Ferill 442. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 769 – 442. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996, sbr. lög nr. 83 27. maí 1997 (samstarf lögregluliða, valnefnd Lögregluskólans o.fl.) .

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    A-liður 4. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Ríkislögreglustjóri getur ákveðið að höfðu sam ráði við lögreglustjóra að lögreglulið í einu umdæmi skuli tímabundið gegna lögreglustörfum í öðru umdæmi og ákveður þá jafnframt hver skuli fara með stjórn þess. Dómsmálaráðherra getur samkvæmt tillögu ríkislögreglustjóra kveðið á um skipulagt samstarf lögregluliða við framkvæmd og stjórnun ákveðinna löggæsluverkefna og miðlun mannafla milli lögregluliða á tilteknu svæði til að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu. Þá getur ráðherra samkvæmt tillögu ríkislögreglustjóra falið lögreglustjórum tímabundið tiltekin löggæslu verkefni utan síns umdæmis ef hagfellt þykir vegna staðhátta.

2. gr.

    Í stað orðanna „Skipshafnir varðskipa“ í 3. mgr. 9. gr. laganna kemur: Áhafnir varðskipa og gæsluflugvéla.

3. gr.

    3. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    3. Við framkvæmd starfa sinna skulu handhafar lögregluvalds bera á sér sérstök skilríki. Ráðherra ákveður útlit, efni og notkun lögregluskilríkja með reglugerð.

4. gr.

    2. og 3. mgr. 28. gr. laganna, sbr. 31. gr. laga nr. 83 27. maí 1997, orðast svo:
    2. Dómsmálaráðherra skipar yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna til fimm ára í senn. Ríkislögreglustjóri skipar aðra lögreglumenn til fimm ára í senn. Hver sá sem skipaður er til lögreglustarfa skal hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsstig innan lögreglunnar.
    3. Dómsmálaráðherra getur heimilað lögreglustjóra að setja mann tímabundið til lögreglu starfa vegna orlofstöku, veikinda- eða slysaforfalla eða tímabundinna leyfa lögreglumanna þó að hann hafi ekki lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins, enda fullnægi hann skilyrðum 2. mgr. 38. gr. laganna og enginn með próf frá Lögregluskóla ríkisins er tiltækur í stöðuna.

5. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 45. gr., svohljóðandi:

Undanþága frá aldursskilyrði.


    Valnefnd Lögregluskóla ríkisins er heimilt, til ársloka 1998, að undanþiggja umsækjendur, sem voru lausráðnir eða ráðnir tímabundið til lögreglustarfa í tíð eldri laga, aldursskilyrði a-liðar 2. mgr. 38. gr.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Um 1. gr.

    Í a-lið 4. mgr. 7. gr. er fjallað um heimildir dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra vegna tímabundinna löggæsluverkefna. Lagt er til í 2. málsl. að dómsmálaráðherra verði heimilað, að fengnum tillögum ríkislögreglustjóra, að kveða á um samstarf lögregluliða um lengri tíma í tilteknum landshluta eða héraði. Samstarf gæti lotið að samnýtingu tækjabúnaðar, samræmingu löggæslustarfa, t.d. á sviði fíkniefna- og umferðarlöggæslu eða leitar- og björgunarstarfa, og þjálfun lögreglumanna. Æskilegt er að geta skipulagt hvernig hagað skuli miðlun mannafla milli lögregluliða um lengri tíma til þess að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, t.d. við samkomur og útihátíðir. Að fengnu ákveðnu skipulagi mun ekki í sérhverju tilviki þurfa að leita samþykkis eða fyrirmæla ríkislögreglustjóra um miðlun mannafla milli lögregluumdæma.

Um 2. gr.

    Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. lögreglulaga fara skipshafnir varðskipa með lögregluvald þegar þær annast eða aðstoða við löggæslu. Rétt þykir að ákvæðið taki einnig til áhafna gæslu flugvéla sem Landhelgisgæslan gerir út, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25/1967.

Um 3. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um útlit og efni lögregluskilríkja, auk notkunar, í reglugerð. Meginmarkmið breytingarinnar er að fella niður ákvæði um að í lögregluskilríki skuli staða viðkomandi tilgreind. Af því leiðir að gefa þarf út nýtt skilríki handa lögreglumanni sem skiptir um stöðu eða hækkar í tign. Þetta hefur óþarfakostnað í för með sér. Mestu skiptir að lögregluskilríki staðfesti að viðkomandi fari með lögregluvald og skiptir staða lögreglumanns ekki máli í því sambandi.

Um 4. gr.

    Lagt er til að ríkislögreglustjóri, en ekki dómsmálaráðherra, skipi lögreglumenn aðra en yfirlögregluþjón og aðstoðaryfirlögregluþjón. Sú tilhögun þykir vera í samræmi við hlutverk ríkislögreglustjóra. Þá er lagt til að heimilt verði, að uppfylltum öðrum skilyrðum, að setja mann til lögreglustarfa um ákveðinn tíma, þótt staðan hafi ekki verið auglýst. Tillögur um breytingar á þessari grein eru í samræmi við heimildir í 5. gr. og 1. mgr. 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Um 5. gr.

    Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga um lögreglumenn, nr. 56/1972, skyldi að jafnaði ekki skipa aðra í lögregluþjónsstöður en þá sem staðist hefðu próf frá Lögregluskólanum. Um almenn hæfisskilyrði lögreglumannsefna voru ákvæði í 1. gr. reglugerðar um veitingu lögreglustarfs, lögregluskóla o.fl. nr. 660/1981. Skv. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar var val nefnd Lögregluskólans þó heimilt að víkja frá einstökum skilyrðum 1. gr. þegar sérstakar ástæður mæltu með því.
    Samkvæmt 3. mgr. 28. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, skulu lögreglumenn, sem skipaðir eru til lögreglustarfa, hafa lokið prófi frá Lögregluskólanum. Ákvæði um almenn hæfisskilyrði lögregluefna er að finna í 2. mgr. 38. gr. laganna. Komið hefur fram að nokkrir lögreglumenn, sem voru lausráðnir eða ráðnir tímabundið til starfa í tíð eldri laga, uppfylla ekki einstök hæfisskilyrði nýju laganna til skipunar í starf. Er þar einkum um að ræða lögreglumenn sem ekki uppfylla skilyrði um aldurshámark (35 ár). Í frumvarpi þessu er lagt til að valnefnd Lögregluskólans verði heimilt, til ársloka 1998, að víkja frá aldursskilyrði við val nema úr hópi umsækjenda. Ákvæðið er í samræmi við það markmið að tryggja framkvæmd laganna þannig að sem minnst röskun verði á stöðu og högum starfsmanna lögreglunnar.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum,
nr. 90 13. júní 1996, sbr. lög nr. 83 27. maí 1997
(samstarf lögregluliða, valnefnd Lögregluskólans o.fl.).

    Í frumvarpinu er að finna nokkrar endurbætur á núgildandi lögum sem lúta að samstarfi lögregluliða milli umdæma, að ríkislögreglustjóri skipi lögreglumenn í stað dómsmálaráð herra o.fl. Ekki verður séð að frumvarpið hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.