Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 823 – 19. mál.



Skýrsla



umhverfisráðherra um mengun frá fiskimjölsverksmiðjum, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



    Á þskj. 19 óska þingmenn Alþýðubandalagsins og óháðra, Hjörleifur Guttormsson, Guðrún Helgadóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir, Ragnar Arnalds, Sigríður Jóhannesdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Svavar Gestsson og Ögmundur Jónasson, eftir því að umhverfisráðherra flytji Alþingi skýrslu um mengun frá fiskimjölsverksmiðjum.
    Samkvæmt mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum, er veiting starfs leyfa til fiskimjölsverksmiðja og eftirlit með þeim á vegum Hollustuverndar ríkisins.
    Rekstur fiskimjölsverksmiðja á Íslandi hefur verið háður miklum sveiflum, meiri en í flest um öðrum greinum sjávarútvegs. Á sjöunda áratugnum átti sér stað mikil uppbygging í þessum iðnaði. Verksmiðjum fjölgaði og mikil aukning varð á afköstum.
    Á þeim tíma voru umhverfismál vart á dagskrá í sama skilningi og nú. Engin fiskimjöls verksmiðja var þá með búnaði til þess að draga úr eða eyða lykt. Að því er frárennsli varðaði var soð aðeins nýtt að hluta. Fyrstu soðeimingartækin voru sett upp í landinu í lok sjötta ára tugarins. Fyrir þann tíma var soð ekki nýtt heldur var því veitt til sjávar. Eftir þetta hófst nýt ing á soði í verksmiðjunum, en langur tími leið þar til allar verksmiðjur tóku að nýta soðið að fullu. Hvatinn að nýtingu soðs í verksmiðjunum var upphaflega ekki vegna umhverfismála heldur fjárhagslegs eðlis, til að auka mjölnýtingu verksmiðjanna. Gera má ráð fyrir að úr soði fáist nú um 25% af mjöli verksmiðjanna við vinnslu á þokkalegri loðnu. Sé um lélegt hráefni að ræða getur þetta hlutfall orðið mun hærra.
    Eftir hrun síldarstofnanna voru flestar verksmiðjurnar verkefnalitlar og gætti þá mikillar varúðar og jafnvel ótta við teljandi fjárfestingar og framkvæmdir. Þessa varð vart allt fram á þennan áratug. Fjárhagsleg afkoma var einnig slakari en nú. Þetta hafði áhrif á viðhald, endur nýjun og þróun verksmiðjanna.
    Verksmiðjunum hefur fækkað síðustu árin. Árið 1985 voru þær 43, 36 árið 1993 og nú eru þær 27. Þrátt fyrir þetta hafa heildarafköst verksmiðjanna aukist en sú aukning hefur einkum átt sér stað síðustu fimm árin. Fyrir tíu árum var aðeins ein verksmiðja á Íslandi búin sæmi legum tækjakosti til lykteyðingar. Nú er mikill meiri hluti af afkastagetu verksmiðjanna með viðunandi mengunarvarnabúnaði. Þessi árangur hefur að mestu leyti náðst á síðustu fimm árum. Eins og fram kemur í 2. kafla skýrslunnar voru nær allar verksmiðjur á Íslandi búnar beinum eldþurrkurum, en til þess að unnt sé að brenna útblæstrinum verður að taka gufu- eða heitloftsþurrkara í notkun í þeirra stað. Um er að ræða umfangsmiklar og dýrar framkvæmdir og tekur óhjákvæmilega nokkurn tíma að bæta úr þessu. Úr gufu- og heitloftsþurrkurum fæst hins vegar betra og verðmætara mjöl ef um framleiðslu úr góðu hráefni er að ræða. Þarna er því ekki einungis um kostnað við mengunarvarnir að ræða heldur verða verksmiðjurnar einnig færar um að framleiða verðmætari afurðir. Í þessu sambandi skal tekið skýrt fram að tækni til algjörrar lykteyðingar á útblæstri frá fiskimjölsverksmiðjum er ekki fyrir hendi, a.m.k. ekki með viðráðanlegum kostnaði. Fullkomnasti lykteyðingarbúnaður sem nú er völ á breytir ástandinu hins vegar mjög til batnaðar. Við vinnslu á lélegu hráefni gætir ólyktar þrátt fyrir fullkomnasta mengunarvarnabúnað. Eins og getið er um í 2. kafla stafar lykt frá verksmiðjunum af lyktarefnum sem myndast í fiskinum við geymslu. Af þessu leiðir að lykt frá útblæstrinum verður því meiri og verri sem hráefnið er geymt lengur. Ferskleiki hráefnisins er þannig grundvallaratriði í þessu sambandi.
    Stærsta og erfiðasta vandamálið við mengun frá fiskimjölsverksmiðjum stafar af því lélega hráefni sem unnið er á sumarvertíð. Þetta á ekki einungis við um lykt heldur einnig um vökva myndun í hráefni. Aukin vökvamyndun veldur því að mikið álag verður á vökvahluta vinnslu kerfisins. Við slíkar aðstæður dregur mjög úr afköstum verksmiðjanna og aukin hætta er á að vökvi fari til spillis.
    Til þess að bæta úr þessu verður ekki hjá því komist að grípa til aðgerða til þess að bæta gæði hráefnisins, þ.e. ferskleika þess. Ekki er nægilegt að grípa eingöngu til aðgerða í verk smiðjunum heldur verður einnig að bæta meðferð bræðslufisksins um borð í veiðiskipunum. Helst kemur til greina að kæla hráefnið þegar í skipunum. Nokkur nótaveiðiskip eru búin kæli tönkum, en nokkrir erfiðleikar virðast vera á notkun þeirra á sumarloðnu. Helst kemur til greina að ísa hráefnið um borð í skipunum. Ljóst er þó að ýmis vandamál geta komið upp við ísun afla um borð í nótaveiðiskipum.
    Í þessu sambandi mætti einnig vekja athygli á því að forráðamenn verksmiðja kvarta mjög undan miklu saltinnihaldi í mjöli á sumarvertíð. Ástæða þessa getur aðeins verið ein, þ.e. að sjór sé ekki skilinn nægilega vel frá loðnunni áður en hún fer í lestar skipanna. Mikill sjór í loðnu getur dregið úr geymsluþolinu og þannig ferskleika hráefnisins, sem aftur veldur aukinni lyktarmengun við vinnslu. Auk þessa veldur sjórinn auknu álagi á vökvakerfi verksmiðjanna og setur vinnslujafnvægið úr skorðum. Gera verður ráðstafanir til þess að bæta úr þessu en það verður aðeins gert með því að bæta síun á sjó frá loðnunni um borð í skipunum.
    Ef mikið aflast takmarkast aflamagnið í raun ekki af afkastagetu veiðiskipanna heldur verk smiðjanna. Afköst verksmiðjanna eru hins vegar mjög háð ferskleika hráefnisins sem unnið er úr. Sé mikið gengið á geymsluþolið dregur verulega úr afköstunum.
    Við framleiðsu á bræðsluafurðum gildir það sama og um flestar greinar fiskvinnslu, þ.e. að gæði afurða geta ekki orðið meiri en sem nemur gæðum hráefnisins sem unnið er úr. Bætt hráefnismeðferð bæði á sjó og í landi, einkum á sumarloðnu, mundi þannig ekki aðeins draga úr mengun heldur einnig stuðla að auknum gæðum hráefnisins, betri afköstum verksmiðjanna og meiri verðmætasköpun. Einnig þarf að kanna hvort unnt sé að skipuleggja sumarveiðar og samræma veiðar og vinnslu betur.
    Margar fiskimjölsverksmiðjur eru illa staðsettar með tilliti til íbúðabyggðar. Þetta má að hluta rekja til þess að flestar verksmiðjanna hófu starfsemi fyrir mörgum áratugum, en þá voru umhverfismál vart á dagskrá. Einnig hefur sums staðar verið byggt í nágrenni verksmiðjanna eftir að þær hófu starfsemi. Hafa verður og í huga að verksmiðjur sem taka við bræðslufiski verða að vera við höfn og helst við hafnarbakka.
    Oft er spurt um rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjanna. Verksmiðjurnar nota mikla orku en yfirleitt í takmarkaðan tíma á ári og þá eru flestar eða jafnvel allar verksmiðjurnar starfandi samtímis. Núverandi dreifikerfi raforku annar flutningi slíkrar orku aðeins að hluta. Eins og fram kemur annars staðar í skýrslunni, byggist lykteyðingarbúnaður verksmiðjanna á brennslu útblástursins. Ekki er um að ræða að olíu sé brennt eingöngu til lykteyðingar, þá mundi olíukostnaður verksmiðjanna stóraukast. Útblásturinn er brenndur í eldhólfum katla og þurrkara. Olíunotkun eykst nánast ekkert við slíka lykteyðingu. Við algjöra rafvæðingu verk smiðjanna er ekki unnt að eyða eða draga úr lykt með brennslu. Þá verður að grípa til efna hreinsiturna, en eins og fram kemur í 2. kafla getur notkun þeirra verið nokkrum annmörkum háð. Gert er ráð fyrir að um 6% af útblæstri koldíoxíðs á Íslandi komi frá fiski mjölsverksmiðjum. Ef að því kemur að umhverfisvæn brennsluefni, t.d. vetni, verða tekin í notkun yrði þessi vandi úr sögunni.
    Í skýrslubeiðninni er í tíu töluliðum óskað eftir nánari upplýsingum. Umfjöllun um þá fer hér á eftir. Fjallað verður um 1. og 10. lið saman þar sem að hluta er um sama efni að ræða.

1.     Starfandi fiskimjölsverksmiðjur, starfsleyfi þeirra og ástand umhverfismála.
    Afköst verksmiðja eru miðuð við vinnslu af hráefni á sólarhring. Afköst verksmiðju geta verið mjög breytileg eftir því hvernig hráefni er unnið en miðað er hér við meðalafköst. Með B-leyfi er átt við bráðabirgðaleyfi.
    Hér verður greint frá hvernig staða mála í verksmiðjunum er samkvæmt ákvæðum starfs leyfa. Reynslan er þó sú að oft verður ekki hjá því komist að breyta ákvæðum leyfanna og veita lengri fresti. Margar ástæður geta valdið því að óhjákvæmilegt sé að breyta frestum. Síðustu árin hafa staðið yfir miklar framkvæmdir og breytingar á verksmiðjunum. Verði framhald á því verður þess ekki langt að bíða að fiskimjölsverksmiðjurnar verði búnar full komnasta mengunarvarnabúnaði sem völ er á.

Verksmiðja          Starfsleyfi     Gildistími

Vinnslustöðin hf., Vestmannaeyjum     1997 B-leyfi    Þrír mánuðir
Afköst: 1.000 tonn.
Í verksmiðjunni eru gufuþurrkarar og lykteyðingarbúnaður.
Eimarar og fitugildrur eru í notkun.
Verksmiðjunni var veitt leyfi til fjögurra ára sem nýlega féll úr gildi. Frestur til kynningar á nýju leyfi er ekki útrunninn og var því gefið út B-leyfi sem gildir þar til vinnslu nýs starfs leyfis er lokið. Hollustuvernd ríkisins gerir ekki athugasemdir við búnað verksmiðjunnar.

Ísfélag Vestmannaeyja hf., Vestmannaeyjum     1997     Fjögur ár
Afköst: 650 tonn.
Beinir eldþurrkarar, ekki lykteyðingarbúnaður.
Eimarar eru fyrir hendi, en ekki fitugildrur.
Framkvæmdir við verksmiðjuna standa yfir. Settir verða upp heitloftsþurrkarar og útblástur brenndur. Þá verður fitugildra með loftfleytingu tekin í notkun.
Afköst verksmiðjunnar verða jafnframt aukin í 1.200 tonn.
Samkvæmt starfsleyfi á framkvæmdum þessum að ljúka eigi síðar en 15. október nk.
Undanfarin ár hefur verksmiðjan ekki haft heimild til framleiðslu frá 15. apríl til 15. október og verður svo þar til ákvæðum um mengunarvarnir í starfsleyfi hefur verið fullnægt.

Hafnarmjöl hf., Þorlákshöfn     1996    Fjögur ár
Afköst: 600 tonn.
Í verksmiðjunni eru gufuþurrkarar og lykteyðingarbúnaður.
Eimarar og fitugildra eru viðunandi.
Verksmiðja þessi hóf rekstur um áramót 1996–97. Verulegra byrjunarerfiðleika gætti en svo virðist sem tekist hafi að leysa þau vandamál.

Fiskimjöl og Lýsi hf., Grindavík     1998     Til 31. desember 1998
Afköst: 900 tonn.
Í verksmiðjunni eru gufu- og heitloftsþurrkarar. Útblástur er brenndur. Verulegir hnökrar hafa verið á lykteyðingarbúnaðinum og var vinnsla stöðvuð tímabundið sl. sumar af þeim or sökum. Nú er unnið að breytingum á lykteyðingarbúnaðinum og er hluta þeirra þegar lokið. Breytingum á að ljúka að fullu fyrir 30. apríl 1998.
Eimarar hafa nýlega verið endurnýjaðir. Fitugildra er fyrir hendi.
Snæfell hf., Sandgerði     1998    Fjögur ár
Afköst: 300 tonn.
Verksmiðja þessi hefur notað beina eldþurrkara og ekki haft lykteyðingarbúnað. Framkvæmdir standa yfir við verksmiðjuna og eru á lokastigi.
Verið er að setja upp gufuþurrkara í stað eldþurrkara og verður útblástur brenndur.
Eimarar verða endurnýjaðir og fitugildru komið upp.
Gert er ráð fyrir að afköst verksmiðjunnar verði aukin í 600 tonn síðar á árinu 1998.

SR-Mjöl hf., Reykjanesbæ     1997    Fjögur ár

Afköst: 1.000 tonn.
Heitloftsþurrkarar með brennslu á útblæstri.
Viðunandi eimarar. Fitugildrur.

Faxamjöl, Reykjavík     1997    Fjögur ár
Afköst: 520 tonn.
Heitloftsþurrkarar, brennsla.
Eimarar, fitugildrur.
Í starfsleyfinu eru ákvæði um endurskoðun innan tveggja ára.

Haraldur Böðvarsson, Akranesi     1997     Fjögur ár
Afköst: 1.000 tonn.
Verksmiðja þessi var endurnýjuð að verulegu leyti og afköst aukin úr 500 í 1.000 tonn
Framkvæmdum lauk að mestu í janúar 1997.
Góður mengunarvarnabúnaður er fyrir hendi, en talsverðir byrjunarerfiðleikar komu fram.
Hluti af tækjakosti verksmiðjunnar var af nýrri gerð.
Miklar breytingar og endurbætur hafa verið gerðar á mengunarvarnabúnaði og tækjakosti verksmiðjunnar eftir að hún hóf vinnslu með nýjum búnaði. Þessar breytingar eru til mikilla bóta og er þess vænst að viðunandi lausn hafi fengist.

Fiskur og mjöl hf., Patreksfirði1     1997 B-leyfi     Þrír mánuðir
Afköst: 100–200 tonn.

Rauðfeldur, Bíldudal1     1997 B-leyfi     Þrír mánuðir
Afköst: 30 tonn.

Rauðsíða, Þingeyri1     1997 B-leyfi     Þrír mánuðir
Afköst: 80 tonn.

Mjölvinnslan hf., Hnífsdal 1     1994     Fjögur ár
Afköst: 120 tonn.
Verksmiðja þessi hefur ekki tækjakost til vinnslu á feitfiski. Vinnsla er einungis fólgin í þurrkun, mölun og sekkjun á úrgangi frá fiskvinnslu.

Gná, Bolungarvík     1997     Fjögur ár
Afköst: 850 tonn.
Afköst verksmiðju þessarar hafa verið aukin úr 400 tonnum og mikið af tækjakosti endurnýj aður. Gufuþurrkari með undirþrýstingi hefur verið tekinn í notkun. Þurrkaragerð þessi er ný af nálinni og er þessi sá fyrsti sem tekinn er í notkun á Íslandi.
Ástand verksmiðjunnar hefur breyst mjög til batnaðar.
Lykteyðingarbúnaður er í lagi.
Eimarakostur er góður. Fitugildrur verða settar upp fyrir næstu sumarvertíð.

Mjölverksmiðjan hf., Hvammstanga     1980     Ótímasett
Afköst: 30 tonn.
Verksmiðja þessi vinnur eingöngu rækju.
Kæling og þvottur á útblæstri.

SR-Mjöl hf., Siglufirði     1997     Fjögur ár
Afköst: 1.400 tonn.
Beinir eldþurrkarar. Lykteyðing er með kæli- og þvottaturni.
Eimarakostur er góður. Fitugildrur eru innbyggðar í vökvakerfið. Verið er að setja upp nýjar gildrur með loftfleytingu.
Skipt verður um þurrkara og settir upp þurrkarar sem unnt er að brenna útblæstri frá.
Frestur til þess í starfsleyfi er til 1. júlí 1998.

Krossanes hf., Ólafsfirði     1997     Fjögur ár
Afköst: 150 tonn.
Gufuþurrkarar og brennsla á útblæstri.
Eimaraafköst viðunandi. Verið er að setja upp fitugildrur.

Krossanes hf., Akureyri     1998     Til ársloka 1998
Nýtt starfsleyfi gildir til ársloka 1998. Gildistími er hafður stuttur vegna vandamála er gætt hefur í verksmiðjunni.
Afköst: 500 tonn.
Verksmiðjan er búin gufuþurrkara og heitloftsþurrkara. Brennsla á útblæstri hefur ekki verið fullnægjandi. Nýlega hefur verið gengið frá búnaði til þess að bæta brennslu á útblæstri.
Eimarakostur er góður. Verið er að endurnýja fitugildrur og taka gildrur með loftfleytingu í notkun.
Staðsetning verksmiðjunnar nyrst í bænum er afar óhentug. Norðanátt (hafgola) er algeng á sumrin. Fjölmenn íbúðarbyggð er skammt frá verksmiðjunni. Vinnsluhráefnið er lélegast og útblástur lyktarefna mestur á sumrin en þá er vindátt yfirleitt óhagstæðust.

SR-Mjöl hf., Raufarhöfn     1997     Fjögur ár
Afköst: 850 tonn.
Beinir eldþurrkarar eru í verksmiðjunni. Lykteyðingarbúnaður fyrir útblástur er ekki fyrir hendi.
Eimarakostur er góður.
Fitugildrur eru fyrir frárennsli.
Koma á upp lykteyðingarbúnaði eigi síðar en 1. júlí 2000.

Hraðfrystihús Þórshafnar hf., Þórshöfn     1986     Ótímasett
Afköst: 650 tonn.
Gufuþurrkarar, brennsla.
Eimaraafköst góð. Fitugildrur.
Sátt hefur verið um nýtt starfsleyfi.

Lón hf., Vopnafirði     1990     Ótímasett
Afköst: 550 tonn.
Gufuþurrkarar, brennsla.
Eimaraafköst góð, fitugildrur.
Staðsetning verksmiðjunnar er óhentug.
Sátt hefur verið um nýtt starfsleyfi.

SR-Mjöl hf., Seyðisfirði     1993     Ótímasett
Afköst: 1.100 tonn.
Heitloftsþurrkarar, brennsla á útblæstri.
Eimaraafköst góð. Endurnýja þarf fitugildrur.

Síldarvinnslan hf., Neskaupstað     1996     Fjögur ár
Afköst: 1.100 tonn.
Heitloftsþurrkarar, brennsla á útblæstri.
Eimaraafköst góð, fitugildrur.

Hraðfrystihús Eskifjarðar hf.     1995     Fjögur ár
Afköst: 1.100 tonn.
Heitloftsþurrkarar, brennsla á útblæstri.
Eimaraafköft viðunandi, fitugildra.

SR-Mjöl hf., Reyðarfirði     1997     Fjögur ár
Afköst: 600 tonn.
Beinir eldþurrkarar eru í verksmiðjunni. Lykteyðingarbúnaður fyrir útblástur er ekki fyrir hendi.
Eimaraafköst viðunandi. Verið er að setja upp fitugildrur með loftfleytingu.
Koma á upp nýjum þurrkurum og lykteyðingarbúnaði eigi síðar en 1. júlí 1999.

Loðnuvinnslan hf., Fáskrúðsfirði     1996     Fjögur ár
Afköst: 1.000 tonn.
Gufuþurrkarar, brennsla á útblæstri.
Eimaraafköst viðunandi, fitugildra.

Búlandstindur hf., Djúpavogi     1997     Fjögur ár
Afköst: 600 tonn.
Verksmiðja þessi var reist á sjötta áratugnum. Eftir að bræðslu á síld lauk að mestu var við haldi verksmiðjunnar ábótavant. Beinir eldþurrkarar voru í verksmiðjunni og lykteyðingar búnaður ekki fyrir hendi. Fitugildru var þó komið upp.
Miklar framkvæmdir og endurbætur hafa farið fram á verksmiðjunni og átti þeim að ljúka fyrir lok janúar 1998. Gufuþurrkarar eru nú notaðir í stað eldþurrkara og lykteyðingarbúnað ur með brennslu settur upp.

Ósland hf., Hornafirði     1997     Fjögur ár
Afköst: 550 tonn.
Beinir eldþurrkarar eru í verksmiðjunni. Lykteyðingarbúnaður fyrir útblástur er ekki fyrir hendi.
Eimarar eru í verksmiðjunni og fitugildra.
Samkvæmt ákvæðum starfsleyfis á að skipta um þurrkara og brenna útblæstri eigi síðar en 1. júlí nk.
Í starfsleyfi, sem gefið var út 1995, var gert ráð fyrir að lykteyðingarbúnaði yrði komið upp sumarið 1997. Af þessu varð ekki. Gefið var út nýtt starfsleyfi 1997. Að höfðu samráði við viðkomandi heilbrigðisnefnd var frestur framlengdur til 1. júlí 1998.

2.     Kröfur um mengunarvarnir í starfsleyfum.
    Mengunarvarnir sem kveðið er á um í starfsleyfum eru einkum fólgnar í því að koma upp sérstökum búnaði og tækjakosti til þess að draga sem mest úr loftmengun, mengun af frá rennsli og annarri mengun sem getur verið mismunandi eftir verksmiðjum, t.d eftir staðsetn ingu.

Loftmengun.
    Kvartanir yfir starfsemi fiskimjölsverksmiðja eru einkum um loftmengun, þ.e. ólykt sem berst með útblæstri þeirra. Lykt þessi stafar einkum af lyktarefnum sem myndast í fiski við geymslu. Um er að ræða mikinn fjölda efna, sem skipta má í nokkra efnaflokka. Fólk skynjar lykt ekki í réttum hlutföllum við magn lyktarefna heldur samkvæmt veldishlutföllum. Þetta þýðir að þótt níu tíundu hlutum af lyktarefnunum sé eytt skynjar fólk aðeins helmingsminnk un. Skynmörk fyrir lyktarefnum í útblæstri frá fiskimjölsverksmiðjum eru mjög lág og í mörgum tilfellum í milljörðustu hlutum af lyktarefni í einum hluta af lofti. Af framangreind um ástæðum er óframkvæmanlegt að eyða allri lykt í útblæstri með þeirri tækni sem nú er völ á. Lyktarefni í útblæstrinum eru almennt ekki talin skaðleg heilbrigðu fólki en þau eru hvimleið, m.a. vegna þess að þau setjast í föt og annan vefnað.

Varnir gegn loftmengun.
    Sé um vel ferskt efni að ræða næst árangur með því að þvo og kæla útblásturinn í kæli- og þvottaturni. Uppleysanleiki lofttegunda í vatni eykst með lækkandi hitastigi og er því mikilvægt að kæla útblásturinn sem mest. Sé lengra gengið á geymsluþolið myndast önnur lyktarefni sem ekki leysast upp í vatni. Þá þarf að grípa til annarra aðgerða. Þar er einkum um brennslu á útblæstrinum við 700–800°C að ræða. Fram á þennan áratug voru flestar íslenskar fiskimjölsverksmiðjur búnar beinum eldþurrkurum. Ekki er unnt að brenna út blæstri frá þeirri gerð þurrkara. Til þess að unnt sé að brenna útblæstrinum þarf að skipta um þurrkara og setja upp gufu- eða heitloftsþurrkara. Slík framkvæmd er viðamikil og dýr.
    Notkun efnahreinsiturna gæti komið til greina. Efnahreinsiturnar hafa ekki náð sömu út breiðslu og brennsla en þeir valda frárennslismengun. Þess ber þó að geta að nokkur þróun er í hönnun efnahreinsiturna.

Frárennslismengun.
    Nokkrar kvartanir berast um vökvarennsli frá verksmiðjum, en þó í mun minna mæli en vegna lyktar. Leitast er við að búa verksmiðjurnar þannig að um sem minnst frárennsli sé að ræða. Frárennsli er einkum eftirfarandi:
     a.      Soð, hugsanlega soðkjarni, blóðvatn og vökvi eða yfirfall frá löndunarkerfi.
     b.      Kæli- og þéttivatn frá vinnslunni.
     c.      Vökvi er til fellur við hreinsun og þrif.

Varnir gegn frárennslismengun.
     a.      Soð o.fl. Meginlausnin er í því fólgin að búa verksmiðjurnar afkastamiklum eimurum til þess að nýta vökvann og koma þannig í veg fyrir frárennsli. Einnig þarf vökvastreymi að vera samhæft og hæfilegir jöfnunartankar að vera fyrir hendi.
     b.      Kæli- og þéttivatn. Þarna er um mjög mikinn vökva að ræða en innihald af mengandi efnum er lítið. Um varnir eða hreinsun á þessu rennsli er vart að ræða. Vart berast kvartanir vegna þessa rennslis.
     c.      Vökvi frá hreinsun og þrifum. Unnt er að nýta hluta af þessu rennsli og er gert ráð fyrir því að hann sé tekinn inn í vinnslukerfið. Annan hluta er ekki unnt að nýta en leitast er við að hafa hann sem minnstan.
    Í starfsleyfum er einnig gert ráð fyrir fitugildrum til þess að draga úr áhrifum meiri háttar óhappa.

3.     Kröfur um loftræstingu frá lyktaruppsprettum í verksmiðjum, sbr. orðalag í nýlegum starfsleyfum.
    Texti í nýlegum starfsleyfum er oftast eftirfarandi: „Loftræsta skal frá verulegum lyktar uppsprettum í verksmiðjum, svo sem sjóðurum, pressum, tönkum og skilvindum, og ræstiloft ið flutt til lykteyðingar. Loftræsting skal hönnuð á þann hátt að sem minnst af ómenguðu lofti sé dregið með.“ Meginlyktaruppsprettan í verksmiðjum er útblástur frá þurrkurum. Um lykt eyðingarbúnað fyrir þurrkarana er fjallað í öðrum greinum starfsleyfa en þeirrar sem hér er vitnað til. Í tilvitnuðum texta er um að ræða lykteyðingu frá öðrum þáttum en þurrkurum. Þótt mestur hluti lyktarinnar berist frá þurrkaraútblæstri skipta þessir þættir einnig máli. Nokkrar helstu lyktaruppsprettur sem um getur verið að ræða eru taldar upp í greininni. Orðalag er þannig að ekki er um tæmandi upptalningu að ræða enda er slíkt vart fram kvæmanlegt. Sífellt er verið að breyta verksmiðjunum, þá er hráefnið síbreytilegt, en það hefur áhrif á þessi atriði. Ekki er unnt að festa umrædd atriði algjörlega í texta, heldur verður að vera unnt að meta tilvik er fram kunna að koma. Því er rangt að leggja þann skilning í um rætt orðalag að það beri vott um slakar kröfur.

4.     Eftirlit af hálfu heilbrigðisyfirvalda með að starfsleyfi séu haldin.
    Í 3. kafla mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, með síðari breytingum, er kveðið á um eftirlit með starfsleyfisskyldri starfsemi. Reglubundið eftirlit skal framkvæmda að lágmarki einu sinni á ári. Reglubundnar mengunarmælingar skal framkvæma fimmta eða tíunda hvert ár eftir stærð og staðsetningu verksmiðja. Verksmiðjur eru heimsóttar, tækjakostur og vinnsluhættir kannaðir, farið yfir feril, rætt við starfsmenn og íbúa. Mælingar eru gerðar en síbreytilegt hráefnið sem verksmiðjurnar fá til vinnslu veldur því að oft er erfitt að meta niðurstöður. Ýmsa mikilvægustu þættina er varla eða ekki unnt að mæla. Mætti þar sem dæmi nefna lykt frá útblæstri. Fræðilega má segja að mæling sé þar framkvæmanleg en mælingar yrðu svo umfangsmiklar, tímafrekar og dýrar að þeim verður ekki beitt í eftirliti. Við mat á lykt verður að beita skynmati. Mikilvægur hluti af eftirlitinu er fólginn í því að kanna hvort tilskilinn búnaður sé fyrir hendi og hvort hann starfi eins og til er ætlast.

5.     Mannfæð og fjárskortur há æskilegu eftirliti með verksmiðjunum.
    Mannfæð og fjárskortur há mengunarvörnum Hollustuverndar ríkisins, ekki síst í sam bandi við eftirlit með verksmiðjum, þar sem starfsfólkið er bundið við vinnu við gerð ýmiss konar starfsleyfa, sem eðli máls verða að sæta forgangi. Allar verksmiðjur hafa þó fengið lágmarkseftirlit á undanförnum árum, eins og það er skilgreint í 3. kafla mengunarvarna reglugerðar nr. 48/1994, ásamt síðari breytingum.

6.     Innra eftirlit af hálfu rekstraraðila.
    Verksmiðjur eiga að hafa innra eftirlit og skrá helstu atriði, svo sem móttekið hráefni, hvenær og hvernig vinnsla fer fram, óhöpp er kunna að verða og athugasemdir ef mengunar varnabúnaður starfar ekki sem skyldi. Framkvæmd þessa er nokkuð misjöfn en almennt má segja að innra eftirliti sé ábótavant.

7.     Notkun og meðferð eiturefna.
    Í starfsleyfum er gerð grein fyrir að um notkun og meðferð slíkra efna fari samkvæmt reglugerð nr. 236/1990, um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni.
    Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. reglugerðarinnar er eftirlit með slíkum efnum á vinnustöðum á vegum Vinnueftirlits ríkisins. Ekki hefur annað komið fram en að ákvæði reglugerðarinnar séu haldin.

8.     Vald eftirlitsaðila til að grípa inn í og knýja fram úrbætur. Svæðisbundið eftirlit.
    Í 23. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, eru ákvæði um þetta efni, sbr. 7. mgr. 25. gr. Unnt er m.a. að veita áminningu, veita frest til úrbóta, stöðva viðkomandi starfsemi og beita dagsektum. Þar sem eftirlit með verksmiðjum er á vegum svæðisbundins eftirlitsaðila, þ.e. heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna, er vinnsla og veiting starfsleyfa og breyting á starfsleyfum áfram á vegum Hollustuverndar ríkisins. Sama gildir um beitingu þvingunarúrræða. Eftirlit hefur einungis verið falið svæðisbundnu eftirliti á tveimur svæðum, í Reykjavík og á Austurlandi. Hollustuvernd ríkisins hefur yfir umsjón og fær sendar niðurstöður með reglulegu millibili. Segja má að þetta fyrirkomulag, að því er varðar fiskimjölsverksmiðjur, sé enn á tilraunastigi. Hingað til hefur það gefið góða raun.

9.     Dagsektir vegna mengunar í fiskimjölsverksmiðjum sl. fimm ár.
    Að því er beitingu þvingunarúrræða samkvæmt heimildum 23. gr. laga nr. 81/1988 sl. fimm ár varðar hefur verksmiðjum oft verið veitt áminning og tilhlýðilegur frestur til úrbóta. Stöðvun á starfsemi hefur verið hótað og ber það eitt oft árangur. Starfsemi hefur verið stöðvuð í fjórum verksmiðjum. Tvær þeirra hafa ekki hafið rekstur á ný og ein hefur ekki heimild til vinnslu á tímabilinu frá 15. apríl til 15. október þar til mengunarvörnum hefur verið komið upp. Dagsektum hefur ekki verið beitt sl. fimm ár. Dagsektir eru form viðurlaga ætlað til þess að knýja á um úrbætur. Þær eru ekki refsing í skilningi refsilaga og verða ekki innheimtar eftir að úr hefur verið bætt.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Síðastöldu verksmiðjurnar fjórar hafa litlar mengunarvarnir. Fiskur og mjöl hf. hefur kæli- og þvottaturn fyrir útblástur. Verksmiðjur þessar vinna ekki bræðslufisk heldur eingöngu úrgang frá fiskvinnslu.
    Fiskvinnsla hefur verið lítil á Patreksfirði, Bíldudal og Þingeyri og því lítil og stundum engin vinnsla í verksmiðjunum þar. Starfsleyfi eru veitt rekstraraðila hverju sinni en á því hefur orðið breyting nýlega í þremur verksmiðjanna. Starfsleyfi þarf því að auglýsa og kynna en það tekur talsverðan tíma. Verksmiðjurnar á Patreksfirði, Bíldudal og Þingeyri eru því á bráðabirgðaleyfum til þriggja mánaða en þau getur Hollustuvernd ríkisins gefið út án kynningar að fengninni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar.     Gert er ráð fyrir að mál verksmiðjanna fjögurra verði afgreidd samtímis á þessu ári.
    Á þessum stöðum þurfa að vera verksmiðjur til þess að vinna úrgang frá fiskvinnslu.