Ferill 577. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 982 – 577. mál.



Tillaga til þingsályktunar


um hvalveiðar.

Flm.: Guðjón Guðmundsson, Einar K. Guðfinnsson, Stefán Guðmundsson,


Siv Friðleifsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Árni M. Mathiesen,
Ólafur Örn Haraldsson, Árni Johnsen.


    Alþingi ályktar að hvalveiðar skuli leyfðar frá og með árinu 1998 á þeim tegundum og innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til. Sjávarútvegsráðherra er falin framkvæmd veiðistjórnar á grundvelli gildandi laga.

Greinargerð.


    Árið 1983 ákváðu Íslendingar að mótmæla ekki hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins. Sú ákvörðun var tekin eftir miklar umræður. Yfirgnæfandi meiri hluti þingmanna sem tjáðu sig um málið efaðist ekki um réttmæti hvalveiða hér við land. Hins vegar var mat margra að efnahagslegum hagsmunum okkar væri í hættu stefnt ef við héldum áfram hvalveiðum. And­staða við slíkar veiðar væri mikil í markaðslöndum okkar og því væri ekki á það hættandi að halda veiðunum áfram.
    Á þessum árum væntu menn þess líka að banni Alþjóðahvalveiðiráðsins yrði aflétt fyrr en síðar. Margir ætluðu að eingöngu væri um tímabundna ákvörðun að ræða sem standa mundi stutt. Jafnframt banni við hvalveiðum frá strandstöðvum ákvað ráðið að endurmeta ákvörðunina eigi síðar en árið 1990 í ljósi nýrra upplýsinga um ástand hvalastofna sem byggðar væru á vísindalegri ráðgjöf.
    Skemmst er frá því að segja að það hefur ekki gengið eftir. Umræður í Alþjóðahvalveiði­ráðinu hafa ekki tekið mið af vísindalegum forsendum. Þrátt fyrir að vísindalegar forsendur liggi fyrir um að hefja megi veiðar hefur meiri hluti aðildarþjóðanna þráast við. Á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Reykjavík vorið 1991 var lögð fram tillaga um nýtt stjórnunar­kerfi sem vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins hafði samþykkt nær samhljóða. Tillagan var virt að vettugi.

Brot á sáttmála Alþjóðahvalveiðiráðsins.
    Þannig hefur það gengið ár eftir ár. Allar tilraunir til þess að fjalla um málið á vísindaleg­um grunni hafa reynst árangurslausar. Fram hefur komið, m.a. í hinu virta bandaríska fjár­málatímariti Forbes 11. nóvember 1991, að leiða megi líkur að því að hvalfriðunarsamtök hafi fjármagnað þátttöku einstakra ríkja í því skyni að hafa bein áhrif á ákvarðanir ráðsins. Dæmi eru um að ríki í Alþjóðahvalveiðiráðinu hafi lýst skilyrðislausri andstöðu við hval­veiðar þótt það sé klárlega brot á sáttmála ráðsins þar sem segir svo í viðauka: „Hvalveiðar í atvinnuskyni skulu leyfðar á hvalastofnum, sem eru í jafnvægi og þær skulu stundaðar í samræmi við tillögur vísindanefndarinnar.“
    Af þessum ástæðum sögðu Íslendingar sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu árið 1992.
    Um þessar mundir er reynt að sætta ólík öfl innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Ljóst virðist þó að langt er í land með að samþykkt verði að hefja hvalveiðar á grundvelli vísindalegra ráðlegginga.

Þjóðin vill hvalveiðar.
    Hér á landi hefur ætíð verið vilji til þess að hefja hvalveiðar að nýju. Þetta hefur komið fram í fjölmörgum skoðanakönnunum þar sem að jafnaði 80–90% landsmanna hafa lýst yfir stuðningi við að hefja hvalveiðar að nýju. Hagsmunasamtök hafa langflest lýst yfir afdráttar­lausum stuðningi við hvalveiðar, sbr. fskj. II. Þess er skemmst að minnast að yfirgnæfandi meiri hluti lýsti þessari skoðun sinni þegar leitað var álits hagsmunasamtaka og fyrirtækja eftir að þingsályktunartillaga Guðjóns Guðmundssonar og Matthíasar Bjarnasonar var lögð fram á Alþingi á 116. löggjafarþingi árið 1992. Meðal hagsmunasamtaka sem þá hvöttu til hvalveiða voru heildarsamtök launafólks og útvegsmanna, auk sjómannasamtaka og fleiri aðila.
    Á Alþingi hefur líka komið fram greinilegur vilji þingmanna til þess að hvalveiðar megi hefjast að nýju. Í umræðum sem efnt hefur verið til hafa fjölmargir þeirra hvatt til þess að veiðar hefjist.
    Má af þessu ráða að hugmyndin um hvalveiðar nýtur víðtæks stuðnings á meðal þjóðar­innar, innan hagsmunasamtaka og á Alþingi.

Réttur og skylda fullvalda þjóðar.
    Ekki er um það deilt hér á landi að líffræðilegar forsendur eru til þess að hefja hvalveiðar hér við land að nýju. Íslendingar hafa verið talsmenn sjálfbærrar nýtingar á auðlindum. Aug­ljóst er að sú hugmyndafræði er fullkomlega í samræmi við þá fyrirætlan að veiða hvali eins og aðrar nytjategundir í hafinu í kring um landið. Þeir vilja umgangast auðlindir sínar af var­úð og ábyrgð og skila þeim í hendur komandi kynslóða í að minnsta kosti eins og góðu ástandi og þegar nýting þeirra hófst. Það er réttur og skylda fullvalda þjóðar að nýta auðlind­ina á ábyrgan hátt og í anda þeirrar stefnu um sjálfbæra nýtingu sem Íslendingar hafa gerst talsmenn fyrir. Af því leiðir að rétturinn til þess að nýta hvalastofna sem þola veiði er ótví­ræður og sjálfsagður. Íhlutunarsemi erlendra ríkja og samtaka sem miðar að því að koma í veg fyrir að sá réttur sé nýttur er því afskipti af innanríkismálum og gengur um leið gegn þeirri hugmyndafræði varðandi auðlindanýtingu sem stjórnvöld hafa verið talsmenn fyrir innan lands og á erlendum vettvangi.

Tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar.
    Árum saman hefur Hafrannsóknastofnunin fjallað um stofnstærð nokkurra hvalategunda og veiðiþol. Í ritinu Nytjastofnar sjávar 1996/97 fjallar stofnunin um hrefnu-, langreyðar- og sandreyðarstofninn, sbr. fskj. I. Þar kemur fram að veiði á 200 hrefnum árlega teljist mjög varlega áætlað aflamark. Um langreyðina segir Hafrannsóknastofnunin: „Þar sem engin fast­mótuð aflaregla gildir fyrir langreyðarveiðina við Ísland leggur Hafrannsóknastofnunin til í varúðarskyni að ekki verði veiddar fleiri en 100 langreyðar á ári.“ Talið er að um 6.800 sandreyðar séu á íslenska talningasvæðinu en vegna þess að veiðiþol stofnsins hefur ekki verið metið, né aflareglur þróaðar, leggur stofnunin ekki til ákveðið aflamark.

Áhrifin á útflutningsgreinarnar.
    Í umræðunni um hvalveiðar hefur oft verið vikið að því að þær gætu haft fjárhagslegt tjón í för með sér fyrir íslenskt efnahagslíf. Er þá sérstaklega bent á útflutningsgreinarnar, eink­anlega sjávarútveg og ferðaþjónustu. Ekki hefur þó með viðhlítandi hætti verið sýnt fram á réttmæti slíkra fullyrðinga. Öðru nær.
    Þessi mál voru sérstaklega könnuð þegar úrsögn Íslands úr Alþjóðahvalveiðiráðinu var undirbúin. Í skýrslu nefndarinnar sem gerði tillögu um úrsögnina er vitnað á eftirfarandi hátt í fulltrúa Ferðamálaráðs sem kom fyrir nefndina: „Fulltrúi Ferðamálaráðs taldi að umtal í kjölfar úrsagnar Íslands úr Alþjóðahvalveiðiráðinu gæti jafnvel eflt ferðaþjónustu hérlendis. Fjölgun ferðamanna hingað til lands á undanförnum árum benti til þess að umræða fyrri ára um hvalveiðimál hafi síst skaðað Ísland sem ferðamannaland. Vísbendingar væru jafnvel til um hið gagnstæða.“
    Segja má að þessi orð komi mjög heim og saman við reynslu Norðmanna. Margir í sjávar­útvegi, útflutningsiðnaði og ferðaþjónustu óttuðust mjög áhrif hrefnuveiðanna sem Norð­menn hófu fyrir nokkrum árum. Sá ótti hefur reynst gjörsamlega ástæðulaus. Útflutningur hefur aukist, ferðaþjónustan eflst og aðsókn í hvalaskoðunarferðir Norðmanna vaxið, að sögn fulltrúa norska útflutningsráðsins sem hér var á ferð í fyrra.

Mikilvæg atvinnugrein sem stóð á eigin fótum.
    Hinu má heldur ekki gleyma að hvalveiðar voru á sínum tíma afar mikilvægur þáttur í at­vinnulífi landsins. Af veiðunum urðu miklar útflutningstekjur sem ætla má að gætu orðið enn meiri nú vegna verðþróunar á mörkuðum fyrir hvalaafurðir. Þessi atvinnugrein var mjög þýðingarmikil fyrir einstök sveitarfélög og héruð. Í því sambandi má nefna starfsemi Hvals hf. í Hvalfirði og Flóka hf. á Brjánslæk. Áður en hvalveiðibannið tók gildi árið 1986 höfðu um 250 manns starf af hvalveiðum og vinnslu á hvalvertíðinni, þ.e. frá því í júni til septem­ber ár hvert. Hér var um að ræða áhafnir hvalveiðibátanna, starfsfólk í hvalstöðinni í Hval­firði og í frystihúsi Hvals hf. í Hafnarfirði. Á árunum 1980–85 stunduðu níu bátar hrefnu­veiðar frá þó nokkrum stöðum við landið.
    Af þessu má sjá að hvalveiðar höfðu mikla efnahagslega þýðingu fyrir íslensku þjóðina alla og fyrir einstök byggðarlög, fyrirtæki og einstaklinga. Ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að hætta hvalveiðum hefur valdið fjárhagslegum skaða og eyðilagt blómlega atvinnugrein sem lagði marga milljarða í íslenska þjóðarbúið, en sóttist hvorki eftir opinberum styrkjum né annarri fyrirgreiðslu.

Hvalveiðar strax á þessu ári.
    Þegar þessi mál eru skoðuð í samhengi blasir að við að öll rök hníga að því að hefja hval­veiðar innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til. Að sjálfsögðu er í valdi ríkisstjórnarinnar að heimila veiðarnar. Alþingi ákvað á sínum tíma, illu heilli, að mótmæla ekki hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins. Með þessari þingsályktunartillögu er verið að gefa Alþingi kost á að taka nýja ákvörðun í ljósi yfirgnæfandi raka með því að hefja hval­veiðar strax á þessu ári.




Fylgiskjal I.


Úr skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar:
Nytjastofnar sjávar 1996/97. Aflahorfur fiskveiðiárið 1997–98.

(Fjölrit nr. 56.)


2.27     HVALIR
2.27.1     Hvalveiðar við Ísland og tímabundin stöðvun þeirra.

    Stórhvalaveiðar voru stundaðar með hléum frá landstöðvum við Ísland í liðlega eina öld eða til ársins 1989. Frá árinu 1948 takmörkuðust veiðarnar við starfsemi stöðvarinnar í Hvalfirði. Þar voru lengst af fjögur skip að veiðum yfir vertíðarmánuðina júní–september. Að meðaltali voru veiddar 234 langreyðar og 68 sandreyðar á ári tímabilið 1948–85 og 82 búrhvalir árin 1948–82 (alfriðaður í Norður-Atlantshafi frá árinu 1982). Árið 1986 gekk í gildi ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) um tímabundna stöðvun veiða í atvinnuskyni. Í samræmi við ákvæði hvalveiðisáttmálans var hins vegar veiddur takmarkaður fjöldi lang- og sandreyða í rannsóknarskyni árin 1986–89. Árin 1990–96 voru engar hvalveiðar stundað­ar frá Íslandi og engin áform liggja fyrir um að hefja veiðar sumarið 1997.
    Hrefnuveiðar hafa verið stundaðar á litlum vélbátum hér við land mestan hluta þessarar aldar. Veiðar þessar voru lengst af smáar í sniðum, nokkrir tugir dýra á ári. Á árunum 1977–85 ákvarðaði Alþjóðahvalveiðiráðið árlega veiðikvóta fyrir svæðið Austur-Grænland/Ísland/Jan Mayen og komu flest árin um 200 hrefnur í hlut Íslendinga. Vegna banns við hvalveiðum í atvinnuskyni hafa hins vegar engar veiðar á hrefnu verið leyfðar hér við land frá lokum vertíðar 1985 og ekki liggja fyrir áform um að hefja veiðar á vertíðinni 1997.

2.27.2    Ástand stofna og veiðiþol.
    Samfara ákvörðun IWC um tímabundna stöðvun hvalveiða í atvinnuskyni var ákveðið að vinna að heildarúttekt á ástandi hvalastofna heimsins, sem ljúka átti árið 1990. Í samræmi við þetta ákváðu íslensk stjórnvöld að stórefla hvalrannsóknir, m.a. með umfangsmiklum líf­fræðilegum athugunum, talningum og rannsóknum á áhrifum veiða á stofnana.
     Sumarið 1995 tóku Íslendingar þátt í alþjóðlegum hvalatalningum á Norður-Atlantshafi sem skipulagðar voru af vísindanefnd Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins, NAMM­CO, með þátttöku Færeyinga og Norðmanna, auk Íslendinga. Tvö íslensk skip og flugvél tóku þátt í verkefninu á íslenska strandsvæðinu og aðliggjandi svæðum. Árið 1996 var sér­stakri vinnunefnd á vegum vísindanefndar NAMMCO falið að samhæfa útreikninga á stofn­stærðum hvala samkvæmt niðurstöðum fjölþjóðlegu talninganna, áætla stofnstærðir og meta breytingar þar á með sérstöku tilliti til fyrri leiðangra.

2.27.2.1 Hrefna.
    Fyrirliggjandi gögn benda til þess að á Norður-Atlantshafi séu a.m.k. þrír stofnar hrefnu með höfuðútbreiðslu á hvalveiðimiðunum við Vestur-Grænland, Ísland (Mið-Atlantshafs­stofn) og Norður-/Vestur-Noreg. Talningarnar 1995 tóku til tveggja síðarnefndu stofnanna. Samkvæmt þeim var heildarfjöldi hrefna á talningasvæðinu um 184 þús. dýr, þar af teljast 72 þús. til Mið-Atlantshafsstofnsins. Á íslenska flugtalningasvæðinu, sem náði yfir land­grunnið umhverfis landið, voru um 56 þús. dýr. Vísindanefnd NAMMCO samþykkti þessar stofnstærðartölur sem þær bestu sem fyrir liggja.
    Niðurstöður talninganna 1995 gefa meira en tvöfalt hærra mat á fjölda hrefna hér við land en eldri talningar. Aukningin stafar fyrst og fremst af hærra mati samkvæmt flugtalningunum á íslenska strandsvæðinu, einkum vegna endurbættra aðferða við úrvinnslu flugtalningagagna og stærra flugtalningasvæði árið 1995.
    Á ársfundi vísindanefndar NAMMCO var fjallað um beiðni ráðsins um sérstaka úttekt á ástandi og veiðiþoli Mið-Atlantshafshrefnustofnsins en þeirri úttekt er ekki lokið. Eldri út­reikningar byggðir á stofnstærðarmatinu frá 1987 sýndu að veiðar áratugina áður höfðu eng­in teljandi áhrif haft á stofninn. Áður en veiðar voru stöðvaðar árið 1985 var ástand stofnsins því talið gott og áætlað að veiðar á t.d. 200 dýrum á ári næstu 5 árin hefðu afar lítil áhrif á stofnstærðina, jafnvel svo að varlega ætlað ætti hún að haldast ofan við 70–80% af stofn­stærðinni eins og hún er talin hafa verið árið 1940.
    Í skýrslu síðasta árs (Hafrannsóknastofnun. Fjölrit nr. 46) var sýnt fram á að samkvæmt útreikningum byggðum á nýjum veiðistjórnunarreglum IWC (Revised Management Pro­cedure, RMP) reiknast aflamark í námunda við 200 dýr á ári ef miðað er við að lokastofn verði 66% af upphafsstofni (sjá Hafrannsóknastofnun. Fjölrit nr. 43). Í ljósi nýrra talninga­niðurstaðna verður að telja slíkt aflamark mjög varlega áætlað. Hafrannsókastofnunin leggur þó ekki til breytingar á þessari tillögu fyrr en niðurstöður nýrrar úttektar vísindanefndar NAMMCO liggja fyrir.

2.27.2.2 Langreyður.
    Árið 1991 var gerð sérstök úttekt á ástandi langreyðarstofna í Norður-Atlantshafi (sjá nánar Hafrannsóknastofnun. Fjölrit nr. 25 og 29). Við stjórnun veiða hefur jafnan verið gert ráð fyrir að langreyðar á Norður-Atlantshafi skiptist í 7 stofna eða stofnsvæði, þ.e. svæðin við 1) Nova Scotia, 2) Nýfundnaland-Labrador, 3) Vestur-Grænland, 4) Austur-Grænland/Ísland, 5) Norður-Noreg, 6) Vestur-Noreg/Færeyjar og 7) Bretlandseyjar, Spán og Portúgal.
    Samkvæmt talningum árin 1987 og 1989 (og fyrri merkingum við strendur Kanada) var áætlað að stofnstærð langreyðar á Norður-Atlantshafi væri a.m.k. 50 þús. dýr. Um 15.600 langreyðar voru á hafsvæðinu Austur-Grænland/Ísland/Jan Mayen, þar af um 8.900 milli Austur-Grænlands og Íslands, norðan 50° N. Samkvæmt talningunum 1995 voru um 18.900 langreyðar á hafsvæðinu Austur-Grænland/Ísland/Jan Mayen, þar af um 16.000 milli Austur-Grænlands og Íslands, norðan 50° N. Hér virðist því vera um nokkra fjölgun að ræða í heild­arstofnstærð og töluvert frábrugðið útbreiðslumynstur innan stofnsvæðisins. Lítill þéttleiki í jöðrum talningasvæðisins gæti þó bent til að talningin 1995 hafi náð betur utan um heildar­útbreiðslusvæði stofnsins.
    Þegar gert er ráð fyrir að stofnsvæði langreyðar, sem gengur á miðin vestan við landið, nái til hafsvæðisins milli Austur-Grænlands, Íslands og Jan Mayen, sýna útreikningar gott ástand stofnsins. Nýleg úttekt, byggð á talningagögnum frá 1987–89, bendir til þess að stofn­inn á þessu svæði þoli umtalsverðar veiðar, eða a.m.k. 100–200 hvali á ári. Nýjar talninga­niðurstöður staðfesta þetta. Þar sem engin fastmótuð aflaregla gildir fyrir langreyðarveiðina við Ísland leggur Hafrannsóknastofnunin til í varúðarskyni að ekki verði veiddar fleiri en 100 langreyðar á ári.

2.27.2.3 Sandreyður.
    Samkvæmt talningunum 1995 voru um 9.200 sandreyðar á talningasvæðinu, þar af um 8.800 á íslenska talningasvæðinu. Vegna suðlægrar útbreiðslu tegundarinnar er talið að taln­ingarnar 1989 hafi náð til stærri hluta stofnsins en þá voru um 10.500 sandreyðar vestan og suðvestan Íslands. Miðað við að einu veiðarnar á þessari tegund undanfarin ár hafa verið stundaðar frá Íslandi er sennilegt að stofninn hafi þolað þær vel enda námu þær aðeins 0,6% af áætlaðri stofnstærð. Veiðiþol stofnsins hefur þó ekki enn verið metið né þróaðar aflaregl­ur sem fara mætti eftir við úthlutun aflamarks.
Fylgiskjal II.


Auglýsing frá Sjávarnytjum.
(Birt í Morgunblaðinu 8. maí 1996.)

Hefjum hvalveiðar.
Við undirritaðir skorum hér með á Alþingi Íslendinga að sjá til þess að hvalveiðar við Ísland verði heimilaðar strax í sumar.

Útvegsbændafélag Vestmannaeyja,
Útvegsmannafélag Þorlákshafnar,
Útvegsmannafélag Suðurnesja,
Útvegsmannafélag Hafnarfjarðar,
Útvegsmannafélag Reykjavíkur,
Útvegsmannafélag Akraness,
Útvegsmannafélag Snæfellsness,
Útvegsmannafélag Vestfjarða,
Útvegsmannafélag Norðurlands,
Útvegsmannafélag Austfjarða,
Útvegsmannafélag Hornafjarðar,
Farmanna- og fiskimannasamband Íslands,
Vélstjórafélag Íslands,
Sjómannasamband Íslands,
Fiskifélag Íslands,
Verkamannafélagið Dagsbrún,
Alþýðusamband Íslands,
Skipstjóra- og stýrimannafélagið Aldan,
Sjómannafélag Reykjavíkur,
Sjómannafélag Ísfirðinga,
Sjómannafélag Eyjafjarðar,
Verkalýðsfélagið Framtíðin, Hafnarfirði,
Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur,
Verkalýðsfélag Grindavíkur,
Verkalýðsfélag Borgarness,
Verkalýðsfélagið Patreksfirði,
Verkalýðsfélagið Jökull, Ólafsvík,
Verkalýðsfélag Akraness,
Verkalýðsfélagið Hörður, Hvalfirði,
Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungar­víkur,
Bændasamtök Íslands,
Iðnnemasamband Íslands,
Hvalfjarðarstrandarhreppur,
Skilmannahreppur,
Leirár- og Melahreppur,
Innri-Akraneshreppur,
Akraneskaupstaður.

Sjávarnytjar
félag áhugamanna um skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda.