Ferill 14. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.





122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 14 – 14. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um að íslenska táknmálið verði viðurkennt móðurmál heyrnarlausra.

Flm.: Svavar Gestsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að undirbúa frumvarp til laga um að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra hér á landi.

Greinargerð.


    Málefni heyrnarlausra hafa oft komið til meðferðar á Alþingi. Fullyrða má að þar sé sam staða um að íslenska táknmálið eigi að geta orðið móðurmál heyrnarlausra. Það leiðir reyndar hugann að því að ekki er einfalt að setja slíkt í lög og hætta er á að lögin verði dauður bók stafur ef þeim er ekki fylgt eftir. Reyndar er íslenskan ekki viðurkennt móðurmál Íslendinga í lögum eða stjórnarskrá, og þess gerist reyndar ekki þörf þar sem hún er móðurmálið í raun og enginn dregur það í efa. Vaknar sú spurning hvort engu að síður væri rétt að setja lög um móðurmálið eða ákvæði um það í stjórnarskrá. Má hugsa sér í því sambandi almenn lög og breytingar á einstökum lögum, t.d. breytingu á lögum um þingsköp Alþingis þar sem tekið yrði fram að töluð skuli íslenska á Alþingi og að skjöl skuli vera á íslensku.
    Sérstök lög um íslenska táknmálið sem móðurmál eru hins vegar annars eðlis, þau eru jafn réttismál sem snýst um að tiltekinn hópur hafi rétt á því að taka þátt í öllum athöfnum þjóð félagsins til jafns við aðra og að hann eigi því rétt á túlkun. Jafnframt væri samfélagið með slíkri lagasetningu að ákveða að mennta túlka og að rannsaka og þróa íslenska táknmálið svo sem nauðsynlegt er. Hins vegar ráða fjármunir og fjárlög úrslitum. Auðvitað er unnt að taka ákvörðun um að táknmálið sé raunverulegt móðurmál heyrnarlausra með því að veita fjármuni til þess. Tryggja þarf að til sé nægur hópur táknmálstúlka og táknmálskennara, að heyrnar lausir og aðstandendur þeirra hafi tækifæri til að læra táknmálið og að foreldrar heyrnarlausra barna læri það, að heyrnarlaus börn í Vesturhlíðarskóla fái móðurmálskennslu í táknmáli og að allir kennarar kunni táknmál og geti verið málfyrirmyndir. Það þarf að tryggja að börnin fái táknmálstúlkun í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum. Til þess að allt þetta megi gerast þarf að þróa rannsóknir á íslenska táknmálinu. Tryggja þarf að opinberar stofnanir, dómstólar, sjúkrahús o.s.frv. hafi táknmálstúlka. Loks þarf að sjá til þess að skýrt sé hver á að borga hvað svo að réttindi heyrnarlausra merjist ekki sundur á milli ríkis og sveitarfélaga eins og oft hefur gerst.
    Mikilvægar ákvarðanir hafa reyndar þegar verið teknar. Í Menntaskólanum við Hamrahlíð hefur táknmálið verið kennt heyrandi nemendum en auk þess hafa heyrnarlausir nemendur lært um táknmálið sem móðurmál sitt, þ.e. um málfræðilega uppbyggingu málsins, sögu þess og þróun.
    Þátttaka í táknmáli fyrir heyrandi sem valgrein hefur verið góð, þar hafa verið 20 nemendur eða svo á ári. Kennslan í táknmáli fyrir heyrnarlausa á að vera fyrir alla heyrnarlausa nem endur á framhaldsskólastigi, einnig þá sem sækja aðra skóla. Þeir eiga að geta stundað námið í MH og fengið það metið. Í Háskóla Íslands er kennd táknmálsfræði sem fullgild aðalgrein til BA-prófs og eins vetrar viðbótarnám í táknmálstúlkun sem telst hagnýtt nám fyrir utan BA-stig. Háskólakennslan er samkvæmt tímabundnum samningi sem rann út sumarið 1997. Nú hefur náðst samkomulag um þriðja árið, kennt verður 1997–98, en framhald er enn óljóst.
    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en varð þá eigi útrædd og er því endurflutt.