Ferill 595. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1008 – 595. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna.

Flm.: Árni R. Árnason, Guðjón Guðmundsson, Tómas Ingi Olrich,


Einar Oddur Kristjánsson, Egill Jónsson, Kristín Ástgeirsdóttir,
Gísli S. Einarsson, Ásta B. Þorsteinsdóttir, Magnús Stefánsson,
Svanfríður Jónasdóttir, Vilhjálmur Egilsson.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að beita sér fyrir endurskoðun laga um atvinnu réttindi skipstjórnarmanna og laga um atvinnuréttindi vélstjórnarmanna, einkum ákvæða varðandi takmörkun eða stig réttinda, kröfur um nám og námstíma, aðgengi að námi og þörf atvinnulífs fyrir menntun yfirmanna.

Greinargerð.


    Lagt er til að lög um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og lög um atvinnuréttindi vél stjórnarmanna verði tekin til endurskoðunar. Henni verði einkum beint að ákvæðum sem varða takmörkun réttinda eða réttindastig, kröfur um nám, námsefni, námstíma, reynslu eða störf undir handleiðslu meistara sem meta megi til náms er gæti átt við um vélstjórnarnám, aðgengi að námi, m.a. endurmenntun og viðbótarmenntun, svo og raunverulega þörf atvinnu lífs og fyrirtækja fyrir menntun þessara yfirmanna í áhöfnum skipa og vegna annarra starfa sem þeirrar menntunar krefjast.

Samanburður við önnur lönd.
    Með þjóðfélagsbreytingum síðari ára koma allir þættir í starfsumhverfi atvinnuvega og starfsgreina til skoðunar með samanburði og samjöfnuði við kjör keppinauta og starfsfélaga í öðrum löndum. Bættar samgöngur og aukin fjarskipti hafa stórum aukið samkeppni við er lend fyrirtæki og starfsmenn þeirra. Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) hefur opnað okkur aðgang að innri markaði Evrópusambandsins (ESB) og meðal grunnþátta hans er frjáls för launafólks og staðfesturéttur. Á grundvelli þess réttar getur erlent fólk nú boðið sig fram til starfa hérlendis í krafti þeirra atvinnuréttinda sem það nýtur í heimalandi sínu.
    Ýmsir þættir í starfsumhverfi manna, starfsgreina, atvinnuvega og atvinnulífs í heild hafa þróast öðruvísi hér en í þeim löndum sem við eigum nú svo nána samleið með, etjum kappi við og verðum að standast samjöfnuð við á þeim grunni sem fyrr var fjallað um. Starfsum hverfi er að stórum hluta mótað með ákvæðum laga sem aftur eru grundvöllur reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla. Í því ljósi er brýnt að lagaákvæði um atvinnuréttindi og grundvöll þeirra verði tekin til endurskoðunar, samanburðar og samræmingar við alþjóða staðla og ríkjandi leikreglur í grannlöndum og samstarfsríkjum okkar.
    Svo virðist sem hérlendis sé í einhverjum tilvikum krafist lengri námstíma en erlendis sem skilyrði fyrir sömu réttindum. Þá virðist og sem hér hafi í einhverjum tilvikum verið mótuð séríslensk takmörkun réttinda, eða réttindastig, sem ekki eigi sér stoð í alþjóðlegum stöðlum og ekki er við höfð í samstarfsríkjum okkar. Afleiðingar þessa virðast geta orðið umtalsvert tjón fyrir íslenska starfsmenn í þessum greinum, t.d. við þessar aðstæður:
          Kröfur um lengri námstíma hérlendis en erlendis sem grundvöllur sömu réttinda leiða til þess að erlendir menn, sem nú hafa rétt til að bjóða starfskrafta sína fram hér á landi í krafti jafngildra atvinnuréttinda í heimalandi þeirra, hafa jafngild réttindi og Íslending ar en hafa aflað þeirra á skemmri námstíma og því með minni fórnarkostnaði. Nám er lends manns var þannig ódýrara en nám Íslendings en veitir sömu réttindi. Afleiðingin fyrir Íslendinginn er sú að lengra nám hans færir honum ekki betur launað starf. Kostn aður hans umfram kostnað hins erlenda við öflun réttinda verður ekki endurgoldinn af tekjum hans umfram tekjur hins. Lengra nám hans er ekki að sama skapi verðmætara.
          Íslendingur sem leitar starfa erlendis og hefur aflað sér séríslenskra réttinda fær ekki notið þeirra. Réttindi hans verða metin samkvæmt alþjóðastaðli, en séríslenska réttinda stigið er þar ekki skilgreint. Þótt nám hans sé nærfellt jafnlangt og það sem er grund völlur næsta stigs fyrir ofan fær hann það nám ekki metið, en nýtur einungis næsta al þjóðlega réttindastigs fyrir neðan hið séríslenska. Námstími hans og fórnarkostnaður umfram það réttindastig fæst hvorki endurgoldinn í réttindum né í starfstekjum og reyn ist ekki að sama skapi verðmætara.

Námskröfur svari þörfum atvinnulífs og nemenda.
    Ávallt þarf að vera á varðbergi um þá kosti náms sem við viljum halda í. Þess vegna er nauðsynlegt að við endurskoðun af þessu tagi sem beinist að sértækum þáttum lagaákvæða um nám og réttindi á grundvelli náms, verði jafnframt tekin til skoðunar þessi almennu grundvallaratriði:
          Aðgengi að námi, þar á meðal til endurmenntunar og viðbótarmenntunar, þ.e. símenntunar. Við sífellt hraðari breytingar og þróun er einna mikilvægast fyrir starfandi menn og konur að geta aukið við menntun sína stig af stigi til að fylgja eftir framförum og tæknivæðingu, jafnframt því að svara eigin þörf fyrir kunnáttu og lærdóm. Þeim mögu leikum þarf að halda opnum á öllum stigum náms og menntunar.
          Kunnáttu þarf eftir kostum að meta bæði á grundvelli náms og reynslu, þar með talið af störfum undir handleiðslu meistara.
          Vegna hraðrar tækniþróunar er rík ástæða til að leggja mat á raunverulega þörf atvinnulífs og fyrirtækja fyrir sérhæfða kunnáttu, og á grundvelli þess að meta hvað er raunhæft námsefni til svara þeirri þörf.
          Leggja verður mat á skipulag náms og lengd námstíma.
          Réttmætt er að meta sérstaklega hver þörf er fyrir almenna menntun til undirbúnings sérhæfðum störfum, þ.e. í sérhæfðu námi sem er grundvöllur sérhæfðra og takmarkaðra atvinnuréttinda. Yfirleitt er almenn menntun boðin og almennt nám stundað á öðrum forsendum en sérhæft nám sem ætlað er sem grundvöllur sértækra réttinda. Í því samhengi virðist réttmætt að leggja tiltölulega þröngt mat á þörf hvers námsmanns fyrir almennt námsefni, miðað við það sérhæfða nám sem hann er að hefja.
    Strangar kröfur til náms sem er grundvöllur réttinda geta verið tvíbent vopn. Þannig kann að virðast kostur að íslenskir vélstjórar hafi ýmis grundvallaratriði á takteinum umfram aðra. Hitt má einnig álykta að í námi sem er grundvöllur sértækra og afmarkaðra réttinda sé al menn menntun sem ekki beinlínis tengist þeim réttindum sóun á tíma og fjármunum við komandi námsmanna. Í þessu samhengi þarf að huga að nokkrum atriðum og nefna má:
          Strangar námskröfur kunna að fæla fólk frá viðkomandi námi. Nefna má nám þar sem reynsla af sambærilegum störfum sýnist ekki metin sem skyldi en krafist endurtekins náms um svipuð eða sömu viðfangsefni. Þetta getur hugsanlega átt við um starfsreynslu og nám manna í járnsmíðagreinum sem hyggjast snúa sér að vélstjórn.
          Strangar námskröfur geta leitt til lítils framboðs á starfskröftum til viðkomandi starfa. Í þessu sambandi má nefna ítrekaðar ábendingar samtaka útvegsmanna, bæði einstakra félaga og landssambands þeirra, um vandkvæði í mönnun fiskiskipaflota landsmanna, þess efnis að gætt hafi samdráttar í útskrift nema með atvinnuréttindi skipstjórnarmanna í samræmi við stækkandi skipakost fiskiskipaflotans. Mikil fækkun hafi orðið í útskrift nema með 4. stig atvinnuréttinda vélstjóra frá Vélskóla Íslands. Á sama tíma hafi fjölgað atvinnutækifærum vélstjórnarmanna, ekki síst þeirra sem hafa þessi réttindi. Af þessu leiði að stefnir í alvarlegan skort vélstjóra með þá kunnáttu og þau réttindi sem fiskiskipaflotinn þarfnast.
          Af þessum síðasttöldu ástæðum verðskuldar það gaumgæfilega athugun að framhaldsskólar landsins geti útskrifað nemendur úr sjóvélstjóranámi er veiti réttindi til starfa á fiskiskipaflotanum. Eðlilegt væri að sömu framhaldsskólar geti útskrifað nemendur úr skipstjórnarnámi með sambærileg réttindi til þeirra starfa á fiskiskiptaflotanum.


Fylgiskjal I.


Bréf Kristjáns Guðmundssonar til Sveins Snorrasonar hrl.
um atvinnuréttindi vélstjóra.

(Reykjavík, 14. janúar 1997.)

    Ástæðan fyrir þessum bréfaskriftum er sú að ég fór upp í Siglingamálastofnun sl. föstudag til að endurnýja atvinnuskírteinið mitt og þá kom í ljós að búið er að lækka réttindin mín úr 1.500 kW í 750 kW. Ástæðan sem mér var gefin var að samkvæmt STCW-reglunum væri ekki hægt að skrifa út skírteini fyrir 1.500 kW.
    Ég hafði þegar í stað samband við formann Vélstjórafélagsins, Helga Laxdal, og spurði hvort þetta gæti verið rétt. Hann sagði mér að svo væri, STCW-reglurnar væru svona. Ég væri eini maðurinn sem hefði komið með kvartanir og honum fannst leitt að ég „lenti svona milli skips og bryggju,“ eins og hann orðaði það, en við þessu væri ekkert að gera.
    Eins og þú veist hef ég siglt á erlendum skipum sl. fimm ár sem eru mönnuð með yfir mönnum frá Norður-Evrópu og þessi orð formannsins komu mér verulega á óvart þar sem ég hef komist að því í samtölum við þá að námið hér heima er allt að því helmingi lengra en tíðkast í nálægum löndum og ég hafði í barnaskap mínum búist við hækkun á réttindum en ekki lækkun þegar STCW-skírteinin yrðu gefin út.
    Þegar ég var í Vélskólanum tók námið í skólanum fjögur ár og eftir hvert ár, eða hvert stig eins og það var kallað, plús siglingatíma fékk maður ákveðin réttindi. Til að ná ótakmörkuð um réttindum þurfti auk þess smiðjutíma. Ég var ekki í aðstöðu til að ljúka 4. stiginu á þessum tíma og þegar ég komst loks í þá aðstöðu var búið að gjörbreyta öllu kerfinu og til að klára þennan eina vetur sem eftir var þarf ég minnst þrjá vetur. Þróunin á þessum tíma sem liðinn er hefur verið sú að skipin og vélarnar hafa stækkað. Einnig hefur fækkað stöðu gildum í vélarrúmi.
    Þetta er eðlileg þróun og ekkert við því að segja eða gera. Hins vegar þykir mér óeðlilegt að ekki skuli á sama tíma vera boðið upp á nein tækifæri fyrir okkur sem lendum þarna á milli bekkjakerfis og áfangakerfis í skólanum til að bæta við réttindin. Þess í stað ætli stjórn völd að lækka réttindin á sama tíma og kominn er sameiginlegur vinnumarkaður með löndum sem gera miklu minni kröfur til STCW-skírteinisins.
    Þetta var inngangur að efninu. Mér finnst brotið gróflega á mér og get ekki sætt mig við þessa niðurstöðu. Afkomumöguleikar mínir eru stórlega skertir og ég sé mig knúinn til að snúast til varnar.
     1.      Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt að uppfylla kröfur STCW við útgáfu atvinnuskírteina og allir geta verið sammála um að það sé mjög gott mál. Við útgáfu skírteinanna gera stjórnvöld meiri kröfur en STCW-samþykktin gerir ráð fyrir. Ég get ekki séð hvað þar býr að baki. Hitt sé ég að það er verið að veikja stöðu íslenskra vélstjóra á vinnumarkaði sem er sameiginlegur með öðrum þjóðum, og hér heima ef þær aðstæður skapast að erlendir vélstjórar sækist eftir vinnu hér. Í mínu tilfelli eru réttindin skert og ég spyr: Telur þú að það samræmist íslenskum lögum?
     2.      Þegar ég var í Vélskólanum var kennt eftir bekkjakerfi og algengt var að menn færu til sjós milli bekkja og fengju réttindi sem námið veitti og kæmu aftur seinna í skólann til að bæta við réttindin. Nú hefur skólanum verið gjörbreytt og réttindamál okkar sem lendum þarna á milli kennslukerfa eru ekki í neinum takti við það sem gerist annars staðar í heiminum og ekki virðist vilji hjá skólanum til að gefa okkur tækifæri til að klára á þeim forsendum sem við byrjuðum. Það hefur aldrei verið boðið upp á sérstakan bekk fyrir þá sem lentu á milli kennslukerfa. Ég spyr: Getur skólinn firrt sig allri ábyrgð á þeim nemendum sem lenda þarna á milli eða er hægt að krefjast þess að fá að ljúka náminu á þeim forsendum sem það hófst?

Virðingarfyllst,
Kristján Guðmundsson.



Fylgiskjal II.


Samanburður á námi vélstjóra á Íslandi, í Danmörku og Færeyjum,
hvað varðar lengd námstíma.

          Til að afla 449 kW réttinda í Færeyjum þarf eins mánaðar skólagöngu. Hér tekur fjóra mánuði að öðlast 375 kW réttindi.
          Til að öðlast 750 kW réttindi í Danmörku getur sá sem starfað hefur til sjós í sex mánuði gengist undir bóklegt og verklegt próf þar sem viðkomandi sýnir fram á þekkingu sína á helstu hlutum dísilvéla, rafkerfi skipa, brunavörnum o.fl. Til undirbúnings prófinu er sjálfsnám eða u.þ.b. þriggja vikna námskeið í vélskóla. Með viðeigandi starfs- og/eða endurmenntun má auka við þessi réttindi í allt að 1.500 kW. Í Færeyjum tekur þetta nám fimm mánuði. Hér tekur námið tvö skólaár. LÍÚ leggur til að 1. stig frá íslenskum vélskóla veiti 750 kW réttindi og 2. stig 1.500 kW réttindi.
                  Til fróðleiks má geta þess að í Danmörku fá þeir sem ljúka skipstjórnarnámi þessi 750 kW vélstjóraréttindi og geta því jafnframt skipstjórnarstöðu gengt stöðu vélstjóra þar sem aðalvél er minni en 750 kW.
          Í Danmörku tekur 3 1/ 2ár að afla 3.000 kW réttinda. Námið skiptist í 1 1/ 2árs verklega starfsþjálfun, 1 ár í verknámsskóla og 1 vetur í vélskóla. Í Færeyjum tekur þetta nám 4 ár. Hér tekur 3 ár að afla 1.500 kW réttinda og tæp 7 ár að afla réttinda umfram 1.500 kW. LÍÚ leggur til að 3. stig frá íslenskum vélskóla, að viðbættri viðeigandi verkmennt un, veiti allt að 3.000 kW réttindi.
          Til ótakmarkaðra réttinda er námstími hér á landi og í grannlöndum okkar sambærilegur að lengd, þannig:
         Danmörk: 1 árs verknám, 1 1/ 2árs verkleg þjálfun og 3 ára vélskóli. Alls 5 1/ 2ár.
         Ísland: 5 ára vélskóli og tæpra 2 ára verknám (smiðja). Alls tæp 7 ár.
                  Árlegur skólatími er lengri í Danmörku en hér. Af því leiðir að í kennslustundum tal ið er námið sambærilegt að lengd. Með betri nýtingu á skólaárinu mætti stytta námið hér á landi um 1 til 1 1/ 2ár.
    Að mati LÍÚ gefur þessi mikli munur á námstíma til sambærilegra atvinnuréttinda fullt tilefni til endurskoðunar á vélstjóranáminu.
    Kröfur Dana hvað varðar námstíma og námstilhögun eru í samræmi við ákvæði STCW-samþykktarinnar og væntanlegrar ESB-tilskipunar (sbr. tilskipun 94/58/EC).