Ferill 407. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 728 – 407. mál.
                             


Frumvarp til laga



um afnám skyldu til greiðslu þungaskatts og virðisaukaskatts á umhverfisvæn ökutæki.

Flm.: Hjálmar Árnason, Ólafur Örn Haraldsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson,


Magnús Stefánsson.


Breyting á lögum um fjáröflun til vegagerðar,
nr. 3/1987, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þá eru ökutæki sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni, undanþegin skattskyldu.


Breyting á lögum um virðisaukaskatt,
nr. 50/ 1988, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, 6. mgr., svohljóðandi:
    Þá eru ökutæki sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni, undanþegin virðisaukaskatti.


Gildistaka.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1998.
    Ákvæði laga þessara skulu endurskoðuð í síðasta lagi 1. júlí 2003.

Greinargerð.


    Ný tækni er að ryðja sér til rúms þar sem hægt er að knýja ökutæki með óhefðbundnum orkugjöfum, t.d. rafhreyfli eða vetni, sem leiðir til hverfandi mengunar. Telja verður eðlilegt að almenningi sé gefinn kostur á að kynnast þessum nýjungum og með því að fella niður greiðslu þungaskatts og virðisaukaskatts er honum gert auðveldara að nálgast þessa um hverfisvænu tækni. Þá er breyting þessi jafnframt lögð til í þeim tilgangi að hvetja til auk innar notkunar vistvænna ökutækja. Með lögleiðingu þessara breytinga gæti ríkissjóður orð ið af einhverjum tekjum. Hins vegar er brýnt að hið opinbera sýni vilja sinn í verki til að vistvænir orkugjafar verði nýttir á samgöngutækjum landsmanna. Er það í fullu samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar. Ný tækni er að ryðja sér til rúms, henni þarf að mæta með hvatningu til almennings um að nýta sér hana, ekki síst af umhverfisástæðum. Í fyllingu tímans kann að þurfa að breyta þessu ákvæði að nýju, þ.e. þegar vistvæn ökutæki verða orðin almennari en nú tíðkast. Líta má því á efnisatriði þessara breytinga sem tímabundin meðan á breytingum stendur.