Málefni Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 15:06:12 (3676)

1998-02-11 15:06:12# 122. lþ. 64.6 fundur 413. mál: #A málefni Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:06]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson spyr í fyrsta lagi hvort ráðherra hafi áform um að leggja niður Heyrnar- og talmeinastöðina. Ég vil að það komi skýrt fram að slík áform eru ekki uppi. Allt frá því að lög um Heyrnar- og talmeinastöðina voru sett á árinu 1980 var gert ráð fyrir nánu samstarfi stöðvarinnar við háls-, nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og að hún yrði staðsett í húsakynnum sjúkrahússins. Þetta hefur ekki náð fram að ganga að neinu leyti, m.a. vegna húsnæðisskorts.

Nýverið óskaði formaður stjórnar stöðvarinnar eftir því að verða leystur frá störfum. Jóhannes Pálmason forstjóri Sjúkrahúss Reykjavíkur hefur verið skipaður nýr stjórnarformaður. Ástæða þess að ég valdi hann sem stjórnarformann er að á undanförnum árum hefur ítrekað komið til umræðu að samhæfa þyrfti betur störf Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar og störf háls-, nef- og eyrnadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur. Í því sambandi hefur verið rætt um að hagkvæmt kynni að vera að bæta jafnframt þjónustu og tengja a.m.k. hluta af starfsemi Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar við starfsemi Sjúkrahúss Reykjavíkur.

Eins og fram kom hjá hv. þm. áðan, lagði forveri minn í starfi fram frv. um að Heyrnar- og talmeinastöðin sameinaðist Sjúkrahúsi Reykjavíkur en það náði ekki fram að ganga.

Nýr stjórnarformaður ásamt stjórn er í lykilstöðu til að fara í starfsemi beggja þessara eininga og gera tillögur um hvernig bæta megi þjónustu þeirra og jafnframt gæta hagkvæmni. Þannig mætti tryggja góða þjónustu við þá sjúklinga sem þurfa að leita aðstoðar á þessu sviði. Á þessari stundu get ég ekki sagt til um hvort einungis verði meiri samvinna milli stofnananna eða sameining að hluta eða öllu. Ég tel eðlilegt að ný stjórn fái ráðrúm til að meta kosti þess og galla.

Virðulegi forseti. Í öðru lagi spyr hv. þm. hver stefna ráðuneytisins sé að því er varðar framtíðarskipan Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar og þeirra verkefna sem þar hefur verið sinnt. Í svari mínu við fyrri spurningu hv. þm. tel ég mig hafa svarað þessari spurningu að mestu leyti. Að því er varðar heyrnarmælingar og hjálpartæki tel ég að skoða verði verkefni stöðvarinnar í heild, forgangsraða þeim og taka mið af nýjustu tækni sem í boði er fyrir heyrnarlausa og heyrnardaufa. Fyrir liggja beiðnir um aukið fjármagn til kaupa á hjálpartækjum en á þessu ári var fjármagn til hjálpartækja aukið. Þó verður að gæta þess að skipulag þessa gefi að þau hjálpartæki sem sjúklingar fá nýtist þeim eins og kostur er.

Ég bendi á að heyrnarlausir og heyrnardaufir geta í vaxandi mæli nýtt sér tölvutækni til að rjúfa einangrun sína. Það er þegar hafið. Þeirri þjónustu er verið að koma í fastara og tryggara horf en nú er.

Ég átti fund með Félagi heyrnarlausra og heyrnardaufra um þau mál og mun á næstunni eiga fund með þeim og nýrri stjórn stöðvarinnar um framtíðarfyrirkomulag þjónustunnar. Tryggja þarf að nýting þess tækjabúnaðar sem fyrir hendi er til heyrnarmælinga verði betri en nú er og starfsfólk sem við það vinnur, sérstaklega á landsbyggðinni, fái nægilega þjálfun til að sinna sínum verkefnum.

Varðandi Heyrnar- og talmeinastöðina vil ég til viðbótar taka fram að með tilfærslu grunnskólans yfir til sveitarfélaganna er Heyrnleysingjaskólinn, Vesturhlíðarskóli, undir forsjá Reykjavíkurborgar. Á vegum skólans hefur hingað til verið sinnt ráðgjafarþjónustu og þörfum heyrnarlausra og heyrnarskertra barna og unglinga um allt land svo eitthvað sé nefnt. Ég mun taka það mál sérstaklega upp við stjórn stöðvarinnar og Félag heyrnarlausra. Í framhaldi af því mun ég óska eftir viðræðum við menntmrn. og Reykjavíkurborg um þjónustu við þessa einstaklinga og hvernig henni verði sem best háttað um allt land.