Ferill 21. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.





122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 21 – 21. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Árni R. Árnason, Árni M. Mathiesen, Kristján Pálsson.



1. gr.

    Fyrri málsliður 1. mgr. 127. gr. laganna orðast svo: Að því leyti sem hér er ekki mælt á annan veg skuldbindur gjafsókn ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur af máli, þar með talinn þann málskostnað sem gjafsóknarhafa kann að verða gert að greiða gagnaðila sínum í máli ef gjafsóknarhafi er ógjaldfær.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 121. löggjafarþingi en var ekki rætt, og er það því lagt fram að nýju.
    Reglur um gjafsókn er meðal annars að finna í XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Hugtakið gjafsókn tekur bæði til gjafsóknar og gjafvarnar og er notað sem sam heiti fyrir aðstoð sem aðili getur leitað til að sækja hagsmuni sína eða verja þá í dómsmáli. Ákvæði laganna eru túlkuð með þeim hætti að gjafsókn skuldbindi ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli, að því leyti sem sú skuldbinding sé ekki takmörkuð í gjafsóknarbréfi eða af öðrum fyrirmælum í 127. gr. Í greinargerð með lögunum er sérstaklega tekið fram að gjafsókn geti aldrei náð til þess að ríkið beri að auki þann málskostnað sem gjafsóknarhafa kann að verða gert að greiða gagnaðila sínum í máli.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að framangreindum reglum um gjafsókn verði breytt og sá málskostnaður sem gjafsóknarhafa kann að verða gert að greiða gagnaðila sínum í máli verði ríkið skuldbundið til að bera ábyrgð á ef gjafsóknarhafi er ógjaldfær. Hafa ber hér hliðsjón af ákvæði 3. mgr. 128. gr. sem kveður á um að gjafsókn breyti engu um að gjafsóknarhafa verði sjálfum gert að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Því er rétt að ítreka að ábyrgð ríkisins í framangreindum tilvikum á aðeins við ef gjafsóknarhafi er ógjaldfær.