv. forseta og hæstv. ráðherra á að vinnubrögð af þessu tagi eru náttúrlega ekki boðleg. Ef menn hugsa sér fólkið sem á að afgreiða slysatryggingar samkvæmt þessum lögum í Tryggingastofnun ríkisins, þá fær það núna í hendingskasti þingmannafrv. eða lögin frá þinginu til að bjarga málum, og ekkert nema gott eitt um það að segja. Síðan eiga að líða tvær, þrjár vikur, þá koma ný lög til sömu stofnunar sem eru víðtækari, það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra, því þau lög eru nú aðallega til að leysa vanda sem skapast við lögheimilisástand fólks en allt eru þetta mál sem ég held að séu ekki grandskoðuð. Og ég verð að segja að vinnubrögð af þessu tagi eru ekki til að hrósa sér af. Nefndinni er auðvitað vorkunn og ég skal viðurkenna að hv. formaður nefndarinnar átti kannski ekki margra kosta völ úr því honum var skipað að afgreiða þingmannafrv. til að bjarga hæstv. ráðherra frá vandræðaganginum í sér.