Ferill 311. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 391 – 311. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100 23. desember 1952.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    1. gr. laganna, sbr. lög nr. 49/1982, orðast svo:
    Barn öðlast íslenskt ríkisfang við fæðingu:
1.      ef móðir þess er íslenskur ríkisborgari,
2.      ef faðir þess er íslenskur ríkisborgari og kvæntur móðurinni. Þetta gildir þó ekki ef hjónin voru skilin að borði og sæng á getnaðartíma barnsins.
    Barn, sem fundist hefur hér á landi, telst, þar til annað reynist sannara, vera íslenskur ríkis borgari.

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Eignist ógift kona, sem er erlendur ríkisborgari, barn hér á landi öðlast það íslenskan ríkisborgararétt ef karlmaður, sem er íslenskur ríkisborgari, er faðir þess samkvæmt barna lögum.
    Eignist ógift kona, sem er erlendur ríkisborgari, barn erlendis með karlmanni, sem er ís lenskur ríkisborgari, getur faðirinn, áður en barnið nær 18 ára aldri, óskað þess við dómsmála ráðuneytið að það öðlist íslenskan ríkisborgararétt. Leggi hann fram fullnægjandi gögn, að mati ráðuneytisins, um barnið og faðerni þess öðlast barnið íslenskan ríkisborgararétt við staðfestingu ráðuneytisins.

3. gr.

    2. gr. a laganna, sbr. lög nr. 49/1982, orðast svo:
    Erlent barn, sem ættleitt er af íslenskum ríkisborgara, með leyfi íslenskra stjórnvalda, öðl ast íslenskt ríkisfang við ættleiðinguna ef það er yngra en 12 ára.
    Erlent barn, yngra en 12 ára, sem ættleitt er af íslenskum ríkisborgara með erlendri ákvörð un, sem íslensk stjórnvöld viðurkenna, öðlast íslenskt ríkisfang við staðfestingu dóms málaráðuneytisins að ósk ættleiðanda.

4. gr.

    2. málsl. 4. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 5. gr. a, svohljóðandi:
    Dómsmálaráðherra er heimilt, að fenginni umsögn lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda og Útlendingaeftirlits, að veita íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt umsókn sem borin er fram af umsækjanda sjálfum, eða forsjármönnum hans hafi hann ekki náð 18 ára aldri, enda fullnægi hann eftirgreindum skilyrðum um búsetu, hegðun og framfærslu:
    A. Búsetuskilyrði.
1.      Umsækjandi hafi átt hér lögheimili í sjö ár; ríkisborgari í einhverju hinna Norðurlandanna þó einungis í fjögur ár.
2.      Umsækjandi, sem er í hjúskap eða staðfestri samvist með íslenskum ríkisborgara, hafi átt hér lögheimili í þrjú ár frá giftingu/stofnun staðfestrar samvistar, enda hafi hinn íslenski maki haft íslenskan ríkisborgarrétt ekki skemur en fimm ár.
3.      Umsækjandi, sem býr í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og bæði eru ógift, hafi átt hér lögheimili í fimm frá skráningu sambúðarinnar, enda hafi hinn íslenski ríkisborgari haft ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.
4.      Umsækjandi, sem á íslenskan ríkisborgara að öðru foreldri, hafi átt hér lögheimili í tvö ár, enda hafi hið íslenska foreldri haft ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.
5.      Umsækjandi, sem verið hefur íslenskur ríkisborgari, en hefur gerst erlendur ríkisborgari, hafi átt hér lögheimili í eitt ár.
6.      Flóttamaður, sem fullnægir skilgreiningu í alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna sem gerður var 28. júlí 1951, hafi átt hér lögheimili sem slíkur í fimm ár.
7.      Reglur þessar miðast við lögheimili og samfellda dvöl hér á landi. Heimilt er að víkja frá því skilyrði þótt dvöl umsækjanda hér hafi verið rofin allt að einu ári vegna tímabundinnar atvinnu eða af óviðráðanlegum ástæðum, svo sem vegna veikinda nákomins ættingja, en þó allt að þremur árum vegna náms erlendis. Sá tími, sem umsækjandi hefur átt hér lögheimili og dvöl, verður þó að vera að minnsta kosti jafnlangur þeim tíma sem hann verður samkvæmt áðurgreindum reglum að uppfylla.
    B. Önnur skilyrði.
1.      Umsækjandi sé að áliti tveggja valinkunnra manna starfhæfur og vel kynntur þar sem hann hefur dvalist.
2.      Umsækjandi geti framfleytt sér hérlendis með hliðsjón af þeim upplýsingum sem koma fram í umsókn og hafi ekki þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi síðastliðin tvö ár.
3.      Umsækjandi hafi ekki sætt varðhalds- eða fangelsisrefsingu eða eigi ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.
    Dómsmálaráðherra er einnig heimilt að veita íslenskan ríkisborgararétt barni sem fætt er hér á landi og sannanlega hefur ekki öðlast annan ríkisborgararétt við fæðingu og hefur ekki öðlast hann, eða átt rétt til að öðlast hann, þegar umsókn um ríkisborgararétt er borin fram. Barnið skal hafa átt lögheimili og samfellda dvöl hér á landi frá fæðingu í að minnsta kosti þrjú ár.
    Um börn þeirra sem fá ríkisborgararétt samkvæmt þessari grein gilda ákvæði 5. gr., nema öðruvísi sé ákveðið.


6. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:     
    Alþingi veitir ríkisborgararétt með lögum.
    Áður en umsókn um ríkisborgararétt er lögð fyrir Alþingi skal dómsmálaráðuneytið fá um hana umsögn lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda og Útlendingaeftirlits.
    Eigi sá börn sem ríkisborgararétt fær með lögum fer um þau eftir ákvæðum 5. gr., nema lögin láti öðruvísi um mælt.


7. gr.

    Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hann missir þó ekki íslensks ríkisfangs verði hann við það ríkisfangslaus.

8. gr.

    3. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Yfirlýsingu skv. 3. gr., 4. gr., 4. mgr. 9. gr. a og B- og C-lið 9. gr. b um að maður óski að verða íslenskur ríkisborgari getur aðeins aðili sjálfur gefið en ekki forsjármaður.


9. gr.

    Við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:
    Barn sem fætt er eftir 1. júlí 1964 en fyrir 1. júlí 1982 og hefði öðlast íslenskt ríkisfang ef ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt, sbr. lög nr. 49/1982, hefðu verið í gildi við fæðingu þess, fær íslenskt ríkisfang er móðir þess gefur um það skriflega yfirlýsingu til dómsmálaráðuneytisins enda hafi hún forsjá barnsins, sé íslenskur ríkisborgari og barnið innan 18 ára aldurs. Barn þarf að lýsa samþykki sínu svo yfirlýsing sé gild.
    Hafi barnið náð 18 ára aldri getur það gefið yfirlýsingu um að það óski eftir að framan greint ákvæði taki til sín, enda hafi móðir þess haft íslenskt ríkisfang frá fæðingu þess til 1. júlí 1982 og barnið fullnægir skilyrðum 8. gr. til að vera íslenskur ríkisborgari.
    

10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. október 1998.
    Ákvæði til bráðabirgða öðlast þó þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi 2. mgr. 10. gr. laga nr. 49 11. maí 1982.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lagafrumvarp þetta er unnið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Það felur í sér allmargar breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt og eru ástæður þess að breytingar eru lagðar til nokkrar og mismunandi.
    Veigamesta breytingin er sú að lagt er til að íslenskur karlmaður sem eignast barn með erlendri konu hér á landi veiti barninu íslenskan ríkisborgararétt þegar hann hefur fullnægt ákvæðum barnalaga um feðrun barnsins. Meginástæðan fyrir þessari tillögu er að veita körlum jafna stöðu á við konur til að láta íslenskt ríkisfang sitt ganga til barns síns.
    Önnur veigamikil breyting er sú að lagt er til að dómsmálaráðherra geti veitt þeim útlendingum, sem sækja um íslenskan ríkisborgararétt og uppfylla nánar tiltekin skilyrði, ríkisborgararétt án þess að umsókn þurfi að leggja fyrir Alþingi.
    Breytingartillaga þessi byggist á þeirri breytingu sem gerð var á stjórnarskránni með 4. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995, en nú segir í 66. gr. stjórnarskrárinnar: „Útlendingi verður aðeins veittur íslenskur ríkisborgararéttur samkvæmt lögum.“ Í athugasemdum með frumvarpi til stjórnarskipunarlagabreytingarinnar segir svo um þetta ákvæði: „Í 3. málsl. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins er regla sem er um margt sambærileg núgildandi 68. gr. stjórnarskrárinnar um hvernig útlendingur öðlast íslenskan ríkisborgararétt. Tillaga er þó gerð um þá breytingu að í stað þess að mæla fyrir um að útlendingi verði aðeins veittur ríkisborgararéttur „með“ lögum, eins og nú er gert í 68. gr. stjórnarskrárinnar, er rætt í þessu ákvæði frumvarpsins um að útlendingi verði veittur ríkisborgararéttur „samkvæmt“ lögum. Með þessu er lagt til að löggjafanum verði veitt svigrúm til að setja almenn lög um veitingu ríkisborgararéttar þar sem mætti setja almenn skilyrði fyrir að öðlast íslenskt ríkisfang og fela stjórnvöldum að annast veitingu ríkisborgararéttar, í stað þess að setja sérstök lög um að veita tilteknum einstaklingum ríkisborgararétt eins og nú er gert. Eftir þessu orðalagi hefði löggjafinn val um hvor leiðin yrði farin til að veita íslenskan ríkisborgararétt eða gæti jafnvel ákveðið að báðum aðferðum verði beitt.“ Breytingartillaga sú sem hér er lögð til byggist á því að notað verði það fyrirkomulag sem drepið er á í niðurlagi athugasemdanna, þ.e. að bæði verði hægt að veita íslenskan ríkisborgararétt með sérstökum lögum og samkvæmt almennri reglu í lögum um ríkisborgararétt.     
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til eru:
    Lagt er til að 1. gr. verði breytt þannig að brott falli hugtökin „skilgetið barn“ og „óskilgetið barn“ en greinin er efnislega óbreytt. Hugtök þessi hafa nú verið felld úr notkun í sifjarétti.
    Lögð er til breyting á reglum um hvernig ættleitt barn öðlast íslenskan ríkisborgararétt og reglur rýmkaðar verulega. Ástæða þessarar breytingar er fyrst og fremst aðild Íslands að alþjóðlegum samningi um ættleiðingu og endurskoðun ættleiðingarlaga í tengslum við þá aðild. Er miðað við að barn sem íslenskur ríkisborgari ættleiðir njóti fulls jafnræðis við barn sem fætt er af íslenskum ríkisborgara.
    Þá er lagt til að sú breyting verði gerð á 4. gr. laganna að útlendingur sem haft hefur íslenskan ríkisborgararétt en tekið hefur erlent ríkisfang geti öðlast íslenskt ríkisfang að nýju án þess að afsala sér hinu erlenda ríkisfangi.
    Einnig er lagt er til að íslenskur ríkisborgari sem fæddur er erlendis og ekki hefur haft tengsl við landið missi ekki íslensks ríkisfangs þá er hann verður 22 ára, eins og 8. gr. laganna kveður á um, ef hann verður við það ríkisfangslaus.
    Með ákvæði til bráðabirgða er lagt til að endurvakin verði heimild sem var í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 49/1982, um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, en með henni var íslenskum konum, sem áttu erlenda eiginmenn, heimilað að gefa yfirlýsingu um að börn þeirra, sem fædd voru fyrir lagabreytinguna, skyldu fá íslenskan ríkisborgararétt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá núgildandi 1. gr. laganna en gerðar eru orðalagsbreytingar til að samræma greinina orðalagi núgildandi barnalaga en í þeim eru hugtökin „skilgetið barn“ og „óskilgetið barn“ ekki lengur notuð. Í stað þess að tala um skilgetið barn er nú miðað við að íslenskur faðir barns sé kvæntur móður þess. Skv. 2. mgr. 1. gr. barnalaga telst barn sem getið er eftir að hjón hafa skilið að borði og sæng ekki hjónabandsbarn. Það er því skilyrði þess að barn erlendrar móður og íslensks föður teljist hjónabandsbarn að fullnægt sé ákvæði 2. mgr. 1. gr. barnalaga.

Um 2. gr.

    Lagt er til að í greinina bætist ákvæði sem fjalla um börn sem eiga íslenskan föður sem ekki er kvæntur móður barnsins. Ákvæði núgildandi 2. gr. er fellt niður þar sem það fellur efnislega undir 1. tölul. greinarinnar. Gerður er greinarmunur á því hvort barn ógiftra foreldra er fætt hér á landi eða erlendis. Barn sem fæðist hérlendis öðlast íslenskt ríkisfang þegar uppfyllt eru ákvæði barnalaga um feðrun, en í 2.–8. gr. þeirra er að finna ítarlegar reglur um feðrun barna hvort sem um er að ræða gifta eða ógifta foreldra.
    Lagt er til að barn íslensks karls sem fæðist utan hjónabands erlendis fái íslenskt ríkisfang eftir að faðir þess hefur borið fram ósk þar um og gögn um fæðingu og faðerni þess hafa borist dómsmálaráðuneytinu og verið metin fullnægjandi til staðfestingar á faðerninu. Barnið fær þá fyrst ríkisfangið þegar ráðuneytið hefur gefið út staðfestingarskjal.
    Telja verður eðlilegt að börn sem íslenskir feður kunna að eignast erlendis fái ekki íslenskt ríkisfang, nema faðirinn óski eftir því við íslensk stjórnvöld og leggi fram nauðsynleg gögn til sönnunar um tilvist barnsins og um að hann sé faðir þess. Lagt er til að faðirinn hafi frest allt þar til barnið nær 18 ára aldri til að bera fram ósk sína um að barnið fái íslenskt ríkisfang.
    Á vegum Evrópuráðsins hefur verið saminn Evrópusamningur um ríkisfang. Samningur þessi var lagður fram til undirritunar 6. nóvember 1997. Í 6. gr. hans er fjallað um hvernig menn öðlast ríkisfang. Þar segir að samningsríki skuli kveða svo á í lögum sínum um ríkis borgararétt að barn sem ríkisborgari samningsríkis eignast skuli að lögum öðlast ríkisfang foreldrisins. Íslensk þýðing samningsins er prentuð sem fylgiskjal með frumvarpi þessu til kynningar.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er lögð til veruleg breyting á rétti ættleidds barns til að öðlast íslenskt ríkisfang.
    Um það hvernig erlend börn sem ættleidd eru af íslenskum borgurum fá íslenskt ríkisfang er fjallað í 2. gr. a laganna. Samkvæmt greininni eins og hún nú hljóðar eru sett þau skilyrði til að ættleitt erlent barn fái íslenskt ríkisfang að:
1.      Ættleiðingarleyfi sé gefið út af íslenskum stjórnvöldum.
2.      Ættleiðendur séu hjón sem bæði eru íslenskir ríkisborgarar eða einstaklingur sem er íslenskur ríkisborgari.
3.      Ættleiðendur og barnið eigi lögheimili hér á landi.
4.      Ættleiðendur skulu óska eftir ríkisfangi fyrir barnið áður en það nær sjö ára aldri.
    Breytingartillagan miðar við að ættleitt barn njóti að öllu leyti sömu réttarstöðu og kynbarn íslensks foreldris. Lagt er til að skilyrði þess að barn sem ættleitt er erlendis fái íslenskan ríkisborgararétt verði eftirfarandi:
1.      Ættleiðingarleyfi sé gefið út af íslenskum stjórnvöldum eða að ættleiðing sé veitt erlendis og viðurkennd af þar til bærum íslenskum stjórnvöldum, nú dómsmálaráðuneytinu.
2.      Barnið sé ættleitt af íslenskum ríkisborgara án tillits til hjúskaparstöðu og búsetu.
3.      Barnið öðlast sjálfkrafa íslenskt ríkisfang við ættleiðinguna ef það ef yngra en 12 ára og ættleitt með leyfi íslenskra stjórnvalda. Til að barn sem ættleitt er erlendis fái íslenskt ríkisfang þarf ættleiðandi að tilkynna dómsmálaráðuneytinu um ættleiðinguna og óska eftir viðurkenningu á henni og að barnið fái íslenskt ríkisfang.
    Ríkisfang sem fengið er samkvæmt þessari grein fær gildi þegar ráðuneytið hefur gefið út staðfestingu á því og er það óbreytt regla frá núgildandi ákvæði.
    Gerður hefur verið Haagsamningur, dags. 29. maí 1993, um samvinnu um ættleiðingar milli landa. Eru þar settar alþjóðlegar reglur um ættleiðingar barna milli ríkja. Stefnt er að því að samningurinn verði fullgiltur af Íslands hálfu og er unnið að endurskoðun ættleiðingarlaga m.a. til að unnt verði að fullgilda hann.
    Núgildandi ákvæði 2. gr. a eru sniðin eftir samsvarandi ákvæði dönsku laganna um ríkis borgararétt en breytingartillagan er í meginatriðum sniðin eftir samsvarandi ákvæði í sænsku lögunum um ríkisborgararétt.
    Undanfarin ár hafa komið upp nokkur tilvik þar sem erlend börn hafa verið ættleidd af hjónum þar sem aðeins annar aðilinn er íslenskur ríkisborgari og sömuleiðis hafa íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis ættleitt börn frá þriðja ríki. Þessi ættleiddu erlendu börn hafa ekki getað öðlast íslenskt ríkisfang samkvæmt núgildandi ákvæði en í flestum tilvikum hefur verið leyst úr því með veitingu ríkisborgararéttar samkvæmt lögum.

Um 4. gr.

    Í þessari grein er lagt til að fellt verði brott úr 4. gr. laganna það ákvæði að reglu hennar um endurveitingu íslensks ríkisfangs verði aðeins beitt þegar sá sem endurveitingar óskar sannar að hann missi það erlenda ríkisfang, sem hann hefur öðlast, við að taka upp íslenskt ríkisfang að nýju.
    Regla þessi miðar fyrst og fremst að því að koma í veg fyrir tvöfaldan ríkisborgararétt en ekki er talin ástæða til að viðhalda henni þar sem það hefur ekki verið stefna löggjafans eða stjórnvalda að koma í veg fyrir tvöfalt ríkisfang og ekki hefur verið gerð krafa um að erlent ríkisfang falli niður ef sami aðili fær íslenskt ríkisfang að nýju með lögum um veitingu íslensks ríkisborgararéttar. Hins vegar kunna erlendar lagareglur að kveða á um að viðkomandi missi sitt erlenda ríkisfang ef hann öðlast íslenskt ríkisfang að nýju.

Um 5. gr.

    Með grein þessari er lögð til önnur meginbreyting frumvarpins en hún er sú að dómsmála ráðherra verði veitt heimild til að veita útlendingi íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt um sókn, en samkvæmt núgildandi lögum veitir Alþingi slíkt ríkisfang alfarið með sérstökum lögum.
    Hér er lagt til að farin verði sú leið sem rætt er um í niðurlagi tilvitnunar úr athugasemdum með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og vitnað er til í inngangi með athugasemdum þessum en hún er sú að bæði löggjafinn og stjórnvöld veiti íslenskan ríkisborgararétt.
    Með greininni er dómsmálaráðherra heimilað að veita ríkisborgararétt þeim sem um það sækir og uppfyllir nánar tiltekin skilyrði sem eru síðan talin upp í greininni.
    Skilyrði varðandi búsetu eru í flestum atriðum þau sömu og reglur Alþingis um veitingu ríkisborgarréttar frá 21. febrúar 1995. Reglur varðandi önnur skilyrði eru nokkuð þrengri. Hér á eftir eru ákvæðin í 5. gr. frumvarpsins (auðkennd sem frv.) og í reglum Alþingis (auðkenndar sem Alþ.) borin saman.
     A. Búsetuskilyrði.
    1. gr. Alþ. og liður A. 1. frv. eru samhljóða.
    Á 2. gr. Alþ. og lið A. 2. frv. er sá munur að bætt er inn hugtakinu staðfestri samvist sem jafngildi hjúskapar.
    3. gr. Alþ. og liður A. 3. frv. eru efnislega samhljóða en í stað þess að nota hugtakið óvígð sambúð er tekið upp hugtakið skráð sambúð.
    4. gr. Alþ. og liður A. 4. frv. eru samhljóða að öðru leyti en því að gerð er krafa um að hið íslenska foreldri umsækjanda hafi haft íslenskan ríkisborgararétt ekki skemur en í fimm ár.
    5. gr. Alþ. og liður A. 5. frv. eru efnislega samhljóða.
    6. gr. Alþ. er ekki tekin upp í frv. þar sem mjög fátítt er orðið að ríkisfang stofnist við hjúskap án umsóknar og valdi þannig missi ríkisfangs.
    7. gr. Alþ. og liður A. 6. frv. eru samhljóða er því að varðar 1. mgr. 7. gr. Alþ. en heimild sú sem felst 2. mgr. 7. gr. Alþ. um fólk sem hefur réttarstöðu sem jafna má til flóttamanna er ekki tekin upp í frv. Umsóknir þeirra sem sækja um ríkisborgararétt og óska eftir að staða þeirra verði metin til jafns við stöðu skilgreindra flóttamanna verða þá sendar Alþingi til skoðunar.
    8. gr. Alþ. og liður A. 7. frv. eru í meginatriðum samhljóða. Dvöl erlendis er þó bundin við tiltekinn tíma og er ekki sveigjanleg eins og er í 8. gr. Alþ.
    B. Önnur skilyrði.
    9. gr. Alþ. og liður B. 1. frv. eru samhljóða.
    10. gr. Alþ. varðar möguleika umsækjanda til að framfleyta sér hérlendis. Í lið B. 2. frv. er greinin efnislega tekin upp en bætt við hana ákvæði um að umsækjandi hafi ekki þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi síðastliðin tvö ár.
    11. gr. Alþ. fjallar um refisverða háttsemi umsækjanda. Í stað þess að taka þær reglur upp er gerð sú krafa í lið B. 3 frv. að umsækjandi hafi ekki sætt varðhalds- eða fangelsisrefsingu eða að hann eigi ekki ólokið máli vegna opinberrar kæru um refsiverða háttsemi. Umsóknir þeirra sem hafa á einhvern hátt gerst um sekir um alvarleg afbrot eða eiga ólokið refsimáli verða þá sendar Alþingi til skoðunar.
    Í næstseinustu málsgrein þessarar greinar er tekið upp nýtt ákvæði um veitingu ríkisborg araréttar. Það varðar börn sem fæðast hér á landi og fá ríkisfang frá hvorugu foreldri sínu. Samkvæmt Evrópusamningi um ríkisborgararétt, sem áður er getið, skal skv. 2. mgr. 6. gr. ríki veita barni, sem svo er ástatt um, borgararétt í ríkinu. Sömuleiðis á barn rétt til ríkisfangs samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um rétt barnsins, dags. 20. nóvember 1989, sem Ísland hefur fullgilt.

Um 6. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt 6. gr. laganna.
    Með tillögu þeirri sem gerð er í 5. gr. er hins vegar tekinn kúfurinn af umsóknum um ríkisborgararétt þannig að einungis munu koma til Alþingis þær umsóknir sem ekki fullnægja þeim skilyrðum sem talin eru í 5. gr.

Um 7. gr.

    Lagt er til að sú breyting verði gerð á 8. gr. laganna, sem fjallar um missi íslensks ríkisfangs þeirra Íslendinga sem fæddir eru erlendis og ekki hafa haft tengsl við landið áður en þeir ná 22 ára aldri, að íslenskt ríkisfang þessara borgara falli ekki niður verði þeir við það ríkisfangslausir.
    Samkvæmt greindum Evrópusamningi um ríkisborgararétt er ákvæði í 3. málsgr. 7. gr. sem segir að óheimilt sé að svipta mann ríkisborgararétti á þann hátt sem getur gerst miðað við ákvæði 8. gr. Er því talið nauðsynlegt að bæta slíku ákvæði við 1. mgr. 8 gr. laganna til að Ísland geti fullnægt ákvæðum samningsins.

Um 8. gr.

    Lagt er til að orðalagi 3. mgr. 10 gr. laganna verði breytt þannig að taldar verði upp þær greinar laganna þar sem maður þarf sjálfur að gefa yfirlýsingu um að hann óski eftir að verða íslenskur ríkisborgari og forsjármaður getur ekki gert það fyrir hans hönd.
    Ákvæði 10. gr. eins og það er nú er andstætt þeirri tillögu sem gerð er í 5. gr. frumvarpsins þar sem heimilað er að forsjármaður sæki um ríkisborgararétt fyrir barn.

Um 9. gr.

    Með lögum nr. 49/1982, um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, var breytt ákvæði 1. gr. laganna þannig að í stað þess ákvæðis að skilgetið barn fengi aðeins ríkisfang föður ef foreldrar eru giftir var sett það ákvæði að barnið fengi íslenskt ríkisfang við fæðingu ef það er skilgetið og faðir þess eða móðir er íslenskur ríkisborgari. Breyting þessi tók gildi 1. júlí 1982. Fyrir þann tíma gat íslensk móðir sem gift var erlendum ríkisborgara ekki látið sitt íslenska ríkisfang ganga til barns síns. Til að koma til móts við þær mæður sem höfðu óskað þess að börn þeirra sem fædd voru fyrir 1. júlí 1982 fengju að verða íslenskir ríkis borgarar var sett í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 49/1982 ákvæði sem segir að þau börn sem hinn 1. júlí 1982 voru innan 18 ára aldurs og hefðu getað orðið íslenskir ríkisborgarar ef ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt eins og þeim var breytt með lögum nr. 49/1982 hefðu verið í gildi við fæðingu þeirra geti fengið íslenskt ríkisfang með þeim hætti að móðir barnsins gefi um það skriflega yfirlýsingu til dómsmálaráðuneytisins. Frestur til að gefa þessa yfirlýsingu var takmarkaður við þrjú ár þannig að hann rann út 30. júní 1985. Barnið varð þó að vera innan 18 ára aldurs þegar að yfirlýsingin var gefin og móðirin íslenskur ríkisborgari.
    Frá því að frestur til að gefa þessa yfirlýsingu um ríkisborgararétt barns rann út 30. júní 1985 hafa komið fram allmargar kvartanir þess efnis að fólk hafi ekki vitað um þennan möguleika á því tímabili sem yfirlýsingarheimildin gilti og það því ekki haft tækifæri til að gefa þá yfirlýsingu sem þar greinir.
    Eitt slíkt tilvik hefur verið borið undir kærunefnd jafnréttismála. Kærunefndin gaf út álit sitt 10. janúar 1997. Í því segir að sú lagabreyting sem gerð var á 1. gr. laganna um íslenskan ríkisborgararétt 1982 „hafi ekki leiðrétt að fullu þann mun sem var á réttarstöðu barna á grundvelli kynferðis foreldra. Sú staðreynd að mæður barna sem 10. gr. tekur til hafi átt þess kost á tveggja og hálfs árs tímabili að tryggja börnum sínum íslenskt ríkisfang með tilkynningu til dómsmálaráðuneytisins breytir því ekki að réttarstaða barna varð áfram mismunandi eftir kynferði hins íslenska foreldris.“
    Kærunefnd telur því bráðabirgðaákvæði 10. gr. laga nr. 49/1982 ekki í samræmi við jafnréttislög og að það hafi ekki með öllu uppfyllt þær skyldur sem íslenska ríkið tók á sig með undirritun og fullgildingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Nefndin vísar einkum til 1. gr., 1. og 2. mgr. 9. gr. og f-lið 2. gr. sáttmálans. Í niðurlagi álitsins beinir nefndin þeim tilmælum til dómsmálaráðuneytisins að það beiti sér fyrir lagabreytingu sem leiðrétti þann mun sem er á réttarstöðu umræddra barna eftir kynferði hins íslenska foreldris. Sá munur á réttarstöðu karla og kvenna til að veita barni ríkisborgararétt sinn var eins og að framan segir leiðréttur að hluta með því ákvæði sem tók gildi með lögum nr. 49/1982. Eigi að síður njóta börn mæðra, sem giftar voru erlendum ríkisborgurum, ekki enn sama réttar og börn feðra sem kvæntir voru erlendum ríkisborgurum, hafi móðir þeirra ekki sent dómsmálaráðuneytinu tilkynningu skv. 10. gr. laganna. Sömuleiðis vekur nefndin athygli á að börn þau sem um ræðir höfðu sjálf enga möguleika á að gæta réttar síns hvað þetta varðar. Einnig telur kærunefndin að betur hefði mátt kynna ákvæðið og þannig veita fleiri konum tækifæri á að nýta sér þann rétt sem þar var heimilaður.
    Hins vegar tóku framangreind lög ekki á því misréttisákvæði sem enn er í 1. gr. laganna sem miðar við það að ríkisfang íslensks föður gangi því aðeins til barns hans að hann sé giftur móðurinni. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 49/1982 er drepið á að þarna sé enn um misrétti að ræða gagnvart kynjunum, körlum í óhag.
    Úr því misrétti er nú lagt til að verði bætt með 2. gr. frumvarps þessa. Samkvæmt því er körlum veittur jafn réttur til að láta íslenskt ríkisfang ganga til barns sem þeir eiga utan hjónabands og í hjónabandi.
    Með tilliti til þess að kærunefnd jafnréttismála hefur beint þeim tilmælum til dómsmála ráðuneytisins að það beiti sér fyrir lagabreytingu er leiðrétti þann mun sem er á réttarstöðu umræddra barna og með tilliti til þess að með frumvarpi þessu er reynt að leiðrétta þann mun sem er gagnvart möguleikum karla á að láta íslenskan ríkisborgararétt ganga til barna sinna, þykir eftir atvikum eðlilegt að gera þá tillögu að heimilað verði að börn þau sem 2. mgr. 10. gr. laga nr. 49/1982 hefði náð til, ef ekki hefðu í henni verið sett ákveðin tímamörk á mögu leika móður til að gefa yfirlýsingu um ríkisfangið, geti nú, annaðhvort fyrir tilverknað móður eða með eigin atbeina, öðlast íslenskt ríkisfang, enda fullnægi viðkomandi skilyrðum 8. gr. laganna til að vera íslenskur ríkisborgari en í því felst að viðkomandi hafi átt lögheimili hér á landi eða dvalist hér á landi í einhverju skyni, er af megi ráða, að hann vilji íslenskur ríkisborgari vera áður en hann verður 22 ára, enda sé hann ekki fæddur hér á landi.

Um 10. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. október 1998 en ákvæði til bráðabirgða öðlist þó gildi þegar í stað.


Fylgiskjal I.

EVRÓPUSAMNINGUR
um ríkisborgararétt.


Inngangsorð.
    Aðildarríki Evrópuráðsins, og önnur ríki sem undirritað hafa samning þennan,
    sem hafa í huga að markmið Evrópuráðsins er að auka samheldni aðila þess,
    sem hafa í huga hina mörgu alþjóðasamninga varðandi ríkisfang, margfaldan ríkis borgararétt og ríkisfangsleysi,
    sem viðurkenna að í málefnum er varða ríkisborgararétt beri að taka tillit til lögmætra hagsmuna, bæði ríkja og einstaklinga,
    sem vilja greiða fyrir áframhaldandi þróun meginreglna um ríkisborgararétt, sem og upp töku þeirra í landslög, og um leið sporna gegn því, svo sem unnt er, að upp komi dæmi um ríkisfangsleysi,
    sem vilja koma í veg fyrir mismunun í málum varðandi ríkisfang,
    sem gera sér grein fyrir þeim rétti til friðhelgi fjölskyldunnar sem fram kemur í 8. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis,
    sem taka tillit til þess að misjafnt er milli ríkja hvernig tekið er á margföldum ríkis borgararétti og sem viðurkenna að sérhverju ríki er frjálst að ákveða hvaða fylgjur það hafi að landslögum þess að ríkisborgari öðlist eða hafi annað ríkisfang,
    sem eru sammála um að æskilegt sé að finna viðeigandi lausnir á afleiðingum margfalds ríkisborgararéttar og sérstaklega hvað varðar réttindi og skyldur margfaldra ríkisborgara,
    sem telja það ákjósanlegt að einstaklingum sem njóta ríkisfangs í tveimur eða fleiri aðildar ríkjum samningsins verði aðeins gert að fullnægja herskyldu gagnvart einu ríkjanna,
    sem minnast þess að nauðsynlegt er að auka alþjóðlega samvinnu milli þeirra stjórnvalda í hverju ríki sem ábyrg eru fyrir málefni er snerta ríkisborgararétt,
    hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

I. kafli.
Almenn ákvæði .
1. gr.
Tilgangur samningsins.

    Samningur þessi staðfestir grundvallarreglur og aðrar reglur sem snerta ríkisborgararétt manna sem og reglur varðandi herskyldu þeirra sem eru margfaldir ríkisborgarar og skulu landslög samningsríkjanna vera í samræmi við reglur samningsins.

2. gr.
Skilgreiningar.

    Í samningi þessum merkir:
a.      „ríkisborgararéttur“ hin lögákveðnu tengsl milli manns og ríkis, án þess að í því felist tilvísun til kynþáttar mannsins;
b.      „margfaldur ríkisborgararéttur“ að sami maður hafi samtímis ríkisborgararétt í tveimur eða fleiri ríkjum;
c.      „barn“ sérhvern mann sem ekki hefur náð átján ára aldri, nema hann nái fyrr lögræðisaldri samkvæmt lögum þeim sem hann lýtur.
d.      „landslög“ hvers konar ákvæði í landsrétti, þar með talin stjórnlög, almenn lög, reglugerðir, stjórnvaldsfyrirmæli, dómafordæmi og venjuréttur, sem og reglur sem leiddar eru af bindandi þjóðréttarsamningum.

II. kafli.
Almennar grundvallarreglur varðandi ríkisborgararétt.

3. gr.
Valdbærni ríkisins.

1.      Sérhvert ríki ákveður það með lögum hverjir skuli vera ríkisborgarar þess.
2.      Önnur ríki skulu virða slík lög, að svo miklu leyti sem fyrirmæli laganna eru í samræmi við gildandi alþjóðlega samninga, venjurétt milli þjóða, og þær grundvallarreglur sem almennt eru viðurkenndar varðandi ríkisborgararétt.

4. gr.
Grundvallarreglur.

    Reglur um ríkisborgararétt hvers aðildarríkis samningsins skulu reistar á eftirfarandi grundvallarreglum:
a.      sérhver maður á rétt til ríkisborgararéttar,
b.      forðast ber ríkisfangsleysi,
c.      enginn skal sviptur ríkisborgararétti sínum með geðþóttaákvörðun,
d.      hvorki hjónavígsla né slit hjónabands milli þegns samningsríkis og útlendings, né heldur breyting ríkisborgararéttar hjá öðrum maka meðan á hjónabandi stendur, skal með sjálfvirkum hætti hafa áhrif á ríkisborgararétt hins makans.

5. gr.
Bann við mismunun.

1.      Reglur um ríkisborgararétt í sérhverju samningsríki mega ekki geyma mismunun eða gera ráð fyrir framkvæmd sem jafngildir að mismunun eigi sér stað á grundvelli kyns, trúar, kynþáttar, litarháttar eða þjóðernislegs eða kynþáttarbundins uppruna.
2.      Sérhvert samningsríki skal halda í heiðri grundvallarregluna um að mismuna ekki ríkisborgurum sínum eftir því hvort þeir hafa öðlast ríkisborgararétt við fæðingu eða síðar.

III. kafli.
Reglur sem varða ríkisborgararétt.

6. gr.
Öflun ríkisborgararéttar.

1.      Sérhvert samningsríki skal mæla fyrir um það í landslögum að ríkisborgararétt þess öðlist lögum samkvæmt eftirfarandi menn:
       a.      börn foreldris sem við fæðingu barnanna hefur ríkisborgararétt í samningsríkinu, með þeim undantekningum sem kunna að vera í landslögum þess varðandi börn fædd er lendis. Sérhverju samningsríki er heimilt, að því er varðar börn þar sem móðerni eða faðerni er staðfest með viðurkenningu, dómsúrskurði eða á svipaðan hátt, að ákveða að barnið öðlist ríkisborgararétt sinn á þann hátt sem landslög ákveða.
       b.      börn, sem fundist hafa innan marka ríkisins, sem að öðrum kosti væru ríkisfangslaus.
2.      Sérhvert samningsríki skal mæla fyrir um það í landslögum að ríkisborgararétt þess öðlist börn sem fædd eru innan marka þess, og sem öðlast ekki annan ríkisbogararétt við fæðingu. Slíkur ríkisborgararéttur skal veittur:
       a.      við fæðingu, lögum samkvæmt eða
       b.      síðar, þeim börnum sem áfram eru ríkisfangslaus, samkvæmt umsókn sem komið er á framfæri af barninu eða fyrir þess hönd, við þar til bært stjórnvald, með þeim hætti sem mælt er fyrir um í landslögum ríkisins. Slíka umsókn má binda því skilyrði að um lögmæta og varanlega búsetu hafi verið að ræða á landsvæði ríkisins í tiltekinn tíma, sem þó má ekki vera lengri en fimm ár samfellt áður en umsókn er lögð fram.
3.      Sérhvert samningsríki skal mæla fyrir um það í landslögum að ríkisborgarar geti orðið menn sem hafa lögmæta og varanlega búsetu á yfirráðasvæði ríkisins. Þegar skilyrði fyrir ríkisborgararétti eru ákveðin, skal ekki krefjast lengri búsetu en tíu ár áður en umsókn um ríkisborgararétt er lögð fram.
4.      Sérhvert samningsríki skal í landslögum sínum auðvelda eftirfarandi mönnum öflun ríkisborgararéttar síns:
       a.      mökum ríkisborgara sinna,
       b.      börnum ríkisborgara síns, enda falli þau undir undantekningarákvæði a-liðar 1. mgr. 6. gr.,
       c.      börnum foreldris sem öðlast eða hefur áður öðlast ríkisborgararétt í ríkinu,
       d.      börn sem ættleidd eru af ríkisborgara samningsríkis,
       e.      mönnum sem fæddir eru innan marka samningsríkis og hafa haft þar lögmæta og varanlega búsetu,
       f.      mönnum sem hafa og hafa haft lögmæta og varanlega búsetu innan marka samningsríkis tiltekinn tíma, talið frá því áður en þeir urðu átján ára, en sú tímalengd skal ákveðin í landslögum ríkisins.
       g.      mönnum án ríkisfangs og viðurkenndumr flóttamönnum sem tekið hafa upp lögmæta og varanlega búsetu á yfirráðasvæði samningsríkis.

7. gr.
Missir ríkisborgararéttar samkvæmt lögum
eða að frumkvæði samningsríkis.

1.      Samningsríki má ekki mæla fyrir um það í landslögum sínum að maður missi ríkisborgararétt samkvæmt lögum eða að frumkvæði samningsríkis, nema í eftirfarandi tilvikum:
       a.      þegar maður öðlast annan ríkisborgararétt af frjálsum vilja,
       b.      þegar maður hefur öðlast ríkisborgararétt samningsríkisins með sviksamlegum hætti, með því að gefa rangar upplýsingar eða leyna mikilvægum staðreyndum sem varða umsækjanda,
       c.      þegar maður gengur af frjálsum vilja í þjónustu erlends hers,
       d.      þegar maður hefur haft í frammi háttsemi sem skaðað getur mikilvæga hagsmuni samningsríkisins,
       e.      þegar ekki eru til staðar raunveruleg tengsl milli samningsríkisins og ríkisborgara sem hefur varanlega búsetu erlendis,
       f.      þegar staðreynt er, meðan maður er enn ósjálfráða barn, að lögmælt skilyrði landsréttar, sem leiddu til ríkisborgararéttar mannsins í samningsíkinu lögum samkvæmt, eru ekki lengur uppfyllt,
       g.      þegar barn er ættleitt, og öðlast við það, eða hefur þá þegar, erlendan ríkisborgararétt annars eða beggja ættleiðingarforeldra.
2.      Samningsríki er heimilt að kveða á um að barn missi ríkisborgararétt ríkisins þegar foreldrar þess missa þann ríkisborgararétt, nema í tilvikum sem greinir í c- og d-lið 1. mgr. Þó skulu börn ekki missa ríkisborgararéttinn samkvæmt þessu ákvæði ef annað foreldrið heldur honum.
3.      Samningsríki má ekki mæla fyrir um missi ríkisborgararéttar í landslögum sínum, í þeim tilvikum sem greinir í 1. og 2. mgr. þessarar greinar, ef viðkomandi maður yrði þar með ríkisfangslaus, þó með undantekningu að því er varðar tilvik sem fellur undir b-lið 1. mgr. þessarar greinar.

8. gr.
Missir ríkisborgararéttar að frumkvæði einstaklings.

1.      Sérhvert samningsríki skal leyfa að ríkisborgararétti sé afsalað, enda verði viðkomandi eigi við það ríkisfangslaus.
2.      Samningsríki getur samt sem áður mælt svo fyrir í landslögum að einungis ríkisborgarar með fasta búsetu erlendis geti afsalað sér ríkisborgararétti.

9. gr.
Enduröflun ríkisborgararéttar.

    Sérhvert samningsríki skal auðvelda, í þeim tilvikum og með þeim skilyrðum sem greinir í landslögum, að fyrrum ríkisborgarar þess geti aflað sér ríkisborgararéttar að nýju, enda hafi þeir tekið upp lögmæta og varanlega búsetu innan marka þess.


IV. kafli.
Meðferð mála sem varða ríkisborgararétt .

10. gr.
Meðferð umsókna.

    Sérhvert samningsríki skal tryggja að umsóknir varðandi veitingu, hald, missi, endurheimt eða staðfestingu á ríkisborgararétti þess séu afgreiddar innan eðlilegra tímamarka.

11. gr.
Ákvarðanir.

    Sérhvert samningsríki skal tryggja að ákvörðunum sem teknar eru varðandi veitingu, hald, missi, endurheimt eða staðfestingu á ríkisborgararétti þess fylgi skriflegur rökstuðningur.

12. gr.
Réttur til málskots.

    Sérhvert samningsríki skal tryggja, að ákvarðanir sem teknar eru varðandi veitingu, hald, missi, endurheimt eða staðfestingu á ríkisborgararétti þess geti sætt endurskoðun stjórnvalds eða dómstóls, í samræmi við landslög.

13. gr.
Gjöld.

1.      Sérhvert samningsríki skal tryggja að gjöld, sem innheimt eru varðandi veitingu, hald, missi, endurheimt eða staðfestingu á ríkisborgararétti þess, séu sanngjörn.
2.      Sérhvert samningsríki skal tryggja að gjöld, sem innheimt eru af málum sem endurskoðuð eru af stjórnvaldi eða dómstóli, séu ekki tálmi fyrir umsækjendur.

V. kafli.
Margfaldur ríkisborgararéttur.

14. gr.


Tilvik þar sem margfaldan ríkisborgararétt leiðir af lögum.

1.      Samningsríki skal leyfa:
       a.      að börn, sem sjálfkrafa hafa hlotið mismunandi ríkisborgararétt við fæðingu, haldi slíkum rétti,
       b.      að ríkisborgarar þessir hafi annan ríkisborgararétt þegar slíkur ríkisborgararéttur er fenginn sjálfkrafa við giftingu.
2.      Hald þeirra ríkisborgararétta sem getið er um í 1. mgr. er háð viðeigandi ákvæðum þar að lútandi í 7. gr. þessa samnings.

15. gr.
Önnur tilvik þar sem margfaldur ríkisborgararéttur er mögulegur.

    Ákvæði þessa samnings skulu ekki takmarka rétt samningsríkis til þess að ákveða í landslögum:
a.      hvort ríkisborgarar þess, sem öðlast eða hafa ríkisborgararétt í öðru ríki, halda ríkisborgararétti þess eða missi hann,
b.      hvort öflun eða hald ríkisborgararéttar þess sé háð því að öðrum ríkisborgararétti sé afsalað eða hans misst.

16. gr.
Varðveisla fyrri ríkisborgararéttar.

    Samningsríki skal ekki gera það að skilyrði fyrir öflun eða haldi ríkisborgararéttar þess að öðrum ríkisborgararétti sé afsalað eða hans misst, ef slíkt afsal eða missir er ógerlegur eða ósanngjarnt er að krefjast þess.

17. gr.
Réttindi og skyldur sem varða margfaldan ríkisborgararétt.

1.      Ríkisborgarar samningsríkis, sem jafnframt hafa annan ríkisborgararétt, skulu á meðan þeir dvelja innan marka samningsríkisins, hafa sömu réttindi og skyldur og aðrir ríkis borgarar þess samningsríkis.
2.      Ákvæði þessa kafla hafa ekki áhrif á:
       a.      reglur þjóðaréttar um heimild samningsríkis til að veita vernd sendiráðs- eða ræðismanns ríkisborgara sínum, enda þótt viðkomandi maður hafi jafnframt annan ríkisborg ararétt,
       b.      beitingu reglna alþjóðaeinkamálaréttar af hálfu hvers samningsríkis þegar um er að ræða margfaldan ríkisborgararétt.

VI. kafli.
Ríkisborgararéttur er ríki tekur við af öðru .

18. gr.
Meginreglur.

1.      Að því er ríkisborgararétt varðar þegar ríki tekur við af öðru skal sérhvert samningsríki sem í hlut á meginreglur lögbundinnar réttarskipunar, reglur um mannréttindi og grund vallarreglur þær, sem 4. og 5. gr. samnings þessa hafa að geyma, sem og ákvæði 2. mgr. þessarar greinar, einkum þó og sér í lagi til þess að forða því að upp komi tilvik um ríkisfangsleysi.
2.      Þegar kveðið er á um öflun ríkisborgararéttar eða hald hans þegar um er að ræða að ríki tekur við af öðru skal sérhvert samningsríki sem í hlut á taka sérstaklega mið af því:
       a.      hvort til staðar eru sönn og virk tengsl milli viðkomandi manns og ríkisins,
       b.      hvar viðkomandi maður hefur varanlega búsetu þegar af ríkjayfirfærslu verður,
       c.      hver er vilji þess manns sem um ræðir og
       d.      frá hvaða landsvæði viðkomandi maður er upprunninn.
3.      Ákvæði 16. gr. samnings þessa skulu gilda þegar öflun ríkisborgararéttar er háð missi erlends ríkisborgararéttar.

19. gr.


Niðurstaða fæst með alþjóðlegu samkomulagi.


    Í þeim tilvikum þegar ríki tekur við af öðru skulu samningsríki sem í hlut eiga af fremsta megni reyna að greiða úr málum varðandi ríkisborgararétt með samkomulagi sín á milli, sem og í samskiptum sínum við önnur ríki sem í hlut eiga, eftir því sem við á. Slíkt samkomulag skal virða þær meginreglur og aðrar reglur sem er að finna eða vísað er til í þessum kafla.

20. gr.


Meginreglur um þá sem ekki njóta ríkisborgararéttar.


1.      Sérhvert samningsríki skal virða eftirfarandi meginreglur:
       a.      ríkisborgarar þess ríkis, sem á undan var og sem hafa varanlega búsetu á landsvæði sem viðtökuríkið fær fullveldisrétt yfir og sem ekki hafa öðlast ríkisborgararétt í því ríki, skulu hafa rétt til að vera um kyrrt í því ríki,
       b.      menn sem vísað er til í a-lið skulu njóta jafnræðis gagnvart ríkisborgurum viðtökuríkisins hvað varðar félagsleg og efnahagsleg réttindi,
2.      Sérhvert samningsríki má útiloka menn sem falla undir 1. mgr. frá starfi í opinberri þjónustu sem felur í sér handhöfn ríkisvalds.

VII. kafli.
Herskylda þeirra sem hafa margfaldan ríkisborgararétt .

21. gr.
Fullnusta herskyldu.

1.      Mönnum sem hafa ríkisborgararétt í tveimur eða fleiri samningsríkjum skal einungis gert að fullnægja herskyldu gagnvart einu þessara ríkja.
2.      Samningsríkjunum er frjálst að semja sérstaklega um það sín á milli hvernig ákvæði 1. mgr. er framfylgt.
3.      Að svo miklu leyti sem ekki er, eða verður, sérstaklega um annað samið skulu eftirfarandi reglur gilda um menn sem hafa ríkisborgararétt í tveimur eða fleirum samningsríkjum:
       a.      hverjum manni sem svo er ástatt um verður gert að gegna herskyldu í samningsríki því þar sem viðkomandi hefur varanlega búsetu. Þrátt fyrir þetta skal viðkomandi, að 19 ára aldri, frjálst að ákveða að gegna sem sjálfboðaliði herskyldu hjá öðru samningsríki, þar sem hann hefur jafnframt ríkisborgararétt, enda sé í reynd um að ræða heildartíma sem er að minnsta kosti jafnlangur virkri herþjónustu í þágu fyrrnefnda ríkisins,
       b.      menn, sem hafa fasta búsetu innan marka samningsríkis, án þess þó að vera ríkisborgarar þess ríkis, eða búa í ríki sem ekki er aðili að samningi þessum, geta valið að gegna áskilinni herþjónustu innan marka hvers þess samningsríkis sem þeir hafa ríkis borgararétt í,
       c.      menn, sem samkvæmt ákvæðum a- og b-liðar þessarar greinar gegna herskyldu í einu samningsríki, samkvæmt lögum þess, skulu teljast hafa fullnustað herskyldu gagnvart sérhverju öðru samningsríki eða samningsríkjum, sem þeir jafnframt hafa ríkisborgararétt í,
       d.      þeir menn, sem fyrir gildistöku samnings þessa milli samningsríkja þar sem þeir hafa ríkisborgararétt hafa gegnt herskyldu í einu samningsríkjanna samkvæmt lögum þess, skulu teljast hafa fullnustað sömu skyldur gagnvart sérhverju öðru samningríki eða samningsríkjum, sem þeir jafnframt hafa ríkisborgararétt í,
       e.      menn, sem samkvæmt a-lið hafa gegnt herþjónustu gagnvart einu samningsríki þar sem þeir njóta ríkisborgararéttar, en flytjast síðar búferlum til landsvæðis annars samnings ríkis, þar sem þeir njóta jafnframt ríkisborgararéttar, verður einungis gert að gegna herþjónustu í varaliði síðarnefnda samningsríkisins,
       f.      framkvæmd þessarar greinar má ekki á nokkurn hátt skerða ríkisborgararétt þeirra manna sem undir hana falla,
       g.      ef kemur til almennrar herkvaðningar hjá einhverju samningsríki, skulu þær skuldbindingar sem leiðir af ákvæðum þessarar greinar ekki vera bindandi gagnvart því ríki.

22. gr.
Undanþágur frá herþjónustu eða þeim
valkosti að gegna samfélagsþjónustu.

    Að svo miklu leyti sem ekki er, eða verður, sérstaklega um annað samið skulu eftirfarandi reglur gilda um menn sem hafa ríkisborgararétt í tveimur eða fleirum samningsríkjum:
a.      c-liður 3. mgr. 21. gr. samnings þessa skal gilda um menn sem undanþegnir hafa verið herskyldu eða hafa innt af hendi samfélagsþjónustu sem valkost,
b.      menn, er eiga ríkisborgararétt í samningsríki sem ekki krefst herskyldu, skulu teljast hafa fullnustað herskyldu sína þegar þeir hafa varanlega búsetu í því samningsríki. Þó skulu þeir menn ekki teljast hafa fullnustað herskyldu sína gagnvart samningsríki eða -ríkjum, þar sem þeir hafa jafnframt ríkisborgararétt og þar sem herskylda er við lýði, nema varanleg búseta samkvæmt áðurgreindu hafi verið óslitin fram að tilteknum aldri, sem hvert samningsríki um sig sem í hlut á skal tilkynna um, við undirritun eða afhendingu fullgildingar-, viðurkenningar- eða aðildarskjals,
c.      sömuleiðis skulu þeir menn, er eiga ríkisborgararétt í samningsríki sem ekki krefst herskyldu, teljast hafa fullnustað herskyldu sína þegar þeir hafa sem sjálfboðaliðar gegnt herþjónustu og í reynd er um að ræða heildartíma sem er a.m.k. jafnlangur virkri her þjónustu sem gildir í samningsríki, þar sem þeir eiga einnig ríkisborgararétt, óháð því hvar þeir eiga fasta búsetu.

VIII. kafli.
Samvinna milli samningsríkja .

23. gr.
Samvinna milli samningsríkja.

1.      Með það að markmiði að auðvelda samvinnu milli samningsríkjanna skulu þar til bær yfirvöld í þeim:
       a.      veita framkvæmdastjóra Evrópuráðsins upplýsingar um ákvæði landslaga sinna um ríkisborgararétt, þar á meðal varðandi tilvik um ríkisfangsleysi og margfaldan ríkis borgararétt, sem og upplýsingar um þróun mála sem varða beitingu samningsins,
       b.      láta öðrum samningsríkjum í té umbeðnar upplýsingar um ákvæði landslaga sinna um ríkisborgararétt, sem og upplýsingar um þróun mála sem varða beitingu samningsins.
2.      Samningsríki skulu eiga samvinnu sín í milli, sem og við önnur aðildarríki Evrópuráðsins á viðeigandi milliríkjavettvangi þess, til að fást við öll vandamál sem máli skipta og vinna að áframhaldandi þróun meginréttarreglna um ríkisborgararétt og réttarframkvæmd, sem og mála sem því tengjast.

24. gr.
Skipti á upplýsingum.

    Sérhvert samningsríki getur hvenær sem er lýst því yfir að það muni upplýsa annað samn ingsríki, sem samsvarandi yfirlýsingu hefur gefið, um þá ríkisborgara síðarnefnda samnings ríkisins sem sjálfviljugir hafa öðlast ríkisborgararétt fyrrnefnda ríkisins, enda sé gætt við eigandi lagaákvæða um persónuupplýsingar. Slík yfirlýsing getur greint með hvaða skilyrðum samningsríki veitir upplýsingarnar. Draga má yfirlýsinguna til baka hvenær sem er.

IX. kafli.
Framkvæmd samningsins.

25. gr.
Yfirlýsingar varðandi framkvæmd samningsins.

1.      Sérhvert samningsríki getur lýst því yfir við undirritun eða afhendingu fullgildingar, viðurkenningar-, staðfestingar- eða aðildarskjals að það muni við beitingu samningsins undanskilja VII. kafla hans.
2.      Ákvæði VII. kafla skulu einungis ráða í samskiptum milli samningsríkja, þar sem þau hafa gildi.
3.      Sérhvert samningsríki getur síðar tilkynnt framkvæmdastjóra Evrópuráðsins að það muni beita ákvæðum VII. kafla samningsins, sem undanskilinn var við undirritun samningsins eða afhendingu fullgildingar, viðurkenningar-, staðfestingar- eða aðildarskjals. Slík tilkynning tekur gildi frá móttökudegi.

26. gr.
Áhrif samningsins.

1.      Ákvæði þessa samnings skulu ekki skerða ákvæði í landslögum eða bindandi alþjóðasamningum, sem tekið hafa eða taka kunna gildi, og sem veitt hafa eða veita kunna ein staklingi hagstæðari réttindi varðandi ríkisborgararétt.
2.      Þessi samningur kemur ekki í veg fyrir að beitt verði ákvæðum:
       a.      samnings frá um 1963 um fækkun tilvika margfalds ríkisborgararéttar og herskyldu þeirra sem njóta margfalds ríkisborgararéttar, ásamt samningsviðaukum við hann, eða
       b.      annarra bindandi þjóðréttarsamninga, að svo miklu leyti sem ákvæði þeirra eru samrýmanleg samningi þessum,
        í samskiptum milli samningsríkjanna sem bundin eru umræddum samningum.

X. kafli.
Lokaákvæði .

27. gr.
Undirritun og gildistaka.

1.      Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu aðildarríkja Evrópuráðsins og af hálfu þeirra ríkja sem standa utan Evrópuráðsins en hafa tekið þátt í tilurð hans. Þessi ríki geta lýst yfir samþykki sínu við því að verða bundin af samningnum með því:
       a.      að undirrita hann án fyrirvara um fullgildingu, viðurkenningu eða staðfestingu eða
       b.      að undirrita hann með fyrirvara um fullgildingu, viðurkenningu eða staðfestingu og með síðari fullgildingu, viðurkenningu eða staðfestingu.
        Skjöl um fullgildingu, viðurkenningu eða staðfestingu skulu afhent aðalframkvæmda stjóra Evrópuráðsins.
2.      Samningur þessi öðlast gildi gagnvart öllum ríkjum, sem lýst hafa yfir samþykki sínu við að vera bundin af honum, fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að þrjú aðildarríki Evrópuráðsins hafa lýst yfir samþykki sínu til að verða bundin af samningnum, í samræmi við ákvæði málsgreinarinnar hér á undan.
3.      Gagnvart hverju því ríki, sem síðar lýsir yfir samþykki sínu til að verða bundið af samningnum, öðlast hann gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá undirritun, eða frá þeim degi er skjal um fullgildingu, viðurkenningu eða staðfestingu er afhent.

28. gr.
Aðild.

1.      Er samningur þessi hefur öðlast gildi getur ráðherranefnd Evrópuráðsins boðið hverju því ríki, sem stendur utan Evrópuráðsins og hefur ekki tekið þátt í tilurð samningsins, að gerast aðili að honum.
2.      Gagnvart hverju því ríki sem þannig gerist aðili að samningnum öðlast hann gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst þegar liðnir eru þrír mánuðir frá því að aðildarskjal er afhent aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.

29. gr.
Fyrirvarar.

1.      Ekki má gera neina fyrirvara varðandi ákvæði I., II. og IV. kafla þessa samnings. Sérhverju ríki skal heimilt við undirritun samnings þessa, eða við afhendingu á skilríkjum um fullgildingu, samþykki, viðurkenningu eða aðild, að gera einn eða fleiri fyrirvara við önnur ákvæði samningsins, svo framarlega sem slíkir fyrirvarar eru samrýmanlegir tilgangi og markmiðum þessa samnings.
2.      Sérhvert ríki sem gerir einn eða fleiri fyrirvara skal tilkynna aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins um viðeigandi efnisatriði í gildandi landslögum þess eða aðrar viðeigandi upplýsingar.
3.      Ríki sem gerir einn eða fleiri fyrirvara í samræmi við 1. mgr. skal meta hvort draga eigi fyrirvara til baka í heild eða að hluta, um leið og aðstæður leyfa. Fyrirvari verður dreginn til baka með tilkynningu þar að lútandi sem send er aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins og tekur hún gildi frá móttökudegi.
4.      Sérhvert ríki, sem tilkynnir skv. 2. mgr. 30. gr. að framkvæmd samnings þessa skuli einnig ná til hins tilgreinda landsvæðis, getur ákveðið að gera einn eða fleiri fyrirvara í samræmi við ákvæði undanfarandi málsgreina, sem eigi við um hið tilgreinda landsvæði.
5.      Samningsríki sem gert hefur fyrirvara við eitthvert af ákvæðunum í VII. kafla samnings þessa getur ekki krafist þess að þeim ákvæðum sé beitt af öðru samningsríki nema að því leyti sem það sjálft hefur samþykkt ákvæðin.

30. gr.
Landsvæði sem samningurinn tekur til.

1.      Við undirritun samnings þessa, eða þegar skjal um fullgildingu, viðurkenningu, staðfestingu eða aðild er afhent, getur ríki tilgreint það eða þau landsvæði sem samningurinn skal taka til.
2.      Ríki getur hvenær sem er síðar, með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, fært gildi samningsins út til annars landsvæðis sem tilgreint er í yfirlýsingunni og það fer með utanríkismál fyrir eða hefur heimild til að skuldbinda. Samningurinn öðlast gildi gagnvart slíku landsvæði fyrsta dag þess mánaðar þegar liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri yfirlýsingu.
3.      Yfirlýsingar, sem gefnar eru skv. 1. og 2. mgr. má, með tilkynningu til aðalframkvæmdastjórans, afturkalla með tilliti til hvaða landsvæðis sem er sem tilgreint hefur verið í slíkri yfirlýsingu. Afturköllunin öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri tilkynningu.

31. gr.
Uppsögn.

1.      Samningsaðili getur hvenær sem er, með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, sagt upp samningi þessum í heild eða einungis VII. kafla hans.
2.      Slík uppsögn skal öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri tilkynningu.

32. gr.
Tilkynningar frá aðalframkvæmdastjóranum.

    Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal tilkynna aðildarríkjum Evrópuráðsins, sér hverju ríki sem undirritað hefur, sérhverju samningsríki og sérhverju öðru ríki sem gerst hefur aðili að samningi þessum, um:
a.      sérhverja undirritun,
b.      afhendingu sérhvers fullgildingar-, viðurkenningar-, staðfestingar- eða aðildarskjals,
c.      sérhvern gildistökudag samnings þessa, í samræmi við ákvæði 27. og 28. gr. samningsins,
d.      sérhvern fyrirvara og afturköllun fyrirvara sem gert er samkvæmt ákvæðum 28. gr. samnings þessa,
e.      sérhverja tilkynningu eða yfirlýsingu sem gefin er samkvæmt ákvæðum 23., 24., 25., 27., 28., 29., 30. og 31. gr. samnings þessa,
f.      sérhvern annan gerning, tilkynningu eða orðsendingu sem samning þennan varða.
    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, ritað undir samning þennan.
    Gjört í Strassborg, 6. nóvember 1997, á ensku og frönsku, í einu eintaki, sem varðveitt skal í skjalasafni Evrópuráðsins, og eru báðir textar jafngildir. Aðalframkvæmdastjóri Evrópu ráðsins skal senda staðfest endurrit hans til sérhvers aðildarríkis Evrópuráðsins, til þeirra ríkja, sem ekki eru aðilar að ráðinu, en hafa tekið þátt í tilurð samnings þessa og til sérhvers þess ríkis sem boðin hefur verið aðild að honum.


Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á
lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952.

    Frumvarpið felur í sér nokkrar breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt en veigamikil breyting er að dómsmálaráðuneytið getur að vissum skilyrðum uppfylltum veitt ríkis borgararétt án þess að leggja þurfi umsókn fyrir Alþingi. Alþingi getur eftir sem áður veitt ríkisborgararétt með lögum. Ekki er talið að þessi breyting hafi teljandi áhrif á vinnu í dóms málaráðuneyti né aðrar breytingar sem tilgreindar eru í frumvarpinu. Það er því mat fjármála ráðuneytis að verði frumvarpið óbreytt að lögum hafi það ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.