Ferill 551. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 936 – 551. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um rekstur björgunarsveita í landinu.

Flm.: Ólafur Örn Haraldsson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að setja á fót nefnd með það að markmiði að létta rekstur björgunarsveita í landinu og bæta starfsaðstöðu þeirra. Nefndin skoði tekju möguleika sveitanna og rekstrarkostnað þeirra og þá sérstaklega gjöld og álögur sem þær greiða til opinberra aðila. Enn fremur leggi nefndin fram tillögur um hvernig tryggja megi framtíðarstöðu björgunarsveitanna.

Greinargerð.


    Björgunarsveitir gegna mikilvægu hlutverki á Íslandi. Aðstæður hér eru með þeim hætti að oft þarf að leita eftir aðstoð bæði björgunarsveita og opinberra aðila, svo sem Landhelgis gæslu, lögreglu, slökkviliðs og sjúkraliðs. Starf björgunarsveitanna er ómetanlegt. Mest af því er sjálfboðaliðastarf og það útheimtir mikil útgjöld. Björgunarsveitir búa við erfið rekstrarskilyrði og margt bendir til að slíkt muni draga úr starfsgetu þeirra miðað við auknar kröfur á sviði öryggismála. Enn fremur er hætta á minni aðsókn sjálfboðaliða.
    Mikilvægt er að rekstrar- og starfsgrundvöllur sveitanna sé skoðaður og að opinberir aðil ar tryggi framtíðarstöðu þeirra enda eiga opinberir aðilar mikið undir því að njóta starfs sveitanna og tryggja þannig öryggi þegnanna með viðráðanlegum kostnaði.
    Íslendingar meta líf og heilsu hvers einstaklings mikils. Enn fremur eru mikil verðmæti í húfi ef vá steðjar að. Náttúra landsins er óblíð og getur skapað hættur og veitt mönnum þungar búsifjar. Atvinnuhættir landsmanna kalla oft á að brugðist sé við hættuástandi og þá yfirleitt mjög skjótt. Búseta þeirra krefst einnig sérstakra ráðstafana í öryggismálum, bæði vegna strjálbýlis og hversu byggð er víða nærri hættum náttúrunnar.
    Björgunar- og hjálparstörf hér á landi hafa að mestum hluta mætt á björgunarsveitunum. Að baki sveitunum stendur fólk sem hefur ánægju af því að aðstoða aðra og verða að liði í samfélaginu. Þetta fólk leggur fram gríðarmikið sjálfboðaliðastarf og dýran búnað sem það þarf sjálft að kaupa. Það vinnur einnig að fjáröflun til sveitanna en þær þurfa verulegt fé til rekstrar og tækjakaupa og húsnæðiskaupa. Allir landsmenn þekkja að björgunarsveitir koma til hjálpar við smæstu og stærstu tilvik. Varla verður mikið að vetrarfærð áður en fólk þarf á aðstoð björgunarsveita að halda; varla þarf mikið að hvessa án þess að björgunarsveitir séu kallaðar út til þess að bjarga verðmætum, að ekki sé minnst á hin alvarlegri mál þegar leita þarf að fólki eða bjarga því úr sjávarháska. Þá er öllum í fersku minni ómetanlegt starf björgunarsveitarfólks við hin hörmulegu og mannskæðu snjóflóðaslys.
    Enda þótt Íslendingar séu svo lánsamir að búa að einstæðri hefð um framlag björgunar sveitanna má það ekki gleymast að störf í þágu öryggis borgaranna og björgunarstörf eru skyldur samfélagsins. Víðast hvar erlendis bera opinberir aðilar kostnað af slíku að mestu með atvinnubjörgunarmönnum og herliði. Jafnframt því sem björgunarsveitarfólk hér á landi leggur fram liðsinni sitt af fúsum og frjálsum vilja án þess að ætlast til endurgjalds verður samfélagið að sjá til þess að rekstrar- og starfsaðstaða sveitanna sé góð. Hér er ekki aðeins um sanngirnissjónarmið að ræða heldur þarf beinlínis að koma í veg fyrir að sveitirnar skreppi saman eða gefist upp annaðhvort vegna fjárskorts eða manneklu. Sums staðar á landsbyggðinni hafa björgunarsveitirnar ekki haft rekstrargundvöll og væru ekki starfandi ef ekki kæmi til stuðningur frá heildarsamtökum viðkomandi björgunarsveita. Víða í þjóðfélaginu hefur orðið vart minni vilja til þess að inna af hendi sjálfboðaliðastarf og bar áttan um frítíma fólks eykst. Baráttan í fjáröflun hefur farið harðnandi og óhemjumikill tími björgunarsveitarfólks fer í fjársöfnun en gæti ella farið til annarra starfa í þágu sveitanna. Þá er einnig til þess að líta að enginn er krafinn um gjald þegar björgunarsveit kemur til hjálpar og opinberir aðilar eru oft þeir sem þurfa mest á starfi sveitanna að halda.
    Björgunarsveitirnar greiða flest opinber gjöld og álögur á við annan rekstur. Meðal þess ara gjalda er virðisaukaskattur og aðflutningsgjöld af stórum hluta aðfanga þótt ýmsir þættir séu þar undanþegnir, þungaskattur af bifreiðum, gjöld vegna síma og fjarskipta, gatnagerðar gjöld, fasteignagjöld, tryggingar og fleira mætti telja.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitast við að finna leiðir til þess að styrkja björgun arsveitirnar eins og þær eru reknar en ekki er verið að leggja til að breyta þeim einstæða og verðmæta grundvelli sem þær byggjast á, sem er hugsjón og vilji til þess að verða náunga sínum og samfélaginu að liði. Það eru hagsmunir og skylda ríkisvaldsins að skapa slíkri starfsemi lífsskilyrði.