Ferill 463. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 794 – 463. mál.


Fyrirspurn



til iðnaðarráðherra um þátttöku útlendinga í virkjanaundirbúningi.

Frá Hjörleifi Guttormssyni.



     1.      Er hafin þátttaka erlendra aðila og þá hverra í athugunum um virkjanaundirbúning eða ráðgerðar virkjanaframkvæmdir hérlendis?
     2.      Hvað hefur nú þegar verið aðhafst í þessum efnum og hvað er ráðgert á næstunni?
     3.      Sé samstarf hafið eða fyrirhugað, hvaða form er á því og hvernig er fjárhagslegum samskiptum fyrir komið milli aðila?
     4.      Hvernig er eða verður gætt íslenskra hagsmuna í slíku samstarfi, m.a. að því er varðar þekkingu sem aflað hefur verið af innlendum aðilum á liðnum árum við orkurannsóknir og undirbúning virkjana?
     5.      Hvaða stefnu hafa íslensk stjórnvöld tekið að því er varðar aðgang útlendinga að rannsóknaniðurstöðum og þekkingu sem aflað hefur verið hingað til á vegum opinberra aðila hérlendis?
     6.      Hafa eigendur og/eða stjórn Landsvirkjunar tekið afstöðu til hugsanlegs samstarfs við erlenda aðila um byggingu og rekstur virkjana hérlendis og með hvaða hætti þeir nýti sér rannsóknaniðurstöður og þekkingu sem aflað hefur verið á vegum Landsvirkjunar á liðinni tíð?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.


    Tilefni fyrirspurnarinnar er skýrsla iðnaðar- og viðskiptaráðherra um framgang verkefna á sviði stóriðju (68. mál á 122. löggjafarþingi), svar iðnaðarráðherra við fyrirspurn fyrir spyrjanda á þskj. 204 (65. mál á 122. löggjafarþingi) og fréttir þess efnis að vinna sé hafin að undirbúningi virkjana vegna ráðgerðrar álbræðslu í samvinnu við Norsk Hydro (HAMP).