Ferill 275. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 345 – 275. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    2.–6. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að flytja veiðileyfi, skv. 1. mgr., til annars jafnstórs skips, miðað við rúmtölu, enda hafi rétti til endurnýjunar ekki verið afsalað. Þá er og heimilt að sameina veiðileyfi tveggja eða fleiri skipa eða skipta veiðileyfi eins skips til tveggja eða fleiri skipa, enda sé rúmtala þess eða samtala rúmtalna þeirra skipa, sem veiðileyfi fá, ekki hærri en rúmtala þess eða þeirra, sem veiðileyfi láta. Aðeins er þó heimilt að flytja veiðileyfi frá báti, sem hefur leyfi til línu- og færaveiða, sbr. 6. gr., til báts, sem er helmingi minni að rúmtölu en sá bátur sem veiðileyfi lætur. Hafi bátur verið dæmdur óbætandi vegna sjótjóns má þrátt fyrir 3. málsl. þessarar mgr. flytja veiðileyfi þess báts til annars jafnstórs báts miðað við rúmtölu.
    Hafi skip haft leyfi til veiða með aflamarki í a.m.k. sjö ár er heimilt að flytja veiðileyfi þess til annars skips, sem er allt að 100 rúmmetrum stærra, að viðbættum 25%, en þó aldrei meira en 60% stærra en skip það er veiðileyfi lætur. Heimild til að flytja veiðileyfi á skip, sem er stærra en skip það er veiðileyfi lætur, á aðeins við þegar eitt skip kemur kemur í stað eins eða fleiri skipa og takmarkast við stærsta skipið af þeim sem veiðileyfi láta.
    Óheimilt er að gera breytingar á skipi, sem hefur leyfi til veiða með aflamarki, þannig að rúmtala þess aukist nema flutt sé veiðileyfi af öðru skipi eða skipum, sem eru jafnstór að rúmtölu og sem stækkuninni nemur. Þó er heimilt að breyta skipi, sem hefur haft leyfi til veiða með aflamarki í a.m.k. sjö ár, þannig að rúmtala þess aukist, hafi slíkar breytingar ekki verið gerðar á síðustu sjö árum, enda aukist rúmtala þeirra ekki um meira en 100 rúmmetra að viðbættum 25% en þó aldrei um meira en 60%.
    Óheimilt er að gera breytingar á báti sem hefur leyfi til línu- og færaveiða, sbr. 6. gr., nema flutt sé veiðileyfi af öðrum báti sem er helmingi stærri að rúmtölu en sem stækkuninni nemur. Slíkum báti má þó aldrei breyta svo að hann verði stærri en sex brúttótonn.
    Rúmmetrar sem ekki nýtast við flutning veiðileyfa milli skipa eða vegna stækkana falla niður. Ráðherra skal setja nánari reglur um endurnýjun fiskiskipa.

2. gr.

    Eftirfarandi breyting verður á 1. mgr. 11. gr. laganna:
    Orðin „2. mgr.“ í 1. málsl. falla brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða
I

    Breytingar á skipum sem stunda veiðar með aflamarki og leyfi fengu til veiða í atvinnuskyni fyrir 1. janúar 1986, skulu heimilar, þrátt fyrir ákvæði 1. gr., hafi samningar þar um verið gerðir fyrir og skilað til Fiskistofu innan fjögurra vikna frá gildistöku laga þessara. Breytingum skal þá lokið í síðasta lagi innan 14 mánaða frá gildistöku laganna. Slíkar breytingar skulu ekki lagðar til grundvallar mati á stærð skips við endurnýjun skipsins síðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Almennar athugasemdir

    Það frumvarp sem hér er flutt byggir á niðurstöðum starfshóps sem sjávarútvegsráðherra skipaði 20. janúar sl. til þess að fjalla um endurnýjunarreglur fiskiskipa. Meginverkefni hópsins var samkvæmt skipunarbréfi að gera tillögur um breytingar á endurnýjunarreglum fiskiskipa, m.a. til samræmingar á þeim reglum sem gilda annars vegar um breytingar og hins vegar um nýsmíði. Skýrsla hópsins ásamt bréfi til sjávarútvegsráðherra og drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, varðandi endurnýjunarreglurnar, eru prentuð sem fylgiskjöl með þessu frumvarpi.
    Skoðanir manna um það málefni sem hér er til umræðu eru og hafa verið mjög skiptar. Sumir telja ýmiss konar flotastýringu mikilvægt tæki við fiskveiðistjórnun, en aðrir telja að a.m.k. þar sem veiðum sé stýrt með magntakmörkunum á borð við íslenska aflahlutdeildar kerfið sé engin þörf á slíkum fjárfestingarhöftum. Má telja víst að síðara sjónarmiðinu hafi verið að vaxa fiskur um hrygg, enda hefur það mjög sýnt sig á síðustu misserum að útgerðir hafa verið að draga úr útgerðarkostnaði, m.a. með fækkun skipa. Menn hafa þó talið óráðlegt að víkja alveg frá þessum reglum af hagkvæmnisástæðum. Má þar nefna hugsanlega hættu á auknum þrýstingi fyrir hærri heildaraflaákvörðun og ýmis eftirlitsvandamál, en skip sem ekki hafa aflaheimildir í samræmi við afkastagetu sína geta skapað aukna hættu á brottkasti og/eða löndun framhjá vigt.
    Starfshópur sá sem skipaður var endurspeglaði vel helstu sjónarmið sem uppi hafa verið, en engu að síður varð einróma niðurstaða innan hópsins að leggja til að það skref til rýmkunar og samræmingar yrði stigið, sem þetta frumvarp felur í sér.
    Það frumvarp sem hér er flutt er efnislega samhljóða því frumvarpi sem starfshópurinn skilaði til sjávarútvegsráðherra, en á því hafa verið gerðar nokkrar breytingar varðandi uppsetningu og orðalag. Frumvarpið leggur til tvær meginbreytingar frá núgildandi reglum. Í fyrsta lagi að öll skip sem hafa leyfi til að veiða með aflamarki megi stækka nokkuð við endurnýjun og breytingu og er þar byggt á þeirri reglu sem gilti um stækkanir skipa til ársins 1991, og í öðru lagi að sérstök undaþága frá endurnýjunarreglum vegna breytinga á skipum skráðum fyrir 1. janúar 1986, verði afnumin með 14 mánaða aðlögunartíma.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í þessari grein koma fram efnis- og orðalagsbreytingar á 2. mgr. 5. gr. núgildandi laga. Ástæða þótti til að skipta 2. mgr. 5. gr. upp í fleiri málsgreinar þar sem hún spannar vítt svið, en málsgreinin tekur bæði til skipa sem stunda veiðar með aflamarki og krókabáta, sbr. 6. gr. laganna, og bæði til breytinga á eldra skipi og kaupa á nýju eða notuðu skipi.
    Í 1. mgr. er ekki að finna efnislegar breytingar á núgildandi lögum. Orðalagi var þó breytt í þeim tilgangi að gera málsgreinina skýrari. Í 2. mgr. kemur fram efnisleg breyting á núgildandi lögum. Lagt er til að heimilt sé að endurnýja skip með þeim hætti að skip það sem veiðileyfi fær sé stærra í rúmmetrum talið en skip það sem veiðileyfi lætur. Heimildin er takmörkuð við skip sem hafa haft leyfi til að veiða með aflamarki í a.m.k. sjö ár. Þá er möguleg stækkun takmörkuð við 100 rúmmetra að viðbættum 25% af rúmmetrafjölda þess skips er veiðileyfi lætur. Skip það er veiðileyfi fær má þó aldrei vera meira en 60% stærra en skip það sem veiðileyfi lætur. Reglunni svipar um flest til þeirrar reglu er gilti til ársins 1991. Þá var þó miðað við 12 ára tímabil og einnig að ef fleiri en eitt skip létu veiðileyfi til eins skips, þá legðust 100 rúmlestir við samtölu þeirra, sem síðan mætti allt stækka um 25%, þó að hámarki um 60% alls, en nú er miðað við að einungis stærsta skipið af fleirum njóti stækkunarreglunnar. Ef skip stækkar meira en stækkunarreglan gerir ráð fyrir er ekkert því til fyrirstöðu að kaupa viðbótarrúmlestir með sama hætti og verið hefur og kemur þá rúmlest á móti rúmlest. Þótt stækkunarreglan eigi aðeins við þegar eitt skip kemur í stað eins eða fleiri skipa er ekkert því til fyrirstöðu að veiðileyfi þess skips sem viðbótarrúmlestir lætur sé skipt á fleiri en eina stækkun, en það veiðileyfi yrði þá sjálft ekki grundvöllur stækkunar. Ávallt er horft til þess skips sem veiðileyfi er flutt frá þegar einstök tilvik eru metin og þess veiðileyfis sem þar er um að ræða.
    Þótt lík regla og hér er lagt til að verði lögleidd, hafi áður verið við lýði á grundvelli reglugerðar eða til ársins 1991, er nú talið algerlega nauðsynlegt að slík heimild komi fram í lögunum sjálfum en sé ekki andlag reglugerðarsetningar.
    Í 3. mgr. er lagt til að sú regla sem gildir um stækkun skipa sem stunda veiðar með aflamarki, taki einnig til breytinga á slíkum skipum, en sérreglur þar um verði felldar úr gildi. Sú regla sem gildir um þær stækkanir, að þær verði ekki lagðar til grundvallar við stækkun skipsins síðar, héldi sér að sjálfsögðu gagnvart þeim breytingum sem eiga stoð í þessari sérreglu, þótt hún yrði numin úr gildi.
    Í 4. mgr. koma fram reglur sem gilda eiga um breytingu krókabáta og fela þær ekki í sér efnislegar breytingar frá núgildandi lögum.
    Í 5. mgr. er lagt til að rúmmetrar sem ekki nýtast við flutning veiðileyfa milli skipa eða vegna stækkana falli niður en slíkt ákvæði hefur aðeins verið að finna í reglugerð.

Um 2. gr.

    Þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Rétt er talið að gefa þeim útgerðum ákveðinn aðlögunartíma, sem rétt hafa til stækkunar með breytingu á skipum, samkvæmt sérreglum um breytingar á skipum sem skráð voru fyrir 1. janúar 1986, sem nú er að finna í 2. mgr. 5. gr. laganna en í frumvarpinu er gerð tillaga um að hún falli úr gildi. Varð samstaða um það í starfshópnum sem um þetta fjallaði að miða við þá tímafresti sem hér eru lagðir til og eru skilyrðin í bráðabirgðaákvæðinu hefðbundin og í samræmi við það sem tíðkast hefur þegar reglum af þessu tagi hefur verið beitt.



Fylgiskjal I.


Hr. sjávarútvegsráðherra
Þorsteinn Pálsson
Sjávarútvegsráðuneytinu
Skúlagötu 4
150 Reykjavík
2. október 1997


    Hér með fylgir álit og tillögur starfshóps, sem sjávarútvegsráðherra skipaði 20. janúar s.l. til að fjalla um endurnýjunarreglur fiskiskipa.

    Verkefni starfshópsins var samkvæmt skipunarbréfi að gera tillögur um breytingar á endurnýjunarreglum fiskiskipa, m.a. til samræmingar á þeim reglum sem gilda annars vegar um breytingar og hins vegar um nýsmíði. Ennfremur skyldi starfshópurinn leggja mat á kosti þess og galla að heimila almennt ákveðna stækkun skipa við endurnýjun, án þess að sami rúmmetrafjöldi væri tekinn úr rekstri, þ.á m. hugsanleg áhrif á umgengni við nytjastofna sjávar og þróun fiskvinnslu. Þá átti starfshópurinn að huga að reglum um meðferð endurnýjunar heimilda, t.d. varðandi tímabundna geymslu og í sambandi við ýmis áhrif endurnýjunar á úthlutun aflaheimilda á grundvelli veiðireynslu.
    Álit starfshópsins kemur annars vegar fram í meðfylgjandi skýrslu og hins vegar í meðfylgjandi drögum að frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Samkomulag er innan starfshópsins um þær tillögur sem frumvarpið felur í sér.

Virðingarfyllst,



Ari Edwald


(sign)


Einar Oddur Kristjánsson


(sign)


Gunnar I.Hafsteinsson


(sign)


                        

Kristján Pálsson


(sign)


Sigurður Einarsson


(sign)


Stefán Guðmundsson


(sign)






Fylgiskjal II.


Skýrsla starfshóps um endurnýjunarreglur fiskiskipa
2. október 1997



Efnisyfirlit:
I.         Inngangur          
II.     Um viðfangsefnið          
III.     Helstu breytingar á endurnýjunarreglum undanfarin ár          
IV.     Tillögur að frekari breytingum          
V.         Tillögur nefndarinnar          


I.     Inngangur
    Með bréfi dags. 20. janúar 1997 skipaði sjávarútvegsráðherra starfshóp um endurnýjunarreglur fiskiskipa. Í starfshópinn voru skipaðir: Ari Edwald aðstoðarmaður ráðherra, formaður, Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, Gunnar I. Hafsteinsson út gerðarmaður, Kristján Pálsson alþingismaður, Sigurður Einarsson útgerðarmaður og Stefán Guðmundsson alþingismaður. Ritari nefndarinnar var Auðunn Ágústsson frá Fiskistofu.
    Verkefni starfshópsins var samkvæmt skipunarbréfi að gera tillögur um breytingar á endurnýjunarreglum fiskiskipa, m.a. til samræmingar á þeim reglum sem gilda annars vegar um breytingar og hins vegar um nýsmíði. Ennfremur skyldi starfshópurinn leggja mat á kosti þess og galla að heimila almennt ákveðna stækkun skipa við endurnýjun, án þess að sami rúm metrafjöldi sé tekinn úr rekstri, þ.á m. hugsanleg áhrif á umgengni við nytjastofna sjávar og þróun fiskvinnslu. Þá væri nauðsynlegt að starfshópurinn hugaði sérstaklega að reglum um meðferð endurnýjunarheimilda, t.d. varðandi tímabundna geymslu og í sambandi við ýmis áhrif endurnýjunar á úthlutun aflaheimilda á grundvelli veiðireynslu.

II.     Um viðfangsefnið
    Nefndarmenn voru sammála um að ekki væri hægt að hafa sérstakar endurnýjunarreglur fyrir einstaka skipaflokka heldur yrði að líta á fiskiskip með veiðileyfi í íslensku fiskveiðilög sögunni sem eina heild. Notkunarmöguleikar skipa, með og án ýmiss konar breytinga, eru ein faldlega fjölbreyttari en svo að hægt sé eða æskilegt að fylgjast með notkun þeirra og t.d. tilurð fyrri stækkunar er til frekari endurnýjunar kemur. Þetta er sérstaklega skýrt eftir að svokölluð jafngildisregla var numin úr gildi, en sú regla gerði ráð fyrir að togari kæmi í stað togara og svo framvegis.
    Ennfremur voru menn sammála um að ekki væri hægt að leggja til skilyrtar stækkunar heimildir, þannig að skip mætti einungis stækka án þess að samsvarandi rúmmetrar hyrfu úr rekstri ef tiltekinn rökstuðningur væri fyrir hendi. Hér undir kæmi t.d. stækkun vegna tækja til að kæla hráefni, endurbóta á vistarverum o.fl. Það er talið ókleift að framfylgja slíkum reglum um verðugar og óverðugar stækkanir og viðbúið að bygging skipa lagaði sig að slíkum reglum á kostnað sjóhæfni.
    Loks voru menn sammála um að sú mismunun sem fælist í núgildandi reglum á milli breytinga og nýsmíði ætti ekki rétt á sér.


III.     Helstu breytingar á reglum um endurnýjun fiskiskipa frá 1991
    Það athugist að í þessum kafla er til einföldunar rætt um reglugerðarbreytingar en ekki lagabreytingar sérstaklega. Ástæðan er sú að kaflanum er ætlað að gefa lauslegt yfirlit um þær efnisreglur sem gilt hafa á þessu sviði og reglugerðarákvæðin eru ítarlegri.

Aflamarksskip

Endurnýjun skipa.
    Í reglugerð nr. 465/1990, um veiðar í atvinnuskyni 1991/1991 voru ákvæði um endurnýjun fiskiskipa á þann hátt, að nýja skipið mátti ekki vera stærra en úrelta skipið í rúmmetrum talið, með undantekningu fyrir skip eldri en 12 ára. Ef það skip sem hvarf úr rekstri var eldra en 12 ára mátti rúmtala hins nýja skips vera 100 rúmmetrum stærra en það skip sem veiðileyfi lét auk 25% álags á þá samtölu. Rúmtala nýja skipsins mátti aldrei vera meira en 60% hærri en rúmtala þess skips sem hvarf úr rekstri, en þó mátti nýja skipið ætíð vera 5 rúmmetrum stærra en gamla skipið. Heimilt var að úrelda tvö eða fleiri skip fyrir eitt.
    Heimild var til raðsmíði þriggja eða fleiri systurskipa gegn úreldingu jafn margra skipa, og fékkst þannig fram samnýting á rúmmetrum.
    Nýjum skipum var aðeins veitt veiðileyfi með því skilyrði að þau skip sem hyrfu úr rekstri væru strikuð af skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins og þeim eytt eða þau seld úr landi.
    Með reglugerð nr. 367/1991, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1991/1992 var stækkunarmöguleikinn numinn úr gildi, og einnig samnýting rúmmetra með systurskipareglu.

    Í reglugerð nr. 290/1992, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1992/1993 var leyfilegt að taka allt að þrjú skip úr rekstri fyrir eitt nýtt en þá þurfti eitt hinna úreltu skipa að vera a.m.k. 70% af rúmtölu nýja skipsins. Frá 70% ákvæðinu mátti víkja ef ætla mátti að sóknargetan ykist ekki við skiptin.
    Endurnýjunarreglur voru óbreyttar í reglugerð nr. 274/1993, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1993/1994.
    Með reglugerð nr. 405/1994, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1994/1995 var fallið frá að eyða úreltu skipi eða selja það úr landi, en nýjum skipum aðeins veitt veiðileyfi með því skilyrði, að þau skip sem veiðileyfi létu, hyrfu varanlega úr rekstri, og væru tekin af skipaskrá eða útgerð skipsins óskaði skriflega eftir því að veiðileyfi væri varanlega flutt til annars skips. Ef veiðileyfi hafði verið flutt af skipi var aðeins heimilt að flytja til þess veiðileyfi að nýju að sambærilegt skip léti til þess veiðileyfi. Jafnframt var gefin heimild til að flytja veiðileyfi eins skips til tveggja eða fleiri skipa.
     Reglugerð nr. 406/1995, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1995/1996 er óbreytt, og í reglugerð nr. 362/1996, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1996/1997 er fallið frá 70% reglunni og heimilað að flytja veiðileyfi ótakmarkaðs fjölda skipa til skips er veiðileyfi hlýtur.

Breytingar aflamarksskipa.
    Reglur um breytingar á aflamarksskipum hafa að mestu verið óbreyttar allan þennan tíma. Óheimilt að breyta skipum, sem fengu veiðileyfi í fyrsta sinn eftir 1. jan. 1986, þannig að rúmtala þeirra aukist, án þess að flutt sé veiðileyfi og samsvarandi rúmtala frá öðru(m) skipum á móti stækkuninni. Skip frá því fyrir 1. janúar 1986 hafa haft óhefta stækkunarheimild, en endurnýjunarstærð þessara skipa var í upphafi takmörkuð við stærð þeirra 1. janúar 1985. Þessi takmörkun var síðan felld niður, en tekin upp aftur og miðast nú við stærð þeirra 21. júní 1995.

Krókabátar
    Allt frá gildistöku reglugerðar nr. 465/1990, um veiðar í atvinnuskyni 1991/1991 og út gildistíma reglugerðar nr. 405/1994, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1994/1995 voru reglur um endurnýjun og breytingar á krókabátum óbreyttar.
    Fyrir ný skip þurfti að úrelda rúmmetra á móti rúmmetra, og nýr bátur varð að vera minni en 6 brúttótonn.
    Ekki þurfti að flytja veiðileyfi á móti stækkun krókabáts nema veiðileyfi krókabátsins hefði verið flutt til hans af öðrum báti (þ.e. alla krókabáta, sem veiðileyfi fengu 1. janúar 1991 eða fyrr, mátti stækka. Báta, sem komu eftir þann tíma, mátti ekki stækka nema veiðileyfi væri flutt á móti stækkuninni). Aldrei mátti stækka krókabáta þannig að þeir yrðu stærri en 6 brúttótonn.
    Með reglugerð nr. 406/1995, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1995/1996 var reglum um krókabáta breytt, og eru þær reglur óbreyttar í dag.
    Við endurnýjun krókabáta þarf að flytja tvo rúmmetra á móti einum í nýjum báti. Undantekning frá þessari reglu er gerð ef um er að ræða endurnýjun vegna báts sem dæmdur er óbætandi vegna sjótjóns. Ennfremur er aldrei heimilt að flytja krókaleyfi til báts, sem er 6 brúttótonn eða stærri.
    Allar stækkanir krókabáta eru óheimilar nema gegn flutningi á tvöfalt fleiri rúmmetrum en viðkomandi bátur stækkar um. Krókabátur má aldrei vera stærri en 6 brúttótonn eftir stækkun.

IV.     Tillögur að frekari breytingum
    Margar tillögur hafa komið fram um frekari breytingar á þeim reglum sem gilda um endurnýjun fiskiskipa. Hér á eftir er reynt að fjalla lítillega um kosti og galla þeirra helstu:

    1.    Sérstakar endurnýjunarreglur felldar úr gildi, fjöldi og stærð skipa gefin frjáls.
    Meginrökin fyrir tillögunni eru að veiðitakmarkanir aflahlutdeildarkerfisins séu nægjanlegar og menn eigi sjálfir að bera ábyrgð á áætlunum um rekstrarhæfi fjárfestinga sinna. Brottfall sérstaks endurnýjunarkostnaðar greiði fyrir endurnýjun flotans með nýrri og öruggari og fullkomnari skipum, þar sem aðstaða sé til betri hráefnismeðferðar og vöruvöndunar, auk betri aðbúnaðar fyrir sjómenn. Tækifæri geti runnið Íslendingum úr greipum vegna hamlandi áhrifa núverandi endurnýjunarreglna.
    Á móti er sagt að ef fallið yrði frá þeirri stefnu að halda í við heildarafkastagetu veiðiflotans innan landhelginnar, geti afkastageta flotans færst fjær afrakstursgetu stofnanna en nú er. Það geti leitt til þrýstings á hærri heildaraflaákvörðun, hætta geti aukist á brottkasti ef mikið er um kvótalítil skip og tilhneiging til að landa framhjá vigt verði meiri. Sérstakt vandamál skapist vegna veiða úr stofnum sem ekki hefur verið úthlutað aflahlutdeild í, en þar ber einkum að nefna norsk-íslenska síldarstofninn á yfirstandandi ári.

    2.    Heimila ákveðna stækkun (15–25%) allra fiskiskipa með vissu millibili.
    Þeirri takmörkun sem felst í núverandi reglum væri þá að hluta til aflétt og sennilegt er að rúmmetraverð myndi lækka enn frekar, en það er þegar farið að lækka frá því sem hæst var vegna aukins framboðs. Sérstakur endurnýjunarkostnaður gæti því lækkað umtalsvert.
    Þessi stækkunarheimild er hins vegar ávísun á meira en 100 þúsund rúmmetra heildarstækkun fiskiskipaflotans ef allir stækkuðu einu sinni. Heildarrúmmetrafjöldi fiskiskipa með veiðileyfi er um fimm hundruð þúsund.

    3.    Heimila tiltekna stækkun vegna aukinnar sjóhæfni.
    Því hefur verið haldið fram að gildandi endurnýjunarreglur geti staðið nauðsynlegum úrbótum á sjóhæfni skipa fyrir þrifum. Mörg skip standist ekki núgildandi kröfur um stöðugleika og tilslökun varðandi þetta gæti greitt fyrir úrbótum.
    Hér á það hins vegar við eins og áður er rakið, að mjög örðugt er að sníða reglur um endurnýjun að einhverjum sérstökum tilefnum. Ennfremur liggur ekkert fyrir um að gildandi endurnýjunarreglum sé um það að kenna að stöðugleika sé áfátt. Starfshópurinn fékk fulltrúa Siglingastofnunar á sinn fund og aflaði ýmissa tölulegra upplýsinga um þessi mál. Kom m.a. fram að athugasemdir um sjóhæfni áttu ekki síður við skip sem undanþegin eru gildandi endurnýjunarreglum við breytingar og einnig var til að ákveðnar breytingar á skipum voru heimilaðar af siglingayfirvöldum, en leiddu síðar til athugasemda um skerta sjóhæfni.

    4.    Afnema sérreglu um breytingu skipa skráðra fyrir 1. janúar 1986.
    Skip sem skráð eru fyrir 1. janúar 1986 sæta í raun engum stækkunartakmörkunum við breytingar, eins og framkvæmd þessara reglna hefur verið. Nefnt hefur verið að þessi undanþága gæti miðast við fasta hlutfallslega stækkun eða tiltekinn aldur skipa í stað skráningarárs. Athugasemdir hér eiga við allar þessar útgáfur.
    Meginrökin fyrir afnámi þessarar reglu eru að reglan feli í sér óeðlilega mismunun sem skekkir mat á raunverulegri hagkvæmni endurnýjunarkosta.
    Veigamesti gallinn er sá að þeir sem njóta sérreglunnar telja það væntanlega andstætt hagsmunum sínum að hún verði afnumin.

    5.    Geymsla á rúmmáli, „rúmetrabanki“.
    Kostir slíks fyrirkomulags væru að viðskipti með rúmmetra yrðu greiðari en nú er. Endurnýjun þyrfti ekki að standast á í heilum skipum. Menn gætu átt rúmmetra um lengri eða skemmri tíma og látið hluta þeirra frá sér í einu eða keypt til sín. Ekkert skip gæti verið að veiðum án „fulls veiðileyfis“. Með þessu væri tryggt að engir rúmmetrar féllu niður ónýttir við endurnýjun.
    Spyrja má hvort ástæða sé til að efna til þess umstangs sem tengdist geymslustarfsemi af þessu tagi. Sérstaklega ef menn færu þá leið að heimila tiltekna stækkun allra skipa. Reglur hafa rýmkast mjög á undanförnum árum svo sem að framan greinir, t.d. með afnámi jafngildisreglu og með heimild til að hafa mörg skip hvorum megin við endurnýjun, þannig að minni hætta er á að rúmetrar falli niður.

    6.    Óbreyttar reglur.
    Síðast en ekki síst virðast margir telja óbreyttar reglur skynsamlegan kost. Auðveldara verði að ná markmiðum um vísindalega ákvörðun heildarafla og hafa eftirlit með umgengni við nytjastofna sjávar ef reglum verði haldið óbreyttum. Það fyrirkomulag að blómlegur veiðiskapur sem kallar á afkastaaukningu kaupi afkastagetu af öðrum geti auk þess haft æskileg áhrif til að draga úr sveiflum. Miðað við framboð rúmmetra sé ólíklegt að verð þeirra verði svo hátt að það valdi sérstökum erfiðleikum og það sé raunar þegar tekið að hjaðna verulega frá því sem það varð hæst.
    Gagnrýni á þetta viðhorf byggir vitanlega á þeim sjónarmiðum sem styðja afnám endurnýjunarreglna. Óbreyttar reglur hindri breytingar og möguleika til að tileinka sér tækninýjungar og laga sig að utanaðkomandi skilyrðum.

V.     Tillögur nefndarinnar
    Það var ljóst strax í upphafi að menn í starfshópnum höfðu ákaflega mismunandi viðhorf til meginsjónarmiða varðandi endurnýjunarreglur fiskiskipa. Hins vegar gátu menn náð saman um tilteknar forsendur í þessu starfi. Þar má m.a. vísa til þess sem segir um viðfangsefnið í kafla II, um að sömu reglur skuli gilda um öll skip í aflamarkskerfinu og að erfitt sé að skilyrða stækkunartilefni og að samræma beri þær mismunandi reglur sem nú gilda annars vegar um breytingar og hins vegar um nýsmíði. Til viðótar má nefna að ekki er talið heppilegt að gera of róttækar breytingar í einu á þessum þætti starfsumhverfis útgerða í landinu, heldur verði slíkar breytingar að gera ráð fyrir ákveðinni aðlögun. Menn voru einnig sammála um það að með frekari þróun í átt til lækkunar útgerðarkostnaðar og fækkunar skipa, sem nú sér mjög stað hér á landi, muni sú takmörkun sem felist í endurnýjunarreglunum fara minnkandi, vegna aukins framboðs á rúmmetrum.
    Með hliðsjón af þessu varð samstaða um það í nefndinni að leggja til að það skref yrði stigið nú að heimila tiltekna stækkun allra skipa með tilteknu millibili, hvort sem um væri að ræða breytingar á eldra skipi eða ný eða nýkeypt skip. Á hinn bóginn yrði sérregla um breytingar skipa sem skráð voru fyrir 1986 afnumin eftir 14 mánaða aðlögunartíma. Stækkunarformúlan í þeirri reglu sem lögð er til er sótt í þá reglu sem gilti til 1. september 1991 skv. reglugerð, að öðru leyti en því að miðað er við að endurnýjun geti átt sér stað á 7 ára fresti í stað 12. Nú er talið nauðsynlegt að stækkunarreglan komi fram í lögunum sjálfum. Vakin er athygli á því að þegar um nýtt eða nýkeypt skip er að ræða á stækkunarheimildin aðeins við þegar eitt skip kemur í staðinn fyrir eitt eða fleiri og miðast reglan við stærsta skipið ef fleiri en eitt láta veiðileyfi. Rökin fyrir stækkunarheimildinni eru einmitt þau að hvert einstakt skip þurfi að stækka, m.a. vegna tækniþróunar. Þessi rök eiga ekki við ef eitt stórt skip verður að mörgum litlum. Ef mörg lítil skip verða að einu stóru er hins vegar talið rétt að binda stækkunarheimildina við stærsta skipið fremur en að reglan gildi um þau öll, en annars myndi nýtt skip geta orðið allt að 60% stærra en sem nemur samtölu rúmmetra þeirra skipa sem létu veiðileyfi. Varðandi áhrif endurnýjunar á úthlutun aflaheimilda á grundvelli aflareynslu er talið að framkvæmanlegt sé að miða áfram við hlutfallslega skiptingu veiðileyfis og var ekki talin þörf á að lagabreytingar tækju til þessa þáttar.
    Um efni draga að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, vísast nánar til fylgiskjals 1 með þessari skýrslu (fylgiskjal 3 með athugasemdum).
    Ekki var talið nauðsynlegt að setja reglur um geymslu rúmmetra.



Fylgiskjal III.


Drög starfshóps að frumvarpi til laga
um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


1. gr.

    2. mgr. 5. gr. orðist svo:
    Falli veiðileyfi skips skv. 1. mgr. þessarar greinar niður má veita öðru skipi, jafn stóru miðað við rúmtölu, veiðileyfi í þess stað, enda hafi rétti til endurnýjunar ekki verið afsalað. Séu 7 ár hið minnsta liðin frá síðustu endurnýjun má skipið sem veiðileyfi fær vera allt að 100 rúmmetrum stærra en það skip sem veiðileyfi lætur að viðbættum 25% miðað við þá samtölu, en þó aldrei meira en 60% stærra en það skip sem veiðileyfi lætur. Framangreind stækkunarheimild á aðeins við þegar eitt skip kemur í stað eins eða fleiri skipa og takmarkast við stærsta skipið af þeim sem veiðileyfi láta. Sé um að ræða endurnýjun báts, sem veiðar stundar með línu og handfærum skv. 6. gr., skal stærð báts sem veiðileyfi fær þó vera a.m.k. 50% minni en þess báts er veiðileyfi lætur nema bátur komi í stað báts sem dæmdur hefur verið óbætandi vegna sjótjóns. Ávallt skal bátur sem veiðileyfi fær vera minni en 6 brúttótonn. Heimilt er að flytja veiðileyfi fleiri en eins skips til skipa eða skips er veiðileyfi hlýtur. Umframrúmtala sem ekki nýtist við þann flutning fellur niður. Óheimilt er að gera breytingar á skipum er leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni þannig að þau stækki nema annað eða önnur skip láti veiðileyfi á móti. Þó eru heimilar breytingar á skipum sem leyfi hafa til veiða með aflamarki, með þeim takmörkunum um stækkun og tímamörk sem greinir í 2. málsl. þessarar málsgreinar. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um endurnýjun fiskiskipa.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða
I

    Breytingar á skipum sem stunda veiðar með aflamarki og leyfi fengu til veiða í atvinnuskyni fyrir 1. janúar 1986, skulu heimilar, þrátt fyrir ákvæði 1. gr., hafi samningar þar um verið gerðir fyrir og skilað til ráðuneytisins innan fjögurra vikna frá gildistöku laga þessara. Breytingum skal þá lokið í síðasta lagi innan 14 mánaða frá gildistöku laganna.



Fylgiskjal IV.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að gildandi lögum um stjórn fiskveiða verði breytt að því er varðar endurnýjunarrétt skipa á veiðileyfum. Ekki verður séð að samþykkt þessa frumvarps leiði til kostnaðar fyrir ríkissjóð.