Ferill 358. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 569 – 358. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 34/1995, um vörugjald af olíu, sbr. lög nr. 120/1995 og lög nr. 90/1997.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

a.    Á undan 1. gr. laganna kemur svohljóðandi kaflaheiti: I. kafli, Vörugjald af olíu, gjaldskylda og fjárhæð gjalds.
b.     3. og 4. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
         Fjárhæð olíugjalds skal vera 34 kr. á hvern lítra af olíu.
         Ríkisskattstjóri annast álagningu olíugjalds og aðra framkvæmd laganna. Ríkisskattstjóra er heimilt að fela skattstjórum og Vegagerðinni framkvæmd einstakra verkefna sem honum eru falin í lögunum.


2. gr.

    Í stað orðsins „skattskyldir“ í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: gjaldskyldir.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
a.    2. tölul. 1. mgr. orðast svo: Þeir sem flytja inn til endursölu olíu sem gjaldskyld er skv. 1. gr.
b.    Í stað orðanna: „þess skattstjóra þar sem þeir eru heimilisfastir“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: ríkisskattstjóra.
c.     Í stað orðsins „skattstjóra“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: ríkisskattstjóra.
d.     Í stað orðsins „Skattstjóri“ í 4. og 5. mgr. kemur: Ríkisskattstjóri.

4. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Sala eða afhending á olíu, sem bætt hefur verið í litar- og merkiefnum, sbr. 5. gr., er undanþegin gjaldskyldu í eftirfarandi tilvikum:
    1.     til nota á skip og báta,
    2.     til húshitunar og hitunar almenningssundlauga,
    3.     til iðnaðarþarfa og til nota á vinnuvélar,
    4.     til nota á dráttarvélar í landbúnaði,
    5.     til raforkuframleiðslu,
    6.    til nota á ökutæki sem ætluð eru til sérstakra nota og falla undir vörulið 8705 í viðauka I við tollalög, nr. 55/1987, enda sé greitt af þeim kílómetragjald skv. 5. mgr. 14. gr.
    Litaða olíu má ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilgangi en lýst er í 1. mgr. Litar- og merkiefni má hvorki fjarlægja að öllu leyti né að hluta.
    Óheimilt er að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, sbr. 63. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, önnur en dráttarvélar í landbúnaði og bifreiðar sem taldar eru upp í 6. tölul. 1. mgr.
    Fjármálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð á um skilyrði fyrir undanþágu.

5. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Þeir sem gjaldskyldir eru skv. 3. gr. og óska eftir að fá heimild til að bæta litar- og merki efnum í gas- og dísilolíu vegna sölu eða afhendingar án gjalds, sbr. 4. gr., skulu senda umsókn til ríkisskattstjóra. Einungis þeim aðilum, sem fengið hafa leyfi hjá ríkisskattstjóra, er heimilt að bæta litar- og merkiefnum í gas- og dísilolíu samkvæmt lögum þessum.
    Litun á olíu má aðeins framkvæma í búnaði sem viðurkenndur hefur verið af Löggilding arstofu.
    Ríkisskattstjóri getur afturkallað eða takmarkað leyfi aðila til litunar á olíu ef í ljós kemur að búnaður uppfyllir ekki þau nákvæmnisskilyrði sem farið er fram á, lituð olía er seld til annarra nota en tilgreind eru í 1. mgr. 4. gr. eða eftirliti verður ekki við komið á viðunandi hátt.
    Fjármálaráðherra skal kveða í reglugerð á um gerð og samsetningu litar- og merkiefnis, litunarbúnað og framkvæmd litunar að öðru leyti.

6. gr.

    2.–4. tölul. 6. gr. laganna falla brott.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
a.    Í stað orðanna „gjaldskylda olíu“ í 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. kemur: olíu, gjaldskylda sem gjaldfrjálsa.
b.    Við 1. og 2. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Að auki skulu þeir halda bókhald yfir aðfengið litarefni og notkun á því.
c.    Orðin „milli gjaldskyldra aðila eða til aðila sem um ræðir í 4., 5. eða 6. gr.“ í 3. mgr. falla brott.
d.    Við 4. mgr. bætist nýr málsliður er verður 2. málsl. og orðast svo: Við afhendingu á litaðri olíu skal tilgreina á sölureikningi að um gjaldfrjálsa olíu sé að ræða.
e.     Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
         Við staðgreiðslusölu smásöluverslana er ekki skylt að gefa út sölureikning, sbr. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

8. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Aðilar, sem eiga rétt á endurgreiðslu olíugjalds skv. 6. gr., skulu halda í bókhaldi sínu skrá yfir akstur ökutækja. Jafnframt skulu þeir halda í bókhaldi sínu reikninga og skrár yfir olíukaup og olíunotkun og annað sem máli skiptir varðandi sönnun á réttmæti endurgreiðsl unnar.
    Vanræki aðili að skrá akstur eða færa fullnægjandi bókhald skv. 1. mgr. fellur niður réttur til endurgreiðslu fyrir það tímabil sem bókhald eða skráning er ekki fullnægjandi.

9. gr.

    Í stað 2. og 3. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Við uppgjör má draga frá olíugjald af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum, enda hafi hin tapaða fjárhæð áður verið talin til gjaldskyldrar sölu á olíu. Fjármálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð á um skilyrði frádráttar samkvæmt þessari málsgrein.

10. gr.

    2. tölul. 10. gr. laganna fellur brott og röð annarra töluliða breytist samkvæmt því.    


11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
a.    Á eftir orðinu „gjaldskyldrar“ í 5. málsl. 1. mgr. kemur: og gjaldfrjálsrar.
b.    Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er verður 1. málsl. og orðast svo: Ríkisskattstjóri skal ákvarða olíugjald gjaldskylds aðila á hverju uppgjörstímabili.
c.     Í stað orðsins „skattstjóri“ í 2. og 3. mgr. kemur: ríkisskattstjóri.
d.    Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Þó er ríkisskattstjóra heimilt að leiðrétta augljósar reikningsskekkjur án sérstakrar tilkynningar til gjaldanda.

12. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Komi í ljós annmarkar á olíugjaldsskýrslu, fyrir eða eftir ákvörðun skv. 11. gr., eða telji ríkisskattstjóri frekari skýringa þörf á einhverju atriði varðandi olíugjaldsskil aðila skal hann skriflega skora á gjaldskyldan aðila að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skriflegar skýringar og þau gögn sem ríkisskattstjóri telur þörf á að fá. Fái ríkisskattstjóri fullnægjandi skýringar og gögn innan frests ákvarðar hann eða endurákvarðar olíugjald samkvæmt olíugjaldsskýrslu og fengnum skýringum og gögnum. Ef eigi er bætt úr annmörkum á olíugjaldsskýrslu, svar aðila berst ekki innan tilskilins tíma, skýringar hans eru ófullnægjandi eða eigi eru send þau gögn sem óskað er eftir er ríkisskattstjóra heimilt að áætla olíugjald aðila.
    Við ákvörðun eða endurákvörðun skv. 1. mgr. skal ríkisskattstjóri tilkynna aðila skriflega um fyrirhugaðar breytingar og af hvaða ástæðum þær eru gerðar til að aðili geti tjáð sig skriflega um efni máls og lagt fram viðbótargögn. Við endurákvörðun skal ríkisskattstjóri þó veita aðila a.m.k. 15 daga frest frá póstlagningu tilkynningar um fyrirhugaðar breytingar.
    Ríkisskattstjóri skal að jafnaði innan tveggja mánaða frá frá lokum þess frests sem hann hefur veitt aðila til að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðunina og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi.

13. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna kemur nýr kafli, II., Kílómetragjald og sérstakt olíugjald, með fimm greinum, 14.–18. gr., er orðast svo:

    a. (14. gr.)

Kílómetragjald.

    Greiða skal kílómetragjald af eftirtöldum ökutækjum:
1.    bifreiðum sem skráðar eru hér á landi sem eru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd og nota annan orkugjafa en bensín, þó ekki af bifreiðum sem ætlaðar eru til fólksflutninga,
2.    eftirvögnum sem skráðir eru hér á landi og eru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd,
3.              bifreiðum og eftirvögnum sem skráð eru erlendis og flutt hingað til lands. Tollstjóri skal við komu og brottför ökutækis lesa af ökumæli þess og ákvarða kílómetragjald í samræmi við ekinn kílómetrafjölda.
    Gjaldskylda samkvæmt þessu ákvæði hvílir á skráðum eiganda ökutækis á álestrardegi eða afskráningardegi hafi ökutæki verið afskráð. Hafi orðið eigendaskipti á ökutæki án þess að það hafi verið tilkynnt til skráningar hvílir gjaldskyldan jafnframt á nýjum eiganda. Ef annar aðili en skráður eigandi hefur umráðarétt yfir skráningarskyldu ökutæki ber hann óskipta ábyrgð með skráðum eiganda á greiðslu kílómetragjalds. Skylda til greiðslu kílómetragjalds af ökutæki sem skráð er erlendis hvílir á innflytjanda þess.
    Kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum skv. 1. tölul. 1. mgr., sbr. 3. tölul., skal vera sem hér segir:

    Leyfð heildarþyngd     Kílómetragjald,     Leyfð heildarþyngd     Kílómetragjald,
    ökutækis, kg     kr.     ökutækis, kg     kr.

    10.000–11.000     2,00     21.001–22.000     8,40
    11.001–12.000     2,50     22.001–23.000     9,05
    12.001–13.000     3,00     23.001–24 000     9,70
    13.001–14.000     3,50     24.001–25.000     10,35
    14.001–15.000     4,00     25.001–26.000     11,00
    15.001–16.000     4,50     26.001–27.000     11,65
    16.001–17.000     5,15     27.001–28.000     12,30
    17.001–18.000     5,80     28.001–29.000     12,95
    18.001–19.000     6,45     29.001–30.000     13,60
    19.001–20.000     7,10     30.001 og yfir     14,25
    20.001–21.000     7,75     

    Kílómetragjald af gjaldskyldum eftirvögnum skv. 2. tölul. 1. mgr. sbr. 3. tölul., skal vera tvöföld fjárhæð kílómetragjalds sem kveðið er á um í 3. mgr.     
    Eigendur eða umráðamenn ökutækja til sérstakra nota, sem fengið hafa heimild hjá ríkisskattstjóra til að nota gjaldfrjálsa olíu á ökutæki sín, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 4. gr., skulu í stað kílómetragjalds skv. 3. mgr. greiða kílómetragjald sem hér segir:

         Leyfð heildarþyngd     Kílómetragjald,     Leyfð heildarþyngd     Kílómetragjald,
    ökutækis, kg     kr.     ökutækis, kg     kr.

    10.000–15.000     15,00     23.001–26.000     30,00
    15.001–19.000     20,00     26.001–30.000     35,00
    19.001–23.000     25,00     30.001 og yfir     40,00

    Samanlögð gjaldþyngd samtengdra ökutækja skal vera að hámarki 40.000 kg fyrir fimm ása samtengd ökutæki og 44.000 kg fyrir sex ása samtengd ökutæki.
    Ökumælar skulu settir í bifreiðar og eftirvagna á kostnað eigenda þeirra. Um tegundir og útbúnað mæla, ísetningu þeirra, álestur, viðgerðir og eftirlit skal kveðið á í reglugerð. Ef skylt er að búa ökutæki ökurita til eftirlits með aksturs- og hvíldartíma ökumanna samkvæmt reglugerð nr. 136/1995 skal ökuritinn notaður sem ökumælir. Nú er ökuriti notaður sem ökumælir og er ökumanni þá skylt að hafa skráningarblað (skífu) í ökuritanum.
    Ríkisskattstjóri getur, ef sérstaklega stendur á, veitt undanþágu frá því að ökumælisskyld bifreið eða eftirvagn sé útbúin ökumæli, enda fari ákvörðun kílómetragjalds fram á annan jafntryggan hátt.

    b. (15. gr.)
    Ökumaður ökutækis sem kílómetragjald er greitt af skv. 14. gr. skal við lok hvers dags, sem ökutæki er ekið, lesa kílómetrastöðu af ökumæli og skrá hana í sérstaka akstursbók sem ríkisskattstjóri gefur út. Ef annars konar ökumælir en ökuriti er notaður skal ökumaður skrá kílómetrastöðu hraðamælis daglega í akstursbókina, hins vegar er honum einungis skylt að skrá kílómetrastöðu ökumælis einu sinni í viku. Ökumaður skal athuga hvort ökuriti eða ökumælir og hraðamælir hafi talið rétt og að kílómetrastöðu beri saman við akstur dagsins. Ef sérstakur ökumælir er í eftirvagni skal ökumaður einu sinni í hverri viku, sem eftirvagn hefur verið hreyfður, skrá kílómetrastöðu ökumælis eftirvagns og athuga hvort mælir hafi talið rétt. Ökumaður skal staðfesta skráningu með nafnritun sinni.
    Eigandi og umráðamaður ökutækis bera ábyrgð á að ökumælir telji rétt og að akstur sé skráður í akstursbók við lok hvers dags sem ökutæki er ekið. Eiganda eða umráðamanni öku tækis ber að varðveita skráningarblöð ökurita og akstursbók í sjö ár frá lokum gjaldárs.
     Nú kemur í ljós við skráningu á kílómetrastöðu ökurita eða ökumælis og hraðamælis, eða við skoðun á skráningarblöðum ökurita, að einhver fyrrgreindra mæla telur rangt eða telur ekki og skal ökumaður þá svo fljótt sem honum er unnt tilkynna um bilun mælis til Vega gerðarinnar. Jafnframt skal hann, innan tveggja virkra daga frá því er bilun í mæli kom fram, fara með hann á löggilt verkstæði til viðgerðar. Ef taka þarf ökumæli úr ökutæki til viðgerðar skal lesið af ökumælinum áður en hann er tekinn úr og annar settur í stað hins bilaða. Tilkynna skal þegar í stað til Vegagerðarinnar ef nýr ökumælir er settur í ökutæki. Jafnframt skal lesið af ökumæli sem settur er í ökutækið. Nú verður því ekki við komið að setja annan ökumæli í ökutæki og er þá heimilt að aka án ökumælis gegn greiðslu daggjalds, enda sé það tilkynnt til Vegagerðarinnar á eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Heimild skal ekki veitt til lengri tíma en fimm virkra daga í senn. Greiða skal daggjald fyrir þann tíma sem ekið er án ökumælis og skal gjaldið nema sem svarar til að a.m.k. 200 km aksturs fyrir hvern dag sem ekið er án ökumælis. Heimilt skal við ákvörðun gjaldsins að miða við raunverulegan akstur verði því komið við samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.

    c. (16. gr.)

Ákvörðun kílómetragjalds.

    Ríkisskattstjóri ákvarðar að loknu hverju álestrartímabili kílómetragjald ökutækja, sem færð hafa verið til álestrar, vegna aksturs þeirra frá síðasta álestrartímabili þar á undan til álestrardags. Álestrartímabilin eru frá 1. apríl til 10. apríl og frá 1. október til 10. október ár hvert. Eigandi eða umráðamaður ökutækis skal, án sérstakrar tilkynningar, koma með ökutæki til álestraraðila á álestrartímabili og láta lesa á og skrá stöðu ökumælis. Ríkisskattstjóri skal jafnframt, sé lesið af ökumæli ökutækis utan álestrartímabils, ákvarða kílómetragjald vegna aksturs frá síðasta álestri til álestrardags.
    Gjalddagi kílómetragjalds vegna álestrartímabils 1. apríl til 10. apríl er 5. maí þar á eftir og gjalddagi kílómetragjalds vegna álestrartímabils 1. október til 10. október er 5. nóvember þar á eftir. Við eigendaskipti ökutækis er gjalddagi og álestrardagur sá sami, sbr. 22. gr.
    Ef eigandi eða umráðamaður ökutækis lætur ekki lesa af ökumæli þess á álestrartímabili skal ríkisskattstjóri áætla kílómetragjald. Áætlun skal svara til þess að ökutækinu hafi verið ekið 8.000 km á mánuði, nema fyrirliggjandi gögn bendi til þess að akstur kunni að hafa verið meiri. Ríkisskattstjóri skal tilkynna innheimtumanni og gjaldanda um áætlanir sem gerðar hafa verið. Komi eigandi eða umráðamaður með ökutæki til álestrar utan álestrartímabils skal álestur tekinn sem kæra og sendur ríkisskattstjóra til ákvörðunar. Komi eigandi eða umráðamaður, sem sætt hefur áætlun á fyrri tímabilum, með ökutæki til álestrar á álestrartímabili tímabils sem ekki hefur verið áætlað fyrir skal álagning miðast við að allur aksturinn hafi átt sér stað á því.
    Til viðbótar áætlun og álagningu skv. 3. mgr. og endurákvörðun skv. 1. mgr. 17. gr. skal bætt við álagi sem skal vera 1% af fjárhæð kílómetragjalds fyrir hvern dag sem dregið hefur verið að koma með ökutæki til álestrar fram yfir lok álestrartímabils eða fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga kílómetragjalds. Álag skal vera að hámarki 10% af fjárhæð kílómetragjalds. Gjalddagi álags skal vera sá sami og gjalddagi kílómetragjalds. Fella má niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og getur ríkisskattstjóri metið það í hverju tilviki hvað teljist gildar ástæður í þessu sambandi.


    d. (17. gr.)
    Komi í ljós eftir ákvörðun skv. 16. gr. að ökutæki hafi heimildarlaust verið í umferð án þess að vera búið ökumæli, akstur hafi verið ranglega færður eða ekki færður í akstursbók, ökumælir verið óvirkur, innsigli rofið eða mælir talið of lítið eða telji ríkisskattstjóri að öðru leyti að kílómetragjald hafi ekki verið réttilega ákvarðað skal hann tilkynna eiganda eða umráðamanni ökutækisins skriflega um fyrirhugaða endurákvörðun og skora á hann að láta í té skýringar og gögn innan a.m.k. 15 daga. Berist ríkisskattstjóra fullnægjandi skýringar eða gögn innan frests endurákvarðar hann gjald á grundvelli fyrirliggjandi gagna, en að öðrum kosti endurákvarðar hann gjald skv. 2. mgr.
    Endurákvörðun vegna vantalins aksturs skal nema sem svarar til 2.000 km aksturs fyrir hverja byrjaða viku sem talið verður að akstur hafi verið vantalinn, nema fyrirliggjandi gögn bendi til þess að akstur kunni að hafa verið meiri. Verði talið að akstur á því tímabili sem endurákvörðun nær til hafi að einhverju leyti komið fram á kílómetrastöðu ökumælis skal sá akstur koma til frádráttar við endurákvörðun. Ríkisskattstjóri skal að jafnaði innan tveggja mánaða frá lokum þess frests sem hann hefur veitt aðila til að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðunina og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi.


    e. (18. gr.)

Sérstakt olíugjald.

    Leggja skal sérstakt olíugjald á eigendur skráningarskyldra ökutækja komi í ljós við eftirlit að lituð olía hafi verið notuð á ökutækið andstætt ákvæði 3. mgr. 4. gr. Ríkisskattstjóri skal tilkynna skráðum eiganda ökutækisins skriflega um fyrirhugaða álagningu sérstaks olíugjalds skv. 2. eða 3. mgr. og skora á hann að láta sér í té skýringar og gögn innan a.m.k. 15 daga. Berist ríkisskattstjóra ekki fullnægjandi skýringar eða gögn ákvarðar hann sérstakt olíugjald skv. 2. eða 3. mgr.
    Sérstakt olíugjald skal vera sem hér segir:

     Skráð heildarþyngd,     Sérstakt olíugjald,     Skráð heildarþyngd,     Sérstakt olíugjald,
    kg     þús. kr.     kg     þús. kr.
    Allt að 1.000     175     16.001–17.000     630
    1.001–2.000     192     17.001–18.000     665
    2.001–3.000     210     18.001–19.000     682
    3.001–4.000     227     19.001–20.000     700
    4.001–5.000     245     20.001–21.000     717
    5.001–6.000     280     21.001–22.000     752
    6.001–7.000     315     22.001–23.000     787
    7.001–8.000     350     23.001–24.000     822
    8.001–9.000     385     24.001–25.000     857
    9.001–10.000     420     25.001–26.000     892
    10.001–11.000     437     26.001–27.000     927
    11.001–12.000     472     27.001–28.000     962
    12.001–13.000     507     28.001–29.000     997
    13.001–14.000     542     29.001–30.000     1.032
    14.001–15.000     577     30.000 og yfir     1.050
    15.001–16.000     612                    
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skal sérstakt olíugjald vegna fólksbifreiða sem ekki eru nýttar í atvinnurekstri og dráttarvéla sem ekki eru nýttar til landbúnaðarnota vera 40% af sérstöku olíugjaldi skv. 2. mgr.
    Hafi eignarhaldstími skráðs eiganda samkvæmt opinberri skráningu verið skemmri tími en 12 mánuðir skal sérstakt olíugjald reiknast hlutfallslega sem 1/ 12af gjaldi skv. 2. eða 3. mgr. vegna hvers byrjaðs mánaðar sem eignarhald nær til, þó aldrei lægri fjárhæð en sem nemur ¼ hluta gjalds.
    Ef annar aðili en skráður eigandi hafði umráðarétt yfir skráningarskyldu ökutæki á þeim tíma þegar lituð olía var notuð á það andstætt ákvæði 3. mgr. 4. gr. ber hann óskipta ábyrgð með skráðum eiganda á greiðslu sérstaks olíugjalds skv. 2. og 3. mgr.
    Gjalddagi sérstaks olíugjalds er 15 dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um álagninguna. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann á næsta virkan dag á eftir.
    

14. gr.

    Í stað 14.–20. gr. laganna kemur nýr kafli, III. kafli, Kæruheimildir, eftirlit og refsiábyrgð, með fimm greinum, 19.–23. gr., og breytist greinatala samkvæmt því. Greinarnar orðast svo:

    a. (19. gr.)

Kæruheimildir.

    Ákvörðun ríkisskattstjóra skv. 6., 11., 16. og 18. gr. er kæranleg til hans innan 30 daga frá því að hún var tilkynnt. Kærufrestur reiknast frá póstlagningu tilkynningar um gjaldákvörðun. Við ákvörðun olíugjalds án sérstakrar tilkynningar til kæranda reiknast kærufrestur þó frá gjalddaga uppgjörstímabils, sbr. 11. gr. Innsend fullnægjandi skýrsla skal tekin sem kæra þegar um er að ræða áætlanir skv. 13. gr. Ríkisskattstjóri skal að jafnaði innan tveggja mánaða frá lokum kærufrests kveða upp rökstuddan úrskurð um kæruna og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi.
    Heimilt er að kæra úrskurð ríkisskattstjóra um kæru skv. 1. mgr. og endurákvörðun skv. 13. og 17. gr. til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
    Heimild til endurákvörðunar samkvæmt lögum þessum nær til síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram. Verði skattskyldum aðila eigi kennt um að að áðurnefnd gjöld voru vanálögð, og/eða hafi hann látið í té við álagningu eða álestur full nægjandi upplýsingar og/eða gögn sem byggja mátti rétta álagningu á, er þó eigi heimilt að ákvarða honum gjald nema vegna síðustu tveggja ára sem næst voru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram á.
    Yfirskattanefnd úrskurðar sektir skv. 21. gr., nema máli sé vísað til opinberrar rannsóknar og dómsmeðferðar skv. 5. mgr. Úrskurður yfirskattanefndar er fullnaðarúrskurður. Vararefsing fylgir ekki sektarúrskurðum nefndarinnar.
     Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur eftir kröfu sökunauts eða af sjálfsdáðum vísað máli til opinberrar rannsóknar.
    Sök skv. 21. gr. fyrnist á sex árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum skattrann sóknarstjóra ríkisins eða ríkislögreglustjóra gegn aðila sem sökunaut, enda verði ekki óeðli legar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar.
    Hafi olíugjald skv. 11. gr., kílómetragjald skv. 16. gr. eða sérstakt olíugjald skv. 18. gr. ekki verið greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga og eru þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður skv. 10. gr. vaxtalaga, nr. 25/1987.


    b. (20. gr.)

Eftirlit.

    Ríkisskattstjóri annast eftirlit með því að ekki sé notuð lituð olía á skráningarskyld ökutæki og að skráning þeirra og búnaður sé í samræmi við fyrirmæli laga þessara. Jafnframt annast ríkisskattstjóri eftirlit með því að gjaldskyld ökutæki, skráning þeirra og búnaður, svo og skráning ökumanna á akstri, sé í samræmi við fyrirmæli laga þessara, reglur um ökumæla og skráningu ökutækisins í ökutækjaskrá.
    Eftirlitsmönnum er heimilt að stöðva ökutæki til að gera þær athuganir sem taldar eru nauðsynlegar til að staðreyna hvort lituð olía hafi verið notuð á skráningarskylt ökutæki and stætt ákvæði 3. mgr. 4. gr., þar á meðal að skoða eldsneytisgeymi og vél ökutækis. Eftirlits mönnum er heimilt að taka sýni af eldsneyti sem notað er á skráningarskylt ökutæki. Jafnframt er eftirlitsmönnum heimilt að stöðva ökutæki og gera þær athuganir á ökutækinu sem taldar eru nauðsynlegar til að staðreyna að ökutæki, mælabúnaður þess og skráning ökumanns á akstri sé í samræmi við skráningu ökutækisins í álestrarskrá ökumæla. Þá er eftirlitsmönnum heimilt að leggja hald á skráningarblöð ökurita og akstursbók.
    Ríkisskattstjóra er heimilt við eftirlit með gjaldskyldum aðilum skv. 3. gr. að krefjast þess að fá afhent bókhald og bókhaldsgögn, svo og önnur gögn er varða reksturinn. Enn fremur hefur ríkisskattstjóri aðgang að framangreindum gögnum, starfsstöðvum og birgðastöðvum. Að öðru leyti gilda ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eftir því sem þau geta átt við.

    c. (21. gr.)

Refsiábyrgð.

    Skýri gjaldskyldur aðili skv. 3. gr. af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um skyldu sína til greiðslu olíugjalds skal hann auk ógreidds gjalds greiða sekt sem nemi allt að tífaldri, og aldrei lægri en tvöfaldri, þeirri fjárhæð sem dregin var undan eða vanrækt var að greiða.
    Vanræki gjaldskyldur aðili skv. 3. gr. að halda tilskilið bókhald samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, vanræki að veita upplýsingar eða láta í té aðstoð, skýrslur eða gögn eins og ákveðið er í lögum þessum, skýri rangt eða villandi frá einhverju sem varðar skyldu til greiðslu eða rétt til endurgreiðslu olíugjalds, þótt upplýsingarnar hafi hvorki haft áhrif á greiðslu hans né viðskiptamanna hans á olíugjaldi, eða brjóti á annan hátt gegn lögum þessum skal hann sæta sektum, enda liggi ekki við brotinu þyngri refsing eftir þessum lögum eða öðrum lögum.
    Brjóti eigandi eða umráðamaður ökutækis af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gegn ákvæðum laga þessara, svo sem með því að nota litaða olíu á ökutæki sitt, sbr. 3. mgr. 4. gr., hafa ökutæki heimildarlaust í umferð án þess að það sé búið ökumæli, ökumælir telur ekki eða færa akstur ekki í akstursbók, skal hann greiða sekt allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem ætla má að hann hafi dregið undan eða ofendurgreidd hafi verið.
    Séu brot stórfelld eða ítrekuð gegn lögum þessum varða þau við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Tilraun og hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga.
    Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.
    Ef skattrannsóknarstjóri ríkisins telur að brot skv. 3. mgr. varði ekki þyngri refsingu en sekt er honum heimilt að ljúka máli með því að gefa eiganda eða umráðamanni ökutækis kost á að greiða sekt, sem greiðist innan tveggja mánaða, í stað sektarmeðferðar skv. 5. mgr. 19. gr. Sé sekt greidd innan þess tíma telst máli vera lokið af hálfu skattyfirvalda. Greiðist sekt ekki fer um sektarmeðferð skv. 5. mgr. 19. gr. Hafi eigandi eða umráðamaður ökutækis brotið gegn 3. mgr. án þess að talið verði að akstur hafi verið vantalinn er ríkisskattstjóra heimilt að ákvarða honum sekt að lágmarki 5.000 kr. en að hámarki 100.000 kr. Sektarákvörðun ríkisskattstjóra er kæranleg til yfirskattanefndar innan 30 daga frá póstlagningu ákvörðunar. Sektarfjárhæð, sem ríkisskattstjóri ákvarðar, dregst frá sektarfjárhæð skv. 3. mgr.


    d. (22. gr.)
    Við aðalskoðun bifreiðar ár hvert skal eigandi hennar eða umráðamaður færa sönnur á að greitt hafi verið af henni gjaldfallið kílómetragjald á skoðunardegi. Að öðrum kosti skal skoðunarmaður neita um skoðun á henni og tilkynna lögreglu um það þegar í stað.
    Óheimilt er að skrá eigendaskipti að ökutæki nema gjaldfallið kílómetragjald hafi verið greitt og lesið hafi verið af ökumæli og kílómetragjald vegna þess álestrar greitt.
    Hafi gjöld samkvæmt lögum þessum ekki verið greidd á gjalddaga skal lögreglustjóri að kröfu innheimtumanns ríkissjóðs stöðva ökutækið hvar sem það fer og taka skráningarmerki þess til geymslu.
    Ef gjaldskylt ökutæki er flutt tímabundið úr landi skal ekki greiða kílómetragjald vegna þess aksturs sem sannanlega hefur átt sér stað erlendis, enda tilkynni eigandi eða umráða maður ríkisskattstjóra um akstur erlendis og framvísi innflutnings- og útflutningsskýrslu með staðfestingu tollyfirvalda á kílómetrastöðu ökurita eða ökumælis og hraðamælis við útflutning og innflutning.
     Óheimilt er að skipa ökutæki úr landi nema greitt hafi verið álagt kílómetragjald og sérstakt olíugjald
    Kílómetragjaldi og sérstöku olíugjaldi fylgir lögveðsréttur í viðkomandi ökutæki.

    e. (23. gr.)
    Að því leyti sem ekki er kveðið á um í lögum þessum gilda ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Varðandi álagningu og innheimtu olíugjalds við tollafgreiðslu skulu gilda ákvæði tollalaga, nr. 55/1987.
    Innheimtar tekjur af olíugjaldi, kílómetragjaldi og sérstöku olíugjaldi samkvæmt lögum þessum renna til Vegagerðarinnar, að frádregnu ½% sem rennur í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laga þessara.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þessara laga með reglugerð.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða I í lögunum, sbr. lög nr. 120/1995:
a.     Í stað ártalsins „1997“ í ákvæðinu kemur: 1998.
b.     Í stað ártalsins „1998“ í ákvæðinu kemur: 1999.
c.     Í stað orðanna „29. febrúar“ í 2. mgr. kemur: 31. janúar.

16. gr.               

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða II í lögunum, sbr. lög nr. 120/1995:
a.     Í stað ártalsins „1998“ í 1. og 2. mgr. kemur: 1999.
b.     Í stað orðsins „skattstjóra“ í 1. og 2. mgr. kemur: ríkisskattstjóra.
c.     Orðin „og njóta ekki undanþágu skv. 1. mgr. 4. gr.“ í 2. mgr. falla brott.
d.     Í stað orðanna „1.500 lítra“ í 2. mgr. kemur: 500 lítra.
e.     Í stað orðsins „skattstjóri“ í 2. mgr. kemur: ríkisskattstjóri.
f.     Í stað orðsins „Skattstjóri“ í 2. mgr. kemur: Ríkisskattstjóri.

17. gr.

    Heiti laganna verður Lög um olíugjald og kílómetragjald.


18. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.
     Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra, svo og laga nr. 120/1995 og nr. 90/1997, inn í lög nr. 34/1995 og gefa þau út svo breytt.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Eigi síðar en í upphafi ársins 2001 skal fjárhæð olíugjalds og kílómetragjalds endurskoðuð með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um sölu á gjaldskyldri olíu á árinu 2000, samanborið við þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar varðandi árlega sölu gjald skyldrar olíu, við ákvörðun gjalda samkvæmt lögum þessum. Komi í ljós frávik frá áætlaðri árlegri sölu skal fjárhæð olíugjalds eða kílómetragjalds leiðrétt á þann veg að tekjur Vega gerðarinnar breytist ekki frá því sem verið hefur í þungaskatti.
    Við endurskoðun gjaldtöku samkvæmt ákvæði þessu skal tekið tillit til þeirrar breytingar er orðið hefur á fjölda dísilknúinna ökutækja á tímabilinu. Hins vegar skulu breytingar, sem orðið hafa á fjárhæð gjalda frá gildistöku laga þessara og þar til endurskoðun gjaldtöku fer fram, ekki hafa áhrif á endurskoðun samkvæmt ákvæðinu.
         

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.

     Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 34/1995, um vörugjald af olíu. Lög þessi kveða á um vörugjald af gas- og dísilolíu sem endurgreitt skal ef hún er nýtt til annarra nota en aksturs skráningarskyldra ökutækja. Lögin áttu upphaflega að taka gildi 1. janúar 1996. Með lögum nr. 120/1995 var gildistöku þeirra frestað til 1. janúar 1998. Fjármála ráðherra lagði á síðastliðnu vorþingi fram frumvarp til laga um breytingu á lögunum þar sem gert var ráð fyrir að í stað upptöku olíugjalds með endurgreiðslu vegna gjaldfrjálsrar notkunar olíu yrði tekið upp olíugjald með litun gjaldfrjálsrar olíu. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu úr efnahags- og viðskiptanefnd. Þess í stað lagði nefndin fram nýtt frumvarp er kvað á um að gildistöku laga nr. 34/1995 skyldi frestað til 1. janúar 1999. Það frumvarp var síðan samþykkt sem lög frá Alþingi sama vor, sbr. lög nr. 90/1997.
    Í athugasemdum með frumvarpi efnahags- og viðskiptanefndar kom m.a. fram að nefndinni hefði ekki unnist tími til að fjalla ítarlega um frumvarp fjármálaráðherra. Í umsögnum sem borist hafi frá olíufélögunum komi fram að viðamikið mál sé að taka upp litunarkerfi. Því sé lögð til frestun á gildistöku laganna. Fjármálaráðherra muni þá, í samvinnu við hags munaaðila, vinnast tími til að skoða málið betur, m.a. með tilliti til þeirra athugasemda sem efnahags- og viðskiptanefnd bárust. Jafnframt geri nefndin ráð fyrir að taka málið til umfjöllunar strax og það hafi verið lagt fram að nýju í upphafi næsta löggjafarþings þannig að lögfesta megi það fyrir áramót svo að litunarkerfi geti komist á í ársbyrjun 1999.
    Fjármálaráðherra skipaði nú í haust tvær nefndir til að undirbúa upptöku olíugjalds með litun. Annarri nefndinni, sem skipuð var fulltrúum fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, ríkisskattstjóra og Vegagerðarinnar, var ætlað að kanna forsendur og fjárhæð olíugjalds. Var nefndinni gert að hafa í starfi sínu samráð við samtök helstu hagsmunaaðila sem upptaka olíugjalds mun einkum snerta. Hinni nefndinni, sem skipuð var fulltrúum fjármálaráðuneytis, ríkisskattstjóra og olíufélaganna, var ætlað að gera tillögur um hvernig staðið yrði að framkvæmd olíugjalds hér á landi, m.a. hvað varðar litun gjaldfrjálsrar olíu, eftirlit með því að gjaldfrjáls olía verði ekki nýtt við gjaldskylda notkun og tæknileg útfærsluatriði að öðru leyti.
    Tillögur frumvarpsins eiga að tryggja hinn markaða tekjustofn Vegagerðarinnar án þess þó að valda röskun á gjaldbyrði einstakra hópa greiðenda. Jafnframt miða tillögurnar að því að viðhalda tengslum á milli gjaldtöku vegna notkunar dísilknúinna ökutækja og þess kostn aðar sem af notkuninni leiðir vegna slits á vegum. Meginefni frumvarpsins er að í stað endurgreiðsluleiðar þeirrar sem kveðið er á um í lögum nr. 34/1995, um vörugjald af olíu, verði tekið upp olíugjaldskerfi með litun gjaldfrjálsrar olíu. Tekin eru upp ákvæði um álagn ingu sérstaks olíugjalds á þá aðila sem verða uppvísir að því að nota litaða olíu til gjaldskyldra nota. Lagt er til að fjárhæð olíugjalds lækki frá því sem ákveðið var með lögum nr. 34/1995, úr 38,50 kr. í 34 kr. á hvern lítra olíu. Jafnframt er lagt til að auk olíugjalds verði tekið kílómetragjald af bifreiðum og eftirvögnum sem eru 10.000 kg eða meira að heildarþyngd, að bifreiðum til fólksflutninga undanskildum. Ákvæði um kílómetragjald byggjast að mestu á núgildandi lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, en gjaldið er þó mun lægra og nær til færri ökutækja.

II. Rök fyrir upptöku olíugjalds.

    Ein helstu rökin sem færð voru fyrir upptöku olíugjalds í frumvarpi því er varð að lögum nr. 34/1995, voru þau að þungaskattskerfið væri óskilvirkt og undanskot á skattinum væru mikil. Með lögum nr. 68/1996 voru gerðar viðamiklar breytingar á þungaskattskerfinu, í því skyni að tryggja bætt skil skattsins. Þannig var álagning færð til embættis ríkisskattstjóra, sett voru ný ákvæði um endurákvörðun og áætlun skatts, gerð var krafa um daglega skráningu ökumanna á akstri og kveðið á um notkun ökurita sem þungaskattsmæla. Þessar breytingar, auk herts eftirlits Vegagerðarinnar, hafa leitt til þess að innheimta þungaskatts hefur batnað verulega frá gildistöku laganna. Bætt skil á skattinum hafa orðið til þess að efasemdir hafa komið fram um nauðsyn þess að taka upp olíugjald.
    Þótt taka megi undir þau sjónarmið að bætt innheimta þungaskatts hafi dregið nokkuð úr þeirri brýnu þörf sem á sínum tíma var talin á upptöku olíugjalds verður þó að telja að afar veigamikil rök séu fyrir upptöku gjaldsins. Skal gerð grein fyrir helstu sjónarmiðum þar að lútandi.
    Í fyrsta lagi má nefna að í upptöku olíugjalds í stað þungaskatts felst að gjaldbyrði greið enda ræðst ekki eingöngu af því hve mikið er ekið, eins og í þungaskattskerfinu, heldur einnig af því hve mikilli olíu ökutæki eyðir. Með því að tengja gjaldtöku við olíunotkun er verið að beina kaupum og notkun að nýrri og sparneytnari öktuækjum sem gefa frá sér minna magn koltvísýrings. Jafnframt stuðlar gjald á olíuna að því að ökumenn hagi akstri sínum þannig að sem minnst olíunotkun verði. Sú umræða, sem nú á sér stað um aukna koltvísýringsmengun í andrúmsloftinu, og aukin samvinna þjóða á milli til að stemma stigu við þeirri þróun, sýnir að nauðsynlegt er að leita allra leiða til að draga úr slíkri mengun. Olíugjald er tvímælalaust ein leið að því marki.
    Í annan stað skal bent á að með upptöku olíugjalds verða dísilknúnar fólksbifreiðar álitlegri kostur fyrir einstaklinga en verið hefur. Talið hefur verið að þung greiðslubyrði og óhagræði við greiðslu þungaskatts hafi komið í veg fyrir að dísilknúnar fólksbifreiðar hafi hlotið jafnmikla útbreiðslu hér á landi og í ýmsum nágrannalöndum okkar. Æskilegt er að gera dísilknúnar fólksbifreiðar að vænlegri kosti, ekki síst vegna þess að þær eru sparneytnari og eru taldar valda minni koltvísýringsmengun en bensínknúnar bifreiðar.
    Í þriðja lagi felur upptaka olíugjalds í sér að greiðslubyrði eigenda dísilknúinna ökutækja dreifist eðlilega eftir notkun, í stað þungrar greiðslubyrði á fjögurra eða sex mánaða fresti eins og nú er. Breyting í þessa átt bætir rekstrarskilyrði þeirra sem stunda akstur í atvinnuskyni frá því sem nú er.
    Í fjórða lagi er talið að möguleikar til undanskota séu minni í olíugjaldskerfi en í þunga skattskerfi. Þrátt fyrir að skil á þungaskatti hafi batnað mjög eftir þær breytingar sem gerðar voru á þungaskattskerfinu um mitt ár 1996 er ljóst að enn er töluvert um undanskot í kerfinu sem erfitt er að koma í veg fyrir.

III. Kílómetragjald á ökutæki sem eru 10.000 kg eða meira að heildarþyngd.

    Eins og áður hefur komið fram er lagt til að auk olíugjalds verði innheimt kílómetragjald vegna aksturs bifreiða og eftirvagna sem eru 10.000 kg eða meira að heildarþyngd, annarra en bifreiða til fólksflutninga. Gjaldið er ákvarðað sem tiltekin fjárhæð á hvern ekinn kíló metra. Hér er því um að ræða gjaldtöku sem er sambærileg þeirri sem tíðkast hefur í þunga skattskerfinu. Greiðendur gjaldsins verða þó helmingi færri en greiðendur í núverandi þungaskattskerfi, gjaldið verður mun lægra en fjárhæð þungaskatts og álestrartímabil verða færri en í þungaskatti.
    Helstu rök, sem færa má fyrir því að æskilegt sé að viðhalda kílómetragjaldi á þyngri bifreiðar, eru í fyrsta lagi þau að ekki verður unnt að tryggja Vegagerðinni sömu tekjur af olíugjaldi og hún hefur haft af þungaskatti nema með verulegri hækkun á fjárhæð olíugjalds frá því sem ákveðið var með lögum nr. 34/1995. Sú upphæð sem olíugjaldið þyrfti að nema mundi valda umtalsverðri röskun á gjaldbyrði einstakra hópa greiðenda frá því sem hún er í þungaskattskerfinu. Þannig mundi olíugjald, án annarrar gjaldtöku, leiða til þess að gjaldbyrði færðist að hluta til frá eigendum stærri bifreiða og yfir á þá sem eiga minni bifreiðar. Með því að viðhalda hins vegar lágu kílómetragjaldi á þyngri vöruflutningabifreiðar og lækka fjárhæð olíugjalds nokkuð frá því sem ákveðið var með lögum nr. 34/1995 er unnt að tryggja að greiðslubyrðin verði svipuð því sem verið hefur hjá flestum hópum greiðenda.
    Í annan stað má benda á að með því að viðhalda sérstöku kílómetragjaldi á þyngri vöru flutningabifreiðar er gjaldtaka af einstökum ökutækjum í meira samræmi við raunverulegan kostnað sem af notkun þeirra hlýst. Talið hefur verið að þungar vöruflutningabifreiðar valdi sliti á vegum sem sé hlutfallslega mun meira en sem svarar til meiri olíunotkunar þeirra. Þannig geti gjald á olíuna eitt og sér ekki tryggt að gjaldbyrði sé í samræmi við þann kostnað sem ökutæki valda með sliti á vegum. Í skýrslu frá 1995, sem unnin var af sérfræðinganefnd innan ESB og ber heitið Towards fair and efficient pricing in transport, eru rakin sjónarmið um að æskilegt sé að tengja gjaldtöku af ökutækjum til vöruflutninga meira raunverulegum kostnaði sem leiðir af notkun þeirra, m.a. vegna slits þeirra á vegum. Slíkt fyrirkomulag sé sanngjarnt og að auki þjóðhagslega hagkvæmt þar sem það stuðlar að því að hagkvæmustu leiðir séu valdar til vöruflutninga. Í því sambandi er rakið að kílómetragjald sé sanngjarnasta leiðin til að tengja gjaldtöku við slit. Boðað er í skýrslunni að kannaðir verði betur möguleikar til að taka upp slíka gjaldtöku.
    Í þriðja lagi skal bent á að með því að láta hluta gjaldtöku á þyngri bifreiðar ráðast af eknum kílómetrum til viðbótar við olíunotkun er dregið úr hinni skyndilegu röskun sem breytt gjaldtaka veldur á samkeppnisstöðu þeirra sem eiga eldri og eyðslufrekari ökutæki gagnvart þeim sem eiga nýrri og eyðslugrennri ökutæki.
         

IV. Fjárhæð olíugjalds og kílómetragjalds. Tekjur af gjaldtöku.

1. Olíugjald.
    
Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 34/1995 er kveðið á um að fjárhæð olíugjalds skuli vera 38,50 kr. á hvern lítra af olíu. Ef miðað er við verð á dísilolíu eins og það er nú þýðir það að öðru óbreyttu að lítraverð dísilolíu verður tæpar 76 kr. á lítra. Til samanburðar má geta að algengt verð á hverjum lítra bensíns er nú rúmar 78 kr. Skv. 4. mgr. 1. gr. laganna er heimilt að hækka gjaldið í samræmi við breytingar á vísitölu byggingarverðs. Yrði gjaldið reiknað upp miðað við það næmi það tæpum 44 kr. á lítra, en það mundi að öðru óbreyttu þýða að olíuverðið yrði rúmlega 83 kr. á lítra.
    Ýmis sjónarmið mæla með því að lækka olíugjald frá því sem ákveðið var í lögum nr. 34/1995. Þannig leiðir sú fjárhæð til þess að verð á dísilolíu verður litlu lægra en bensínverð og of hátt til að líklegt megi telja að dísilknúnar fólksbifreiðar verði ákjósanlegur kostur sem einkabifreiðar. Í því sambandi má benda á að olíuverð er að meðaltali um 80% af verði bensíns í ýmsum af nágrannalöndum okkar. Hátt verð á olíu leiðir einnig til aukinnar greiðslubyrði ýmissa stétta atvinnubílstjóra frá því sem verið hefur í þungaskattskerfinu. Á það einkum við um þá er stunda fólksflutninga, en þeir geta ekki fært virðisaukaskatt af olíuverðinu sem innskatt.
    Af þessum sökum er lagt til að olíugjald verði lækkað frá því sem kveðið er á um í lögum nr. 34/1995. Lagt er til að gjaldið verði 34 kr. á lítra, en sú fjárhæð er talin hæfileg til að tryggja eftir því sem mögulegt er sambærilega greiðslubyrði eigenda til að mynda fólks flutningabifreiða, þó þannig að unnt verði að tryggja Vegagerðinni sömu tekjur og hún hefur nú af þungaskatti, með hóflegu kílómetragjaldi á þyngri ökutæki. Miðað við núverandi verð á dísilolíu leiðir þetta að öðru óbreyttu til þess að verð á hvern lítra olíunnar verður tæplega 71 kr., eða um 90% af bensínverði.

2. Kílómetragjald.
    Eins og fram hefur komið er lagt til að kílómetragjald leggist ekki á fólksflutningabifreiðar. Ástæðan er fyrst og fremst sú að fólksflutningar eru undanþegnir virðisaukaskatti. Við upptöku olíugjalds leggst virðisaukaskattur á gjaldið, ólíkt því sem er varðandi þungaskatt. Eigendum vöruflutningabifreiða er unnt að færa virðisaukaskattinn sem innskatt, þannig að hann hefur ekki áhrif á greiðslubyrði þeirra. Skatturinn bætist hins vegar við gjaldbyrði eigenda fólksflutningabifreiða. Ef eigendum stærri fólksflutningabifreiða verður gert að greiða kílómetragjald mun gjaldbyrði þeirra aukast umtalsvert frá því sem nú er.
    Kílómetragjaldið leggst einungis á bifreiðar og eftirvagna sem eru 10 tonn eða meira að heildarþyngd. Fjárhæð gjaldsins er ákvörðuð þannig að gjaldbyrði eigenda gjaldskyldra ökutækja verði því sem næst hin sama og hún er nú. Miðað er við tilteknar forsendur um olíunotkun eftir þyngd, og er þar m.a. stuðst við upplýsingar Vegagerðarinnar og Samtaka iðnaðarins um olíunotkun. Gert er ráð fyrir að afsláttur sá er veittur hefur verið í núverandi þungaskattskerfi falli að fullu niður.


3. Tekjur af gjaldtöku.
    Tekjur af þungaskatti, að frádregnum endurgreiðslum og lögbundinnar greiðslu ½% tekna í ríkissjóð vegna kostnaðar við framkvæmd skattsins, námu u.þ.b. 3.080 milljónum kr. á árinu 1997. Talið er að fjárhæð endurgreiðslna og gjalds í ríkissjóðs verði samtals um 60 milljónir kr. við upptöku olíugjalds. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að olíugjald og kílómetragjald þurfi að skila um 3.140 milljónum kr. til að tryggja óbreyttar tekjur.
    Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um það, hve mikið af olíu hefur verið nýtt á skráningar skyld ökutæki á hverju ári. Þó hefur verið talið að þar geti verið um að ræða nálægt 70 milljónum lítra á ári. Sé miðað við það magn má ætla að tekjur af olíugjaldi geti numið 2,4–2,5 milljörðum kr. á ári Áætla má að tekjur af kílómetragjaldi muni nema um 700 milljónum kr. Samkvæmt þessu má ætla að heildartekjur verði 3,1–3,2 milljarðar kr.
    Þar sem töluverð óvissa er um það hverjar heildartekjur verði af olíugjaldi, sökum óvissu um árlega sölu á dísilolíu á skráningarskyld ökutæki, er lagt til að í ákvæði til bráðabirgða verði kveðið á um endurskoðun á fjárhæð olíugjalds og kílómetragjalds í ársbyrjun 2001. Við slíka endurskoðun yrði fjárhæð gjaldsins endurskoðuð með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um árlega notkun á gjaldskyldri olíu.
    Rétt er að vekja athygli að í frumvarpinu er ekki kveðið á um gjaldtöku vegna aksturs bifreiða sem eru knúin öðrum orkugjafa en bensíni eða dísilolíu, t.d. rafmagni eða vetni. Í lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, er mælt fyrir um gjaldtöku vegna aksturs slíkra bifreiða. Þar sem gert er ráð fyrir að þau lög falli úr gildi við gildistöku laga nr. 34/1995, hinn 1. janúar 1999, er nauðsynlegt að tekin verði afstaða til gjaldtöku af slíkum bifreiðum fyrir þann tíma.     

V. Framkvæmd og kostnaður vegna upptöku litunarkerfis.

    Í frumvarpinu er lagt til að felld verði brott ákvæði laga nr. 34/1995 um endurgreiðslur olíugjalds til aðila sem ekki eiga að bera það en þess í stað verði settar reglur um litun á olíu sem seld verður sömu aðilum án gjalds. Tekin eru upp ákvæði um álagningu sérstaks olíugjalds á þá sem verða uppvísir að því að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki.
    Olíufélögunum ber að lita þá olíu sem seld er til gjaldfrjálsra nota. Í lituninni felst að sérstöku litarefni, ásamt merkiefni, er blandað í olíuna áður en hún er afhent til gjaldfrjálsra nota. Óhjákvæmilegt er að upptöku olíugjalds með litun gjaldfrjálsrar olíu fylgi verulegur kostnaður. Þannig þurfa olíufélög að kaupa búnað til litunar. Þá fylgir lituninni nokkur kostnaður, auk kostnaðar vegna óhagræðis við dreifingu, aukinnar umsýslu o.fl.
    Nefnd, sem skipuð var fulltrúum olíufélaganna, fjármálaráðuneytis og ríkisskattstjóra
kannaði líklegan kostnað við upptöku olíugjalds. Í því skyni mátu olíufélögin líklegan stofnkostnað miðað við þann búnað sem félögin eiga fyrir og þær aðferðir sem félögin telja hagkvæmastar til litunar og dreifingar gjaldskyldrar og gjaldfrjálsrar olíu. Stofnkostnaður félaganna vegna kaupa á eigin búnaði var samkvæmt þessu mati talinn nema um 330 milljónum kr., m.a. vegna byggingar birgðageyma og kaupa á litunarbúnaði, olíuflutninga bílum og búnaði í þá o.fl. Kostnaður vegna fjölgunar olíugeyma fyrir verktaka í blönduðum rekstri og bændur var metinn á um 84 milljónir kr. Olíufélögin telja að aukinn árlegur rekstrar kostnaður þeirra vegna upptöku olíugjalds verði samtals um 143 milljónir kr. Þar af nemi beinn rekstrarkostnaður um 70 milljónum kr., en fjármagns- og afskriftakostnaður hins vegar um 73 milljónum kr. Við mat á árlegum fjármagns- og afskriftakostnaði miða félögin við að þau muni bera kostnað vegna kaupa á geymum fyrir verktaka og bændur.
    Líklegt má telja að upptaka litunarkerfis og sá kostnaður sem því fylgir leiði til einhverrar hækkunar á verði olíu. Ekki er auðvelt að segja fyrir um hversu mikil sú hækkun kann að verða eða hvort hún verði eingöngu á gas- og dísilolíu. Þess má geta að áætlað er að árleg sala á gas- og dísilolíu er u.þ.b. 200 milljónum lítra. Gera má ráð fyrir að u.þ.b. 2/3 hlutar þeirrar olíu yrðu litaðir en um . hluti ólitaður.
    Lagt er til að álagning og önnur framkvæmd varðandi olíugjald og kílómetragjald verði í höndum embættis ríkisskattstjóra en hann geti þó falið Vegagerðinni eða skattstjórum að fara með einstaka þætti framkvæmdarinnar. Eru ákvæði frumvarpsins að þessu leyti samsvarandi ákvæðum laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Sú ráðstöfun að færa álagningu og eftirlit til ríkisskattstjóra þykir hafa gefið afar góða raun. Þar sem framkvæmd olíugjalds með litun er mjög einföld og þar sem verkefni er lúta að kílómetragjaldi verða umfangsminni en verkefni í núverandi þungaskattskerfi, er ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði frá því sem verið hefur í þungaskattinum.
    Gert er ráð fyrir að Vegagerðin muni hafa eftirlit með gjaldskyldum ökutækjum eins og verið hefur. Eftirlit með því að ekki sé notuð gjaldfrjáls olía til gjaldskyldra nota felst einkum í því að athuguð eru sýni úr olíugeymi ökutækja. Komi í ljós að olían sé lituð eða þyki eftirlitsmönnum af öðrum ástæðum tilefni til frekari skoðunar, er sýnið sent á rannsóknarstofu þar sem kannað er magn sérstaks merkiefnis sem sett er í alla litaða olíu. Sé magnið umfram tiltekin mörk getur það leitt til þess að ríkisskattstjóri ákveði að leggja sérstakt olíugjald á eiganda eða umráðamann ökutækis. Telja verður að eftirlit með olíugjaldi og kílómetragjaldi falli vel saman og því verði ekki umtalsverður kostnaðarauki af breyttri framkvæmd.
    

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Núgildandi 4. mgr. er felld brott með frumvarpinu, en hún kveður á um heimild til breyt ingar á fjárhæð olíugjalds til samræmis við breytingar á byggingarvísitölu. Í stað greinarinnar er lagt til að ný málsgrein verði lögfest þar sem kveðið er á um að álagning og framkvæmd olíugjalds verði í höndum eins aðila, ríkisskattstjóra, í stað þess að skattstjórar hver í sínu umdæmi annist álagninguna. Ástæðan er einkum sú að gjaldskyldir aðilar skv. 3. gr. laganna verða ekki nema 4–5 og þeir allir með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu. Skapast hefur sérfræðiþekking hjá ríkisskattstjóra, en embættið hefur haft með höndum álagningu og framkvæmd þungaskatts á landsvísu. Olíugjaldið mun leysa þungaskattinn af hólmi og þykir hagræði af því að aðili með reynslu og sérþekkingu annist álagningu, endurákvörðun, beitingu viðurlaga og annað sem gjaldið varðar.
    Þá er lagt til að fjárhæð olíugjalds lækki úr 38,50 kr. í 34 kr. Um rök fyrir lækkun gjaldsins vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Breytingar í þessari grein skýra sig sjálfar, sbr. umfjöllun um 1. gr.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að núgildandi 4. gr. laganna um undanþágur verði orðuð að nýju með tilliti til litunar.
    Kveðið er á um í hvaða tilvikum er heimilt að afhenda gjaldfrjálsa litaða olíu. Meginreglan er sú að heimilt verður að afhenda slíka olíu til annarra nota en á skráningarskyld ökutæki. Einnig verður heimilt að afhenda slíka olíu á dráttarvélar í landbúnaði, enda þótt þær séu skráningarskyldar samkvæmt umferðarlögum. Þá er gert ráð fyrir að heimilt verði að afhenda gjaldfrjálsa olíu til nota á ökutæki sem ætluð eru til sérstakra nota. Heimildinni er ætlað að ná til sérhæfra bifreiða sem aka mjög lítið en nota mikla olíu vegna staðbundinnar vinnu með búnaði bifreiðarinnar. Heimildin takmarkast við ökutæki sem falla undir vörulið 8705 í viðauka I við tollalög, en undir þann lið falla vélknúin ökutæki til sérstakra nota. Sem dæmi um ökutæki sem geta notið heimildarinnar má nefna kranabifreiðar og steypubifreiðar.
    Í greininni er gerð grein fyrir þeirri notkun sem telst undanþegin olíugjaldi og kveðið á um að litaða olíu megi ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilgangi. Sérstaklega er tekið fram að óheimilt sé að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki. Jafnframt er bannað að fjarlægja litarefni úr olíunni að hluta eða öllu leyti.

Um 5. gr.

    Í greininni er kveðið á um að öðrum en gjaldskyldum aðilum skv. 3. gr. , sem fengið hafi leyfi ríkisskattstjóra, sé óheimilt að annast litun gjaldfrjálsrar olíu. Gert er ráð fyrir að búnaður sá, sem nota á til litunar, hafi áður fengið viðurkenningu hjá Löggildingarstofu. Ekki er kveðið á um gerð eða samsetningu litarefnis, litunarbúnað eða framkvæmd litunar að öðru leyti í lagatextanum, en gert ráð fyrir að fjármálaráðherra setji reglugerð um þetta efni, líkt og gert er í nágrannalöndum okkar.


Um 6. gr.

    Í þessari grein er lagt til að felldir verði brott þeir töluliðir sem kveða á um endurgreiðslu gjalds af olíu til húshitunar, hitunar almenningssundlauga og til nota á skip og báta. Ákvæði þessi eru óþörf þar sem í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að heimilt verði að selja þessum aðilum gjaldfrjálsa litaða olíu. Ekki er því þörf fyrir endurgreiðsluheimild vegna þessara nota.

Um 7. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 7. gr. laganna varðandi almenn ákvæði um bókhald og útgáfu sölureikninga með tilliti til þeirra breytinga sem verða vegna litunar á gjaldfrjálsri olíu. Gerð er sú krafa að gjaldskyldir aðilar haldi aðgreindum í bókhaldi sínu upplýsingum er varða gjaldskylda olíu og gjaldfrjálsa olíu. Einnig er gerð sú krafa að þeir haldi bókhald yfir aðfengið litarefni og notkun á því, svo að hægt sé að staðreyna samsvörun á milli magns litarefnis og afhentrar gjaldfrjálsrar olíu á ákveðnu tímabili. Þá skal tilgreina á reikningi þegar um sölu á gjaldfrjálsri litaðri olíu er að ræða.

Um 8. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir að núgildandi 8. gr. laganna, um bókhald þeirra sem rétt eiga á endurgreiðslu, verði orðuð að nýju. Samkvæmt breytingu á 6. gr. er gert ráð fyrir að þeim sem rétt eiga á endurgreiðslu fækki frá því sem nú er samvæmt lögunum. Þeim sem rétt eiga á endurgreiðslu skv. 6. gr. ber að kaupa ólitaða gjaldskylda olíu.
    Sérleyfishafar og rekstraraðilar almenningsvagna skulu hafa yfirlit yfir hversu leiðirnar sem sérleyfin ná til og áætlunarleiðirnar eru langar og skrá fjölda kílómetra sem ökutæki í þeirra eigu hafa ekið á viðkomandi leiðum. Skráningin skal grundvallast á talningu ökumælis líkt og verið hefur í núgildandi þungaskattskerfi. Ef rekstraraðili almenningsvagna eða sérleyfisbifreiða fær endurgreiddan tiltekinn hluta olíugjalds, skal hann halda í bókhaldi sínu reikninga yfir aðkeypta olíu vegna rekstrar almenningsvagna eða sérleyfisbifreiða eingöngu og geta sýnt fram á að olían hafi ekki verið notuð á önnur ökutæki.
    Í 2. mgr. kemur fram að vanræki aðili að færa fullnægjandi bókhald skv. 1. mgr. falli niður réttur til endurgreiðslu á viðkomandi endurgreiðslutímabili. Ef sérleyfishafi eða rekstraraðili almenningsvagns skráir ekki fjölda kílómetra sem ökutæki í hans eigu hafa ekið á leið sem sérleyfi hans nær til eða þeir eru rangt skráðir fellur niður réttur til endurgreiðslu.

Um 9. gr.

    Lagt er til að í stað núgildandi 2. og 3. mgr. 9. gr. laganna komi ákvæði sem heimili gjald skyldum aðila að draga frá við uppgjör olíugjald af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum, enda hafi hin tapaða fjárhæð áður verið talin til gjaldskyldrar sölu á olíu.
    

Um 10. gr.

    Lagt er til brottfall 2. tölul. 10. gr., þar sem í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að lituð olía verði undanþegin olíugjaldi. Þar sem aðeins skal lagt olíugjald á ólitaða olíu þykir rétt að kveða skýrt á um það í uppgjörsreglum laganna.
    

Um 11. gr.

    Í greininni er kveðið á um að ríkisskattstjóri ákvarði olíugjald að loknu hverju uppgjörs tímabili. Regla þessi er í samræmi við ákvæði virðisaukaskattslaga og felur í sér að ríkis skattstjóra er skylt að ákvarða olíugjald gjaldskyldra aðili á hverju upgjörstímabili, hvort sem ákvörðun er tekin á grundvelli 11. eða 13. gr.

Um 12. gr.

    Hér er lagt til að lögfestar verði reglur um með hvaða hætti ríkisskattstjóri skuli ákvarða og endurákvarða olíugjald. Reglur þessar eru sambærilegar málsmeðferðarákvæðum annarra skattalaga, svo sem laga um tekjuskatt og eignarskatt og laga um virðisaukaskatt. Telja verður æskilegra að reglur þessar komi skýrt fram í lögunum fremur en að vísað sé til ákvæða annarra laga. Segja má að efnisákvæði greinarinnar séu eftirfarandi: Lagt er til að reglur um fyrirspurn ríkisskattstjóra verði færðar inn í ákvæði laganna. Tekinn er upp 15 daga lágmarksfrestur til að andmæla endurákvörðun auk almenns ákvæðis um boðun breytinga. Frestur ríkisskattstjóra til endurákvörðunar verður að jafnaði tveir mánuðir.

Um 13. gr.

     Um a-lið (14. gr.).
    Í þessari grein er lagt til að tekið verði upp kílómetragjald á bifreiðar og eftirvagna sem eru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd, að undanskildum bifreiðum sem eru ætlaðar til fólksflutninga. Með leyfði heildarþyngd er átt við þá þyngd sem er leyfð á vegum samkvæmt reglugerð um stærð og þyngd ökutækja. Fjárhæð gjaldsins í einstökum gjaldflokkum er ákvörðuð þannig að greiðslubyrði eigenda og umráðamanna ökutækja breytist sem minnst frá því sem er í núverandi þungaskattskerfi. Áætluð er eyðsla ökutækja í hverjum gjaldflokki fyrir sig og út frá því er síðan reiknað hversu hátt kílómetragjaldið þurfi að vera til að greiðslubyrði verði óbreytt frá því sem er í þungaskatti. Gert er ráð fyrir að afsláttur sem eigendur og umráðamenn hafa notið á þungaskatti vegna aksturs falli brott.
    Gert er ráð fyrir að kílómetragjald af gjaldskyldum eftirvögnum verði tvöfalt það gjald sem greiða ber af gjaldskyldum bifreiðum. Ástæðan er sú að að öðrum kosti mundi draga verulega úr gjaldbyrði eftirvagna frá því sem er í núverandi kerfi. Tvöfalt kílómetragjald á eftirvagna mun því ekki auka gjaldbyrði af þeim frá því sem nú er, þ.e. ef ekki er tekið tillit til núverandi afsláttarkerfis. Leitast er við að hafa gjaldbyrði hinni mismunandi flutningsforma sem líkasta.
    Kílómetragjaldið er byggt upp eins og þungaskattur og mun það kerfi sem byggt er á nú verða notað áfram. Kílómetragjaldið verður þó mun einfaldara í framkvæmd og má í því sambandi nefna að gjaldskyldum ökutækjum fækkar um helming, en þau eru nú 10.400, álestrartímabilum fækkar úr þremur í tvö og afsláttarreglur eru afnumdar.
    Lagt er til að eigendum bifreiða sem ætlaðar eru til sérstakra nota verði heimilt að velja á milli þess að kaupa ólitaða olíu með olíugjaldi og greiða venjulegt kílómetragjald, eða kaupa litaða olíu og greiða þá sérstakt kílómetragjald. Heimild þessi er lögð til vegna þess að þessum bifreiðum er oft lítið ekið, en þær nota hins vegar mikla olíu við önnur verk, þar sem þær eru aðallega staðbundið vinnutæki. Gjaldflokkar kílómetragjalds vegna slíkra ökutækja sem nota litaða olíu verða nokkuð færri en flokkar almenns kílómetragjalds og er það gert til einföldunar. Fjárhæð gjalds tekur mið af fjárhæð þungaskatts í dag.
    Önnur ákvæði greinarinnar eru óbreytt frá lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar.
     Um b-lið (15. gr.).
    Í þessari grein er kveðið á um skyldu ökumanns til skráningar á akstri í akstursbók og skyldur ef taka þarf ökumæli úr ökutæki vegna viðgerðar. Ákvæði þessi er efnislega samhljóða ákvæðum 6. gr. og B-liðar 8. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, eins og þeim var breytt með lögum nr. 68/1996. Vísast um skýringar til athugasemda við 8. og 10. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 68/1996.
     Um c-lið (16. gr.).
    Greinin kveður á um að ríkisskattstjóri skuli ákvarða kílómetragjald að loknu hverju álestrartímabili. Gert er ráð fyrir að álestrartímabilum fækki um eitt frá því sem verið hefur í þungaskattskerfinu og þau verði því tvö, þ.e. 1.–10. apríl og 1.–10. október. Gjaldið er lagt á skráðan eiganda ökutækisins við álestur. Gjalddagar eru 5. maí og 5. nóvember.
    Að öðru leyti vísast til athugasemda við b-lið 15. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 68/1996.
    Um d-lið (17. gr.).
    Hér er lagt til að ákvæði um endurákvörðun kílómetragjalds verði í 17. gr. laganna. Ákvæðið er efnislega samhljóða c-lið 15. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 68/1996 og vísast til athugasemda við þá grein.
     Um e-lið (18. gr.).
    Í greininni er kveðið á um að leggja skuli sérstakt olíugjald á eigendur skráningarskyldra ökutækja ef í ljós kemur að lituð olía hefur verið notuð á ökutæki þeirra. Þar sem eigendur skráningarskyldra ökutækja eru ekki gjaldskyldir skv. 3. gr. laganna er ekki unnt að kveða á um endurákvörðun olíugjalds ef bann við notkun litaðrar olíu á ökutæki hefur verið virt að vettugi. Þess vegna er þörf á sjálfstæðu ákvæði um gjaldskyldu í þessum tilvikum. Ákvæðið er hliðstætt ákvæðum í lögum um þungaskatt þar sem ríkisskattstjóra er gert skylt að áætla þungaskatt þegar ekki hefur verið komið með ökutæki í álestur. Eðli máls samkvæmt er ekki mögulegt að meta hversu lengi notkun litaðrar olíu hefur staðið yfir. Í ákvæðinu er við það miðað að ökutæki í atvinnurekstri hafi verið knúið litaðri olíu 50.000 km vegalengd. Fjárhæð gjalds miðast við áætlaða olíunotkun ökutækja í hverjum gjaldflokki og fer því hækkandi eftir þyngd. Gert er ráð fyrir að gjald á fólksbifreiðar, sem ekki eru nýttar í atvinnurekstri og á dráttarvélar sem ekki eru nýttar til landbúnaðarnota miðist þó við 20.000 km akstur. Lagt verður á samkvæmt þessari grein fyrir hvert tilvik sem aðili notar litaða olíu á ökutæki sitt og gildir þá einu hvort eða hvenær aðili hefur sætt álagningu samkvæmt greininni.
    Við álagningu sérstaks olíugjalds er ríkisskattstjóra skylt að boða fyrirhugaða álagningu vegna notkunar á litaðri olíu og skora á eiganda að láta í té skýringar og gögn innan a.m.k. fimmtán daga. Eiganda ökutækis er með þessu gefinn kostur á að andmæla fyrirhugaðri álagn ingu. Ríkisskattstjóri kannar síðan framkomin gögn og ákvarðar olíugjald á eiganda ökutækisins skv. 2. eða 3. mgr . Með þessum málsmeðferðarákvæðum er tryggð skilvirkni við álagningu gjaldsins án þess að skerða réttaröryggi gjaldenda. Ríkisskattstjóra ber eftir sem áður að gæta almennra stjórnsýslureglna um rannsóknar- og rökstuðningsskyldu.
    Lagt er til að skráður eigandi ökutækis verði gjaldskyldur samkvæmt greininni, en ef annar aðili hefur umráðarétt yfir ökutækinu ber hann óskipta ábyrgð á greiðslu gjaldsins með skráðum eiganda ökutækisins. Með þessari reglu er verið að tryggja kröfu ríkissjóðs. Jafnframt er verið að gera aðila, sem kaupa ökutæki á kaupleigu af fjármögnunarfyrirtækjum, ábyrga fyrir greiðslu olíugjaldsins þegar hann hefur umráð yfir ökutækinu.


Um 14. gr.

     Um a-lið (19. gr.).
    Lagt er til að bætt verði við lögin nýjum kafla um kæruheimildir, eftirlit og refsiábyrgð. Í þessari grein er kveðið á um kæruheimildir. Greinin tekur til olíugjalds, kílómetragjalds og sérstaks olíugjalds. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra ákvörðun ríkisskattstjóra um olíugjald, kílómetragjald og sérstakt olíugjald til hans innan þrjátíu daga frá því að ákvörðunin var tilkynnt. Skýrar reglur eru um frá hvaða tímamarki skuli reikna frestina. Önnur ákvæði greinarinnar eru efnislega samhljóða málmeðferðarákvæðum virðisaukaskattslaganna.

    Um b-lið (20. gr.).
    Í greininni er fjallað um eftirlit. Ríkisskattstjóri skal annast eftirlit með að lituð olía sé ekki notuð á skráningarskyld ökutæki ásamt eftirliti með ökumælum og skráningu aksturs ökutækja sem greitt er af kílómetragjald. Gert er ráð fyrir að eftirlitið á vettvangi verði áfram í höndum Vegagerðarinnar, en hún hefur sinnt því með góðum árangri í þungaskattskerfinu. Yfirumsjón eftirlits verður þó í höndum ríkisskattstjóra.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimildir eftirlitsmanna við störf sín. Tekið er fram að heimilt sé að stöðva ökutæki til að taka sýni úr eldsneytisgeymi svo ganga megi úr skugga um að ekki sé notuð lituð olía. Jafnframt eru tilteknar heimildir til að stöðva kílómetragjaldsskyld ökutæki og gera athuganir á ökumælisbúnaði, skráningu í akstursbók o.fl.
    Í 3. mgr. er kveðið á um heimildir eftirlitsmanna ríkisskattstjóra til að fá gögn hjá olíu gjaldsskyldum aðilum skv. 3. gr., þ.e. hjá olíufélögunum, svo ganga megi úr skugga um rétt mæti álagningar olíugjalds og sölu eða afhendingu á jafnt litaðri sem ólitaðri olíu.
     Um c-lið (21. gr.).
    Í þessari grein er lagt til að refsiákvæði laganna verði í einu ákvæði. Ákvæðið tekur þá til olíugjalds, kílómetragjalds og sérstaks olíugjalds. Um skýringar á 3., 4., 5. og 6. mgr. vísast að mestu til athugasemda við g-lið 15. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 68/1996. Í 3. mgr. er þó lagt til að bætt verði við refsiákvæði í þeim tilvikum þegar skráður eigandi eða umráðamaður hefur af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gerst brotlegur við ákvæði 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins, eða vangreitt kílómetragjald. Fram kemur að skilyrði refsiábyrgðar er að eigandi eða umráðamaður hafi gerst brotlegur við ákvæðið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Um skilgreiningu á hugtökunum ásetningur og gáleysi vísast til refsiréttar. Í ákvæðinu er verknaðarlýsing, þó er ekki um að ræða tæmandi upptalningu brota sem falla undir ákvæðið, enda vísar orðalag greinarinnar til ákvæða laganna að því leyti sem upptalningin nær ekki til þeirra. Um skýringu á þeim atriðum sem refsiverð eru samkvæmt þessari grein vísast til umfjöllunar um þau í viðeigandi greinum.
     Um d- og e-lið (22. og 23. gr.).
    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 15.–18. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Lagt er til að eigi síðar en í ársbyrjun 2001 verði fjárhæð olíugjalds og kílómetragjalds endurskoðuð með hliðsjón af þeim forsendum sem lagðar voru til grundvallar varðandi árlega sölu gjaldskyldrar olíu, við ákvörðun olíugjalds og kílómetragjalds. Komi í ljós frávik frá áætlaðri árlegri sölu, en hún er áætluð um 70 milljónum lítra, verði fjárhæð olíugjalds eða kílómetragjalds leiðrétt á þann veg að tekjur Vegagerðarinnar breytist ekki frá því sem verið hefur í þungaskatti. Ekki verði þó tekið tillit til áorðinna verðbreytinga þegar gjöld verði endurskoðuð samkvæmt þessari grein. Hins vegar verði tekið tillit til fjölgunar dísilknúinna ökutækja, þannig að metin verði eðlileg aukning eða minnkun á olíusölu vegna breytts fjölda skráðra dísilbifreiða.
    Ástæða þess að lagt er til að kveðið verði á um slíka endurskoðun er sú að veruleg óvissa ríkir um það, hversu mikið magn dísilolíu er selt á skráningarskyld ökutæki. Bæði Vegagerðin og ýmis hagsmunasamtök einstakra hópa greiðenda hafa lagt á það ríka áherslu á sam ráðsfundum sem haldnir hafa verið vegna undirbúnings þessa lagafrumvarps að slíkt endur skoðunarákvæði verði sett í lögin. Með því móti verði tryggt að hinn markaði tekjustofn Vegagerðarinnar rýrni ekki frá því sem verið hefur í þungaskatti og jafnframt að heildar greiðslubyrði þeirra sem nú greiða þungaskatt aukist ekki vegna upptöku olíugjalds og kílómetragjalds.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 34/1995,
um vörugjald af olíu, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 34/1995, um vörugjald af olíu, með síðari breytingum. Helstu breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir eru sem hér segir:
    Í stað upptöku olíugjalds á gas- og dísilolíu með endurgreiðslu á gjaldi vegna gjaldfrjálsrar notkunar olíu verði tekið upp olíugjaldskerfi með litun gjaldfrjálsrar olíu. Óheimilt verði að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki og er gert ráð fyrir að lagt verði sérstakt olíugjald á þá aðila sem verða uppvísir að því að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki.
    Auk olíugjalds verði tekið upp kílómetragjald á þyngri bifreiðar og eftirvagna, að undan skildum fólksflutningabifreiðum. Gert er ráð fyrir að kílómetragjaldið verði mun lægra og nái til færri ökutækja en núverandi þungaskattur.
    Ákvæði frumvarpsins beinast einkum að þáttum sem varða tekjuhlið ríkissjóðs og er ekki ástæða til að ætla að þau hafi umtalsverð útgjaldaáhrif. Gert er ráð fyrir að ríkisskattstjóri annist álagningu og aðra framkvæmd varðandi olíugjald og sérstakt kílómetragjald. Í frum varpinu er gert ráð fyrir að ½% af innheimtum tekjum renni í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði. Er þar um að ræða sama hlutfall og runnið hefur í ríkissjóð af tekjum af þungaskatti til að standa straum af kostnaði við framkvæmdina. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir að aukinn kostnaður verði hjá ríkisskattstjóra af framkvæmdinni.