Heilsugæslumál á Eskifirði og Reyðarfirði

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:40:04 (5419)

1998-04-06 16:40:04# 122. lþ. 102.7 fundur 585. mál: #A heilsugæslumál á Eskifirði og Reyðarfirði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:40]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson beinir til mín þremur spurningum. Í fyrsta lagi vil ég minna á að á Eskifirði var tekin í notkun ný heilsugæslustöð 1. des. 1995. Stöðin er 660 fermetrar á stærð og rúmar tvo heilsugæslulækna. Að auki er rými fyrir tannlækni. Lyfsala er í hluta hússins á neðri hæð en í rishæð er aðstaða fyrir starfsfólk ásamt fundarsal og skrifstofu rekstrarstjóra. Heilsugæslustöðin er hin glæsilegasta á landinu og var ekkert til sparað við byggingu hennar. Stöðin er afar vel búin tækjum og hefur m.a. fengið nýtt röntgentæki. Einnig hefur stöðin bifreið til umráða.

Á Eskifirði er hjúkrunarheimili og dvaraheimili í Hulduhlíð og tiltölulega auðvelt að fá vistrými á staðnum. Þá er heilbrigðisstofnun í Neskaupstað aðgengileg og léttir verulega undir störfum heilsugæslulækna í þessu byggðarlagi. Nýverið var vaktskipulag lækna á Eskifirði endurnýjað og hefur hið nýja skipulag í för með sér töluverða hækkun launa. Kjör lækna á Eskifirði eru sambærileg kjörum lækna við svipaðar aðstæður.

Eins og hv. þm. kom hér inn á áðan hefur að undanförnu verið erfitt að fastsetja lækni á Eskifirði og eftir að héraðslæknirinn fór í burtu um mitt ár 1997 hafa margir afleysingalæknar verið á Eskifirði. Eftir að úrskurður kjaranefndar birtist 3. mars sl. og launakjör lækna á heilsugæslustöðvum liggja fyrir eru miklar líkur til þess að úrbætur séu í augsýn. Það er ljóst að í minni héruðum hafa orðið verulegar kjarabætur fyrir heilsugæslulækna og mér er kunnugt um áhuga lækna á að ráða sig til Eskifjarðar og ég bind miklar vonir við þær umsóknir.

En það eru fleiri spurningar sem hv. þm. beinir til mín. Ráðuneytið mun verða við ósk bæjarstjórnar Eskifjarðar um kaup á bústað fyrir heilsugæslulækni á Eskifirði. Eins og fram kom er enginn læknabústaður á Eskifirði en á Reyðarfirði er læknabústaður, einbýlishús, sem mikið hefur verið lagfært á síðustu árum. Áður var læknabústaður á efri hæð gömlu heilsugæslustöðvarinnar á Eskifirði. Það hús var selt. Síðan hefur verið leigð íbúð á Eskifirði sem að mestu hefur verið notuð af afleysingalæknum. Eins og hv. þm. veit voru gerðar breytingar á lögunum um embættisbústaði á 120. löggjafarþingi og þar með er ekki heimilt að kaupa bústað á Eskifirði nema með breyttri löggjöf.

Í þriðja lagi spyr hv. þm: Hvernig hyggst ráðuneytið leysa húsnæðismál heilsugæslunnar á Reyðarfirði til frambúðar? Á Reyðarfirði er heilsugæslustöðin í leiguhúsnæði og hefur verið undanfarin níu ár. Húsnæðið er 250 fermetrar. Það er að mörgu leyti ágætt en fullstórt. Heimild er fyrir kaupum á nýrri heilsugæslustöð á Reyðarfirði og voru tillögur uppi um það fyrir um ári síðan að smíða 170 fermetra hús sem kosta átti um 12 millj. kr. Heimamenn töldu hins vegar æskilegra að ná samningum um áframhaldandi leigu á því húsnæði sem heilsugæslustöðin er í og það varð úr.