Ferill 472. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 960 – 472. mál.



Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um stefnumörkun vegna Kyoto-bókunarinnar.

     1.      Hvernig hljóðar það „sérstaka ákvæði“, kennt við Ísland, sem tekið var inn í skjal L.7 á ráðstefnunni í Kyoto 1.–10. desember 1997 og með hvaða hætti að formi til er fyrir hugað að það tengist samningnum um loftslagsbreytingar?
    Á 3. aðildarríkjaþingi rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem haldið var í Kyoto í Japan dagana 1.–11. desember 1997, var samþykkt sérstök bókun við samninginn, svokölluð Kyoto-bókun. Í d-lið 5. gr. lokasamþykktar þingsins er að finna um rætt ákvæði sem sumir hafa viljað kenna við Ísland. Ákvæðið hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Þing aðila …
    5.        Fer þess á leit við formann undirnefndar fyrir vísinda- og tækniráðgjöf og formann undirnefndar fyrir framkvæmd samningsins, að teknu tilliti til samþykktrar fjár hagsáætlunar fyrir árin 1998 og 1999 og viðeigandi áætlunar um starfsemi skrif stofunnar (FCCC/CP/1997/INF.1), að þeir leiðbeini skrifstofunni við nauðsynlegan undirbúning vegna 4. þings aðila í eftirfarandi málaflokkum og feli viðeigandi undirnefndum störf eins og við á: …
    (d)    Skoða og, eftir því sem við á, ákveða viðeigandi aðferðir til að taka á aðstæðum aðila sem skráðir eru í viðauka B í bókuninni þar sem einstök verkefni mundu hafa umtalsverð hlutfallsleg áhrif á losun á skuldbindingartímabilinu …“

    Þrátt fyrir að með Kyoto-bókuninni hafi verið stigið mikilvægt skref í þá átt að setja laga lega bindandi losunarheimildir fyrir iðnríkin eru enn ýmis atriði sem þarf að útfæra nánar þar sem ekki vannst tími til þess í Kyoto. Í því sambandi má m.a. nefna nánari reglur um við skipti með losunarheimildir, bindingu koltvíoxíðs í gróðri og vanefndir aðildarríkja. Í Kyoto varð nokkur umræða um sérstöðu ríkja þar sem einstök verkefni geta haft hlutfallslega mjög mikil áhrif á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í viðkomandi ríki. Ýmsar leiðir voru ræddar til að taka á þessum vanda en ekki vannst tími til að leysa málið. Á næsta aðildarríkjaþingi rammasamningsins, sem haldið verður í Buenos Aires í Argentínu í nóvember næstkomandi, verður m.a. rætt frekar um fyrrgreint ákvæði og hvernig það muni tengjast samningnum. Í lokasamþykkt þingsins í Kyoto er tekið fram að leitast skuli við að ná niðurstöðu eigi síðar en á þinginu í Buenos Aires. Í Kyoto var m.a. rætt um að setja sérstakt ákvæði þessa efnis í bókunina eða undantekningarákvæði í tengslum við efndir samningsaðila, sbr. 18. gr. bók unarinnar. Þá var einnig rætt hvort leysa mætti málið með sérstakri viðbótarsamþykkt.

     2.      Hvaða ríki studdu framlagningu þessa ákvæðis og frá hvaða ríkjum er einkum að vænta áframhaldandi stuðnings við að það verði hluti af eða tengist Kyoto-bókuninni?
    Umrætt ákvæði var að finna í tillögu formanns allsherjarnefndar þingsins, Raul Estrada frá Argentínu, að lokasamþykkt þess. Tillagan og þar með umrætt ákvæði var samþykkt sam hljóða. Ekki er á þessu stigi hægt að fjölyrða um frekari útfærslu þess eða hvaða stuðning slík útfærsla muni hljóta.

     3.      Hvaða röksemdir færa íslensk stjórnvöld einkum fram til stuðnings þessu ákvæði sem komi til viðbótar þeirri sérstöðu um losun gróðurhúsalofttegunda sem Ísland fékk viðurkennda í Kyoto?

    Ein áhrifaríkasta leiðin til að draga úr uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu er að nýta hreina og endurnýjanlega orku, sem lágmarkar t.d. losun gróðurhúsalofttegunda frá ýmsum iðnaðarferlum á heimsvísu. Í núverandi mynd kann Kyoto-bókunin að torvelda slíkt, en það er í andstöðu við meginmarkmið rammasamningsins um loftslagsbreytingar. Lítil ríki, sem ráða yfir endurnýjanlegri orku, geta vegna smæðar sinnar staðið frammi fyrir því að einstök verkefni hafi mjög afgerandi áhrif á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í viðkomandi ríki á meðan þau hefðu hlutfallslega lítil sem engin áhrif í stærri ríkum jafnvel þótt þar væri notað kolefnaeldsneyti til orkuframleiðslu. Stærri ríki geta því betur beitt al mennum stjórnunaraðgerðum til að taka á slíkum verkefnum þó að þau noti ekki endurnýjan lega orku til verkefnisins. Til fróðleiks má geta þess að losun frá 180.000 tonna álveri Norð uráls hf. á Grundartanga mun auka losun hér á landi um tæp 13% frá því sem var árið 1990.

     4.      Hvernig má gera ráð fyrir að unnið verði úr þessu „sérstaka ákvæði“ af aðilum samningsins um loftslagsbreytingar og í hvaða áföngum að því er varðar málsmeðferð og hugsanlega afgreiðslu?
    Málið verður undirbúið og unnið af skrifstofu rammasamningsins, væntanlega í góðri samvinnu við formann viðkomandi undirnefndar sem fær málið til umfjöllunar á undirbún ingsfundi í Bonn í júní næstkomandi. Íslensk stjórnvöld munu síðar í þessum mánuði senda skrifstofu samningsins hugmyndir sínar um hugsanlega útfærslu ákvæðisins. Þá hafa fulltrúar íslenskra stjórnvalda átt og munu á næstunni eiga tvíhliða fundi með fulltrúum annarra ríkja til að kanna hug þeirra um hvaða leiðir eru fýsilegastar til lausnar þessu máli.

     5.      Hvenær er þess að vænta að niðurstaða fáist í mál þetta þannig að hugsanleg viðbót þar að lútandi á grundvelli samningsins og Kyoto-bókunarinnar við hann verði orðin viðurkenndur hluti af samningnum?
    Íslensk stjórnvöld gera sér vonir um að hægt verði að ljúka málinu efnislega á næsta aðildarríkjaþingi rammasamningsins sem haldið verður í Buenos Aires í nóvember næst komandi.

     6.      Hvaða tillögur hefur ráðherra gert eða fyrirhugar að gera til ríkisstjórnar Íslands um það hvernig staðið verði að framgangi og framkvæmd mála í framhaldi af Kyoto-ráðstefnunni?
    Ríkisstjórnin hefur að tillögu umhverfisráðherra samþykkt að skipa sérstakan stýrihóp ráðuneytisstjóra sem hafi yfirumsjón með málinu í heild. Hópurinn hefur það hlutverk að aðstoða ríkisstjórnina við almenna stefnumörkun, hefur umsjón með gerð og framfylgd nýrrar framkvæmdaáætlunar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, skipuleggur samn ingaviðræður við önnur ríki og fjallar um afleiðingar loftslagsbreytinga hér á landi. Í stýri hópnum sitja fulltrúar umhverfis-, fjármála-, forsætis-, iðnaðar-, landbúnaðar-, samgöngu-, sjávarútvegs- og utanríkisráðuneytis og er ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytis formaður hópsins. Til að styrkja starf stýrihópsins þarf að skipa ýmsar undirnefndir til að sinna sér stökum verkefnum. Nú eru starfandi slíkar nefndir um aðgerðir í sjávarútvegi, samgöngum og til að auka bindingu koltvíoxíðs í gróðri. Þá er fyrirhugað að skipa nefnd til að fjalla um hagræna þætti og nefnd vísindamanna til að fjalla um hugsanlegar afleiðingar loftslagsbreyt inga hér á landi, svo og sérstakan ráðgjafarhóp með fulltrúum atvinnulífs og sérfræðingum. Loks mun starfa undir stjórn stýrihópsins sérstök samninganefnd, undir forustu nýs sendiherra auðlindadeildar utanríkisráðuneytis, sem mun undirbúa og annast tvíhliða viðræður og aðrar samningaviðræður í tengslum við 4. aðildarríkjaþing rammasamningsins í nóvember næstkomandi.

     7.      Hver er afstaða ráðherra til Kyoto-bókunarinnar og staðfestingar hennar sem hluta af samningnum sem liggur frammi til undirskriftar frá 15. mars 1998 til 15. mars 1999?
    Ráðherra leggur ríka áherslu á að Ísland gerist aðili að Kyoto-bókuninni, en að hans mati er þó ekki hægt að taka afstöðu til aðildar fyrr en fyrir liggur hver niðurstaða 4. aðildarríkja þings rammasamningsins í Buenos Aires verður varðandi þau atriði sem fyrr eru nefnd, svo sem reglur um viðskipti með losunarheimildir, bindingu koltvíoxíðs í gróðri og umrætt ákvæði d-liðar 5. gr. í lokasamþykkt 3. aðildarríkjaþingsins í Kyoto.