Ferill 531. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1035 – 531. mál.



Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um Umsýslustofnun varnarmála.

     1.      Telur utanríkisráðherra hlutverk Umsýslustofnunar varnarmála, sbr. reglugerð nr. 227/1995, sérstaklega hvað varðar yfirtöku og kaup á umfram- og afgangsvörum frá hernum á Keflavíkurflugvelli og milligöngu um kaup á bifreiðum og tækjum og búnaði sem starfsmenn hans hafa flutt til landsins án aðflutningsgjalda, vera í samræmi við nútímaviðskiptahætti og ákvæði samkeppnislaga?
     2.      Hvar í „varnarsamningi“ milli Íslands og Bandaríkjanna er lagastoð fyrir samkomulagi frá 17. maí 1962, um meðferð umfram- og afgangsvöru, og hvar í samningnum er heimild til þess að selja utan vallar vörur sem fluttar eru inn af hernum eða banda rískum hermönnum án aðflutningsgjalda?
    Í 8. gr. viðbætis við varnarsamninginn sem hefur lagagildi, sbr. lög nr. 110/1951, er kveð ið á um tollameðferð vegna varnarliðsins og liðsmanna þess og er samningsákvæði þetta sambærilegt því sem gildir almennt milli aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Kveðið er á um að gjaldfrjáls varningur skuli eigi látinn af hendi á Íslandi, hvorki með sölu, að gjöf né í skiptum, og er tilgangur ákvæðisins að koma í veg fyrir að viðskipti með slíkar vörur raski hagkerfinu og samkeppni á innanlandsmarkaði.
    Þótt almenna reglan sé bann við hvers konar viðskiptum með þessar vörur er í b-lið 7. mgr. 8. gr. viðbætisins kveðið á um að þegar sérstaklega standi á megi veita heimild til ráð stöfunar slíkrar vöru innan lands með þeim skilyrðum sem tollyfirvöld setja, t.d. um greiðslu á tolli og gjöldum, og um að gætt sé fyrirmæla um eftirlit með verslun og gjaldeyri. Strax í upphafi þróuðust mál á þann veg að undanþágureglu þessari var beitt þannig að hún varð meginreglan og árið 1962 var gert sérstakt milliríkjasamkomulag um framkvæmd þess. Með því var sett á laggirnar sérstök nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins sem skyldi sjá um alla ráðstöfun tollfrjálsar vöru samkvæmt varnarsamningnum sem vilji væri til að ráðstafa innan lands og skyldi nefndin við sölumeðferðina tryggja greiðslu á tollum og öðrum afléttum gjöldum.
    Með reglugerð nr. 227/1995 var nafni Sölunefndarinnar, sem einnig gekk undir nafninu Sala varnarliðseigna, breytt í Umsýslustofnun varnarmála jafnhliða því sem stofnuninni voru falin aukin verkefni, m.a. á sviði forvalsmála vegna verktöku fyrir varnarliðið. Utanríkis ráðuneytið telur tvímælalaust heppilegt, svo lengi sem ráðstöfun þessarar vöru á sér stað inn an lands, að það sé verkefni ríkisstofnunar sem heyri undir ráðuneytið. Eðli málsins sam kvæmt á sú stofnun bein og milliliðalaus samskipti við varnarliðið frá degi til dags. Með þessu fyrirkomulagi er tryggður almennur aðgangur að þeim varningi sem til sölu er og allar bifreiðar og tæki eru boðin upp að undangenginni auglýsingu á opinberum vettvangi.

     3.      Telur ráðherra tímabært að endurskoða samkomulagið frá 1962?
    Utanríkisráðuneytið telur að með samkomulaginu frá 1962 hafi verið lagður grunnur að farsælli leið til uppfylla á þessu sviði gagnkvæmar samningsskuldbindingar íslenskra og bandarískra yfirvalda samkvæmt varnarsamningnum. Þessar samningskuldbindingar hafa jafnframt lagagildi, sbr. 1. lið, og telur ráðuneytið í því ljósi að verulega brýnar þarfir þyrftu að liggja til grundvallar endurskoðun á þessu fyrirkomulagi sem hefur almennt reynst báðum þjóðunum er að því standa vel.

     4.      Hvað líður athugun þeirri, sem utanríkisráðherra ræddi um á Alþingi 8. maí 1996, á hagkvæmni flutnings aðalútsölu Umsýslustofnunar varnarmála frá Reykjavík til Suð urnesja?
     5.      Mun Ríkisendurskoðun verða falið að annast hagkvæmniathugunina, sbr. ummæli ráðherra á Alþingi 8. maí 1996 um að forstjóri Umsýslustofnunarinnar hefði í bréfi til ráðherra og í viðræðum við ríkisendurskoðanda lagt til að slík athugun færi fram?
    Utanríkisráðuneytið hefur að undanförnu undirbúið breytingar á reglugerð um Umsýslu stofnun varnarmála. Ákvörðun um mögulegan flutning stofnunarinnar hefur verið frestað uns þeirri endurskoðun er lokið.

     6.      Telur ráðherra rétt að óska eftir því við Ríkisendurskoðun að gerð verði stjórnsýsluendurskoðun á Umsýslustofnun varnarmála?
    Ekkert sérstakt hefur komið fram er gefur tilefni til slíkrar endurskoðunar nú.