Ferill 257. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 314 – 257. mál.



Beiðni um skýrslu



frá fjármálaráðherra um launaþróun hjá ríkinu með tilliti til launamunar milli karla og kvenna.

Frá Kristínu Ástgeirsdóttur, Ágústi Einarssyni, Steingrími J. Sigfússyni,


Kristínu Halldórsdóttur, Össuri Skarphéðinssyni, Svanhildi Kaaber,


Guðmundi Lárussyni, Petrínu Baldursdóttur,     Guðnýju Guðbjörnsdóttur


og Sigríði Jóhannesdóttur.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um þróun launamála hjá ríkinu undanfarin tvö ár. Í skýrslunni komi m.a. fram til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að draga úr launamisrétti kynjanna, hvort þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið á undanförnum tveimur árum hafa dregið úr launamun milli kynjanna og í hve ríkum mæli, hvort launakerfið er orðið gagnsærra og hvort eða hvern ig þær nýjungar sem kveðið er á um í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafa skilað sér til kvenna í bættum launum og stöðuhækkunum.

Greinargerð.


    Í fyrri hluta frumvarps til fjárlaga fyrir árið 1998 er fullyrt að í þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á vegum ríkisins á undanförnum árum hafi laun svokallaðra kvennastétta hækkað umfram laun annarra. Þar segir einnig: „Auk lögbundinna jafnréttisáætlana hefur verið unnið að því að styrkja stöðu kvenna í störfum hjá ríkinu, meðal annars með því að upplýsa stjórnendur um hvernig megi breyta viðhorfum sem hafa haldið við launamun milli kynjanna.“
    Það er ósk skýrslubeiðenda að fjármálaráðherra geri Alþingi grein fyrir:
a.      um hve miklar hækkanir er að ræða á tveggja ára tímabili,
b.      hvernig þessar hækkanir skiptast milli grunnlauna og annarra greiðslna,
c.      hvaða stéttir eiga í hlut,
d.      hvernig unnið hefur verið að því að breyta viðhorfum stjórnenda ríkisstofnana til launamisréttis kvenna og karla,
e.      hvaða árangur hefur náðst í að draga úr launamisrétti milli þeirra karla og kvenna sem vinna hjá ríkinu,
f.      hvaða árangri aðgerðir fjármálaráðherra hafa skilað í stöðuhækkunum til kvenna eða til að auka hlut þeirra í hópi embættismanna ríkisins,
g.      hvaða frekari aðgerðir eru fyrirhugaðar til að draga úr launamun milli kynjanna og til að leiðrétta kjör svokallaðra kvennastétta, einkum þeirra sem vinna hin mikilvægu umönn unarstörf.