Ferill 255. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 312 – 255. mál.



Beiðni um skýrslu



frá forsætisráðherra um stöðu eldri borgara hérlendis og erlendis.

Frá Ágústi Einarssyni, Rannveigu Guðmundsdóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur,


Gísla S. Einarssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur, Jóni Baldvini Hannibalssyni,


Lúðvík Bergvinssyni, Petrínu Baldursdóttur, Sighvati Björgvinssyni,


Svanfríði Jónasdóttur og Össuri Skarphéðinssyni.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu eldri borgara og samanburð við önnur ríki OECD.
    Í skýrslunni komi m.a. fram upplýsingar um eftirtalin atriði miðað við stöðu hérlendis borið saman við önnur ríki OECD:
     1.      Hver er aldursdreifing landsmanna og hver er líkleg þróun hennar?
     2.      Hver er dreifing hjúskaparstöðu eldri borgara og hverjar eru lífslíkur þeirra?
     3.      Hver er eftirlaunaaldur hérlendis og erlendis flokkað eftir atvinnugreinum og hver er atvinnuþátttaka fólks 50–67 ára annars vegar og 67 ára og eldri hins vegar?
     4.      Hver eru heildarútgjöld opinberra aðila og annarra til aldraðra sem hlutfall af landsframleiðslu, hver er hlutur hins opinbera og hvernig hefur þróunin verið síðustu tíu ár?
     5.      Hver er skattbyrði aldraðra á mann og hver hefur þróunin verið síðustu tíu ár?
     6.      Hvernig er háttað greiðslum opinberra aðila til aldraðra vegna lífeyristrygginga, m.a. ellilífeyrir, örorkulífeyrir, makalífeyrir og tekjutrygging, svo og slysatrygginga og sjúkratrygginga og hvert er framlag ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu til framan greindra þátta?
     7.      Hversu hátt hlutfall af framfærslukostnaði er grunnlífeyrir og tekjutrygging og hvernig er háttað tekjutengingu greiðslna úr almannatryggingakerfi?
     8.      Hversu margir ellilífeyrisþegar eiga einungis rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun eða sambærilegum opinberum aðilum?
     9.      Hversu stór þáttur eru greiðslur úr lífeyrissjóðakerfi eða öðrum sparnaðarformum til eldri borgara í samanburði við greiðslur úr almannatryggingakerfi og hvernig er háttað skattskyldu lífeyrisgreiðslna? Hver hefur þróunin verið síðustu tíu ár í þessu tilliti?
     10.      Hvernig er félagslegri aðstoð til eldri borgara háttað og hversu háu hlutfalli af landsframleiðslu er varið til þessa?
     11.      Hver er tekjudreifing og eignadreifing eldri borgara í samanburði við aðra aldurshópa?
     12.      Hvernig er háttað vistun eldri borgara á heilbrigðis- og/eða öldrunarstofnunum og hversu hátt hlutfall aldraðra býr langdvölum á öldrunarstofnunum?
     13.      Hver er þáttur hins opinbera í greiðslum fyrir vistun eldri borgara á heilbrigðisstofnunum og hversu hárri fjárhæð heldur einstaklingurinn eftir af eigin lífeyri?
     14.      Hver er opinber aðstoð við aldraða sjúklinga í heimahúsum, svo sem félagsleg aðstoð og heimahjúkrun?
     15.      Í hverju felast valkostir aldraðra í öldrunarþjónustu og hver ber ábyrgð á þeim, hvernig eru þeir kynntir og hver ber ábyrgð á slíkri kynningu?
     16.      Hvernig er fjármögnun á rekstri öldrunarstofnana og greiðsluþátttaka aldraðra íbúa þeirra?
     17.      Hver er þátttaka sjúkratrygginga í lyfja- og lækniskostnaði og sjúkraþjálfun ellilífeyrisþega og hver er hlutur ellilífeyrisþegans?
     18.      Hvaða aðstoð veita sveitarfélög eldri borgurum, t.d. í formi lækkunar gjalda?
     19.      Hvernig er háttað aðstoð við eldri borgara til að fara úr launuðu starfi á eftirlaun?
     20.      Hvaða rétt eiga þeir sem minnka við sig vinnu eða hætta vinnu til að annast maka sinn?
     21.      Hvaða rétt eiga aðrir ættingjar (börn) sem minnka við sig vinnu eða hætta vinnu til að annast aldraða ættingja?
     22.      Hvernig er háttað ákvörðunum um hækkun greiðslna úr almannatryggingakerfi?
     23.      Hver eru áhrif eldri borgara eða samtaka þeirra á ákvarðanir eða stefnumótun opinberra aðila?
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á Alþingi þegar henni hefur verið útbýtt meðal þingmanna.

Greinargerð.


    Skýrslubeiðendur, þingflokkur jafnaðarmanna, telja brýnt að afla ítarlegra upplýsinga um stöðu aldraðra hérlendis í samanburði við önnur ríki OECD þannig að umræðan um málefni aldraðra verði ítarlegri og yfirgripsmeiri.
    Öldruðum sem hlutfalli af þjóðinni fjölgar mikið. Nú eru um 27.000 manns yfir 67 ára aldri eða um 10% af þjóðinni. Eftir um 30 ár mun fjöldi aldraðra tvöfaldast og þeir verða tæplega 20% þjóðarinnar. Nú eru um fimm vinnandi einstaklingar á móti hverjum ellilífeyr isþega en árið 2030 er talið að þeir verði þrír á móti hverjum ellilífeyrisþega.
    Í Staðtölum almannatrygginga 1996, sem voru lagðar fram á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins 30. október 1997, kemur fram að heildarútgjöld (opinberir aðilar og aðrir, þar með taldir lífeyrissjóðir) til aldraðra og öryrkja sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru lang lægst hérlendis af Norðurlöndum eða 7,7% (Danmörk 15,8%, Finnland 15,2%, Noregur 13,0% og Svíþjóð 17,5%).
    Heildarútgjöld (opinberir aðilar og aðrir, þar með taldir lífeyrissjóðir) til félags- og heil brigðismála á Norðurlöndum 1995 sem hlutfall af landsframleiðslu eru einnig langlægst hér lendis eða 19% (Danmörk 34%, Finnland 33%, Noregur 27%, Svíþjóð 36%).
    Í ljósi þess að hvert prósentustig í landsframleiðslu samsvarar yfir 5 milljörðum kr. er augljóst að brýnt er að fá nákvæma úttekt á stöðu aldraðra í alþjóðlegu samhengi.
    Skýrslubeiðninni er beint til forsætisráðherra þar sem spurt er um málaflokka sem spanna heilbrigðismál, félagsmál, ríkisfjármál og hagsýslu.
    Í skýrslubeiðninni er m.a. farið fram á að leitað sé svara um aldursdreifingu, hjúskapar stöðu, lífslíkur, eftirlaunaaldur erlendis, framlög ríkisins til aldraðra, skattbyrði, tekjuteng ingu, fjölda ellilífeyrisþega og samspil almannatryggingakerfis og lífeyrissjóða.
    Jafnframt er óskað upplýsinga um umfang félagslegrar aðstoðar, aðstoð sveitarfélaga, tekjudreifingu, aðgang að heilbrigðiskerfi, aðstoð í heimahúsum, öldrunarþjónustu, greiðslur sjúkratrygginga og sveitarfélaga, aðstoð við starfslok, rétt ættingja, fyrirkomulag við breyt ingar á greiðslum og áhrif eldri borgara á ákvarðanir og stefnumótun.
    Allar upplýsingar í skýrslunni eiga að beinast að samanburði við önnur ríki OECD og jafnframt skal leitast við að sýna þróun yfir lengra tímabil eftir því sem við verður komið. Þingflokkur jafnaðarmanna er þess fullviss að skýrslan muni gagnast vel í nauðsynlegri um ræðu um stefnumótun í málefnum aldraðra.