Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.





122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 19 – 19. mál.



Beiðni um skýrslu



frá umhverfisráðherra um mengun frá fiskimjölsverksmiðjum.

Frá Hjörleifi Guttormssyni, Guðrúnu Helgadóttur, Kristni H. Gunnarssyni,


Margréti Frímannsdóttur, Ragnari Arnalds, Sigríði Jóhannesdóttur,


Steingrími J. Sigfússyni, Svavari Gestssyni og Ögmundi Jónassyni.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að umhverfisráðherra flytji Alþingi skýrslu um mengun frá fiskimjölsverksmiðjum.
    Víðast hvar þar sem fiskimjölsverksmiðjur eru starfræktar valda þær umtalsverðri mengun. Er þar bæði um að ræða mengun sjávar af völdum grútar, blóðvatns og soðs og lyktar- og reyk mengun andrúmslofts. Ástandið er misjafnt eftir stöðum og aðstæðum en sums staðar er það afleitt þannig að líkja má við neyðarástand. Vekja verður athygli á að hreint og ómengað loft er hluti af almennum mannréttindum.
    Þar sem verksmiðjur hafa verið endurbyggðar vantar oft aðeins herslumuninn að viðunandi árangur hafi náðst en þó gætir alls staðar meiri mengunar frá verksmiðjunum en ásættanlegt er. Með lengingu veiðitíma og bræðslu að sumarlagi hefur loftmengunin orðið tilfinnanlegri, bæði fyrir heimafólk og ferðamenn. Knýja verður fram úrbætur hið fyrsta með hertum kröfum og eftirliti. Verksmiðjurnar skila nú miklum hagnaði og ber að nota þær aðstæður til að ná fram viðunandi úrbótum.
    Til að varpa ljósi á þetta vandamál margra sjávarbyggða, að Reykjavík meðtalinni, er þessi beiðni um skýrslu um mengun frá fiskimjölsverksmiðjum fram borin og til að Alþingi fái upplýsingar um hvernig áformað er að koma í veg fyrir hana . Í skýrslunni komi m.a. fram upplýsingar um eftirfarandi atriði:     
     1.      Hvaða fiskimjölsverksmiðjur eru nú starfræktar, hvernig er háttað starfsleyfum þeirra hverrar um sig, til hve langs tíma eru þau veitt og með hvaða skilyrðum?
     2.      Út frá hvaða forsendum er gengið við veitingu starfsleyfa að því er varðar mengunarvarnir?
     3.      Hvað veldur því að kröfur um loftræstingu frá lyktaruppsprettum í verksmiðjunum eru svo slakar sem raun ber vitni, sbr. orðalag í nýlegum starfsleyfum: „Loftræsta skal frá verulegum lyktaruppsprettum í verksmiðju …“?
     4.      Hvernig er háttað eftirliti af hálfu heilbrigðisyfirvalda með að starfsleyfi séu haldin, m.a. með heimsóknum og reglubundnum mælingum?
     5.      Kemur mannfæð og fjárskortur í veg fyrir að haldið sé uppi æskilegu eftirliti með verksmiðjunum?
     6.      Hvernig er háttað innra eftirliti af hálfu rekstraraðila?
     7.      Er tryggt að eiturefni sem notuð eru við framleiðsluna séu tryggilega varin og geymd þannig að ekki sé hætta á óhöppum eða slysum?
     8.      Hvert er vald eftirlitsaðila til að grípa inn í og knýja fram úrbætur ef óeðlileg mengun er staðfest eða fyrirtæki rækir ekki skyldur samkvæmt ákvæðum starfsleyfis? Hver er staðan þar sem eftirlit hefur verið falið svæðisbundnu heilbrigðiseftirliti?
     9.      Hversu oft hefur verið beitt dagsektum vegna mengunar í fiskimjölsverksmiðjum sl. fimm ár?
     10.      Hvenær er þess að vænta að umhverfismál fiskimjölsverksmiðja verði komin í gott horf? Óskað er eftir yfirliti um hvert einstakt fyrirtæki.
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu þegar henni hefur verið dreift meðal þing manna.