Ferill 569. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 974 – 569. mál.



Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 1997.

1. Inngangur.
    Evrópuráðið, elsta evrópska fjölþjóðastofnunin, hefur tekið örum breytingum síðustu ár. Í því pólitíska tómarúmi sem myndaðist eftir lok kalda stríðsins varð Evrópuráðið sú stofnun sem sameinaði Vestur- og Austur-Evrópu, eftir rúmlega hálfrar aldar aðskilnað. Evrópuráðið gegnir nú m.a. því veigamikla hlutverki að styðja lýðræðis- og efnahagsuppbyggingu í hinum nýfrjálsu ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með efnhagsaðstoð, lagaaðstoð, tækniaðstoð og kosningaeftirliti, svo dæmi séu nefnd. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört: árið 1989 voru þau 22 en eru nú fjörutíu talsins, og fer fjölgandi (Armenía, Aserbaidsjan, Bosnía og Hersegóvína, Georgía og Hvíta-Rússland hafa sótt um aðild). Pólitískt vægi ráðsins hefur þannig aukist verulega undanfarin ár, en íbúar aðildarríkjanna eru um 750 milljónir talsins.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um mannréttindi og lýðræði, og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í öllum aðildarríkjum. Til þess beitir ráðið sér fyrir samningu og samþykkt alþjóðasáttmála sem eru bindandi fyrir þau ríki sem undirrita þá. Ályktanir Evrópuráðsins og þeir bindandi alþjóðasáttmálar sem þar eru samþykktir hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar sem Evrópuráðið hefur sett um ýmis svið þjóðlífsins, þar sem hæst ber að sjálfsögðu mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á fót lýðræði og réttarríki í landi sínu. En mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar alþjóðastofnanir og fjölþjóðasamtök. Sem dæmi um það má nefna að í Amsterdam-sáttmála Evrópusambandsins er að finna málsgrein þar sem undirritun mannréttindasáttmála Evrópu er gerð að ófrávíkjan legu skilyrði fyrir inngöngu í ESB. Áhugi á störfum ráðsins fer einnig vaxandi og ber leið togafundur Evrópuráðsins í október sl. þess skýr merki. Þar var ráðinu gefin pólitísk víta mínsprauta til að efla starfsemi sína í mannréttinda-, félags-, efnahags-, menningar- og menntamálum, og laga sig að breyttum pólitískum aðstæðum.
    Í upphafi yfirstandandi kjörtímabils voru eftirtaldir þingmenn skipaðir í Íslandsdeild Evr ópuráðsþingsins til fjögurra ára, sem aðalmenn: Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Sjálf stæðisflokki, Ólafur Ragnar Grímsson varaformaður, Alþýðubandalagi, og Hjálmar Árna son, Framsóknarflokki, sem varamenn: Tómas Ingi Olrich, Sjálfstæðisflokki, Ólafur Örn Haraldsson, Framsóknarflokki, og Hjálmar Jónsson, Sjálfstæðisflokki. Árið 1996 urðu þær breytingar á skipan Íslandsdeildarinnar að Ólafur Ragnar Grímsson lét af þingsetu og í hans stað var Margrét Frímannsdóttir tilnefnd til setu í Íslandsdeildinni sem varaformaður og aðalmaður. Ritari Íslandsdeildarinnar árið 1997 var Gústaf Adolf Skúlason alþjóðaritari, en um mitt ár tók Auðunn Atlason alþjóðaritari við því starfi. Þá má nefna að Sveinn Björns son sendiherra hefur verið skipaður fastafulltrúi við Evrópuráðið með fast aðsetur í Strass borg í stað Sveins Á. Björnssonar. Hann annast daglegan rekstur skrifstofu utanríkisráðu neytisins hjá Evrópuráðinu, ásamt Ester Helgadóttur ritara. Þeirra starf er mikill styrkur fyrir Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins hvað varðar upplýsingaflæði og ýmiss konar aðstoð.

2. Þing Evrópuráðsins.
    Þing Evrópuráðsins gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi Evrópuráðsins enda hug myndabanki stofnunarinnar. Á þinginu sitja 527 fulltrúar sem skiptast til helminga í aðal- og varamenn. Öfugt við ráðherraráðið, þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði, fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í þrettán þingnefndum sem hver hefur sitt málefnasvið. Þá starfa á þinginu samtals fimm flokkahópar, óháð þjóðerni. Þingið fundar fjórum sinnum á ári, í lok janúar, apríl, júní og september.
    Mikilvægi þingsins felst einkum í því að það:
     á frumkvæði að aðgerðum og gerir beinar tillögur til ráðherraráðs,
     hefur eftirlit með efndum alþjóðlegra skuldbindinga og þrýstir á skjótar aðgerðir,
     er samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkjanna fjörutíu og eflir þannig tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum eru skýrslur starfsnefnda ræddar og um þær ályktað. Ályktunum, tilmælum eða áliti er því næst vísað til ráðherraráðsins sem um fjallar þær og framkvæmir til samræm is við þær ef þurfa þykir, annaðhvort með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á því oft mikilvægt frumkvæði að samningu alþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Þá er Evrópuráðsþingið umræðuvettvangur fyrir stjórnmál, efnahags- og félagsmál, mannréttindamál, umhverfismál, menningar- og mennta mál, og eina evrópska fjölþjóðastofnunin þar sem þingmenn Vestur- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Þingfundir þar sem þingmenn starfa saman, bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því mikilvægir, ekki síst fyrir hin nýfrjálsu ríki Mið- og Austur-Evrópu.
    Það hefur stundum verið haft í flimtingum að þingmannasamkundur fjölþjóðasamtaka séu fjölmennir og óskilvirkir spjallklúbbar. Þessi staðhæfing á ekki við Evrópuráðsþingið. Vissulega eru þingmenn aðildarríkja mismunandi virkir í störfum þingsins, og einstaka jafn vel óvirkir. Sú staðreynd er hins vegar ekki galli heldur þvert á móti kostur fyrir lítið ríki eins og Ísland. Reynslan hefur sýnt að þær þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta við að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar enn skýrara ljósi á mikilvægi — og ekki síður möguleika — Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni.

3. Þingfundir Evrópuráðsþingsins 1997.
a. Fyrsti hluti þings Evrópuráðsins 1997.
    Dagana 27.–31. janúar var fyrsti hluti þings Evrópuráðsins á árinu 1997 haldinn í Strass borg í Frakklandi. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sóttu þingið Lára Margrét Ragnarsdóttir for maður, Margrét Frímannsdóttir varaformaður, Hjálmar Árnason og Ólafur Örn Haraldsson, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Að vanda fóru meginstörf þings ins fram á þingfundum en auk þess voru fundir í fastanefndum þingsins og í þingflokkum.
    Margvísleg málefni voru á dagskrá þingsins, þar á meðal ríkjaráðstefna ESB, efnahags- og myntbandalag ESB, öryggismál kjarnorkuvera í Mið- og Austur-Evrópu, Kýpurdeilan, ástandið í júgóslavneska sambandsríkinu, framkvæmd Dayton-samkomulagsins um frið í Bosníu og Hersegóvínu, lágmarksaldur til kjörgengis, auk þess sem fjallað var um fram kvæmd Rússlands, Úkraínu og Eistlands á skuldbindingum sínum innan Evrópuráðsins.
    Ýmsir gestir ávörpuðu þingið og sátu fyrir svörum, þeirra á meðal Jacques Santer, forseti framkvæmdastjórnar ESB, Tiit Vähi, forsætisráðherra Eistlands, Tarja Halonen, utan ríkisráðherra Finnlands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, og Javier Solana, fram kvæmdastjóri NATO, en þetta var í fyrsta sinn sem framkvæmdastjóri NATO ávarpar Evrópuráðsþingið.
    Á þinginu lét Lára Margrét Ragnarsdóttir af formennsku í fastanefnd þingsins um al mannatengsl en var kjörin fyrsti varaformaður félags- og heilbrigðismálanefndar, sem er ein af stærstu nefndum þingsins.
    Í umræðunum um Kýpurdeiluna talaði Lára Margrét Ragnarsdóttir fyrir hönd flokkahóps hægrimanna á þinginu. Lára Margrét lýsti furðu sinni á að samningaviðræður tyrkneska og gríska hlutans hefðu legið niðri árum saman og hvatti báða aðila til að setjast við samningaborðið að nýju með opnum huga. Báðir aðilar bæru að nokkru leyti ábyrgð á núverandi ástandi en ekki þýddi að horfa um of til fortíðar. Þá gat Lára Margrét sérstaklega þeirrar ákvörðunar Rússa að selja gríska hlutanum eldflaugar og sagðist vona að Rússar væru ekki með þessu að reyna að seilast til áhrifa á svæðinu.
    Að loknu ávarpi Törju Halonen kom Hjálmar Árnason með fyrirspurn um verkaskiptingu fjölþjóðastofnana og sagði ástæðu til að taka á tvíverknaði stofnana á borð við Evrópuráðið, ÖSE, VES, NATO og Sameinuðu þjóðirnar, en verkefni þeirra skarast oft og tíðum. Hjálmar beindi þeirri spurningu til Halonen hvort hún hygðist í formennskutíð sinni beita sér fyrir endurskoðun þessarar verkaskiptingar. Halonen svaraði því til að erfitt væri að taka upp skýra verkaskiptingu stofnana þar sem aðildarríki væru ekki öll hin sömu. Hins vegar benti hún á samstarf NATO, ESB, ÖSE og Evrópuráðsins í málefnum Bosníu og Hersegóvínu þar sem þessar stofnanir hafa skipt með sér verkum við uppbyggingarstarf. Hjálmar lagði ásamt íslensku sendinefndinni og þingmönnum fleiri þjóða fram drög að áskorun til ráðherranefnd ar Evrópuráðsins að taka þessi mál til athugunar og var þeim vísað til framkvæmdastjórnar þingsins.
    Í umræðunni um framkvæmd Eistlands á skuldbindingum sínum innan Evrópuráðsins lagði Lára Margrét fram skriflega ræðu vegna skorts á ræðutíma. Þar lagði Lára Margrét ásamt fleirum til að eftirlitsnefnd Evrópuráðsins í Eistlandi yrði lögð yrði niður, enda hafi Eistland tekið gífurlegum framförum á skömmum tíma, m.a. staðfest mannréttindasáttmála Evrópu. Tillagan var samþykkt á þinginu.

b.     Annar hluti þings Evrópuráðsins 1997.
    Dagana 21.–25. apríl sl. var annar hluti Evrópuráðsþingsins árið 1997 haldinn í Strassborg. Þingið sóttu af hálfu Alþingis Margrét Frímannsdóttir, varaformaður Íslands deildarinnar, Hjálmar Árnason, Tómas Ingi Olrich og Ólafur Örn Haraldsson, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara Íslandsdeildarinnar.
    Á þinginu voru ræddar skýrslur og ályktað um eftirfarandi efni: eflingu eftirlits með framkvæmd Evrópusamnings um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, framlag Evrópuráðsþingsins til leiðtogafundar Evrópuráðsins (sem haldinn var í október 1997), átök á Kákasussvæðinu, áhrif nýrrar samskipta- og upplýsinga tækni á lýðræði, möguleika almennra borgara til pólitískrar þátttöku í fulltrúalýðræði, stöðu efnahagslegra umbóta í Mið- og Austur-Evrópu, skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins, innflutning á konum sem neyddar eru til vændis í aðildarríkjum Evrópuráðsins, framkvæmd Rúmeníu á skuldbindingum sem tengjast Evrópuráðsaðild, vernd og eflingu mannréttinda pólitískra flóttamanna og þeirra sem sækja um pólitískt hæli í Evrópu, stöðu mála í Albaníu og stefnu Evrópuríkja í flugsamgöngum.
    Eftirfarandi aðilar ávörpuðu þingið og svöruðu spurningum: Constantinos Stephanopoul os, forseti Grikklands, Daniel Tarschys, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Petar Stoyanov, forseti Búlgaríu, og Tarja Halonen, utanríkisráðherra Finnlands og formaður ráðherranefnd ar Evrópuráðsins. Til stóð að Niels Helveg Petersen, utanríkisráðherra Danmerkur og for maður ráðherraráðs ÖSE, ávarpaði þingið en hann forfallaðist og þótti það miður því mikil umræða hefur farið fram um að auka þurfi samvinnu Evrópuráðsins og ÖSE og endurskoða verkaskiptingu.
    Tómas Ingi Olrich tók þátt í umræðunni um áhrif nýrrar samskipta- og upplýsingatækni á lýðræði fyrir hönd flokkahóps hægrimanna. Í máli sínu gagnrýndi Tómas Ingi neikvæða afstöðu í skýrslunni til þeirra möguleika sem þessi tækni býður upp á og taldi skýrsluhöfund leggja of mikla áherslu á að stýra þróuninni. Þá gagnrýndi hann einnig að í skýrslunni væri nýrri tækni á sviði upplýsingamála ætlað að leysa ýmis vandamál sem lýðræðisskipulagið ætti við að etja, sem hann sagði skýrsluna raunar einnig gera of mikið úr. Tómas Ingi sagði hina nýju tækni þó geta haft veruleg áhrif á ýmsum sviðum, t.d. í verslun og viðskiptum og jafnvel á samskipti kjósenda við umbjóðendur sína. Mikilvægustu verkefnin sagði Tómas Ingi vera aðlögun menntakerfisins að þessari tækni og að tryggja nægt framboð á samskipta leiðum á borð við ljósleiðara til að flytja upplýsingar á milli staða. Vegna skorts á ræðutíma lagði Hjálmar Árnason fram skriflega ræðu um skýrsluna. Þar gagnrýnir Hjálmar jafnframt þann ótta við nýjungar sem hann segir skýrsluna endurspegla og áherslur á að setja reglur um meðferð umræddrar tækni og bendir á að þróun þessarar tækni fleygi fram með slíkum hraða að hvers kyns nákvæm löggjöf um meðferð hennar sé líkleg til að verða úrelt þegar á reyni. Hjálmar segir hlutverk stjórnvalda í þessu sambandi vera að tryggja aðgang almenn ings að þessari tækni og jafnvel enn fremur að stuðla að uppeldi ábyrgra einstaklinga í skólakerfinu, einstaklinga sem hafi til að bera nægilegan lýðræðislegan þroska til að velja sjálfir og hafna í því flæði upplýsinga sem á þeim dynji.
    Í umræðunni um leiðir almennra borgara til pólitískrar þátttöku í fulltrúalýðræðisskipu lagi talaði Hjálmar Árnason fyrir hönd flokkahóps frjálslyndra. Í skýrslunni er mælt með þjóðaratkvæðagreiðslum til að stuðla að aukinni pólitískri þátttöku almennra borgara. Hjálmar lýsti sig sammála því sem kom fram í skýrslunni og lýsti áhyggjum sínum af minnkandi pólitískri þátttöku almennings, en sagði aðrar leiðir heillavænlegri til árangurs en þjóðaratkvæðagreiðslur. Hjálmar sagði nær að leggja áherslu á þátt skólakerfisins í hlutlægri fræðslu um samfélagsmál. Skólakerfið ætti í auknum mæli að gera nemendum kleift að fræðast og tjá skoðanir sínar á samfélagslegum málefnum, en þannig yrðu þeir hæfari en ella til pólitískrar þátttöku í lýðræðislegu samfélagi.
    Þar sem upplýsinga- og samskiptatækni voru til umfjöllunar á Evrópuráðsþinginu að þessu sinni dreifði Íslandsdeildin á þinginu stefnu ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasam félagið sem nýlega hefur komið út á ensku og vakti skýrslan verulega athygli, einkum á fundi vísinda- og tækninefndar.
    Þá var á þinginu kjörinn dómari fyrir hönd Rússlands í mannréttindadómstól Evrópu. Rússar hétu því að fullgilda mannréttindasáttmála Evrópu innan árs við inngöngu sína í Evrópuráðið í febrúar 1996, en hafa enn ekki fullgilt sáttmálann. Í ljósi þess lagði laganefnd Evrópuráðsþingsins til að kjöri rússnesks dómara í dómstólinn yrði frestað. Hins vegar reyndist ekki vera lagaleg heimild fyrir því að neita Rússlandi um dómara í dómstólinn á umræddum forsendum, auk þess sem fordæmi voru fyrir því að ríki fengju dómara við dómstólinn án þess að hafa fullgilt mannréttindasáttmálann.

c.     Þriðji hluti þings Evrópuráðsins 1997.
    Dagana 23.–27. júní sl. fór fram þriðji hluti þings Evrópuráðsins í Strassborg. Af hálfu Alþingis sóttu þingið þau Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður Íslandsdeildarinnar, Hjálmar Jónsson og Tómas Ingi Olrich, auk Auðuns Atlasonar, ritara Íslandsdeildarinnar.
    Á þinginu voru ræddar skýrslur og ályktað um eftirfarandi mál: vísinda- og tæknilegar hliðar hinnar nýju upplýsinga- og samskiptatækni, málefni þjóðflokks Arómana, staða flóttamanna í Kákasus, staða flóttamanna í Sovétríkjunum fyrrverandi, heilsufarsleg áhrif kjarnorkuslyssins í Chernobyl, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann, Evrópubank ann (European Bank for Reconstruction and Development), baráttu gegn barnaþrælkun, framkvæmd Dayton-samkomulagsins um frið í Bosníu og Hersegóvínu, verklag mannrétt indastofnana í Bosníu og Hersegóvínu og orkusamning Evrópu.
    Eftirtaldir stjórnmála- og embættismenn ávörpuðu þingið og svöruðu spurningum: Daniel Tarschys, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Wlodzimierz Cimoszewicz, forsætisráðherra Póllands, Jaques de Larosiére, bankastjóri Evrópubankans, Michel Hansenne, framkvæmda stjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), Gret Haller, umboðsmaður mannréttindamála í Bosníu og Hersegóvínu, Robert Frowick, yfirmaður sendinefndar Öryggis- og samvinnu stofnunar Evrópu (ÖSE) í Bosníu og Hersegóvínu og Niels Helveg Petersen, utanríkisráð herra Danmerkur og formaður ráðherraráðs ÖSE, sem forfallaðist á aprílþinginu en bætti úr því nú. Á hinn bóginn féll niður umræða með formanni ráðherraráðs Evrópuráðsins með litlum fyrirvara. Þótti þingmönnum það bagalegt, enda eru ýmis mál tengd leiðtogafundi Evrópuráðsins í október nk. óljós eða óafgreidd.
    Í upphafi þingsins lagði Lára Margrét Ragnarsdóttir fram tillögu um að færa umræðu um áhrif Chernobyl-slyssins fram á þriðjudag, en sú umræða átti að fara fram á síðasta degi þingins. Lára Margrét benti á að of margir þingmenn væru farnir til síns heima á föstudögum og sagði Chernobyl-slysið verðskulda meiri athygli en svo að vera síðasta mál á dagskrá. Tillagan var samþykkt með rúmum tveimur þriðju hlutum atkvæða.
    Því næst fór fram umræða um skýrslu svissneska þingmannsins Claude Frey um vísinda- og tæknilegar hliðar hinnar nýju upplýsinga- og samskiptatækni. Tómas Ingi Olrich var talsmaður flokkahóps hægrimanna í umræðunni og fagnaði ágætri skýrslu. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að forgangsraða verkefnum tengdum hinni nýju tækni og sagði fernt mikilvægast: að auðvelda aðgang almennings að upplýsinga- og tölvutækni, að hlúa að menntun og þjálfun, að tryggja samhæfingu tölvukerfa og að auka frumrannsóknir. Hann varaði hins vegar við hugmyndum skýrsluhöfundar um að vilja stýra upplýsingabyltingunni með ríkisvaldi, enda væri kraftur byltingar jafnan falinn í hamsleysi hennar. Tómas Ingi benti á að minni samfélög gætu nýtt sér tæknina til þess að styrkja ímynd sína og sjálfs vitund, eins og raunin væri á Íslandi.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir tók þátt í umræðum um heilsufarsleg áhrif kjarnorkuslyssins í Chernobyl á öðrum degi þingsins. Hún fagnaði ákvörðun sjö helstu iðnríkjanna að veita umtalsvert fé til þess að loka Chernobyl-verinu. Jafnframt áminnti hún þingheim um að mikilvægt væri að aðstoða fórnarlömb slyssins og rannsaka áhrif þess til hlítar. Hún fagnaði því að nú loksins lægju fyrir óvefengjanlegar upplýsingar um skaðvænleg áhrif geislunar á heilsu manna og rifjaði upp að fyrir fjórum árum dró Alþjóðakjarnorkumálastofnunin í efa vísindalegar upplýsingar þessa efnis sem þá komu fram í skýrslu Láru Margrétar, en nú hefðu þær fengist endanlega staðfestar. Hún hvatti ráðherraráð Evrópuráðsins til þess að auka aðstoð sína við fórnarlömb slyssins og efla rannsóknir því tengdar. Samþykktar voru einróma breytingartillögur Láru Margrétar við ályktunardrög skýrslunnar þess efnis að sam hæfa bæri aðgerðir hins alþjóðlega samfélags vegna Chernobyl-slyssins og að Evrópuráðið fylgdist áfram grannt með málinu.
    Miðvikudaginn 25. júní fór fram umræða um starfsemi Evrópubankans. Hjálmar Jónsson benti í máli sínu á tengsl efnahagslegra framfara og mannréttinda og sagði hagsæld vera frumforsendu pólitísks stöðugleika og lýðræðis, eins og átökin í Albaníu hefðu sýnt — með öfugum formerkjum. Hjálmar hvatti til aukins samstarf Evrópuráðsins og Evrópubankans. Hann sagði rammalöggjöf í mismunandi málaflokkum vera einkar mikilvæga fyrir fjárfest ingar og hagvöxt og nefndi orkusamning Evrópu sem dæmi um samstarfsmöguleika Evrópu ráðsins og Evrópubankans. Hann fagnaði þátttöku bankans í verkefnum til að tryggja öryggi kjarnorkuvera í Evrópu og hvatti til aukinnar fjárfestingar í löndum Mið- og Austur-Evrópu í upplýsingatækni, samkeppnishæfni þessara landa til framdráttar.
    Í umræðum um framkvæmd Dayton-samkomulagsins í Bosníu og Hersegóvínu lagði Lára Margrét Ragnarsdóttir áherslu á að þarlendum stjórnvöldum bæri að virða alla þætti þess, ella glataði friðarsamkomulagið trúverðugleika sínum. Hún sagði nokkra misbresti á þessu og nefndi takmarkað ferðafrelsi í Bosníu og Hersegóvínu til dæmis. Alkunna er að flótta menn hafa ekki getað snúið til síns heima og að ákærðir stríðsglæpamenn hafa ekki verið handteknir. Sagði Lára Margrét þá staðreynd grafa undan friðarsamkomulaginu. Í því sam hengi hvatti hún til áframhaldandi veru SFOR-liðsins í landinu. Þá gerði hún fjölmiðlafrelsi í Júgóslavíu að umtalsefni og sagði að ef satt væri að króatísk stjórnvöld hefðu misnotað ríkisfjölmiðla í nýafstöðnum forsetakosningum, eins eftirlitsmenn ÖSE staðhæfðu, væri það áhyggjuefni.     
    Tómas Ingi Olrich kynnti skýrslu sína um orkusamning Evrópu og ályktun á grundvelli hennar á þingfundi föstudaginn 27. júní, en orkusamningurinn gerir hinar pólitísku yfirlýs ingar orkusáttmála Evrópu að lagalega bindandi skjali. Hann hvatti ríki Evrópuráðsins til þess að samþykkja samninginn hið fyrsta. Tómas sagði að samningurinn legði mikilvægan grunn að fjárfestingum í orkugeiranum, einkum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, og skapaði þannig fjölmörg atvinnutækifæri. Hann lagði áherslu á umhverfisþátt samningsins sem hvetur til umhverfisvænnar og skilvirkrar orkuframleiðslu. Tómas gerði stöðu orkumála í Rússlandi að umtalsefni, en landið býr yfir miklum auðlindum en jafnframt skortir mikið á fjárfestingar vegna stjórnmálalegs óstöðuleika og framandi lagaumhverfis. Góður rómur var gerður að skýrslunni og var ályktun hennar samþykkt ásamt einni breytingartillögu.

d. Fjórði hluti þings Evrópuráðsins 1997.
    Dagana 22.–26. september sl. fór fram fjórði hluti þings Evrópuráðsins í Strassborg. Af hálfu Alþingis sóttu þingið þau Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður Íslandsdeildarinnar, Margrét Frímannsdóttir varaformaður, Ólafur Örn Haraldsson, Hjálmar Jónsson og Tómas Ingi Olrich, auk Auðuns Atlasonar, ritara Íslandsdeildarinnar.
    Á þinginu voru ræddar skýrslur og ályktað um: skuldbindingar Tékklands á vettvangi Evrópuráðsins í lýðræðis- og mannréttindamálum, skuldbindingar Litháen á vettvangi Evrópuráðsins í lýðræðis- og mannréttindamálum, félagslegar afleiðingar refsivistar, bann við „klónun“ fólks (viðauki við sáttmála Evrópuráðsins um líftækni og mannréttindi), stefnu Evrópuríkja í geimvísindum, skipulagningu ráðstefnu evrópskra þjóðþinga til eflingar lýðræði og baráttu gegn hryðjuverkum, ástand mála í Albaníu, jarðsprengjur og afleiðingar þeirra, stækkun Evrópuráðsins og áhrif hennar á fjárhag og stjórnsýslu ráðsins, vernd þjóð ernisminnihluta, störf OECD, áhrif viðskiptabannsins á Kúbu (Helms-Burtons-laganna) á Evrópu, samstarf evrópskra þjóðþinga, jafnréttisnefnd Evrópuráðsins og fræðslu um mann réttindi.
    Á fyrsta degi þingsins var Terry Davis, þingmaður breska Verkamannaflokksins, kjörinn varaforseti Evrópuráðsþingsins í stað Anthonys Durant. Davis var einn í framboði til embættisins og sjálfkjörinn. Cornelio Sommaruga, forseti alþjóðanefndar Rauða krossins ávarpaði þingið og svaraði spurningum í umræðu um jarðsprengjur og afleiðingar þeirra en Rita Süssmuth, forseti þýska þingsins, sem átti að ávarpa þingið, boðaði forföll á síðustu stundu. Á öðrum degi þingsins var Hans-Christian Krüger, ritari mannréttindanefndar Evrópuráðsins, kjörinn aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópuráðsins í leynilegri kosningu. Hann hlaut 133 af 211 greiddum atkvæðum, en mótframbjóðandi hans, Svisslendingurinn Hans-Peter Fürrer, hlaut 74 atkvæði.
    Á fyrsta degi þingsins voru lagðar fram tvær breytingartillögur við dagskrá. Lagt var til að framlag þingsins til leiðtogafundar Evrópuráðsins 10.–11. október yrði bætt á lista umræðuefna, auk umræðu um verndun einkalífs. Báðar breytingartillögurnar voru samþykkt ar og umræðunum fundinn staður í dagskránni. Síðar á fyrsta degi þingsins var, á grundvelli tveggja skýrslna, rætt ítarlega hvort og þá hvernig hinum nýju aðildarríkjum Evrópuráðsins, Tékklandi og Litháen, hefði tekist að uppfylla skuldbindingar sínar við Evrópuráðið um lýðræði og mannréttindi. Sú umræða er hluti af nýju verklagi Evrópuráðsþingsins að fylgjast nánar með aðildarríkjum sínum í sérstakri eftirlitsnefnd (Monitoring Committee) sem komið var á fót á árinu. Niðurstaða umræðunnar var sú að báðum ríkjum var hrósað fyrir stórstígar framfarir á síðustu árum, en þeim jafnframt bent á hvað betur mætti fara.
    Í umræðum á öðrum degi þingsins um bann við einræktun eða „klónun“ fólks lagði Lára Margrét Ragnarsdóttir áherslu á að klónun fólks bryti í bága við grundvallarmannréttindi. Hún sagði röksemdir um ótakmarkað frelsi vísindanna vera óviðeigandi í umræðu um klónun, hér væri of mikið í húfi til að slík rök væru gild og vísinda- og stjórnmálamenn gætu ekki og mættu ekki skorast undan sinni siðferðilegu ábyrgð. Lára Margrét sagði hugmyndina fráleita um að „dóttir sé jafnframt tvíburasystir móður“ og sagði þessa tækni breyta framtíð mannkyns eins og við ímyndum okkur hana. Tillagan um bann við tilraunum við klónun fólks (sett fram sem viðauki við sáttmálann um líftækni og mannréttindi) var samþykkt með mikl um meiri hluta á þinginu. Jafnframt var skorað á Sameinuðu þjóðirnar að beita sér fyrir al geru banni við klónun fólks meðal aðildarþjóða sinna.
    Tillaga að stofnun sérstakrar jafnréttismálanefndar Evrópuráðsþingsins var töluvert til umræðu alla þingvikuna. Í umræðum um málið í flokkahópi hægrimanna lagði Hjálmar Jóns son áherslu á að jafnréttismál verðskulduðu sérstaka athygli þingsins og þar með sérstaka nefnd, en bætti við að sú athygli mætti ekki vera á kostnað annarra nefnda og annars starfs þingsins. Minntist Hjálmar í því sambandi á nefnd þingsins um almannatengsl, en hugmyndir voru uppi um að leggja hana niður til að geta stofnað jafnréttisnefnd. Mótmælti Hjálmar þeim hugmyndum harðlega og sagði hlutverki almannatengslanefndarinnar fráleitt lokið, enda 50 ára afmæli Evrópuráðsins fram undan.
    Ólafur Örn Haraldsson tók til máls á síðasta degi þingsins þegar tillaga um stofnun jafnréttisnefndar var tekin fyrir. Ólafur benti á þá nöturlegu staðreynd að á meðal leiðtoga aðildarríkja Evrópuráðsins fjörutíu væri ekki ein einasta kona. Ólafur sagði jafnrétti kynj anna vera mannréttindamál sem Evrópuráðsþingið yrði að vinna að á sem skilvirkastan hátt til að ná raunverulegum árangri og stofnun sérstakrar fastanefndar um jafnréttismál væri besta leiðin til þess. Kosningum um málið var hins vegar frestað eftir að í ljós kom að ekki var nægilegur fjöldi þingmanna viðstaddur í salnum til að taka bindandi ákvörðun. Málið hefur verið sett á dagskrá á fyrsta degi þingfundar í lok janúar 1998.
    Tómas Ingi Olrich fundaði með fulltrúum Orkusamtaka Evrópu vegna skýrslugerðar um evrópska orkustefnu. Hann hitti einnig formann landbúnaðarnefndar vegna skýrslu um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda sem unnið er að á vegum undirnefndar um fiskveiðar, en Tómas Ingi mun gefa álit sitt á þeirri skýrslu fyrir hönd vísinda- og tækninefndar. Á fundi landbúnaðarnefndar var Ólafur Örn Haraldsson kjörinn til setu í fiskveiðinefndinni.
    Að þessu sinni var komið að Íslandi að bjóða til móttöku fyrir sendinefndir annarra Norðurlandaríkja, en samnorræn móttaka er árlegur viðburður og skiptast ríkin á hlutverki gestgjafa. Móttakan fór fram í veitingasal Evrópuráðsins, var vel sótt og að henni gerður góður rómur. Íslandsdeildin fundaði einnig með Sveini Björnssyni, sendiherra við Evrópu ráðið. Þar gerði Sveinn grein fyrir lokayfirlýsingu og framkvæmdaáætlun leiðtogafundar Evrópuráðsins sem fram fór 10.–11. október. Þá fór Sveinn yfir helstu áherslur í starfi utanríkisráðuneytisins í Evrópuráðinu, en Ísland tekur við varaformennsku í ráðherraráðinu í nóvember 1998 og formennsku í maímánuði árið 1999. Íslandsdeildin var einhuga í því mati sínu að varaformennska og formennska Íslands í ráðherraráðinu kynni að opna sóknarfæri í starfi íslenskra þingmanna á Evrópuráðsþinginu. Fundurinn var afar gagnlegur og ákváðu fundarmenn að gera slíka upplýsingafundi að föstum lið í þingfundadagskrá Íslandsdeildar.

4. Nefndastörf.
a. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir.
    Þátttaka Íslandsdeildarinnar í nefndum breyttist frá fyrra ári að því leyti að Lára Margrét Ragnarsdóttir lét af formennsku í nefnd um almannatengsl þingsins og tók þess í stað við fyrsta varaformannsembætti í heilbrigðis- og félagsmálanefnd. Þá tók Hjálmar Jónsson sæti í nefndinni um almannatengsl, en lét af setu í félags- og heilbrigðismálanefnd. Þá má nefna að Ólafur Örn Haraldsson tók á árinu sæti í fiskveiðinefnd þingsins sem er undirnefnd Land búnaðarnefndar. Þátttaka Íslandsdeildarinnar í nefndastarfi skiptist því þannig:    
    
    Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd:    Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Fastanefnd:         Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Stjórnmálanefnd:         Lára Margrét Ragnarsdóttir
                  til vara:         Margrét Frímannsdóttir
    Laganefnd:         Margrét Frímannsdóttir
                  til vara:         Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Efnahagsnefnd:         Margrét Frímannsdóttir
                  til vara:         Hjálmar Jónsson
    Umhverfis-, skipulags- og sveitar
                   stjórnarmálanefnd:         Ólafur Örn Haraldsson
                  til vara:         Hjálmar Árnason
    Þingskapanefnd:         Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Fjárlaganefnd:         Hjálmar Jónsson
    Landbúnaðarnefnd:         Ólafur Örn Haraldsson
                  til vara:         Hjálmar Jónsson
    Vísinda- og tækninefnd:         Tómas Ingi Olrich
                  til vara:         Hjálmar Árnason
    Mennta- og menningarmálanefnd:         Hjálmar Árnason
                  til vara:         Tómas Ingi Olrich
    Heilbrigðis- og félagsmálanefnd:         Lára Margrét Ragnarsdóttir.
    Nefnd um samskipti við lönd utan
                   Evrópuráðsins:         Tómas Ingi Olrich
    Flóttamannanefnd:         Hjálmar Árnason
    Nefnd um almannatengsl þingsins:         Hjálmar Jónsson.

b. Þátttaka í nefndafundum utan þinga.
    Utan reglulegra þinga halda nefndir Evrópuráðsþingsins nokkra fundi árlega, ýmist í Strassborg, París eða í einhverju aðildarríkja ráðsins. Alls tók Íslandsdeildin þátt í fimmtán slíkum fundum á árinu 1997, en það er einungis lítið brot þeirra funda sem Íslandsdeildin þyrfti að sækja til að gott væri. Með stækkun Evrópuráðsins hefur ráðið hlotið aukið vægi í samskiptum ríkja álfunnar og skortur á fjármagni til að sækja nefndafundi gerir þingmönn um erfitt um vik að fylgja einstökum málum eftir og hafa þau áhrif sem æskilegt væri. Jafnvel má segja að þessi þröngi og ósveigjanlegi fjárhagur hamli nú starfi Íslandsdeildarinnar, enda hafa þingmenn hikað við að taka að sér trúnaðarstörf, nátengd íslenskum hagsmunum, þar eð ekki er til fjármagn til að fylgja eftir góðum málum og því hugsanlega betur heima setið en af stað farið. Þessi staða er verðugt íhugunarefni, einkum fyrir smáþjóð sem á mikið undir öflugum alþjóðasamskiptum.
    Þrátt fyrir þessar skorður má segja að nefndastarf Íslandsdeildar hafi verið kröftugt. Lára Margrét Ragnarsdóttir sótti fundi í stjórnmála-, allsherjar- og heilbrigðis- og félags málanefnd. Hún skrifaði skýrslu um kosningaeftirlit Evrópuráðsþingsins í sveitarstjórnar kosningunum í Bosníu og Hersegóvínu helgina 13.–14.september, en ráðstefnan fjallaði um afleiðingar og aðgerðir gegn félagslegri einangrun. Þá var Láru Margréti boðið að ávarpa ráðstefnu um réttindi minnihlutahópa í Evrópu sem haldin var í Seimas, þingi Litháens, í byrjun desember en varð að afþakka það boð sakir anna.
    Tómas Ingi Olrich kynnti á júníþinginu skýrslu sína á vegum vísinda- og tækninefndar um orkusamning Evrópu (Energy Charter Treaty). Var skýrslan og ályktun á henni byggð samþykkt einróma, eins og áður sagði. Á sama þingi var Tómasi falið, fyrir hönd vísinda- og tækninefndar, að skrifa skýrslu um sameiginlega orkustefnu Evrópu. Sú vinna er þegar hafin og var Tómas meðal fyrirlesara á ráðstefnu European Energy Foundation í Kiel í nóvember. Þá var Tómas á árinu útnefndur til þess að skila áliti fyrir hönd vísinda- og tækni nefndar um skýrslu fiskveiðinefndar Evrópuráðsþingsins (undirnefndar landbúnaðarnefndar) um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda. Í því skyni var komið á fót vinnuhóp innlendra sér fræðinga sem aðstoða við álitsgerðina. Í vinnuhópnum sitja Arnór Halldórsson, deildarstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, Jóhann Sigurjónsson sendiherra og Ragnar Árnason prófessor. Tómas skilaði munnlegu áliti um skýrsludrög fiskveiðinefndarinnar í fundi hennar í Mónakó 3. október. Var ákveðið að taka tillit til þeirra athugasemda og endurskoða skýrsluna að verulegu leyti. Sú vinna stendur nú yfir og er búist við að skýrslan verði lögð fyrir þingið til samþykktar á þessu ári.

c. Annað starf Íslandsdeildar.
    Á fundi stjórnmálanefndar á septemberþinginu var Lára Margrét Ragnarsdóttir útnefnd í kosningaeftirlitshóp Evrópuráðsþingsins við sveitastjórnarkosningarnar í Bosníu og Herse góvínu sem fram fóru dagana 13.–14. september, eins og áður sagði. Kosningaeftirlitið var skipulegt af Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu en þingmenn á Evrópuráðsþinginu sinntu því af hálfu Evrópuráðsins. Lára Margrét sinnti eftirliti í höfuðborginni Sarajevó og í ná grenni hennar. Kosningarnar gengu í stórum dráttum eðlilega fyrir sig, en í skýrslu Láru Margrétar er þó bent á ýmsa annmarka eins og vatnsskort á kjörstað og önnur hagnýt vanda mál sem nauðsynlegt er að bæta úr. Þá benti Lára Margrét á að ótækt væri að ÖSE hefði í raun „eftirlit með sjálfri sér“, þ.e. að engin óháð stofnun dæmdi um hve vel ÖSE tækist fram kvæmd kosningaeftirlits.
    Fyrsti sjónvarpsfundur Evrópuráðsþingsins var haldinn í september í Reykjavík og Strassborg að frumkvæði Tómasar Inga Olrich. Tómas skrifaði forseta Evrópuþingsins bréf í upphafi ársins þar sem hann vakti athygli á dræmri þátttöku í nefndafundum sem fara fram utan þingfunda. Nefndi Tómas tvær ástæður þessa, peninga- og tímaleysi, og lagði til að kannað yrði hvort sjónvarpsfundir gætu bætt að nokkru úr þessu. Vel var tekið í hugmyndina og fór tilraunafundur fram í september. Þátttakendur í þeim fundi voru á Íslandi þeir Tómas og Hjálmar Árnason, en í Strassborg starfsmenn Evrópuráðsþingins. Fundurinn, sem einung is var tilraun en ekki formlegur fundur, gekk vel og sýndi að þátttaka þingmanna í fundum erlendis með þessari nýju samskiptatækni er möguleg. Þessi tilraun var einnig gagnleg að því leyti að upp komu ýmis tæknivandamál og aðrir örðugleikar sem leysa þarf ef vel á að vera. Á septemberþingi Evrópuráðsins var greint frá þessari tilraun, m.a. í vísinda- og tækninefnd og á fundi ritara fyrir þingið. Tilraunin vakti þó nokkra athygli, en eigi er að kynja að hugmyndin um sjónvarpsfundi veki upp blendnar tilfinningar á meðal þingmanna og starfsmanna þingsins. Yfirmaður tæknideildar Evrópuráðsþingsins, W. Sawicki, sendi í nóvember lands deildum allra aðildarríkja bréf þar sem hann biður um áliti þeirra á því að Evrópuráðsþingið færi sér þessa nýju tækni í nyt.

5. Nýmæli á árinu.
a. Leiðtogafundur í október.
    Það bar til tíðinda á árinu 1997 að annar leiðtogafundur Evrópuráðsins var haldinn í Strassborg dagana 10.–11. október, að frumkvæði Leni Fischer, forseta Evrópuráðsþingsins (fyrsti leiðtogafundur Evrópuráðsins var haldinn í Vínarborg árið 1993). Leiðtogar aðildarríkjanna fjörutíu komu saman til fundar í Strassborg, það á meðal Davíð Oddsson forsætisráðherra. Leiðtogafundurinn samdi um og samþykkti framkvæmdaáætlun og stefnu yfirlýsingu fyrir Evrópuráðið á nýrri öld, auk þess sem leiðtogarnir lýstu yfir staðföstum stuðningi sínum við grundvallarmarkmið Evrópuráðsins. Meðal þess helsta sem leiðtoga fundurinn samþykkti var að stefna að því að koma á fót embætti umboðsmanns mannréttinda í Evrópu og sameina mannréttindanefnd Evrópu og mannréttindadómstólinn í einn dómstól, svo fátt eitt sé nefnt. Framkvæmdaáætlunin sem var samþykkt skiptist í fjóra hluta og snerist um lýðræði og mannréttindi, félagslega samleitni, öryggi borgara og lýðræðisleg gildi og menningarlega fjölbreytni. Evrópuráðsþingið fylgdist grannt með gangi mála á leiðtoga fundinum og undirbúningi hans. Fulltrúar á þinginu lögðu einkum til að framkvæmda áætlunin yrði gerð skarpari og meira bindandi fyrir aðildarríki. Þá gagnrýndi Evrópuráðs þingið hversu svifaseint ráðherraráðið hefur verið á stundum og hvatti til umbóta á því sviði sem og reglulegra funda ráðherraráðsins með Evrópusambandinu. Loks hvatti þingið leiðtog ana til að gera félagsmálum jafn hátt undir höfði og mannréttindamálum, enda væru félagsleg réttindi órjúfanlegur hluti mannréttinda. Leiðtogafundurinn þótti takast vel og vakti heims athygli, m.a. fyrir þær sakir að leiðtogar Rússlands, Frakklands og Þýskalands boðuðu nán ara samstarf ríkjanna í alþjóðamálum (Moskva-París-Bonn-öxullinn).

b. Eftirlitsnefnd komið á fót.
    Ný nefnd tók til starfa á árinu í Evrópuráðsþinginu, eftirlitsnefndin (Committee on the Honouring of obligations and commitments by member states of the Council of Europe, venjulega nefnd Monitoring Committee). Hún hélt sinn fyrsta fund þann 25. apríl og gegnir því mikilvæga hlutverki að fylgjast með framkvæmd aðildarríkja á skuldbindingum sínum samkvæmt sáttmálum Evrópuráðsins (einkum í mannréttindamálum). Nefndin hefur þegar átt viðræður við tólf ríki og eftirlit með tíu öðrum ríkjum er í bígerð. Áður sinntu þrjár nefndir Evrópuráðsþingsins þessu verkefni: stjórnmálanefnd, laganefnd og nefnd um sam skipti við þriðju ríki. Alls 65 fulltrúar sitja í eftirlitsnefndinni, útnefndir af flokkahópum. Íslendingar eiga ekki sæti í nefndinni þar eð þátttaka í henni mundi útiloka annað nefndastarf viðkomandi fulltrúa. Komist nefndin og þingið að þeirri niðurstöðu að ríki standi ekki við skuldbindingar sínar getur það leitt til refsiaðgerða. Þingmenn geta misst þátttökurétt í þingfundum og síðar getur ráðherraráð tekið ákvörðun um útilokun frá starfi eða brott vikningu úr Evrópuráðinu. Búið er að skila skýrslum um Tékkland og Litháen og skýrslur um Rússland, Úkraínu, Króatíu, Slóvakíu og Tyrkland eru í deiglunni. Það þykir ljóður á eftirlitsaðferð nefndarinnar að eftirlitið (skýrslurnar) byggist á gögnum frá aðildarríkjunum sjálfum sem verið er að skoða. Engu síður þykir starf eftirlitsnefndarinnar hafa tekist vel.

6. Starfsárið fram undan.
    Krefjandi verkefni eru fram undan á vettvangi Evrópuráðsþingsins. Hlutverk og vægi Evrópuráðsins hefur tekið stórstígum breytingum á undanförnum árum og aukist til muna. Það er því bæði áskorun og tækifæri að Ísland mun taka við formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins í maímánuði árið 1999 og varaformennsku næsta haust. Af því tilefni ritaði formaður Íslandsdeildar forsætis- og utanríkisráðherra bréf í desember 1997 þar sem vakin er athygli á tækifærum formennskutímans. Í bréfinu var aukinheldur hvatt til samstarfs utanríkisráðuneytis og Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins í því skyni að nýta formennsku tímann sem best, hagsmunum Íslands til framdráttar. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins hefur lýst sig reiðubúna til að koma að undirbúningi formennskutímans og að hugmyndavinnu í því sambandi, og þegar rætt það mál í eigin röðum. Undirtektir utanríkisráðuneytisins hafa verið einkar jákvæðar.
    Segja má að Evrópuráðsþingið sé hugmyndabanki Evrópuráðsins. Reynslan sýnir að afar margar aðgerðir og samþykktir ráðherraráðs Evrópuráðsins eiga upptök sín á þinginu. Þar koma hugmyndir fram, þar er samið um útfærslu þeirra og kosið um tillögur. Öflugt starf innan Evrópuráðsþingsins í því skyni að hafa áhrif á störf og stefnu Evrópuráðsins er því ómetanlegt með tilliti til þjóðarhagsmuna. Með öflugu starfi innan Evrópuráðsþingsins geta íslensk sjónarmið átt greiðan aðgang að mótun samevrópskrar stefnu og hugsanlegrar framtíðarlöggjafar í viðkomandi málaflokkum. Þau áhrif eru ómetanleg til langs tíma litið.

Alþingi, 10. mars 1998.



Lára Margrét Ragnarsdóttir,


form.


Margrét Frímannsdóttir,


varaform.


Hjálmar Árnason.




Tómas Ingi Olrich.



Ólafur Örn Haraldsson.



Hjálmar Jónsson.