Ferill 117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 256 – 117. mál.



Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar, Kristins H. Gunnarssonar, Krist ínar Halldórsdóttur og Sigríðar Jóhannesdóttur um rekstrarhagræðingu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig hefur verið varið 42 millj. kr. framlagi til rekstrarhagræðingar á lið 02-950 í fjárlögum 1997, sundurliðað eftir verkefnum?

    Í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar í lok árs 1996 vinnur ráðuneytið að gerð samninga við stofnanir sínar til þriggja ára um verkefni og árangur þeirra. Við undirbúning samninga er stofnunum ætlað að gera áætlanir um starfsemina næstu þrjú ár.
    Samningagerð við meginhluta framhaldsskóla er vel á veg komin og er ætlunin að henni ljúki fyrir næstu áramót. Undirbúningur samninga við skóla á háskólastigi er einnig langt kominn. Samningar við einstakar menningar- og vísindastofnanir munu fylgja í kjölfarið.
    Í þessari samningagerð er tekið á ýmsum verkefnum sem lúta að rekstrarhagræðingu og kalla á sérstök framlög á næstunni. Í því sambandi má nefna undirbúning að sameiningu skóla í einn uppeldisháskóla, tækjakaup vegna fjarkennslu og annarrar upplýsingatækni til að draga úr kennslukostnaði, markvissari nemendaskráningu og skipulagsbreytingar í rekstri skóla og stofnana.
    Samningar ráðuneytis við skóla og einstakar stofnanir á vegum þess verða kynntir fjár laganefnd þegar þeir liggja fyrir.
    Ráðuneytið hefur ekki enn sem komið er ráðstafað rekstrarhagræðingarfé á fjárlagalið 02-950 fyrir árið 1997. Hluti kostnaðar mun væntanlega koma fram við ársuppgjör 1997 en hluti sem tímabundnar greiðslur á árinu 1998.