Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 207 – 30. mál.



Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur um kjarnaskóla.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
1.      Hvaða framhaldsskólar, eða deildir, hafa verið valdir sem kjarnaskólar, sbr. 31. gr. laga um framhaldsskóla, og í hvaða greinum?
2.      Hvaða atriði voru aðallega lögð til grundvallar í hverju tilfelli við ákvörðun um hvaða skóli, eða deild, skyldi verða kjarnaskóli?
3.      Hafa hagsmunaaðilar á vinnumarkaði átt aðild að samningi um kjarnaskóla eða deild? Ef svarið er jákvætt, hverjum?

    Heimild til stofnunar kjarnaskóla er að finna í 31. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, en þar segir:
    „Menntamálaráðherra getur, að fenginni umsögn starfsgreinaráðs og stofnaðila, gert framhaldsskóla eða deild í framhaldsskóla að kjarnaskóla um lengri eða skemmri tíma. Í sam ráði við starfsgreinaráð hefur kjarnaskóli forgöngu um að þróa námsefni, námsskipan og kennsluaðferðir í starfsnámi og aðstoðar aðra skóla og fyrirtæki við umbætur í kennslu og þjálfun á viðkomandi sviði.“
    Samkvæmt þessari grein gegnir kjarnaskóli veigamiklu hlutverki varðandi nám og kennslu á viðkomandi sviði og hann hefur jafnframt sérstöðu miðað við aðra skóla. Gert er ráð fyrir að gert verði samkomulag milli menntamálaráðuneytisins og viðkomandi skóla þar sem hlut verk skólans er skilgreint. Nú stendur yfir vinna í ráðuneytinu sem miðar að því að skýra og útfæra hugtakið „kjarnaskóli“ og hvað felst í því, m.a. með tilliti til þeirra skuldbindinga og verkefna sem kjarnaskólar munu hafa gagnvart öðrum skólum. Ákveðnum starfsmanni hefur verið falið þetta verk og standa vonir til þess að hann skili áliti sínu fyrir áramót svo að unnt verði í framhaldi af því að taka ákvarðanir um hvaða skólar verði valdir sem kjarnaskólar í einstökum greinum.
    Fram hafa komið óskir frá nokkrum skólum um að gerast kjarnaskólar fyrir tiltekið nám eða námssvið. Þessar beiðnir verða teknar til afgreiðslu þegar nauðsynlegri undirbúnings vinnu er lokið en enginn skóli hefur verið skilgreindur formlega sem kjarnaskóli samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði enn sem komið er.
    Einnig hafa komið fram óskir um að stofnaðir verði „kjarnaskólar“ í öðrum greinum en starfsgreinum og má t.d. nefna beiðni Verkmenntaskólans á Akureyri um að hann verði kjarnaskóli í fjarkennslu. Ef lögin eru túlkuð bókstaflega er ljóst að kjarnaskóla verður ekki komið á fót í þessum greinum með stuðningi í lögum. Hins vegar er ekkert sem mælir gegn því að einstakir skólar taki að sér þróunarverkefni á afmörkuðum sviðum og miðli öðrum af reynslu sinni. Staða þessara skóla gagnvart öðrum verður þó ekki sú sama og kjarnaskóla sem starfa samkvæmt áður nefndum lagaákvæðum.
    Nauðsynlegt er því að athuga vel allar hliðar málsins áður en frá því er gengið.