Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 723 – 402. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um aukið samstarf Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs í fiskveiðimálum.

Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Stefán Guðmundsson,


Magnús Stefánsson, Ísólfur Gylfi Pálmason.



    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að kanna möguleika aukins samstarfs Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs í fiskveiðimálum, þar á meðal á sviði veiðarfæranotkunar, vísindarannsókna, markaðssetningar og málflutnings um umhverfismál og fiskveiðar á alþjóðavettvangi.

Greinargerð.


    Sjálfbær nýting sjávarafurða er mikilvægt hagsmunamál Íslendinga, Grænlendinga, Fær eyinga og Norðmanna. Fiskveiðar hafa frá alda öðli verið órjúfanlegur hluti af menningu og lífi fólks í þessum löndum og þjóðirnar veiða að hluta úr sömu fiskstofnum. Samstarf um sjálf bæra nýtingu fiskstofna liggur því í hlutarins eðli. Þjóðirnar fjórar eru smáþjóðir á alþjóð legum mælikvarða. Því hefur þeim reynst örðugt að koma málstað sínum á framfæri á alþjóðavettvangi, svo sem í sel- og hvalveiðum, og gildir þá einu hversu góðum rökum hann er studdur. Órökstuddur áróður fyrir banni við þorskveiðum í Norður-Atlantshafi hefur birst í auglýsingum erlendis. Auðveldara væri fyrir þjóðirnar að bregðast við slíku og sýna fram á sjálfbæra nýtingu auðlinda ef fiskveiðar væru stundaðar með svipuðum hætti í efnahags lögsögu landanna allra. Því er eðlilegt að þær starfi saman í auknum mæli.
    Markmið samstarfs landanna fjögurra skulu vera eftirfarandi:
1.      að tryggja sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og verndun lífríkis sjávar með svipaðri fiskveiðistjórn sem tæki m.a. til veiðarfæranotkunar og vísindarannsókna,
2.      að bæta vígstöðu ríkjanna í baráttu gegn ofverndunarsjónarmiðum í sjávarútvegi, t.d. með samræmdum málflutningi á alþjóðavettvangi,
3.      að vinna gegn mengun Norður-Atlantshafsins svo sem vegna úrgangs kjarnorkuendurvinnslustöðvar í Sellafield,
4.      að fjölga sóknarfærum í markaðssetningu sjávarafurða, t.d. með vísan í hreinleika afurðar og umhverfisvæna nýtingu auðlindarinnar í Norður-Atlantshafi.
    Þótt Íslendingar, Færeyingar, Grænlendingar og Norðmenn séu vissulega smáþjóðir á alþjóðamælikvarða, þá nær sameiginleg efnahagslögsaga þeirra yfir stóran hluta Norður-Atlantshafs. Staða þeirra í umhverfismálum er því mun veigameiri en stærð þjóðanna gefur til kynna. Með því að auka samstarf í fiskveiðimálum mundu löndin fjögur sýna umheiminum og umhverfisverndarsamtökum að markmið sjálfbærrar þróunar og hagsmunir fiskveiðiþjóða geta og eiga að fara saman. Samstarfið væri aukinheldur gott fordæmi fyrir aðrar þjóðir eins og t.d. Evrópusambandsþjóðirnar sem löngum hafa átt í erfiðleikum með fiskveiðistjórn og eftirlit. Þá yrði um leið tryggt að sameiginleg rödd þjóðanna fjögurra mundi heyrast betur á alþjóðavettvangi en rödd hvers lands um sig.