Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 13 – 13. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 80/1987, með síðari breytingum.

Flm.: Svavar Gestsson.



1. gr.

    Við 81. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Áður en kjósandi gerir grein fyrir sér getur hann óskað eftir því við kjörstjórn að umboðsmenn lista fái ekki að vita nafn hans og ber henni að verða við þeirri ósk.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á 120. þingi og endurflutt á 121. þingi en hlaut ekki afgreiðslu. Því fylgdi þá svohljóðandi greinargerð:
    „Samkvæmt 31. gr. stjórnarskrárinnar skulu alþingismenn kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu. Samkvæmt kosningalögum er umboðsmönnum þeirra lista sem í kjöri eru heimilt að fylgjast með framkvæmd kosninga, m.a. með því að sitja í kjörfundarstofu. Með þessu fá flokkarnir upplýsingar um hverjir þeirra sem á kjörskrá eru hafa neytt kosningarréttar síns. Þær eru síðan nýttar til þess að hafa samband við hugsanlega kjósendur listans sem ekki hafa kosið en listinn telur æskilegt að kjósi, svokölluð kosningasmölun. Kjósandi hlýtur að eiga rétt á því, í landi þar sem ekki er skylda að greiða atkvæði við alþingiskosningar, að ekki sé haft eftirlit með því hvort hann nýti atkvæðisrétt sinn eða ekki. Taka verður allan vafa af um að hugtakið „leynileg kosning“ nái einnig til þessa atriðis og því er þetta frumvarp flutt. Er til þess ætlast að kjörstjórn tryggi kjósendum þann rétt sem hér er gert ráð fyrir og að hún beiti til þess þeim aðferðum sem æskilegar teljast.“
    Þetta frumvarp hlaut ekki afgreiðslu á síðasta þingi og um það urðu nokkrar umræður. Spruttu þær af því að allsherjarnefnd, sem hafði málið til meðferðar, afgreiddi aðra breytingu á kosningalögunum (116. mál) en skilaði ekki nefndaráliti um breytinguna sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Var það gagnrýnt sérstaklega. Formaður allsherjarnefndar sagði í umræðum að ekki hefði verið „samkomulag um að málið yrði tekið út úr nefndinni“. „… voru skiptar skoðanir um það mál sem háttvirtur þingmaður var að tala um,“ sagði nefndarformaðurinn jafnframt. Í útskýringum Ögmundar Jónassonar og Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, sem sæti áttu í allsherjarnefnd, kom fram að þar hefðu mál stjórnarandstöðunnar fengið lakari meðferð en annars staðar í nefndum þingsins.