Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 389 – 253. mál.



Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um stofnmat nytjafiska á Ís landsmiðum og við Noreg.

1.      Er grundvallarmunur á upplýsingaöflun og aðferðum við að meta stofnstærð helstu fiskstofna á Íslandsmiðum annars vegar og við Noreg að Barentshafi meðtöldu hins vegar?
    Segja má að um svipaðar aðferðir sé að ræða við stofnstærðarmat helstu fiskstofna á Ís landsmiðum annars vegar og við Noreg og í Barentshafi hins vegar. Þó er munur á í nokkrum veigamiklum atriðum: „Togararall“ Hafrannsóknastofnunarinnar er mun betur útfært en stofnstærðarmælingar í Barentshafi og getur því gefið nákvæmari upplýsingar um breytingar í stofnunum. Stofnmat Hafrannsóknastofnunarinnar hefur reynst áreiðanlegra en í stofnmatið í Barentshafi vegna nákvæmari gagna og annarra vinnubragða við greiningu þeirra og aðra úrvinnslu. Einnig hafa hér verið teknar upp nýjungar til viðbótar eldri aðferðum. Má þar t.d. nefna fjölstofnaáætlun og haustrall stofnunarinnar. Þannig hefur rannsóknum verið haldið áfram og nýjum bætt við til þess að bæta stofnmatið.

2.      Er þörf á að endurskoða vinnuaðferðir Hafrannsóknastofnunarinnar og efla fiskirannsóknir hér við land í ljósi nýlegrar reynslu Norðmanna af stofnstærðarmati þorsks í Barentshafi?
    Starfsaðferðir Hafrannsóknastofnunarinnar eru í stöðugri endurskoðun en að sjálfsögðu er nauðsynlegt að efla fiskirannsóknir hér við land. Í ljósi nýlegrar reynslu Norðmanna og Rússa þurfa Íslendingar að velta fyrir sér hvað geti hugsanlega farið úr skorðum og hvað þurfi að gera til að koma í veg fyrir slíkt. Hins vegar er ljóst að í þeim tilfellum sem ráðgjöf fer úr skorðum gerist það fremur vegna óvæntra atburða en þekktra vandamála. Því er erfitt að segja til um hvaða aðferðir séu bestar til að koma í veg fyrir óvæntar uppákomur. Þó má draga almennar ályktanir og líta þá til þess sem gerst hefur í nágrannalöndunum:
       a.      Í Barentshafi hefur löngum verið erfitt að meta sjálfrán þorsks og raunar eru fjölstofnaáhrif stundum þess eðlis að afar erfitt getur verið að spá fyrir um framvindu ein stakra stofna. Slík áhrif virðast ekki vera í jafnmiklum mæli á Íslandsmiðum en að sjálfsögðu er sjálfrán fyrir hendi hér sem annars staðar.
                 Umfangsmikilli fjölstofnaáætlun er nýlokið og niðurstöður eru nú þegar nýttar við árlega úttekt Hafrannsóknastofnunarinnar á nytjastofnum. Engan veginn er þó séð fyr ir endann á úrvinnslu hennar. Í framhaldi af fjölstofnarannsóknum er æskilegt að mæla að staðaldri át helstu rándýra sjávar og nýta slíkar mælingar við árlega ráðgjöf.
       b.      Óvæntar umhverfisbreytingar virðast hafa skipt verulegu máli til viðbótar ofveiði og valdið erfiðleikum við ráðgjöf. Má þar nefna hrun síldarstofna og þorskstofnsins við Kanada. Í fæstum tilvikum eru slík áhrif þekkt fyrir fram.
       c.      Stofnmælingar geta mistekist að því er virðist vegna tilviljanakenndra breytinga í útbreiðslu eða veiðanleika, eins og t.d. við Kanada og Færeyjar, eða af öðrum ástæðum. Hér er eðlilegast að bæta við fleiri mælingum til þess að þurfa ekki að treysta alfarið á einn leiðangur. Þetta hefur þegar verið gert með „haustralli“ og „netaralli“ sem munu nýtast í framtíðinni þegar mælingum fjölgar.
                 Tímabundin framlög Lýðveldissjóðs hafa gert Hafrannsóknastofnuninni kleift að auka rannsóknir á lífríki sjávar. Nauðsynlegt er að tryggja framhald slíkra rannsókna þegar starfstíma sjóðsins lýkur eftir tvö ár. Þá er einnig nauðsynlegt að auka verulega mælingar á styrk helstu hafstrauma umhverfis landið og tengsl þeirra við klak og hrygningu fiskstofna.