Ferill 303. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 377 – 303. mál.



Frumvarp til laga



um breytingar á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
a.    Í stað orðanna: „skv. 9. mgr. þessarar greinar“ í 1. mgr. kemur: þessari grein.
b.    Þriðja málsgrein orðast svo: Heildarþorskaflaviðmiðun fyrir krókabáta skal frá og með fiskveiðiárinu 1997/1998 vera 13,75% af ákvörðuðum heildarþorskafla hvers fiskveiðiárs en þó ekki lægri en 21.180 lestir, miðað við óslægðan fisk.
c.    Í stað 1. málsl. 5. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Heimilt er að framselja varanlega þorskaflahámark krókabáts til annars krókabáts eða báta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki. Innan hvers fiskveiðiárs er heimilt að flytja allt að 30% af úthlutuðu þorskaflahámarki krókabáts til annars krókabáts eða báta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki.
d.    Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að veita báti, sem leyfi hefur fengið til veiða með tilteknum fjölda sóknardaga, leyfi til að stunda veiðar með þorskaflahámarki skv. 4.–5. mgr. þess í stað, en reiknað þorskaflahámark bátsins verður þá áfram hluti sameiginlegs hámarksþorskafla báta sem stunda veiðar skv. 6.–10. mgr.
e.    Í stað 2.–4. málsl. 6. mgr. koma fimm nýir málsliðir, svohljóðandi: Sóknardagur telst vera allt að 24 klukkustundir frá upphafi veiðiferðar. Veiðiferð telst lokið þegar bátur landar afla. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um fyrirkomulag sóknardaga og eftirlit með þeim. Utan sóknardaga eru allar veiðar bannaðar. Ráðherra getur þó heimilað að veiðar í sérhæfð veiðarfæri samkvæmt lokamálslið 1. mgr., sem og veiðar með sérhæfðri línu til veiða á háffiskum, séu utan sóknardaga.
f.    Í stað orðanna „1997“, „meðalafla“ og „hámarksafla“ í 1. málsl. 8. mgr. kemur: 1998; meðalþorskafla og: hámarksþorskafla.
g.    Í stað orðanna: „1997“, „meðalafla“ og „hámarksafla“ í 1. málsl. 10. mgr. kemur: 1998; meðalþorskafla og: hámarksþorskafla.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur niður ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 83/1995.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 6. gr. um tímamörk vegna vals á veiðikerfi skal krókabátum, sem stunda veiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga skv. 6.–10. mgr. 6. gr., heimilt að endurskoða val sitt. Eigandi krókabáts skal tilkynna Fiskistofu um val sitt fyrir 1. febrúar 1998. Þorskaflahámark þeirra báta sem þann kost velja og breytingar vegna endurvals á sameiginlegum hámarksþorskafla þeirra báta sem stunda veiðar með handfærum, eða handfærum og línu, skulu miðast við reiknað þorskaflahámark skv. 2. gr. laga nr. 83/1995.
    Á fiskveiðiárinu 1997/1998 skulu sóknardagar þeirra báta sem stunda veiðar með handfærum eingöngu, sbr. 9.–10. mgr. 6. gr., vera 40 en fjöldi sóknardaga þeirra báta sem stunda veiðar með handfærum og línu, sbr. 7.–8. mgr. 6. gr., vera 32.
    Hafi bátur sem velur þorskaflahámark skv. 1. mgr. þegar nýtt hluta af sóknardögum fiskveiðiársins 1997/1998 fyrir 1. desember 1997 skal reikna hvaða hlutfall fimmtungur af nýttum sóknardögum er af heildarfjölda leyfðra sóknardaga bátsins á fiskveiðiárinu 1997/1998 og skerða þorskaflahámark bátsins á fiskveiðiárinu 1997/1998 í sama hlutfalli. Hafi sóknardagar verið nýttir frá og með 1. desember 1997 skal reikna hvaða hlutfall þeir eru af heildarfjölda leyfðra sóknardaga bátsins á fiskveiðiárinu 1997/1998 og skerða þorskaflahámark bátsins á fiskveiðiárinu 1997/1998 í sama hlutfalli.

II.

    Úthluta skal varanlega, samkvæmt reglum í 2. og 3. mgr., 500 lestum af þorski, miðað við óslægðan fisk, sem úthlutað hefur verið árlega af Byggðastofnun fiskveiðiárin 1995/1996 og 1996/1997, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 83/1995.
    Til krókabáta á þorskaflahámarki skal úthluta 180 lestum, miðað við óslægðan þorsk, til báta sem 1. september sl. voru gerðir út frá byggðarlögum sem Byggðastofnun úthlutaði til á síðasta fiskveiðiári. Úthlutað skal hlutfallslegri viðbót miðað við aflaheimildir 1. september 1997, þó þannig að enginn bátur fái meira en 8 lestir í sinn hlut miðað við óslægðan þorsk. Ekki skal bætt umfram þau mörk að þorskaflahámark með bótum verði 80 lestir miðað við 1. september 1997.
    Til aflamarksbáta undir 10 brúttórúmlestum að stærð skal úthlutað 320 lestum, miðað við óslægðan þorsk, til báta sem lönduðu meira en 6 lestum af þorski samtals á fiskveiðiárunum 1995/1996 og 1996/1997 og hafa úthlutað aflamark í þorski, að lágmarki 3 lestir, á fiskveiðiárinu 1997/1998. Úthluta skal hlutfallslega miðað við aflaheimildir í þorskígildum 1. september 1997, þó þannig að enginn bátur fái meira en 2,5 lestir í sinn hlut miðað við slægðan þorsk. Ekki skal bætt umfram þau mörk að aflaheimildir báts með bótum verði 60 þorskígildislestir miðað við 1. september 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Breytingar á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða, sem varða veiðar smábáta, voru síðast gerðar með lögum nr. 105 19. júní 1996. Það frumvarp sem varð að þeim lögum var niðurstaða umfangsmikilla viðræðna milli sjávarútvegsráðuneytisins og Landssambands smábátaeigenda (LS) og fól í sér róttækar breytingar á starfsumhverfi krókabátaútgerða sem var ætlað að einfalda reglur og auðvelda þennan atvinnurekstur, án þess að hvika frá því að afla þessara báta yrði haldið innan viðmiðana um heildarafla. Frumvarpið sem hér er flutt felur í sér tillögur um ákveðnar breytingar á gildandi lögum sem aðallega er ætlað að auðvelda krókabátum, sem nú stunda veiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga, að laga sinn rekstur að þeim þorskveiðiheimildum sem til ráðstöfunar eru. Þær tillögur að breytingum sem hér eru settar fram hafa mótast í viðræðum LS og ráðuneytisins á undanförnum mánuðum og er fullt samkomulag milli þessara aðila um að flytja þær tillögur sem frumvarpið felur í sér.
    Ein veigamesta breytingin sem fólst í lögum nr. 105/1996 var að sú 21.500 lesta heildarþorskaflaviðmiðun krókabáta sem þá gilti yrði tengd hlutfallslega við ákvarðaðan heildarafla í þorski miðað við 155.000 lesta þorskafla fiskveiðiársins 1995/1996. Varð heildaraflinn eftir það 13,9% af heildarafla þorsks, þó ekki minni en 21.500 lestir miðað við óslægðan fisk. Vegna hækkunar heildarafla í þorski hefur þessi hlutfallstenging þegar leitt til þess að sameiginlegur hámarksþorskafli krókabáta hefur aukist úr 21.500 lestum í 30.302 lestir, eða um meira en 40%, og enn frekari aukningu heimilda er spáð á næstu árum.
    Má minna á að veiðiheimildir krókabáta höfðu áður verið auknar með lögum nr. 87/1994 er viðmiðun var hækkuð úr 2.896 þorskígildislestum, miðað við úthlutað aflamark 1994/1995, í 20.170 þorskígildislestir og var þá varðandi síðari töluna miðað við meðalafla fiskveiðiáranna sem hófust 1. september 1991 og 1. september 1992. Einnig voru veiðiheimildir krókabáta rýmkaðar með lögum nr. 83/1995 sem gáfu frjálsar, varðandi aflaviðmiðun, aðrar veiðar þessara báta en þorskveiðar.
    Samkvæmt lögum nr. 105/1996 gafst eigendum krókabáta kostur á því að velja um tvær meginleiðir fyrir 1. júlí 1996, annars vegar hvort þeir stunduðu veiðar með einstaklingsbundnu þorskaflahámarki sem byggðist á eigin aflareynslu tveggja bestu áranna af almanaksárunum 1992, 1993 eða 1994, eða hins vegar hvort þeir stunduðu veiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga í öðrum af tveimur veiðihópum, með handfærum eingöngu eða handfærum og línu. Ráðast sóknardagar í hvorum hópi af sameiginlegu þorskaflahámarki allra báta sem hvorn hóp völdu og meðalþorskafla á hvern leyfðan sóknardag næstliðins fiskveiðiárs.
    Niðurstaða valsins 1. júlí 1996 var sú að tæp 54% krókabáta, þ.e. 561 bátur, með rúm 82% af veiðireynslu bátanna á viðmiðunarárunum, völdu þorskaflahámark. Tæp 28% bátanna, 291 bátur, með um 10% veiðireynslunnar, völdu sóknardaga með handfærum, en rúm 18% bátanna, 192 bátar, með rúm 7% veiðireynslunnar, völdu sóknardaga með línu og handfærum.
    Síðan valið fór fram 1. júlí 1996 hefur krókabátum fækkað um 193. Þar af greiddi Þróunarsjóður sjávarútvegsins úreldingarstyrki vegna 166 báta, en alls hefur Þróunarsjóður greitt styrki vegna 190 krókabáta samtals að fjárhæð 498,5 millj. kr. Frá 1. júlí 1996 hefur mest fækkun orðið í þorskaflahámarkinu. Þar hefur bátum fækkað um 152 eða rúm 27%. Þorskaflahámarksbátar eru nú 409, handfærabátar eru 277 og handfæra- og línubátar eru 165.
Hækkun aflaheimilda og fækkun báta, m.a. fyrir tilstilli Þróunarsjóðs sjávarútvegsins, hefur leitt til þess að þeir krókabátar sem stunda veiðar með þorskaflahámarki hafa nú allrúmar veiðiheimildir. Bátar í þeim hópi hafa að meðaltali 63 lesta þorskveiðiheimild hver, en þessir bátar eru frjálsir að sókn í aðrar fisktegundir en þorsk.
    Frá 1. júlí 1996 hefur sóknardagabátum hins vegar aðeins fækkað um 41. Þar af hafa verið greiddir styrkir úr Þróunarsjóði vegna 30 báta í þessum tveimur veiðikerfum. Það vekur nokkra undrun að sóknardagabátum skuli ekki hafa fækkað meira en raun ber vitni, þrátt fyrir 80% úreldingarstyrk, þar sem meðalþorskveiðiheimild í hvorum sóknardagahópnum er miklu minni en í þorskaflahámarkinu, eða um 13 lestir á hvern bát. Er samanlögð þorskveiðiheimild beggja sóknardagakerfanna um 5.000 lestir, miðað við óslægðan fisk, á fiskveiðiárinu 1997/1998. Á síðasta fiskveiðiári var afli þessara báta hins vegar um 20.000 lestir af þorski og hefur það leitt til þess að leyfðir sóknardagar þessara báta á yfirstandandi fiskveiðiári eru aðeins 26 fyrir báta sem veiða með handfærum eingöngu og 20 fyrir báta sem veiða með línu og handfærum. Það er fyrst og fremst vegna þessarar þróunar hjá sóknardagabátunum sem ástæða er talin til að gera tillögur um ákveðnar breytingar.
    Með þessu frumvarpi er lagt til að eigendur krókabáta sem stunda veiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga geti endurskoðað val sitt fyrir 1. febrúar 1998 og er búist við að eigendur margra sóknardagabáta muni nýta sér þann möguleika. Samkvæmt því sem lagt er til er aðeins útilokað að fara úr þorskaflahámarki yfir í sóknardagakerfi, þannig að heimilt er t.d. að fara úr línu- og handfæraveiðihópnum yfir í handfæri eingöngu, en reiknað er með að flestir velji að stunda veiðar með þorskaflahámarki. Hafa margir sýnt þessum möguleika áhuga og ljóst er af tölum Fiskistofu að fáir bátar hafa hafið veiðar á róðrardögum það sem af er fiskveiðiárinu.
    Jafnframt heimild til endurvals er lagt til í frumvarpi um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, sem flutt er samhliða þessu frumvarpi, að heimild til að veita 80% úreldingarstyrk vegna sóknardagabáta verði endurvakin frá gildistöku laganna til 1. apríl 1998.
    Einnig er lagt til í þessu frumvarpi það nýmæli að krókabát á sóknardögum megi alltaf flytja án veiðiheimilda yfir í þorskaflahámark, en reiknað þorskaflahámark bátsins verður þá eftir í sóknardagakerfinu sem báturinn fer úr. Getur þetta orðið til þess að endurnýjun báta í þorskaflahámarkskerfinu stuðli að fækkun sóknardagabáta.
    Þá er lagt til að þau skilyrði fyrir framsali þorskaflahámarks frá báti séu felld niður, að allt sé flutt af bátnum, veiðileyfi fellt niður og endurnýjunarrétti afsalað. Varanlegt þorskaflahámark yrði því skiptanlegt og framseljanlegt milli báta í þorskaflahámarkskerfinu. Hins vegar er lagt til að framsal á úthlutuðu þorskaflahámarki innan hvers fiskveiðiárs verði takmarkað við 30% af úthlutuðu þorskaflahámarki og er það gert að ósk LS. Þessi rýmkun á heimild til framsals kæmi örugglega til með að auðvelda mönnum með tiltölulega lága aflaviðmiðun að flytja sig yfir í þorskaflahámarkið. Í þorskaflahámarkinu er nú talsverður hópur báta með verulegar veiðiheimildir, og því líklegt að framboð verði á veiðiheimildum, ekki síst ef frekari aukning verður á heildarafla þorsks á næstu árum.
    LS hefur í viðræðum við ráðuneytið, bæði nú og í aðdragandanum að setningu laga nr. 105/1996, lagt mikla áherslu á ósk um fastan lágmarksdagafjölda til handa krókabátum á sóknardögum. Ráðuneytið hefur hins vegar hafnað því að lágmarksfjöldi sóknardaga sé ákveðinn án tengsla við þann afla sem sú ákvörðun fæli í sér. Stjórnvöld geta ekki afsalað sér endanlega möguleikanum til að stjórna fiskveiðunum með hliðsjón af aflamagni. Fiskveiðistjórnun miðast við að halda heildarafla innan ákveðinna marka og sóknareiningarnar eru afleidd stærð sem miðar að því að ná markmiðum um tiltekinn afla. Ekki er hægt að ákveða sóknareiningarnar þannig að heildaraflinn verði augljóslega utan þeirra viðmiðunarmarka sem lögin segja til um, miðað við fyrirliggjandi reynslu um afla á sóknareiningu, hver sem þau viðmiðunarmörk um heildarafla annars væru.
    Með hliðsjón af þeim breytingum sem endurval og endurnýjun úreldingartilboðs fela í sér á veiðimynstri krókabáta, og að teknu tilliti til ýmissa smærri þátta, svo sem afla þeirra báta á síðasta fiskveiðiári sem þegar hafa verið teknir úr rekstri og ónýttra heimilda í þorskaflahámarkskerfinu, þykir þó forsvaranlegt að leggja til í þessu frumvarpi að sóknardagar fyrir fiskveiðiárið 1997/1998 verði 40 fyrir báta sem veiða með handfærum eingöngu en 32 handfæradagar fyrir báta sem veiða með línu og handfærum.
    Með frumvarpinu er lagt til að þeim 500 lestum af þorski sem Byggðastofnun hefur úthlutað árlega frá fiskveiðiárinu 1995/1996 verði skipt á milli þorskaflahámarksbátanna sem notið hafa þessarar úthlutunar, sem fái 180 lestir, og smábáta á aflamarki undir 10 brúttórúmlestir að stærð, sem fái 320 lestir. Félög smábátaeigenda um allt land og aðalfundir LS hafa ályktað um það að þessum 500 lestum ætti að úthluta til smábáta á aflamarki, m.a. vegna þess að aukning aflaheimilda hjá þorskaflahámarksbátum hefur gert það að verkum að þeir hafa nú meiri aflaheimildir en á viðmiðunarárunum og því ekki lengur um neina skerðingu að ræða. Fyrst og fremst hafa þessi viðhorf byggst á því að þessir bátar hafi almennt farið mun verr út úr þróun síðustu ára en aðrir smábátar. Mun það vera næsta ágreiningslaust. Á móti hefur legið það sjónarmið að úthlutað hafi verið til þorskaflahámarksbáta í ákveðnum byggðarlögum sem séu sérstaklega háð smábátaútgerð og úthlutunin hafi skipt máli fyrir þau byggðarlög. Samkvæmt því sem þessi tillaga gerir ráð fyrir verða þeir bátar, sem notið hafa úthlutunar og hafa allt að 80 lesta þorskaflahámark, um það bil jafnsettir í þorskveiðiheimildum eftir úthlutun yfirstandandi fiskveiðiárs og þeir voru eftir úthlutun á síðasta fiskveiðiári. Aukning aflaheimilda almennt vegur með öðrum orðum upp skerta viðbótarúthlutun.
    Eins og að framan var getið er samhliða þessu frumvarpi flutt frumvarp til laga um breytingar á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Þessum úreldingarreglum, ásamt með heimild til endurvals og rýmri heimildar til framsals á þorskaflahámarki, er ætlað að stuðla áfram að þeirri aðlögun afkastagetu krókabátaflotans að veiðiheimildunum sem hefur verið að eiga sér stað og nauðsynleg er ef starfsumhverfi þessa útgerðarforms á að vera lífvænlegt fyrir þá sem munu hafa atvinnu af krókaveiðum í framtíðinni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Um a-lið.
    Fram til þess að lög nr. 105/1996 voru sett var ákvæði um tómstundaveiðar síðasta málsgrein 6. gr. Því var oft nauðsynlegt að vísa nákvæmlega í tilteknar málsgreinar í tilvitnunum í greinina. Þar sem um tómstundaveiðar er nú fjallað í sérstakri grein, 6. gr. a, er þetta ekki lengur nauðsynlegt.
     Um b-lið.
    Þar sem 320 lestir af þorski, miðað við óslægðan fisk, eru fluttar frá krókabátum til smábáta á aflamarki er nauðsynlegt að leiðrétta hlutdeild krókabáta í heildarþorskaflanum, og veldur það lækkun til þeirra um 0,15%.
    Um c- og d-lið.
    Um báða liðina var fjallað ítarlega í almennum athugasemdum. Sá fyrri felur í sér reglur um framsal þorskaflahámarks og sú síðari felur í sér almenna heimild til þess að flytja krókabát á sóknardögum yfir í þorskaflahámark, en í því tilfelli flyst engin aflaviðmiðun með bátnum, hún verður eftir í sóknardagakerfinu, og báturinn getur ekki flust aftur til baka í sóknardagakerfin.
     Um e-lið.
    Með breytingunni er ætlunin að afmarka nánar hugtakið sóknardagur, en í framhaldi af síðustu lagabreytingu höfðu komið fram ábendingar um að það væri nauðsynlegt.
     Um f- og g-lið.
    Aðeins er um að ræða að orða það skýrar að einungis þorskafli er lagður til grundvallar í útreikningum samkvæmt 8. og 10. mgr. 6. gr. laganna, auk þess sem breyta þarf ártali á fyrsta útreikningi vegna beinnar ákvörðunar um fjölda sóknardaga á yfirstandandi fiskveiðiári, sbr. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II.
    Síðari liðurinn á við um báta sem stunda veiðar með handfærum eingöngu, en sá fyrri á við um báta sem stunda veiðar með línu og handfærum.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Fyrsta málsgrein veitir sóknardagabátum heimild til að endurskoða val skv. 2. mgr. 6. gr. fyrir 1. febrúar 1998. Önnur grein laga nr. 83/1995 lýsir útreikningi á þorskaflahámarki, sem byggir eins og áður segir á aflareynslu almanaksáranna 1992, 1993 og 1994. Sá bátur, sem samkvæmt þessu ákvæði flytur sig milli sóknardagakerfa eða yfir í þorskaflahámark, flytur með sér þá aflaviðmiðun sem felst í þessu reiknaða þorskaflahámarki. Samkvæmt ákvæðinu er ekki gert ráð fyrir kærumeðferð vegna útreiknings þorskaflahámarks, enda er þetta sama reiknaða þorskaflahámark nú lagt til grundvallar við val í þriðja sinn, en val hefur áður miðast við 1. júlí 1996 og 1. ágúst 1995.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hver verði fjöldi leyfðra sóknardaga á fiskveiðiárinu 1997/1998.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um hvernig með skuli fara við endurval ef bátur sem velur þorskaflahámark hefur þegar hafið nýtingu sóknardaga. Reglan er ívilnandi. Ef bátur stundar áður veiðar með handfærum og leyfðir sóknardagar eru því 40, en báturinn hefur notað 20 daga fyrir 1. desember, mundi þorskaflahámarkið á yfirstandandi fiskveiðiári 1997/1998 skerðast um 10%. Það er reiknað þannig að 20% af nýttum dögum eru 4 dagar sem eru 10% af 40. Ekki þykir rétt að þessi regla standi til boða í desember og janúar, eftir að frumvarpið er komið fram, þar sem það gæti hvatt til sóknar á þessum tíma.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Um þetta ákvæði er nokkuð fjallað í almennum athugasemdum, sérstaklega varðandi þorskaflahámarksbátana. Hér skal þess getið varðandi aflamarksbátana að það eru 209 bátar sem uppfylla þau almennu skilyrði sem þarna eru sett fram um úthlutaðar veiðiheimildir og landaðan afla, en um 170 bátar mundu fá úthlutun sem nemur að meðaltali um 6% hækkun á heimildum þeirra sem njóta úthlutunar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að heildarþorskaflaviðmiðun krókabáta verði breytt, auk annarra minni háttar breytinga. Fiskistofa mun sem hingað til annast framkvæmd þessara laga og er ekki gert ráð fyrir að sérstakur kostnaðarauki falli á ríkissjóð af þeim sökum.