Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 17:17:13 (2825)

1997-12-19 17:17:13# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[17:17]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sturla Böðvarsson, varaformaður fjárln., sagði að ekki hefði verið fallist á sjónarmið stjórnarandstöðu um tekjuöflun, þ.e. skattahækkanir eins og hann orðaði það. Ég veit ekki til þess, herra forseti, að það hafi verið rætt í hvert einasta skipti í hv. fjárln. hvernig ætti að afla tekna á móti þeim útgjöldum sem er verið að stofna til. Fróðlegt væri að fá að vita hvernig hv. þm. ætlar að leysa vanda Sjúkrahúss Reykjavíkur, Ríkisspítalanna, heilbrigðisstofnananna á landsbyggðinni og 230 millj. vöntun hjá Háskóla Íslands svo að maður nefni eitthvað pínulítið af því sem menn telja að sé alveg á vonarvöl. Kannski er rétt að geta þess að um leið og hv. þm. segir að um sé að ræða tæplega 173 millj. kr. afgang, liggur nú á borðum þingmanna tillaga um 20 millj. kr. útgjöld til viðbótar sem þýðir millj. í afgang. Menn ættu því að fara varlega í þessa hluti. Auðvitað getur verið að ræða um bæði greiðslugrunn og rekstrargrunn. Við getum talað um þetta svona, en við setjum fjárlög fram á rekstrargrunni og það er það sem um er að ræða núna. Eins og staðan horfir vantar einhvers staðar um 2,5 milljarða. Það er blekking að hægt sé að ná inn þessum tekjum upp á 1.900 millj. sem gert er ráð fyrir með eignasölu í skyndi. Það gerist ekki bara einn, tveir og þrír, herra forseti.