Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 804 – 471. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir.



1. gr.

    C- og e-liður 4. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna komi ný grein, svohljóðandi:
    Við Vinnumálastofnun skal starfa sérstök deild er annast kjara- og vinnumarkaðsrann sóknir. Verkefni deildarinnar eru:
     a.      Að fylgjast með þróun launa og annarra þátta er hafa áhrif á launakjör, jafnt á almennum vinnumarkaði sem hjá hinu opinbera.
     b.      Að safna upplýsingum um þær breytingar er verða á vinnumarkaði, svo sem um fækkun eða fjölgun starfa, atvinnuleysi og nýsköpun í atvinnulífi.
     c.      Að kanna orsakir þeirra breytinga er verða á vinnumarkaði og benda á líklega þróun     hans.
     d.      Að gefa út skýrslur um þróun launamála, ástandið á vinnumarkaði og þær breytingar sem á honum verða. Allar tölulegar upplýsingar skulu vera kyngreindar.
     e.      Að fylgjast með þróun erlendis í vinnumarkaðsmálum og miðla upplýsingum um hana.
     f.      Að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um þörf vinnumarkaðarins fyrir starfsmenntun, endurmenntun og símenntun.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Fyrir nokkrum árum átti flutningsmaður þess kost að kynna sér stofnun í Svíþjóð sem kölluð var Arbetslivscentrum en heitir nú Institut för arbetslivsforskning (Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins). Eigendur stofnunarinnar eru sænska ríkið og Alþýðusamband og Vinnuveitendasamband Svíþjóðar. Fram til ársins 1994 voru verkefni stofnunarinnar mjög víðtækar vinnumarkaðsrannsóknir, en þá voru þau skilgreind upp á nýtt og beinir stofnunin nú einkum sjónum að fjórum sviðum vinnumarkaðsrannsókna. Þau eru:
     1.      alþjóðavæðing og atvinnustefna í Evrópu,
     2.      samkeppnishæfni, framleiðni og þróun vinnustaða,
     3.      vinnumarkaðspólitík og breyttir hagsmunir á vinnumarkaði,
     4.      kvennarannsóknir.
Stofnunin heldur námskeið í vinnumarkaðsrannsóknum og gefur vísindamönnum kost á þjálfun. Að mati Svía hefur stofnunin gegnt afar mikilvægri þjónustu við aðila vinnumarkaðarins, staðið fyrir umræðum og rannsóknum sem kallað hafa á breytingar á kjarasamningum, lagabreytingar og breytt vinnuumhverfi.
    Það væri óskandi að hægt væri að koma upp slíkri stofnun hér á landi, ekki síst í ljósi þeirra miklu breytinga sem nú er spáð á vinnumarkaðnum í kjölfar tæknibyltinga og annarra breytinga. Það er skoðun flutningsmanns að við Íslendingar séum svo langt á eftir í rann sóknum á vinnumarkaði, miðað við t.d. önnur Norðurlönd, að réttara sé að stíga minna skref og byrja á því að byggja upp rannsóknir innan hinnar nýju Vinnumálastofnunar sem vonandi gætu orðið vísir að einhverju meira í nánustu framtíð.
    Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á íslenskum vinnumarkaði. Störfum fækkar með aukinni tækni í rótgrónum atvinnugreinum eins og sjávarútvegi og landbúnaði. Samtímis verða ný störf til í þjónustugreinum, svo sem á sviði ferðaþjónustu, hátækni og upplýsinga. Jafnframt er störfum að fækka og mun fækka enn meir í einstökum þjónustu greinum þar sem tæknin er að leysa mannshöndina af hólmi komi ekki til eitthvað nýtt. Á næstu árum mun störfum væntanlega fækka í bönkum og hjá tryggingafélögum, svo og í starfsemi tengdri fjármagni, þar sem beint samband milli kaupenda og seljenda verður æ auðveldara.
    Það sem af er þessum áratug hefur atvinnuleysi verið meira en þekkst hefur hér á landi um áratuga skeið þótt verulega hafi dregið úr því á allra síðustu árum. Margt bendir til þess að atvinnuleysi sér orðið varanlegt og tölur sýna að það er mun meira á meðal kvenna en karla. Allar þessar breytingar þarf að rannsaka, kanna þarf orsakir og afleiðingar og benda á nýjar leiðir, jafnframt því að spá í framtíðina og átta sig á því hvers konar menntunar og starfsþjálfunar verður þörf á næstu áratugum.
    Svo sem áður segir er það mat flutningsmanns að mikið skorti á að kjara- og vinnu markaðsrannsóknir séu fullnægjandi hér á landi, hvað þá að hægt sé að öðlast heildarsýn yfir þær breytingar sem eiga og hafa átt sér stað. Enginn aðili innan stjórnkerfisins fæst við það sem meginverkefni að beina sjónum að því sem koma skal í atvinnumálum, hvað þá að stjórnvöld hafi uppi einhver áform um áherslur eða uppbyggingu á einstökum sviðum at vinnulífsins, ef frá er talin stóriðja og verkefni henni tengd.
    Um árabil hefur kjararannsóknarnefnd starfað á grundvelli samninga milli aðila á al mennum vinnumarkaði og verið kostuð af Atvinnuleysistryggingasjóði. Kjararannsóknar nefnd hefur bundið starf sitt við rannsóknir á launakjörum nokkurra hópa á almennum vinnumarkaði sem eru innan Alþýðusambands Íslands. Þá hefur starfað kjararannsóknarnefnd sem kannað hefur launaþróun meðal opinberra starfsmanna í samræmi við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Hagstofan hefur safnað gögnum um launaþróun og þróun atvinnustétta, sbr. bæklinga hennar Konur og karlar 1997 og Ísland í tölum 1997. Þá hefur Þjóðhagsstofnun rannsakað launakjör og dreifingu launatekna samkvæmt skattframtölum, jafnframt því að kanna með reglulegu millibili þörf vinnumarkaðarins fyrir vinnuafl.
     Eitt er að safna saman tölulegum upplýsingum, annað að kanna hvað að baki býr og spá til um líklega þróun.
    Það er skoðun flutningsmanns að þörf sé á því að sameina kraftana hvað varðar upp lýsingar um vinnumarkaðsmál eftir því sem hægt er, skilgreina verkefni hverrar stofnunar þannig að þau skarist sem minnst og efla rannsóknir svo sem kostur er. Það er ekki síst mikilvægt til þess að stjórnvöld geti áttað sig á þörf fyrir almenna menntun, starfsmenntun og endurmenntun þegnanna. Því er spáð að á næstu öld þurfi nánast hver einasti einstaklingur að mennta sig fyrir allt að þrjú störf á ævinni sem augljóslega kallar á mun öflugra starfsmenntakerfi en við höfum nú. Framtíðin kallar á vel menntað vinnuafl og sérhæfingu. Þeir sem ráða yfir færni og nýrri tækni munu standa sig vel, en hætt er við að þeir sem ekki verða læsir á tæknina verði undir. Slíkt ber að varast í lengstu lög. Því er miklvægt að sú deild sem lagt er til að verði stofnuð fylgist vel með þörf fyrir menntun og verði stjórnvöldum til ráðuneytis um æskilegar aðgerðir. Að dómi flutningsmanns eiga rannsóknir á íslenskum vinnumarkaði best heima innan hinnar nýju Vinnumálastofnunar eftir setningu nýrra laga um vinnumarkaðsaðgerðir á síðasta ári. Hin nýja deild yrði til að efla stofnunina sem þar með mundi sinna mjög nauðsynlegri þjónustu við vinnuveitendur, samtök launafólks, stjórnvöld og allan almenning, að ekki sé talað um æsku landsins sem hugar að framtíðarmenntun og framtíðarstörfum.
    Í 1. gr. er lagt til að c- og e-liður 4. gr. laganna falli brott þar sem þau verkefni, sem gert er ráð fyrir í þeim liðum, færast til hinnar nýju deildar er annast kjara- og vinnumarkaðs rannsóknir, sbr. 2. gr.
    Í 2. gr. eru skilgreind þau verkefni sem deildinni er ætlað að annast og ná þau bæði til þróunar innan lands sem utan.