Ferill 564. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.





122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 956 – 564. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um húsnæðisbætur.

Flm.: Pétur H. Blöndal, Vilhjálmur Egilsson.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að útfæra nýja hugmynd um húsnæðisbætur sem komi í stað núverandi húsaleigu- og vaxtabóta. Félagsmálaráðherra skipi, að höfðu sam ráði við fjármálaráðherra, nefnd sem kanni málið og leggi fram mótaðar tillögur að nýju hús næðisbótakerfi í formi lagafrumvarps.
    Nefndin leggi störfum sínum til grundvallar eftirfarandi meginmarkmið:
a.      Hver fjölskylda eða einstaklingar sem búa í sömu íbúð fái húsnæðisbætur sem eru háðar fjölda þeirra sem búa í íbúðinni .
b.      Húsnæðisbæturnar skerðist í hlutfalli við samanlagðar tekjur og eignir allra þeirra sem í íbúðinni búa.
c.      Húsnæðisbæturnar séu skilyrtar því að þær renni til greiðslu leigu, fasteignagjalda eða afborgana af lánum af íbúðinni.
d.      Að húsnæðisbæturnar verði tekjuskattsfrjálsar
    Nefndin ljúki störfum fyrir 1. nóvember 1998 og félagsmálaráðherra leggi fram frumvarp til laga um húsnæðisbætur á grundvelli niðurstöðu nefndarinnar eigi síðar en 1. desember 1998.

Greinargerð.

    Markmiðið með tillögunni er að búið verði til húsnæðisbótakerfi, sem er einfalt, almennt, réttlátt og bætir stöðu stórra fjölskyldna. Það tryggi einungis þá sem eru aðstoðar þurfi og styðji séreignarstefnuna. Gengið verði út frá þeirri meginforsendu að þeir sem greiða skatta sem varið er til bóta skuli ekki vera verr settir en þeir sem bótanna njóta. Einungis 15–20% þjóðarinnar þurfa aðstoð og ekki er skynsamlegt að styrkja svo til alla til að afla sér hús næðis. Því verði felldur niður hluti þeirra skatttekna sem nú er aflað til vaxtabóta. Kerfið felist í bótum sem greiddar verði mánaðarlega og renni til greiðslu á húsaleigu eða greiðslu af lánum sem tekin hafa verið til að kaupa íbúðarhúsnæði. Bæturnar verði háðar stærð fjölskyldu sem býr í sömu íbúð og skerðist í hlutfalli við tekjur allra í fjölskyldunni.
    Til eru margar gerðir fjölskyldna. Hefðbundin fjölskylda er hjón og börn, eitt eða fleiri, þó að einstæðum foreldrum með eitt eða fleiri börn fjölgi. Markmiðið er að styrkja allar fjölskyldur jafnt, hvernig sem fjölskyldugerðin er; hjón, einstæðir foreldrar, einhleypingar, systkini sem halda saman heimili, barnafjölskyldur eða barnlausar o.s.frv.
    Tillagan er lögð fram í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á skattalögum. Sú breyting á skattalögum er afdrifarík og ætlað að ná yfir sjö ár til þess að launakerfi lands manna geti aðlagast henni. Breyting á vaxtabótum, sem var grundvöllur greiðslumats fólks, yfir í húsnæðisbætur er ekki síður afdrifarík og gert ráð fyrir að hún taki sömuleiðis sjö ár.

Núverandi kerfi.

    Núverandi kerfi styrkja er afar flókið og margbrotið. Því má skipta í fjóra meginhluta:
     Húsbréfakerfi.
     Vaxtabætur.
     Húsaleigubætur.
     Félagslega húsnæðiskerfið.
     Húsbréfakerfið. Allir fá lán eftir að hafa farið í greiðslumat og fá ríkisábyrgð á lán sín, 65–70% af kaupverði íbúðar í gegnum húsbréfakerfið. Húsbréfakerfinu er ætlað að styðja séreignarstefnuna en stuðningurinn er mjög óljós. Hann felst í ríkisábyrgð sem sennilega lækkar vaxtakröfuna um 2–3% og greiðslubyrðina af t.d. 5 millj. kr. láni um 7–10 þús. kr. á mánuði. Þrátt fyrir greiðslu 0,35% vaxtaálags er þannig um umtalsverðan styrk að ræða. Ekki er lagt til að þessari styrkveitingu verði hætt, enda er hún mikilvægur hlekkur í sér eignarstefnu í húsnæðismálum, en svipaðri aðstoð má hugsanlega ná fram með skipulegu húsbréfakerfi á vegum einkaaðila (banka og verðbréfafyrirtækja) án þátttöku ríkisins.
     Vaxtabætur. Vaxtabótakerfið er ekki háð stærð fjölskyldu heldur fjölskyldugerð, þ.e. hefðbundnum fjölskyldum sem eru hjónum, einstæðir foreldrar eða einstaklingar. Barnlaus hjón fá t.d. sömu vaxtabætur og hjón með fjögur börn.
    Vaxtabæturnar eru félagslega ranglátar. Þannig geta hjón með 600 þús. kr. laun á mánuði fengið nærri 20 þús. kr. í vaxtabætur á mánuði eða jafnháar vaxtabætur og hjón með miklu lægri laun. Þannig er brotin sú regla að þeir sem greiði bæturnar (skattgreiðendur almennt) séu ekki verr settir en þeir sem bæturnar þiggja.
    Vaxtabótakerfið hvetur mjög til skuldasöfnunar. Í grófum dráttum má segja að fólk greiði fyrstu vaxtakrónurnar sínar allt að 6% af tekjum. Þegar vextirnir fara umfram þau mörk greiðir ríkið hverja vaxtakrónu þar til hámarki vaxtabóta er náð. Sem dæmi má taka einstakling sem hefur 250 þús. kr. í tekjur á mánuði eða 3 millj. kr. á ári. Ef hann leggur í íbúðakaup og þar með skuldasöfnun og vaxtagreiðslur lítur dæmið þannig út: Af vaxtagreiðslum greiðir hann fyrstu 180 þús. kr. á ári sjálfur. Það gæti verið af u.þ.b. 3,5 millj. kr. láni. Næstu 140 þús. kr. vaxtagreiðslnanna greiðir ríkið á formi vaxtabóta. Það gætu verið 2,5 millj. kr. Af því fé greiðir hann hvorki vexti né verðbætur. Þar sem flest lán eru jafngreiðslulán (annúitetslán) til langs tíma eru greiðslur fyrstu árin nær eingöngu vextir en eftir það verður meginþungi greiðslunnar vextir og verðbætur. Þannig greiðir ríkið í reynd mestallt viðbótarlánið. Einstaklingurinn er þannig hvattur til að taka helst 6 millj. kr. að láni en ekki 3,5 millj. kr.! Fyrrgreindu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt fylgja á sérstöku skjali þrjár myndir sem sýna hvernig vaxtabætur eru greiddar sem fall af tekjum.
     Húsaleigubætur. Fyrir skemmstu voru teknar upp almennar húsaleigubætur. Það kerfi er mjög gallað. Það er reyndar félagslegt að því leyti að tekið er tillit til barna í upphæð bóta en bæturnar skerðast um 24% af öllum tekjum fjölskyldunnar umfram 120 þús. kr. á mánuði hvort sem um er að ræða einstakling eða hjón með fjögur börn. Vegna þessa fær sex manna fjölskylda engar húsaleigubætur ef tekjur allra í fjölskyldunni fara umfram 210 þús. kr. á mánuði. Þá eru bæturnar takmarkaðar við helming af húsaleigunni. Hvernig fólk með mjög lágar tekjur á að greiða hinn helming leigunnar er óljóst.
    Miklar kröfur eru gerðar til húsnæðis í húsaleigubótakerfinu þannig að fólk með mjög stopular tekjur mun ekki geta leigt góðar íbúðir og fær því ekki bætur, en þyrfti þó sennilega mest á þeim að halda.
    Húsaleigubæturnar eru auk þess skattskyldar og skerðast verulega hjá mörgum. Jafnframt skerða húsaleigubætur þessa árs húsaleigubætur næsta árs! Fyrrgreindar myndir sýna hvernig húsaleigubætur eru greiddar sem fall af tekjum.
    Félagslega húsnæðiskerfið. Verulega flókið kerfi félagslegra eignar- og leiguíbúða myndar félagslega húsnæðiskerfið. Bæturnar koma fram sem vaxtaniðurgreiðsla og þær eru því ósýnilegar þeim sem njóta. Vextir eru yfirleitt 1–2,4%.
    Miklar kvaðir eru á eignarhaldi á eignaríbúðum og fólk getur ekki valið sér íbúð. Þannig verður til hugtakið „bæjarblokkir“ sem er mjög niðurlægjandi fyrir íbúa þeirra. Vegna þess að fólk velur ekki íbúðina og hún er bundin alls konar kvöðum er hætt við að fólk fái ekki sömu tilfinninguna fyrir því að eiga hana og venjulega íbúð. Kaupskylda sveitarfélaganna grefur enn fremur undan þeirri tilfinningu að eiga íbúðina. Fólk talar um að „skila“ íbúðinni. Þannig talar fólk venjulega ekki um eigur sínar.
    Vaxtaniðurgreiðslan er mjög mikil. Þannig er greiðsla af 7,2 millj. kr. láni (90% af 8 millj. kr. íbúðaverði) til 43 ára með 2,4% vöxtum 270 þús. kr. á ári. Slíkt lán með 5% mark aðsvöxtum næmi 410 þús. kr. á ári. Niðurgreiðslan er 140 þús. kr. á ári í 43 ár. Þessi niður greiðsla er hvorki sýnileg né skattskyld. Vextirnir voru hækkaðir fyrir nokkrum árum úr 1% í 2,4%. Við það hækkaði árleg greiðsla af láninu um 86 þús. kr. á ári eða rúmar 7 þús. kr. á mánuði og niðurgreiðslan lækkaði jafnmikið. Ef fólk fer yfir tekjumörkin og vextirnir eru hækkaðir í 4,9% hækkar greiðslubyrðin um 11 þús. kr. á mánuði. Það eru sennilega hæstu jaðarskattar í öllu kerfinu!
    Lágir vextir á húsnæðislánum í félagslega húsnæðiskerfinu hafa valdið því að ekki er eins gætt að byggingarkostnaði. Hann virðist oft vera hærri en í almenna húsnæðiskerfinu. Það er þekkt fyrirbæri að niðurgreiðsla hækkar framleiðsluverð vöru.
    Lágir vextir valda auk þess offramleiðslu á þeim íbúðum sem þeir renna til og hefur það komið mörgum sveitarfélögum í koll. Sérstaklega hefur það valdið öðrum húseigendum í sveitarfélögunum miklum skaða því fasteignirnar verða óseljanlegar og hríðfalla í verði.
    Niðurgreiddir vextir á afmörkuðum hluta lánamarkaðarins auka heildareftirspurn eftir lánsfé og vextir utan niðurgreidda hlutans hækka. Þannig er vaxtaniðurgreiðslan að hluta til borin af öðrum húsbyggjendum sem ekki njóta hennar.
    Nú hefur verið lagt fram stjórnarfrumvarp sem gerir ráð fyrir að sértæka félagslega hús næðiskerfið verði lagt niður en í stað þess komi almenna vaxtabótarkerfið með húsbréfakerf inu auk viðbótarláns. Það gæti verið drjúgt skref í átt að þeim húsnæðisbótum sem hér eru lagðar til.


Lýsing á nýju kerfi.

    Tillaga þessi gerir ráð fyrir að húsnæðisbæturnar verði háðar stærð fjölskyldu, en hugtak ið „fjölskylda“ yrði skilgreint mjög rúmt eins og áður er getið. Meta þarf hvað eðlilegt er að bæturnar verði háar til þess fólks sem af ýmsum ástæðum hefur engar tekjur. Þá þarf að meta hversu mikið þessar bætur eiga að skerðast þegar heildartekjur fjölskyldunnar hækka. Mikil vægt er að allar tekjur verði teknar inn í þá mynd, jafnt tekjur barna sem bætur.
    Við mat á þessum bótum þarf að skoða aðrar bætur, svo sem barnabætur, bætur félags málastofnana sveitarfélaga, lífeyri frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum og lánveitingar Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
    Bæturnar gætu litið út sem hér segir:
Fjöldi í fjölskyldu
1 2 3 4 5 6 7
Húsnæðisbætur (þús. kr./mán.)
11 15 18 21 24 27 30
Efri tekjumörk (þús. kr./mán.)
110 150 180 210 240 270 300

    Húsnæðisbætur mundu skerðast um 10% af öllum tekjum fjöskyldunnar og yrðu skatt frjálsar.
    Þetta kerfi mun koma hópum fólks til góða sem hingað til hefur ekki átt beinan rétt til bóta, t.d. fólki sem annast aldraða foreldra eða systkinum sem búa saman.
    Þetta kerfi kæmi í staðinn fyrir vaxtabótakerfið, húsaleigubætur og félagslega húsnæðis kerfið.


Sjónarmið við val á bótakerfi.

    Þegar bótakerfi er valið er mikilvægt að huga að því hvaða hópa eigi að tryggja og við hvaða aðstæður, hvernig styrk er komið til skila og hvaða áhrif hann hefur á hegðun fólks. Enn fremur hvort styrkurinn sé réttlátur í þeim skilningi að sá sem greiðir styrkinn, þ.e. skattgreiðandinn, sé ekki verr settur en sá sem styrkinn hlýtur. Miklu varðar að skilgreina vel hvaða hópa á að styrkja og að styrkurinn sé augljós, að kerfið leiði ekki til hegðunar sem samrýmist ekki hagsmunum heildarinnar.
    Talið hefur verið mikilvægt að styðja ungt fólk til að eignast eigið húsnæði með hús næðisstyrkjum og enn fremur tekjulágt fólk sem ekki getur fengið nauðsynlegt húsnæði ella. Þá hefur það verið talið æskilegt hér á landi að fólk eigi almennt sitt eigið húsnæði. Þannig hefur verið byggt upp viðamikið og flókið kerfi margvíslegra bóta.
    Eins og getið er um hér að framan eru húsnæðisstyrkir af ýmsu tagi. Styrkirnir eru oft ekki gagnsæir. Þeir eru ýmist á formi ríkisábyrgðar eða vaxtaniðurgreiðslu en hvorugt sést. Þá eru þessar bætur skattfrjálsar. Þó eru húsaleigubætur beingreiðslur en þær hygla einstakling um á kostnað stórra fjölskyldna. Vaxtabæturnar felast í því að ríkið greiðir vissa vexti fyrir fólk og er það bæði félagslega ranglátt og hvetur til skulda. Þessi kerfi standast ekki þær kröfur sem gera þarf við val á bótakerfi.
    Það kerfi sem lagt er til að tekið verði upp er gagnsætt og félagslega réttlátt.


Samspil við önnur kerfi.

    Ef þetta kerfi húsnæðibóta verður tekið upp er nauðsynlegt að endurskoða öll önnur kerfi húsnæðisbóta og styrkja, t.d. hvort nauðsynlegt sé að einstæðir foreldra njóti sérstöðu í barnabótum og víðar. Húsnæðisbæturnar bæta jú sérstaklega þann kostnað sem felst í því að halda heimili. Enn fremur þarf að endurskoða bætur Atvinnuleysistryggingasjóðs og almannatrygginga, sem og lánareglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Þá þurfa sveitarfélög að skoða reglur sínar um félagslega hjálp og í kjölfarið þarf að endurskoða fjármálasam skipti ríkis og sveitarfélaga.