Ferill 227. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 259 – 227. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um framtíðarskipan raforkumála.

(Lögð fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



    Alþingi ályktar að unnið verði að því að breyta skipulagi raforkumála þannig að sköpuð verði skilyrði til aukinnar samkeppni í vinnslu og sölu raforku. Í upphafi skal unnið að aðskilnaði vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu raforku innan orkufyrirtækjanna, endur skipulagningu á meginflutningskerfi raforkunnar og breyttu fyrirkomulagi á orkusölu til stórra notenda. Í kjölfarið verði unnið að því að koma á samkeppni í viðskiptum með raforku.
    Alþingi felur iðnaðarráðherra:
1.     Að yfirfara rekstrarform raforkufyrirtækja sem ríkið á eignarhlut í og meta markaðsvirði þeirra með það að markmiði að samræma arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið þeirra, m.a. með hliðsjón af breytingum á sameignarsamningi um Landsvirkjun sem gerðar voru á árinu 1996.     
2.     Að láta fara fram könnun á tæknilegum og fjárhagslegum forsendum fyrir breyttu fyrirkomulagi á flutningi raforku um meginflutningskerfið.
3.     Að beita sér fyrir því, í ljósi niðurstöðu könnunar skv. 2. tölul., að fram fari viðræður milli raforkufyrirtækjanna um forsendur fyrir stofnun félags um meginflutningskerfið.
4.     Að móta skilyrði fyrir veitingu virkjunarleyfa, sem m.a. taki til öryggis og áreiðanleika raforkukerfisins, landnýtingar og umhverfismála, eðli vatnsorkunnar og jarðvarmans sem og tæknilegrar og fjárhagslegrar getu umsækjanda. Slík skilyrði þurfa jafnframt að fela í sér nauðsynlegan sveigjanleika til að tryggja sem best nýtingu orkulindanna til atvinnu uppbyggingar. Sett verði skýr ákvæði um eignarrétt á orkulindum á afréttum og almenn ingum.
5.     Að kanna nýjar leiðir til nýtingar orkulindanna til atvinnuuppbyggingar og undirbúa að í samningum um nýja stóriðju verði laðað fram aukið eigið fé til vinnslu, flutnings, dreif ingar og sölu raforku.
6.     Að kanna tæknilega, fjárhagslega og umhverfislega kosti og galla þess að tengja íslenska orkukerfið við raforkukerfi á Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu.
7.     Að gefa þinginu skýrslu um framgang málsins eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti, í fyrsta sinn fyrir 1. desember árið 2000.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Á síðasta ári skipaði iðnaðarráðherra tvær nefndir um skipan orkumála. Önnur var viðræðunefnd eignaraðila að Landsvirkjun um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki fyrirtækisins (hér eftir kölluð eigendanefnd). Hin var ráðgjafarnefnd fulltrúa orkufyrirtækja, stjórnmálaflokka, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins og skyldi hún vera ráðherra til ráðgjafar við endurskoðun löggjafar um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu orku (hér eftir kölluð orkunefnd). Báðar nefndirnar hafa lokið störfum.

    Orkunefndin lauk störfum 9. október 1996. Í inngangi skýrslu nefndarinnar er stuttlega gerð grein fyrir þeim nýju viðhorfum í raforkumálum sem hafa verið að ryðja sér til rúms víða um heim á undanförnum árum. Eðlilegt er að færa sér þessi nýju sjónarmið í nyt hér á landi. Í skýrslunni segir:
    Núverandi skipan raforkumála hefur um margt reynst vel. Raforkukerfið stendur á traustum grunni, er tæknilega mjög gott og notendur búa við mikið afhendingaröryggi. Mikilvægt er að móta framtíðarskipan raforkumála hér á landi á þessum grunni um leið og menn færa sér í nyt reynslu og rannsóknir annarra þjóða í þessum efnum eftir því sem við á. Er hér einkum vísað til framfara í öðrum löndum sem byggjast á því að virkja markaðsöflin í því skyni að auka hagkvæmni í raforkubúskapnum.
    Skemmst er frá því að segja að skipan raforkumála hefur víða um lönd tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Breytingarnar eru undantekningalítið sama eðlis þótt þær miðist jafnframt að hluta við aðstæður á hverjum stað. Meginefni þeirra felst í því að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins og þá þætti þar sem samkeppni verður við komið. Þannig hefur verið lagður grunnur að markaðsbúskap í raforkukerfi margra landa.
    Hefðbundin viðhorf til raforkumála hafa því verið að breytast. Hér áður fyrr var það viðtekin skoðun að hið opinbera hefði óhjákvæmilega lykilhlutverki að gegna á öllum sviðum þeirra vegna þess að markaðslausnir ættu þar ekki við, meðal annars vegna einkaréttar í starfsemi af þessu tagi. Á síðustu árum hafa hins vegar verið þróaðar aðferðir þar sem markaðsöflin hafa verið hreyfiaflið á mikilvægum sviðum, einkum í vinnslu og sölu raforku. Þessar aðferðir hafa í aðalatriðum reynst vel og er það nú skoðun flestra að samkeppnis umhverfi skili að jafnaði meiri árangri í vinnslu og sölu en hefðbundið einkaréttarumhverfi.
    Þessi nýju sjónarmið er sjálfsagt að færa sér í nyt á Íslandi þótt hér eins og annars staðar þurfi jafnframt að taka mið af aðstæðum. Þetta verður best gert með því að endurskipuleggja raforkubúskapinn á núverandi grunni með markaðssjónarmið að leiðarljósi í vinnslu og sölu raforku. Aðskilnaður vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu er þar höfuðatriði ásamt því að gefa vinnslu raforku og sölu frjálsa í áföngum. Í tengslum við slíkar skipulagsbreytingar mælir jafnframt margt með því að hlutafélagsformið taki við af núverandi rekstrarformi. Þannig yrði meðal annars dregið úr áhættu hins opinbera af fjárfestingu í orkuvinnslu vegna stóriðju. Jafnframt minnkaði áhætta heimila og almenns atvinnurekstrar vegna slíkra fjárfestinga. Mikilvægt er að hagkvæmir orkuframleiðslukostir hér á landi skili sér í samkeppnisstöðu almenns atvinnulífs gagnvart fyrirtækjum í öðrum löndum. Við bætist að hanna þarf skilvirkt eftirlitskerfi í ljósi skipulagsbreytinga í þessa veru með áherslu á hagkvæmni og aðhald í flutnings- og dreifikerfinu. Nefndin leggur jafnframt áherslu á að tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða og hugsanlegrar gjaldtöku fyrir orkuvinnslu.
    Þótt einsýnt virðist í hvaða átt beri að halda er vandratað á skynsamlega áfanga að settu marki. Fyrir vikið er ráðlegt að stilla í hóf breytingum í byrjun og endurmeta stöðuna eftir hvern áfanga. Í þeim efnum blasir við að byrja á því að skapa forsendur fyrir samkeppni með því að aðskilja vinnslu, flutning, dreifingu og sölu. Í framhaldi af því er nauðsynlegt að búa svo um hnúta að samkeppni geti þróast eðlilega á þeim sviðum þar sem hún á við (vinnslu og sölu) og eftirlitskerfið sé eflt á sviðum einkaréttar (flutnings og dreifingar).
    Ástæðurnar fyrir því að fara varlega í byrjun eru margþættar. Þar á meðal má nefna víðtækar skyldur Landsvirkjunar samkvæmt núverandi skipan, svo sem varðandi framboð raforku og verðlagningu hennar. Þetta þarf að hafa í huga við ákvörðun áfanga að nýrri skipan raforkumála. Jafnframt er íslenska raforkukerfið lítið og ótengt öðrum kerfum og því er erfiðara að koma hér á fullnægjandi samkeppni en í flestum öðrum löndum. Fyrir vikið kann til dæmis að vera óhjákvæmilegt að búa hér við aðstæður þar sem eitt fyrirtæki er langstærst, að minnsta kosti fyrst um sinn. Þótt þannig sé ekki vandalaust að virkja markaðsöflin í raforkukerfinu í því skyni að auka hagkvæmni þess, telur nefndin skynsamlegt að fara inn á þá braut í skipulögðum áföngum.

2. Meginsjónarmið orkunefndar.
    Í skýrslu nefndarinnar er gert ráð fyrir að sett verði sérstök raforkulög, jafnframt því sem felldir verði úr gildi þeir kaflar orkulaganna sem fjalla um raforkumál, kafli vatnalaga um vatnsorku, lög um raforkuver og sérlög um einhver orkufyrirtæki. Lög um Landsvirkjun og e.t.v. fleiri orkufyrirtæki gætu þó þurft að standa eitthvað áfram.
    Tillögur nefndarinnar miða að því að skapa forsendur til samkeppni í viðskiptum með raforku. Í því sambandi er meðal annars gert ráð fyrir eftirfarandi:
*      Að vinnsla, flutningur, dreifing og sala á rafmagni verði aðskilin, a.m.k. bókhaldslega,
*      að raforkuvinnsla verði gefin frjáls í áföngum.
*      Að stofnað verði sjálfstætt félag um meginflutningskerfið, hugsanlega að hluta í eigu Landsvirkjunar.
*      Að einkaleyfi rafveitna til sölu á rafmagni á tilteknu orkusölusvæði verði afnumin í áföngum.
*      Að viðskipti með raforku verði gefin frjáls í áföngum.
*      Að lagður verði grundvöllur að því að unnt verði að fá einkafjármagn inn í raforkugeirann, meðal annars með því að gera arðkröfur til fjármagns sem bundið er í greininni.
*      Að stefna beri að verkefnafjármögnun nýrra stórverkefna á orkusviði með þátttöku innlendra og erlendra fjárfesta og verði þau ekki á ábyrgð ríkisins eða Landsvirkjunar.
    Skýrsla orkunefndarinnar ásamt bréfum sem nokkrir nefndarmenn hafa sent ráðuneytinu til að skýra nánar hugmyndir sínar er fylgiskjal I með tillögu þessari.

3.     Niðurstaða eigendanefndar Landsvirkjunar.
    Viðræðunefnd eigenda Landsvirkjunar um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki fyrirtækisins skilaði tillögum sínum 28. október 1996. Að tillögu nefndarinnar hafa eigendur Landsvirkjunar samþykkt breytingu á sameignarsamningi um fyrirtækið. Jafnframt hefur lögum um fyrirtækið verið breytt í ljósi tillagna nefndarinnar. Í tillögum sínum gekk nefndin út frá þeirri meginforsendu að staða Landsvirkjunar verði í aðalatriðum óbreytt hvað varðar orkusölu til almenningsveitna næstu 10 árin. Niðurstöður nefndarinnar, sem eigendur hafa samþykkt, fela meðal annars í sér eftirfarandi:
*      Skýr markmið eru sett um raunlækkun á verði raforku til almennings, sem tryggi 3% árlega raunlækkun frá 2001 til 2010.
*      Rekstrarformi Landsvirkjunar sem sameignarfélag verður ekki breytt að sinni.
*      Stjórnskipulag félagsins verður fært til aukins samræmis við ákvæði hlutafélagalaga, meðal annars hvað varðar hlutverk ársfundar og verksvið stjórnar og framkvæmdastjóra.
*      Stefnu um arðsemi og meðferð arðs.
*      Endurmat á eigendaframlögum sem verða notuð sem arðgreiðslustofn.
*      Að Landsvirkjun verði heimiluð þátttaka í félögum á sviði orkumála, til dæmis um meginflutningskerfið.
    Í samningi um breytingu á sameignarsamningi er ákvæði um að endurskoða skuli samning inn fyrir 1. janúar 2004, þar með talið að ákveða hvort ástæða sé til að stofna hlutafélag um fyrirtækið.
    Skýrsla eigendanefndarinnar er birt sem fylgiskjal II með tillögunni.

4. Áfangar í átt að samkeppni í vinnslu og sölu raforku.
    Lagt er til að tekið verði mið af niðurstöðum ofangreindra tveggja nefnda við mótun stefnu um framtíðarskipan raforkumála. Markmiðið er að almennt viðskiptaumhverfi komist á í viðskiptum með raforku. Slíkt gerist ekki á einni nóttu, enda þarf að taka tillit til stöðu raforkufyrirtækjanna nú og veita þeim nauðsynlegt svigrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum. Koma má á breyttri skipan með eftirfarandi hætti:

4.1 Bókhaldslegur aðskilnaður vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu raforku.
    Á árinu 1997 verður vinnsla og flutningur raforku bókhaldslega aðskilin í starfsemi Lands virkjunar. Hafinn verði undirbúningur að því að vinnsla, flutningur, dreifing og sala á raforku verði bókhaldslega aðskilin í starfsemi annarra raforkufyrirtækja með blandaðan rekstur, svo sem Hitaveitu Suðurnesja, Orkubús Vestfjarða, Rarik, Akranesveitu, Bæjarveitna Vestmannaeyja o.fl. Stefnt verði að því að slíkum bókhaldslegum aðskilnaði verði komið á frá og með árinu 1999.

4.2 Rekstrarform og arðsemi.
    Stefnt verði að því að breyta stjórnskipulagi fyrirtækjanna þannig að það samræmist betur viðteknum venjum í efnahagslífinu, meðal annars hvað varðar hlutverk ársfundar og verksvið stjórnar og framkvæmdastjóra. Jafnframt móti eigendur orkufyrirtækja stefnu um arðsemi og meðferð arðs þannig að eigendur njóti viðunandi arðsemi af eign sinni. Samhliða breytingum á rekstrarformi raforkufyrirtækjanna og innleiðingu markaðssjónarmiða þarf að samræma skattaskilyrði fyrirtækjanna. Eðlilegt er að skattlagning fyrirtækjanna fari að mestu leyti eftir almennum reglum, en þó er ljóst að a.m.k. fyrningarreglur verða með nokkuð öðrum hætti.

4.3 Breytt fyrirkomulag flutnings raforku um meginflutningskerfið.
    Iðnaðarráðherra láti kanna tæknilegar og fjárhagslegar forsendur fyrir breyttu fyrir komulagi á flutningi raforku um meginflutningskerfið, þar með talið stofnun sérstaks fyrir tækis um það sem nefna mætti Landsnet. Könnunin taki til þess hvar mörkin milli megin flutningskerfisins eða Landsnetsins og dreifiveitnanna skuli liggja til að rekstur kerfisins verði með sem skilvirkustum hætti og áhrif raflína á umhverfið eins takmörkuð og kostur er. Einnig skal skilgreina hlutverk Landsnetsins en verði það stofnað yrði því líklega meðal annars falið að annast áætlanagerð um raforkunotkun, rekstur flutningskerfisins og álagsstýringu. Félaginu yrði væntanlega einnig falið að tryggja lágmarksframboð raforku, afhendingaröryggi á afhendingarstöðum og gæði raforkunnar. Sömuleiðis yrði gert ráð fyrir að allir þeir sem fengju heimildir eða hafa heimildir til vinnslu raforku yrðu skyldaðir til að framleiða raforku inn á Landsnetið með það fyrir augum að stuðla að myndun virks markaðs með rafmagn. Gert er ráð fyrir að þessi vinna hefjist haustið 1997 og ljúki eigi síðar en á árinu 1999. Í framhaldi af úttektinni beiti iðnaðarráðherra sér fyrir viðræðum um stofnun Landsnetsins, verði það lagt til, milli þeirra raforkufyrirtækja sem eiga flutningskerfi sem lagt er til að falli til þess.
    Samhliða undirbúningi að breyttu fyrirkomulagi á flutningi raforku um meginflutnings kerfið þarf að móta stefnu um hvort verðjöfnun á raforku skuli eiga sér stað innan meginflutn ingskerfisins eða utan þess. Í þessu sambandi má benda á að við gerð gjaldskrár má sjá til þess að meginflutningskerfið eða Landsnetið taki við því hlutverki sem Landsvirkjun hefur nú varðandi jöfnun orkuverðs.

4.4 Raforkusala til stórra notenda.
    Skilgreindir verði áfangar í átt að frjálsum viðskiptum kaupenda og seljenda raforkunnar. Þannig verði stefnt að því að á árinu 1998 geti allir sem fá leyfi til að nýta orkulindirnar til raforkuvinnslu selt orkuna til nýrra fyrirtækja sem nota 50 GWh á ári eða meira og hugsanlega aðila sem hafa keypt ótryggt rafmagn. Áskilið er að samið verði um flutning orkunnar um Landsnetið sé þess þörf.
    Stefnt er að því að laða fram aukið eigið fé til framkvæmda við næstu stórvirkjanir í þágu stóriðju, á eftir þeim sem nú eru á lokastigi. Hugmyndir um stóriðju sem nú eru til umræðu kalla á miklar og kostnaðarsamar orkuframkvæmdir. Óvarlegt væri fyrir þjóðarbúið að taka erlend lán með ríkisábyrgð til að standa straum af kostnaði við þær fjárfestingar. Þá er eðlilegt að bæði orkuframkvæmdirnar og iðjuverin sem nýta orkuna standist arðsemiskröfur markaðarins með svipuðum hætti og aðrar fjárfestingar. Í því sambandi má hugsa sér að slíkar virkjanir verði á vegum sjálfstæðra hlutafélaga án beinnar ábyrgðar Landsvirkjunar eða eigenda hennar. Þess í stað verði leitað samstarfs við innlenda og erlenda áhættufjárfesta um fjárfestingar í orkuvinnslu vegna raforkusölu til nýrrar stóriðju en miðað við að Landsvirkjun geti fyrst um sinn verið stjórnunaraðili í slíkum verkefnum. Verkefnafjármögnun má skilgreina sem fjármögnun afmarkaðrar fjárfestingar með blöndu af lánsfé og eigin fé á grundvelli arðsemisáætlunar án beinnar ábyrgðar eigenda.

4.5 Raforkulög.
    Frumvarp til raforkulaga verði lagt fyrir Alþingi á árinu 1998. Í frumvarpinu verði almenn ákvæði um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu raforku en felldir úr gildi þeir kaflar orku laganna sem fjalla um raforkumál, kafli vatnalaga um vatnsorku, lög um raforkuver og sérlög um tiltekin raforkufyrirtæki. Tekið verði mið af stöðu könnunar á tæknilegum forsendum fyrir breyttu fyrirkomulagi á flutningi raforku um meginflutningskerfið (sbr. 4.3) og tilskipunar Evrópusambandsins um innri markað á sviði raforku.
    Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins geta ríkin valið milli útboðs og leyfisveitinga þegar ný orkuver eru reist. Ef ákveðið verður að beita leyfisveitingum ber ríkjunum að setja skilyrði fyrir veitingu slíkra leyfa. Skilyrðin geta meðal annars varðað öryggi og áreiðanleika raforkukerfisins, umhverfismál, landnotkun og staðarval, afnot af landi í almannaeign, orkunýtni, eðli orkulindanna og atriði er tengjast umsækjanda, svo sem tæknilegri og fjárhagslegri getu hans. Móta þarf slík skilyrði sem tryggi nauðsynlegan sveigjanleika til nýtingar orkulindanna með hliðsjón af einkennum vatnsorkunnar og jarðvarmans, sérkennum íslenska orkumarkaðarins, svo sem smæð hans og einangrun, og þess að stærri áfangar í uppbyggingu orkuvera munu tengjast stækkun orkufrekra iðjuvera eða byggingu nýrra. Ef útboðsleiðin er valin eiga ríkin að sjá til þess að gerðar verði spár um aukna þörf fyrir raf orkuvinnslu til langs tíma og byggja útboðin á þeim. Í þeim ríkjum sem velja útboðsleiðina eiga óháðir framleiðendur jafnframt að geta sótt um leyfi til raforkuvinnslu, enda fullnægi þeir þeim almennu skilyrðum sem sett verða.

4.6 Tenging raforkukerfisins við útlönd.

    Gengið verði til samstarfs við erlend orkufyrirtæki um athugun á því hvort hagkvæmt geti verið að tengja raforkukerfi landsins raforkukerfi Evrópu og þá hvaða tenging sé hagkvæmust og æskilegur áfangi skilgreindur. Sérstaklega verði kannað með hvaða hætti slík tenging geti orðið íslenska raforkukerfinu til góðs, aukið öryggi, bætt nýtingu virkjana, skapað sveigjanleika o.s.frv.
    Athugunin miðist við lagningu eins sæstrengs með svipaða flutningsgetu og þeir strengir sem reynsla er fengin af erlendis. Með henni verði jafnframt stefnt að því að hámarka gildi slíkrar tengingar fyrir íslenskan orkubúskap, en stefna til lengri tíma mótuð með hliðsjón af niðurstöðu athugunarinnar. Stefnt verði að því að taka frekari ákvarðanir um nýja áfanga fyrir árslok 2000.
    Í fylgiskjali III er gerð stutt grein fyrir stöðu þessa máls.

4.7 Orkufyrirtækjum í eigu ríkisins breytt í hlutafélög.
    Orkufyrirtækjum sem ríkið á eignarhlut í verði breytt í hlutafélög eigi síðar en á árinu 2003. Leitað verði eftir að fá nýja aðila, innlenda eða erlenda, til að fjárfesta í félögunum.

4.8 Orkumarkaður.
    Árið 2006 verði búið að innleiða samkeppni um orkuvinnslu til að mæta aukinni raf orkuþörf til almenningsnota. Árið 2009 verði búið að mynda markað með raforku. Frjáls samkeppni ríkir þá í viðskiptum með raforku.

5. Tímaáætlun.
    Á þessu stigi eru ekki forsendur til að gera nákvæma tímaáætlun um framgang þeirra verk efna sem iðnaðarráðherra yrðu falin með samþykkt þessarar tillögu. Þeirri tímaáætlun sem hér er sett fram er fyrst og fremst ætlað að gefa hugmynd um hversu langan tíma ætla má að þurfi til að leysa þessi verkefni með skilvirkum hætti og í áföngum sem veitir raforkufyrirtækjunum og orkunotendum nauðsynlegt svigrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum.

1997–1998.
*      Vinnsla og flutningur bókhaldslega aðskilin í starfsemi Landsvirkjunar.
*      Vinna hefjist við aðskilnað vinnslu, flutning, dreifingu og sölu í bókhaldi annarra raforkufyrirtækja.
*      Vinna hefjist við könnun á tæknilegum og fjárhagslegum forsendum fyrir breyttu fyrirkomulagi á flutningi raforku um meginflutningskerfið.
*      Vinna hefjist við hagkvæmnisathugun á lagningu sæstrengs.
*      Samkeppni um orkuvinnslu og orkusölu til einstakra endanlegra notenda sem kaupa meira en 50 GWh á ári innleidd.
*      Frumvarp til raforkulaga lagt fyrir Alþingi.

1999–2000.
*      Stjórnskipulagi orkufyrirtækja breytt og arðstefna þeirra mótuð.
*      Skilið milli vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu rafmagns í bókhaldi.
*      Úttekt liggi fyrir um tæknilegar og fjárhagslegar forsendur fyrir breyttu fyrirkomulagi á flutningi raforku um meginflutningskerfið. Í framhaldi af því hefjist viðræður milli eigenda flutningsmannvirkja sem í hlut eiga.

2001–2003.
*      Niðurstöður liggi fyrir um tæknilega og fjárhags- og umhverfislega kosti og galla við að tengja íslenska raforkukerfið raforkukerfi Evrópu. Í ljósi þeirra verði teknar ákvarðanir um hvort og þá hvernig verkefninu verður fram haldið.
*      Breytingar á fyrirkomulagi flutnings raforku (stofnun Landsnets) komi til framkvæmda samhliða breytingu á sameignarsamningi um Landsvirkjun.
*      Raforkufyrirtækjum sem ríkið á eignarhlut í verði breytt í hlutafélög.

2004–2006.
    Samkeppni til að mæta aukinni raforkuþörf til almenningsnota verði komin til framkvæmda eigi síðar en árið 2006.

2006–2009.
    Markaður um raforku taki til starfa eigi síðar en árið 2009.



Fylgiskjal I.


Skýrsla orkunefndar um framtíðarskipan orkumála.



(110 síður.)




Fylgiskjal II.


Skýrsla eigendanefndar Landsvirkjunar.



(14 síður.)




Fylgiskjal III.


Greinargerð um útflutning raforku um sæstreng.



(3 síður.)