Ferill 321. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 779 – 321. mál.



Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um virðisaukaskatt af barnafatn aði.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvert yrði tap ríkissjóðs ef virðisaukaskattur af barnafatnaði yrði aflagður?

    Óskað er eftir upplýsingum um hvert tekjutap ríkissjóðs yrði ef virðisaukaskattur væri felldur niður af barnafatnaði. Til svars við því skal í upphafi tekið fram að mjög erfitt er að áætla tekjutapið af einhverri nákvæmni. Þær upplýsingar sem skattyfirvöld hafa um skil og tekjur af virðisaukaskatti veita ekki möguleika á að sundurgreina virðisaukaskattstekjur af barnafötum sérstaklega. Mat á árlegum virðisaukaskattstekjum af barnafatnaði verður helst byggt á upplýsingum um verðmæti innflutts barnafatnaðar á einu ári, en út frá því má áætla virðisaukaskattstekjur vegna sölu varanna innan lands.
    Ekki kemur fram í fyrirspurninni hvernig afmarka beri hugtakið barnafatnaður. Vöruflokkun innfluttra vara byggist á flokkunarreglum tollskrárinnar. Þar er að finna sérstök tollskrárnúmer fyrir ungbarnafatnað og fylgihluti. Í athugasemdum kemur fram að þar sé átt við „vörur fyrir ung börn sem ekki eru yfir 86 cm á hæð og nær einnig yfir barnableiur“. Hins vegar flokkast fatnaður á stærri börn í sömu tollskrárnúmer og fatnaður á fullorðna og er ekki unnt að aðgreina barnaföt sérstaklega. Hvað skófatnað varðar eru sérstök tollskrár númer í tollskránni fyrir barnaskó, en ekki kemur fram sérstök afmörkun á því hugtaki.
    Á árinu 1996 nam tollverð innfluttra vara, sem flokkast undir tollskrárnúmer fyrir ungbarnafatnað og fylgihluti eða undir tollskrárnúmer fyrir barnaskó, auk álagðra tolla, samtals um 440 millj. kr. Ekki liggja enn fyrir sambærilegar tölur fyrir árið 1997. Við mat á virðis aukaskattstekjum af sölu þessara vara verður jafnframt að taka tillit til áætlaðrar söluálagn ingar innan lands. Sé miðað við að heildsölu- og smásöluálagning hafi að meðaltali verið um 40% má áætla að virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs vegna sölu varanna hafi numið um 150 millj. kr. Ekki er tekið tillit til áhrifa af innskatti.
    Að auki má ætla að einhverjar virðisaukaskattstekjur hafi hlotist vegna innlendrar framleiðslu á ungbarnafatnaði og barnaskóm. Slíkar tölur liggja þó ekki fyrir.