Ferill 348. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 461 – 348. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



     1. gr.


    Á eftir I. kafla laganna kemur nýr kafli, I. kafli A, Tryggðir samkvæmt lögunum, með fjórum nýjum greinum, 9. gr. a – 9. gr. d, er orðast svo:

    a. (9. gr. a.)
    Sá sem búsettur er hér á landi telst tryggður, sbr. þó 24. gr., að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum.
    Með búsetu skv. 1. mgr. er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga.
    Tryggingastofnun ríkisins ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt lögunum. Um málskot fer skv. 7. gr.

    b. (9. gr. b.)
    Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur, sem tryggður er samkvæmt lögunum, sé áfram tryggður, sbr. þó 24. gr., þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a, enda starfi viðkomandi erlendis fyrir aðila sem hafi aðsetur og starfsemi á Íslandi og tryggingagjald, sbr. lög nr. 113/1990, sé greitt hér á landi af launum hans. Sama gildir um maka hans og börn undir 18 ára aldri sem dveljast með honum.
    Umsókn um tryggingu samkvæmt þessari grein skal berast Tryggingastofnun ríkisins eigi síðar en fjórum vikum fyrir brottför af landinu.

    c. (9. gr. c.)
    Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur, sem tryggður er samkvæmt lögunum, sé áfram tryggður, sbr. þó 24. gr., í allt að eitt ár frá brottför af landinu þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a eða 9. gr. b, enda leiði milliríkjasamningar ekki til annars. Skilyrði þessa er að viðkomandi hafi haft samfellda fasta búsetu hér á landi eigi skemur en fimm ár fyrir brottför og að það sé ekki tilgangur farar að leita læknis meðferðar.
    Umsókn um tryggingu samkvæmt þessari grein skal berast Tryggingastofnun ríkisins eigi síðar en fjórum vikum fyrir brottför af landinu.

    d. (9. gr. d.)
    Ráðherra setur reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um skrán ingu Tryggingastofnunar ríkisins á tryggingaréttindum einstaklinga og hvað telja skuli viðurkennt nám erlendis.


2. gr.

    Síðari málsliður a-liðar 24. gr. laganna orðast svo: Starf um borð í íslensku skipi, skipi sem gert er út af íslenskum aðila, íslenskri flugvél eða flugvél sem rekin er af íslenskum aðila jafngildir starfi hér á landi samkvæmt þessum lið.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      1. mgr orðast svo:
                  Sá sem átt hefur lögheimili í landinu í sex mánuði í skilningi lögheimilislaga og laga um tilkynningar aðsetursskipta, sbr. og ákvæði I. kafla A laga þessara, telst sjúkra tryggður, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Heimilt er að greiða nauðsynlega þjónustu í skyndilegum sjúkdómstilfellum þótt biðtíminn sé ekki liðinn.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra getur sett reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd sjúkratrygginga, um starfsemi sjúkratryggingadeildar og um undanþágur frá sex mánaða lögheimilisskilyrði og framkvæmd þeirra.

4. gr.

    53. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1998. Ákvæði 2. gr. og b-liðar 3. gr. öðlast þó þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur, sem uppfyllti skilyrði 9. gr. b 1. janúar 1994 eða síðar, teljist tryggður hér á landi.
    Umsókn um tryggingu samkvæmt heimild í þessu ákvæði skal berast Tryggingastofnun ríkisins eigi síðar en 1. júlí 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 26. maí 1995 skipaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra vinnuhóp til að kanna ýmsa annmarka lögheimilisskilyrða almannatrygginga gagnvart lífeyristryggingu og sjúkra tryggingu. Hópurinn var skipaður Dögg Pálsdóttur hrl., áður skrifstofustjóra, og Ragnhildi Arnljótsdóttur deildarstjóra sem var ritari nefndarinnar, tilnefndum af heilbrigðis- og trygg ingamálaráðuneyti, Ágúst Þór Sigurðssyni, Hildi Sverrisdóttur og Kristjáni Guðjónssyni deildarstjórum, tilnefndum af Tryggingastofnun ríkisins, og Eiríki Hilmarssyni, staðgengli hagstofustjóra, og Skúla Guðmundssyni skrifstofustjóra, tilnefndum af Hagstofu Íslands. Frumvarp það sem hér er lagt fram er í meginatriðum byggt á tillögum vinnuhópsins.
    Hinn 1. janúar 1994 gengu í gildi ný lög um almannatryggingar, nr. 117/1993. Þau eru að verulegu leyti samhljóða eldri almannatryggingalögum, nr. 67/1971, með síðari breytingum, að öðru leyti en því að tekið var tillit til nýrra skuldbindinga vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES-svæðinu).
    Um alllangt skeið hefur lögheimili hér á landi skorið úr um hvort einstaklingur teljist tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar. Komið hefur í ljós, ekki síst eftir gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins), að þetta skilyrði skortir nauðsynlegan sveigjanleika gagnvart þeim margvíslegu tilvikum sem upp geta komið m.a. í tengslum við frjálsa fólksflutninga innan EES-svæðisins. Jafnframt er með breytingunum sem felast í frumvarpinu tekið tillit til dóms Hæstaréttar frá 27. maí 1993 varðandi greiðslu mæðralauna. Í niðurstöðum dómsins kemur fram að Tryggingastofnun ríkisins geti ekki byggt alfarið á lögheimilisskráningu Hagstofu Íslands þegar metinn er réttur til bótagreiðslna frá stofnuninni.
    Með frumvarpi þessu er leitast við að gera lagaframkvæmdina liprari og jafnframt skýrari. Lagt er til að í lög um almannatryggingar komi nýr kafli sem verði I. kafli A og heiti Tryggðir samkvæmt lögunum. Í kaflanum verði fjórar nýjar greinar, 9. gr. a – 9. gr. d. Í þessum nýju greinum er fjallað með ítarlegri hætti en í gildandi lögum um það hverjir séu tryggðir hér á landi og hvaða undanþágur Tryggingastofnun ríkisins megi veita. Jafnframt er gert ráð fyrir því í 2. gr. frumvarpsins að gerð verði breyting á 24. gr. laganna um slysatryggingar þannig að sjómenn á skipum sem gerð eru út af íslenskum aðila og þiggja laun og greiða skatta hér á landi teljist slysatryggðir samkvæmt lögunum. Sambærileg breyting er gerð varðandi flug vélar sem reknar eru af íslenskum aðilum. Þá er kveðið á um breytingu á orðalagi 32. gr. laganna varðandi heimild ráðherra til að setja reglugerð um undanþágur frá skilyrði um sex mánaða búsetu hér á landi. Gert er ráð fyrir að þar verði kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins geti veitt undanþágur frá lögheimilisskilyrðinu við nánar tilteknar aðstæður.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. gr. er lagt til að á eftir I. kafla laganna komi nýr kafli sem verði I. A kafli með heitinu: Tryggðir samkvæmt lögunum. Gert er ráð fyrir að í hinum nýja kafla verði fjórar nýjar greinar, 9. gr. a, b, c og d. Skv. 1. mgr. 9. gr. a eiga ákvæði þessi ekki við um slysatryggingar, enda sérstök skilyrði sem gilda um það hverjir teljist slysatryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar.
     Um a-lið (9. gr. a).
    
Í a-lið 1. gr. er að finna ákvæði nýrrar 9. gr. a. Þar er kveðið á um að sá sem búsettur er á Íslandi teljist tryggður hér á landi, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna. Óbreytt er meginregla gildandi laga um að forsenda þess að vera tryggður hér á landi sé búseta sam kvæmt skilningi lögheimilislaga, sbr. 2. mgr. 9. gr. a. Rétt er að undirstrika að það er Trygg ingastofnun ríkisins sem túlkar og ákvarðar endanlega hvort einstaklingur hafi hér búsetu í skilningi lögheimilislaga. Þetta kemur skýrt fram í 3. mgr. nýrrar 9. gr. a. Þannig munu geta komið upp tilvik þar sem einstaklingur er skráður með lögheimili hér á landi en Trygg ingastofnun telur hann ekki uppfylla skilyrði um búsetu í skilningi lögheimilislaga og þar með ekki vera tryggðan. Ástæða þessa gæti t.d. verið að Tryggingastofnun hefði undir höndum nýrri og fyllri upplýsingar um viðkomandi einstakling en Hagstofa Íslands. Í slíkum tilvikum er það Tryggingastofnun sem tekur hina endanlegu ákvörðun um hvort viðkomandi teljist tryggður hér á landi. Mikilvægt er að Tryggingastofnun ríkisins og Hagstofan skiptist í þessum efnum á nýjustu upplýsingum um hvert mál. Ákvörðun Tryggingastofnunar er kæranleg til tryggingaráðs, sbr. síðari málslið 3. mgr. nýrrar 9. gr. a.
    Þegar vísað er í 9. gr. a í önnur skilyrði laganna má t.d. nefna ákvæði 11. gr. laganna um þriggja ára búsetu hér á landi á aldrinum 16–67 ára sem skilyrði fyrir því að eiga rétt á einhverjum ellilífeyri hér á landi. Sömuleiðis má nefna 32. gr. laganna sem gerir sex mánaða búsetu hér á landi að skilyrði fyrir því að vera sjúkratryggður. Í 1. mgr. 9. gr. a er einnig vísað til þess að frá meginreglunni um búsetu megi finna undantekningar sem leiða kunni af milliríkjasamningum. Til slíkra undantekninga má nefna reglur EES-svæðisins um almanna tryggingar. Samkvæmt þeim telst maður í starfi tryggður í því ríki sem hann vinnur án tillits til búsetu.
     Um b-lið (9. gr. b).
    Í b-lið 1. gr. er að finna ákvæði nýrrar 9. gr. b. Þar er Tryggingstofnun veitt heimild til að veita undanþágu frá meginreglunni um búsetu hér á landi. Í ákvæðinu felst að stofnuninni verður heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur sem uppfyllir ekki skilyrði 9. gr. a, en verið hefur tryggður hér á landi, verði áfram tryggður þrátt fyrir búsetu erlendis. Skil yrði þessa er að viðkomandi sé erlendis vegna starfa fyrir aðila sem hafi aðsetur og starfsemi á Íslandi og að tryggingagjald sé greitt af laununum hér landi, sbr. lög um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum. Sama undanþága gildir gagnvart maka viðkomandi og börnum undir 18 ára aldri sem dveljast með honum. Umsókn um tryggingu samkvæmt þessu ákvæði skal berast Tryggingastofnun ríkisins eigi síðar en fjórum vikum fyrir brottför af landinu. Gera má ráð fyrir að Tryggingastofnun setji slíkum tryggingum ákveðin tímamörk þannig að þeir sem með þessum hætti fá heimild til að teljast tryggðir hér á landi þurfi með reglulegu millibili, sem Tryggingastofnun ríkisins ákveður, að endurnýja heimildina fyrir tryggingunni. Þannig mun stofnunin fylgjast með að skilyrðum tryggingarinnar sé áfram fullnægt. Með stoð í 9. gr. d má setja reglugerð með nánari reglum um lengd tryggingar og fleiri þætti sem Tryggingastofnun telur nauðsynlega.
    Þessi breyting á gildandi reglum er mikið sanngirnismál fyrir þá fjölmörgu einstaklinga sem hafa verið tryggðir hér á landi en fallið úr tryggingu vegna atvinnu sinnar erlendis fyrir aðila sem hafa aðsetur og starfsemi á Íslandi. Ástæður þessa hafa verið þær að þeir eiga ekki lengur rétt á því að eiga hér lögheimili samkvæmt lögheimilislögum. Gildandi reglur hafa þannig gert það að verkum að þessir einstaklingar hafa ekki verið tryggðir hér á landi, jafnvel þótt tryggingagjald, sem að hluta til stendur undir kostnaði við lífeyristryggingar almannatrygginga og atvinnuleysistryggingar, hafi verið greitt af laununum. Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að þeir einstaklingar sem uppfylltu skilyrði 9. gr. b 1. janúar 1994 eða síðar geti sótt um til Tryggingastofnunar ríkisins að teljast áfram tryggðir hér á landi. Frestur þessara einstaklinga til að endurvekja tryggingu sína með þessum hætti verður til 1. júlí 1999 eða í eitt ár eftir gildistöku þessara nýju ákvæða.
    Um c-lið (9. gr. c).
    Í c-lið 1. gr. eru ákvæði nýrrar 9. gr. c. Þar er Tryggingastofnun ríkisins veitt heimild til að ákveða að einstaklingur, sem hyggst flytjast af landi brott en búið hefur hér á landi í samfellt fimm ár, geti sótt um að vera áfram tryggður hér á landi í allt að eitt ár frá brottfarardegi enda leiði milliríkjasamningar ekki til annars. Þá er það og skilyrði að það sé ekki tilgangur fararinnar að leita læknismeðferðar. Sækja skal um tryggingu samkvæmt þessu undanþágu ákvæði eigi síðar en fjórum vikum fyrir brottför. Með þessari heimild er þeim sem vilja tímabundið dveljast erlendis, t.d. hjá börnum sínum í löndum sem Ísland hefur ekki samið við um gagnkvæm almannatryggingaréttindi, gert kleift að fara í slíkar ferðir án þess að trygging þeirra hér á landi falli úr gildi.
    Um d-lið (9. gr. d).
    Í d-lið 1. gr. eru ákvæði nýrrar 9. gr. d. Hér er um að ræða heimild ráðherra til að setja nán ari reglur um framkvæmd ákvæða þessa nýja kafla. Í heimildinni er sérstaklega tekið fram að setja skuli reglur um hvað telja skuli viðurkennt nám erlendis. Skv. 9. gr. lögheimilislaga, nr. 21/1990, mega námsmenn halda lögheimili hér á landi þrátt fyrir búsetu erlendis. Lögheimilislögin skilgreina hins vegar ekki hverjir séu námsmenn. Það er því eðlilegt að með reglugerð verði skilgreint hvað telja skuli viðurkennt nám erlendis í skilningi almannatryggingalaga. Skattayfirvöld hafa með sambærilegum hætti sett reglur um námsmenn erlendis, sbr. reglugerð nr. 648/1995, um réttindi og skyldur manna sem dveljast erlendis við nám, samkvæmt ákvæðum laga um opinber gjöld.
    Þá er og gert ráð fyrir því að setja megi reglur um skráningu Tryggingastofnunar ríkisins á tryggingaréttindum einstaklinga. Eins og áður hefur verið minnst á er meginregla almanna tryggingalaga sú að þeir sem búsettir eru í landinu í skilningi lögheimilislaga teljast tryggðir. Frá þessu eru þó margvíslegar mikilvægar undantekningar. Flestar leiða þær af þeim milliríkjasamningum um almannatryggingar sem Ísland hefur gert. EES-reglur gera þannig ráð fyrir að einstaklingur sé ætíð tryggður í því landi sem hann starfar þó svo að hann teljist búsettur annars staðar. Ákvæði EES-samningsins hafa og áhrif á biðtíma skv. 32. gr. almanna tryggingalaga. Af þeim ákvæðum leiðir að komi einstaklingur frá samningsríki og hafi verið sjúkratryggður þar verður að taka tillit til þess tryggingatímabils gagnvart sex mánaða biðtímanum hér á landi. Þetta leiðir af svokallaðri samlagningarreglu EES-reglna um almannatryggingar.
    Þjóðskrá Hagstofu Íslands er og verður stofn tryggingaskrár Tryggingastofnunar yfir þá sem falla undir lög um almannatryggingar. Af því sem áður er sagt leiðir þó að þjóðskrá getur aldrei verið tæmandi heimild um þá sem teljast tryggðir hér á landi samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þar geta verið einstaklingar sem ekki eru tryggðir, t.d. þeir sem dvalist hafa í landinu skemur en sex mánuði. Sömuleiðis er hugsanlegt að einstaklingur sem er tryggður hér á landi sé ekki skráður á þjóðskrá, t.d. einstaklingur sem vinnur hér á landi án þess að vera hér með fasta búsetu.
    Því er gert ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins haldi sérstaka viðbótarskrá við þjóðskrá. Þar yrði að finna annars vegar einstaklinga sem eru tryggðir hér á landi án þess að eiga hér lögheimili og hins vegar þá sem hér eiga lögheimili en eru þó ekki tryggðir. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð gefið Tryggingastofnun nánari fyrirmæli um það með hvaða hætti stofnunin haldi þessa viðbótarskrá.

Um 2. gr.

    Hér er lögð til breyting á 24. gr. laganna sem fjallar um slysatryggingar. Gert er ráð fyrir breytingu á a-lið ákvæðisins sem tryggir að sjómenn á skipum sem gerð eru út af íslenskum aðilum og þiggja laun og greiða skatta hér á landi teljast slysatryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar. Með því er leiðrétt mismunun sem hefur verið fyrir hendi og hefur ein göngu byggst á því hvort starfsmanni íslensks skipafélags er gert að sigla á íslenskum skipum félagsins eða þeim sem skráð kunna að vera í öðrum löndum. Jafnframt er breytt til samræmis stöðu þeirra sem starfa í flugvélum sem reknar eru af íslenskum aðilum.

Um 3. gr.

    Á ákvæðinu er annars vegar gerð smávægileg breyting á 1. mgr. 32. gr. laganna og vísað til ákvæða I. kafla A, þ.e. hins nýja kafla samkvæmt þessu frumvarpi. Hins vegar er kveðið á um breytingu á reglugerðarheimild sem nú er í 4. mgr. 32. gr. laganna og kveður m.a. á um heimild til að setja ákvæði í reglugerð um undanþágur frá sex mánaða lögheimilisskilyrði, sbr. núgildandi reglugerð nr. 261/1995, um undanþágur frá lögheimilisskilyrði sjúkratrygginga, sbr. reglugerð nr. 482/1996, um breytingu á reglugerð nr. 261/1995. Í fyrsta lagi er lögð til orðalagsbreyting á ákvæðinu sem ekki er efnisleg. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að ráðherra sé ekki skylt að leita tillagna tryggingaráðs. Lagt er til að ráðherra setji reglugerð um undanþágur, Tryggingastofnun ríkisins móti starfsreglur um framkvæmd á grundvelli reglugerðarinnar og einstaklingar geta síðan kært afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins til tryggingaráðs á grundvelli 7. gr. laganna. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að ráðherra setji í kjölfar gildistöku ákvæðisins nýja reglugerð um undanþágur frá sex mánaða lögheimilis skilyrði þar sem mælt verður fyrir um að Tryggingastofnun ríkisins geti í vissum tilvikum veitt undanþágur frá skilyrði um sex mánaða lögheimili. Þar á meðal er talið nauðsynlegt að setja í reglugerðina almenna heimild til að veita undanþágu þegar um er að ræða ótryggðan sjúkling haldinn langvinnum lífshættulegum sjúkdómi, sem flytur til Íslands vegna þessa til langdvalar og hefur áður verið búsettur á Íslandi, enda eigi hann nána ættingja hér á landi. Af mannúðarástæðum er talið nauðsynlegt að Tryggingastofnun ríkisins hafi heimild til þess að veita undanþágu í slíkum undantekningartilvikum. Ekki er hér lagt til að 32. gr. laganna verði breytt á þann hátt að þar verði kveðið á um allar undanþáguheimildir frá meginreglunni heldur er farin sú leið að afla með þessum hætti skýrrar afstöðu löggjafans.

Um 4. gr.

    Ákvæði 53. gr. laganna gera ráð fyrir að Tryggingastofnun höfði mál telji hún vafa leika á um lögheimili. Í lokamálsgrein nýrrar 9. gr. a, sbr. a-lið 1. gr. frumvarpsins, er gert ráð fyrir að Tryggingastofnun ákveði framvegis hvort einstaklingur teljist tryggður hér á landi sam kvæmt lögunum. Málskotsréttur vegna slíkrar ákvörðunar er til tryggingaráðs. Með þessu nýja verklagi verður 53. gr. óþörf og því lagt til að greinin falli brott.

Um 5. gr.

    Margvísleg ákvæði frumvarpsins kalla á nokkurn undirbúning af hálfu Tryggingastofnunar áður en unnt er að hrinda þeim í framkvæmd. Því er gert ráð fyrir að lögin í heild öðlist ekki gildi fyrr en 1. júlí 1998. Hins vegar er talið nauðsynlegt að ákvæði 2. gr. og 3. gr. b öðlist þegar gildi þannig að tryggja megi réttindi þeirra sem ákvæðin kunna að varða.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Eins og áður hefur komið fram er með lagabreytingum þessum verið að gera almanna tryggingakerfið sveigjanlegra og betur fallið til að mæta mismunandi þörfum. Fjöldi ein staklinga sem tryggður var hér á landi hefur fallið úr tryggingu við það eitt að starfa erlendis. Ekki hefur verið unnt að viðhalda tryggingu þessara einstaklinga jafnvel þó þeir hafi starfað fyrir aðila sem hafa aðsetur og starfsemi hér á landi og tryggingagjald hafi verið greitt af launum þeirra. Gildistaka EES-samningsins gerði þessa annmarka á gildandi löggjöf sérstak lega áberandi og bagalega. Því þykir rétt að hafa ákvæði til bráðabirgða í lögunum þess efnis að þeir einstaklingar, sem við gildistöku EES-samningsins 1. janúar 1994 eða síðar uppfylla skilyrði 9. gr. b í þessum nýju lögum, hafi 12 mánaða frest til að sækja um tryggingu hér á landi hjá Tryggingastofnun ríkisins. Stofnunin mun meta hverja umsókn fyrir sig í ljósi þessara nýju ákvæða. Í þeim tilvikum þar sem tryggingagjald hefur verið greitt af launum viðkomandi frá 1. janúar 1994 verður stofnuninni heimilt að ákveða að viðkomandi teljist tryggður hér á landi.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum, nr. 117/1993,
um almannatryggingar, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er Tryggingastofnun ríkisins veitt heimild til að úrskurða um hvort menn teljist tryggðir samkvæmt almannatryggingalögum hér á landi. Í gildandi lögum byggjast rétt indin nær alfarið á lögheimili, nema kveðið sé á um annað í milliríkjasamningum. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að störf um borð í íslensku skipi eða loftfari jafngildi störfum hér á landi.
    Frumvarpið hefur bæði í för með sér aukin réttindi hinna tryggðu og takmarkanir á þeim vegna möguleika Tryggingastofnunar til að úrskurða um rétt til trygginga þrátt fyrir að lög heimili sé skráð hér á landi.
    Helsta réttarbótin í frumvarpinu felst í að starfsmenn íslenskra fyrirtækja erlendis, sem greiða skatta og gjöld af launum hér á landi, teljast áfram tryggðir, enda verði um það sótt fyrir fram, þrátt fyrir að lögheimili þeirra verði í öðru ríki. Sama gildir um maka þeirra og börn. Einnig er heimilað að einstaklingar haldi tryggingu sinni í allt að eitt ár ef þeir dvelja í út löndum. Þá eru réttindi námsmanna aukin og miðað verður við viðurkennt nám í stað lög heimilis. Það ákvæði hefur þó ekki áhrif á námsmenn sem eru í námi á Norðurlöndunum þar sem um þá gilda sérstakar reglur sem ríkin hafa samið um sín á milli. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í reglugerð verði sett nánari skilyrði fyrir því að vikið verði frá ákvæðum um sex mánaða búsetu til að njóta sjúkratrygginga hér á landi. Loks er starf í íslenskum skipum og flugvélum jafngilt starfi hér á landi.
    Ljóst er að kostnaður Tryggingastofnunar af hinum nýju ákvæðum verður einhver vegna aukins fjölda mála og að fleiri fá tryggingu hér á landi en er samkvæmt núgildandi lögum. Á móti fær stofnunin skýrari lagagrunn til að úrskurða um tryggingu, í þeim tilfellum þegar menn hafa búið og starfað erlendis án þess að færa lögheimili sitt.
    Erfitt er að meta kostnaðaráhrif frumvarpsins á útgjöld lífeyris- og sjúkratrygginga þar sem engar samræmdar upplýsingar eru til hjá Tryggingastofnun um fjölda þeirra sem breytingarnar ná mögulega til, eða fjölda þeirra sem hefur verið synjað um tryggingu vegna gildandi lögheimilisskilyrða. Ekki er talið að um verulegan kostnað sé að ræða og er þá reiknað með óbreyttu samkomulagi á milli Norðurlandanna. Þá hafa starfsmenn íslenskra skipa og flugvéla sem hafa staðið skil á tryggingagjaldi hér á landi notið sjúkratrygginga. Ákvæði um að heimilt sé að víkja frá ákvæði um sex mánaða búsetu í skyndilegum sjúkdómstilfellum, til að njóta sjúkratrygginga, er óbreytt frá gildandi lögum. Nýtt er að ráðherra skuli kveða nánar í reglugerð á um rýmkaðar undanþágur og ræðst kostnaður alfarið af því hvernig þær reglur verða útfærðar.
    Kostnaður af frumvarpinu er af tvennum toga, annars vegar auknar greiðslur bóta og hins vegar kostnaður Tryggingastofnunar ríkisins við framkvæmdina. Gert er ráð fyrir að kostn aður við framkvæmd ákvæðanna, það er vegna umsýslu og yfirferðar umsókna, verði 1–2 m.kr. á ári sem er innan fjárheimilda Tryggingastofnunar ríkisins. Ekki er ljóst hve mikil útgjöld af útgreiðslu bóta verða, en einstök sjúkratryggingamál geta orðið mjög kostnaðar söm, sérstaklega vegna þjónustu sem veitt er erlendis. Miðað við þá framkvæmd sem tíðkast hefur verður ekki um teljandi kostnaðarauka að ræða.