Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 13:00:44 (2913)

1997-12-20 13:00:44# 122. lþ. 50.3 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:00]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt. Ég geri ekki ágreining við hv. þm. um það að þessi álitamál eru til staðar og það verður að sjálfsögðu eitthvert mat sem skapar svigrúm á því hvað sé eðlileg verðlagning. En ég held að það sé allt saman leysanlegt og það sé ekkert erfiðara úrlausnarefni fyrir skattyfirvöld en mörg önnur sambærileg þegar þarf að leggja eitthvert mat á það hvort um eðlilega verðlagningu í aðgreindum viðskiptum eða aðgreindum þáttum kaupsamninga eða viðskipta er að ræða.

Ég held hins vegar að auðvelt sé að leysa þetta á algjörlega skotheldan hátt, ef menn væru tilbúnir til að fara þá leið, --- á Alþingi liggur fyrir í 263. máli frv. til laga um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum --- með því að gera kröfu um að viðskipti með veiðiheimildir séu ævinlega brotin upp og þeim haldið aðgreindum frá t.d. skipakaupum og þau viðskipti fari yfir opinberan viðurkenndan markað, kvótaþing eða kaupþing. Um leið og það gerist, þá er verðlagningin náttúrlega opinber, þá liggur hún fyrir, ekkert vandamál og menn hafa aðgang að öllum upplýsingum sem þeir þurfa, bæði skattyfirvöld og aðrir auk þess sem á slíku þingi er auðvelt að halda viðskiptunum þannig að samband milli seljenda og kaupenda sé rofið, þetta sé blindur markaður og þar með er komið í veg fyrir að gjörningar milli manna geti haft nokkur áhrif á verðlagninguna í slíkum tilvikum. Ég er sannfærður um að þetta er langbesta fyrirkomulagið og það er einmitt tímaspursmál hvenær menn munu verða sammála um að þetta verður heilbrigðasta fyrirkomulagið svo lengi sem viðskipti eru leyfð með réttindi af þessu tagi.