Ferill 620. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1051 – 620. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, og lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda,
með síðari breytingum.

1.gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 22. gr. laganna:
a.    1. mgr. orðast svo:
         Skylt er að bjóða út á Evrópska efnahagssvæðinu verk sem áætlað er að nemi a.m.k. því verðmæti án virðisaukaskatts sem getið er um í 1. og 2. tölul. þessarar málsgreinar.
    1.    5.150.548 evrópskra mynteininga (ECU), enda er ekki um að ræða verk sam falla undir 2. tölul.
    2.    5.000.000 ECU þegar um verk er að ræða sem falla undir viðauka við lög þessi og þau eru boðin út af aðila sem fellur undir 2. málsl. 1. mgr. 21. gr. Sama gildir þegar þessir aðilar bjóða út verk sem tengjast byggingarframkvæmdum fyrir sjúkrahús, mann virkjum til íþrótta- og tómstundaiðkunar, byggingarframkvæmdum við skóla og háskóla og byggingarframvæmdum fyrir stjórnsýslu.
b.    2. mgr. orðast svo
         Við mat á verðmæti innkaupa skal miða við það gengi sem auglýst hefur verið af Eftir litsstofnun EFTA og í gildi var þann dag sem auglýsing skv. 24. gr. var send til birtingar.
c.    Við bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. og orðast svo:
         Fjárhæð viðmiðunarmarka í ECU skv. 1. tölul. 1. mgr. breytist til hækkunar eða lækkunar í samræmi við breytingar á gengi ECU gagnvart SDR, í fyrsta skipti 1. janúar 2000.


2. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 1. mgr. 23. gr. laganna:
a.    2. málsl. orðast svo: Nái áætlað heildarverðmæti verksins þeirri fjárhæð sem tilgreind er í 22. gr. er skylt að bjóða út einstaka verkáfanga á Evrópska efnahagssvæðinu.
b.    Við bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ekki þarf þó að bjóða út einstaka áfanga sem að verðmæti nema allt að 1 milljón ECU án virðisaukaskatts, enda nái verðmæti þessara áfanga ekki 20% af áætluðu heildarverðmæti verksins.

3.gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 24. gr. laganna:
a.     Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
         Aðili skv. 1. gr. skal tilkynna með auglýsingu þá ákvörðun sína að gera sérleyfissamning um verkframkvæmdir þegar slíkir samningar ná þeirri fjárhæð sem tilgreind er í 2. tölul. 1. mgr. 22. gr. Sama skylda hvílir á sérleyfishafa samkvæmt slíkum samningum þótt hann falli hvorki undir ákvæði 1. gr. né 2. eða 3. málsl. 1. mgr. 21. gr.
b.     Á eftir orðunum „1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: og 2. mgr.

4. gr.

    Í stað 25.–31. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo og breytist töluröð annarra greina samkvæmt því:
    Um meðferð ágreiningsmála, bótaskyldu, valdsvið Eftirlitsstofnunar EFTA, heimildir fjár málaráðherra í tilefni af tilkynningum Eftirlitsstofnunar EFTA og skýrslugerð fer skv. 13.–16. gr. laga nr. 52/1987, um opinber innkaup.

5. gr.

    35. gr. laganna fellur brott og breytist töluröð annarra greina samkvæmt því.

6. gr.

    Við lögin bætist viðauki sem orðast svo:
    Í þessum viðauka eru tilgreindar þær tegundir verka sem vísað er til í 2. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga þessara. Viðaukinn er byggður á XI. viðauka, flokki 50, hópi 502, við tilskipun ráðsins nr. 93/37/EBE frá 14. júní 1993.
          Tegundir verka:
         Almenn mannvirkjagerð.
         Jarðvegsvinna.
         Smíði brúa, ganga og stokka; borun.
         Vatnsvirkjun (ár, skurðir, hafnir, stíflur, flóðgáttir og -garðar).
         Vegagerð (þar með talin sérhæfð lagning flugvalla og flugbrauta).
                  Sérhæfð byggingarvinna við vatnsmannvirki (þ.e. við áveitur, framræslu, vatnsveitu, hreinsun og losun fráveituvatns o.s.frv.).
         Sérhæfð starfsemi á öðrum sviðum mannvirkjagerðar.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, með síðari breytingum.
7. gr.

    1. málsl. 3. gr. laganna orðast svo: Á vegum ríkisins skal rekin innkaupastofnun (Ríkis kaup) sem starfar samkvæmt ákvæðum 1. gr.

8. gr.

    Í stað orðanna „Innkaupastofnun ríkisins“ í 1. málsl. 5. gr. laganna og orðsins „Innkaupa stofnunin“ í 1. málsl. 6. gr. og í 1. málsl. 7. gr. laganna kemur: Ríkiskaup.

9. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 10. gr. laganna:
a.     Á eftir orðinu „vörum“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og þjónustu.
b.     Á eftir orðinu „innkaupum“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: á vörum.
c.     Í stað upphæðarinnar „200.000“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: 206.020.
d.    2. tölul.1. mgr. orðast svo: 133.914 ECU vegna innkaupa á vegum Ríkiskaupa eða annarra stofnana í eigu ríkisins sem fengið hafa heimild skv. 3. gr. til að bjóða út enda sé ekki um að ræða stofnanir eða fyrirtæki sem falla undir 3. og 4. tölul. eða kaup á þjónustu sem fellur undir viðauka I við lög þessi.
e.    4. tölul. 1. mgr. orðast svo: 600.000 ECU ef innkaupin eru gerð af fyrirtækjum eða stofnunum sem reka fjarskiptakerfi eða veita almenna fjarskiptaþjónustu.
f.    Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
         Fjárhæð viðmiðunarmarka í ECU skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. breytist til hækkunar eða lækkunar í samræmi við breytingar á gengi ECU gagnvart SDR, í fyrsta skipti 1. janúar 2000.
g.     3. mgr., er verður 4. mgr., orðast svo:
         Við mat á verðmæti innkaupa skal miða við það gengi sem auglýst hefur verið af Eftir litsstofnun EFTA og í gildi er þann dag sem auglýsing skv. 12. gr. er send til birtingar.

10. gr.

    Á eftir 12. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar og breytist töluröð annarra greina sam kvæmt því.
    Hinar nýju greinar orðast svo:

    a. (13. gr.)
    Nú hefur verið óskað eftir lögbanni vegna ákvarðana sem kaupandi, sem lög þessi taka til, hefur tekið í tengslum við undirbúning innkaupa, framkvæmd útboðs eða undirbúning samn ings um innkaup sem gerðarbeiðandi telur að feli í sér brot á ákvæðum laga þessara, laga nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda eða reglugerða settra á grundvelli þeirra og skal þá ákvæði 1. tölul. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., ekki koma í veg fyrir að lögbanni verði beitt.
    

    b. (14. gr.)
    Kaupandi er bótaskyldur samkvæmt almennum reglum vegna þess tjóns sem brot á ákvæðum laga þessara, laga nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, eða reglugerða settra samkvæmt þeim hefur í för með sér fyrir seljanda. Nú eru líkur á því að samið hefði verið við seljanda hefðu ákvæði þau sem tilgreind eru í 1. málsl. ekki verið brotin og skal hann þá eiga rétt á bótum vegna missis þess ávinnings sem hann varð af vegna þess að ekki var við hann samið.

    c. (15. gr.)
    Telji Eftirlitsstofnun EFTA að við undirbúning innkaupa, framkvæmd útboðs eða undir búning samnings kunni að hafa verið brotið gegn ákvæðum EES-samningsins á sviði opinberra innkaupa getur hún hafið rannsókn á meintu broti.
    Eftir að kaupanda hefur borist tilkynning frá Eftirlitsstofnun EFTA eða fjármálaráðuneyti um að stofnunin telji að um brot hafi verið að ræða skal kaupandi innan viku frá því að fyrri tilkynningin berst senda fjármálaráðuneyti:
1.    staðfestingu á að bætt hafi verið úr brotinu eða
2.     rökstudda greinargerð um ástæður fyrir því að úrbót hafi ekki verið gerð.
    Staðfestingu skv. 1. tölul. 2. mgr. og greinargerð skv. 2. tölul. 2. mgr. skulu fylgja nauð synleg gögn.

    d. (16. gr.)
    Kaupanda er skylt að senda fjármálaráðuneytinu skýrslu um þá samninga sem hann hefur gert á því formi sem ráðuneytið ákveður eigi síðar en 1. september ár hvert.
    Kaupandi skal halda skýrslur um einstök útboð sem senda skal Eftirlitsstofnun EFTA samkvæmt beiðni stofnunarinnar.
    Kaupandi skal eigi síðar en 1. febrúar ár hvert senda fjármálaráðuneytinu yfirlit yfir þá úrskurði og dóma sem kveðnir hafa verið upp vegna brota hans á ákvæði laga þessara og varða innkaup sem skylt er að bjóða út á hinu Evrópska efnahagssvæði.
    Í reglugerð skal nánar kveðið á um hvaða upplýsingar skulu koma fram í skýrslum skv. 1.–3. mgr.


11. gr.
13. og 14. gr. laganna falla brott og breytist töluröð annarra greina samkvæmt því.

12. gr.

    15. gr. laganna, er verður 17. gr., orðast svo:
    Fjármálaráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um framkvæmd laga þessara, svo sem um efni auglýsinga, útboðsgögn, útboðsaðferðir, tilboðsfresti, hæfi bjóðenda, val á tilboðum og starfsemi Ríkiskaupa.


13. gr.

    17. gr. laganna fellur brott og breytist töluröð annarra greina samkvæmt því.


14. gr.

    Viðauki I við lögin orðast svo:

    Í þessum viðauka eru tilgreindar þær tegundir þjónustu sem vísað er til í 2. tölul.1. mgr. 10. gr. laga þessara. Viðaukin er byggður á viðauka IB og flokkum 5 og 8 í viðauka IA við tilskipun ráðsins nr. 92/50/EBE frá 18. júní 1992.
     Tegund þjónustu     CPC-flokkunarnúmer
    Hótel-og veitingaþjónusta     64
    Járnbrautarflutningar     711
    Flutningar á sjó- eða vatnaleiðum     72
    Auka- eða viðbótarflutningaþjónusta     74
    Lögfræðiþjónusta     861
    Ráðningarþjónusta     872
    Öryggis- og eftirlitsþjónusta, að undanskildum
         flutningum með brynvörðum bifreiðum     873 (þó ekki 87304)
    Kennsla og starfsmenntunarþjónusta     92
    Heilbrigðis- og félagsmálaþjónusta     93
    Tómstunda-, menningar- og íþróttaþjónusta     96
    Viðhalds- og viðgerðarþjónusta     6612, 6122, 633, 886
    Þjónusta við rannsóknir og þróun     85
    Þjónusta vegna dagskrárútsendinga     7524
    Samtengingarþjónusta     7525
    Samþætt fjarskiptaþjónusta     7526

III. KAFLI
Gildistaka.
15. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1998.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Á undanförnum árum hafa sífellt verið gerðar strangari kröfur til opinberra aðila um hvernig staðið skuli að innkaupum vöru, þjónustu og framkvæmda. Er það í samræmi við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Einnig hefur samningurinn um Evrópska efnahags svæðið gert strangari kröfur um hvernig að þessum málum skuli staðið.
    Þrátt fyrir þetta má segja að fyrirkomulag innkaupa ríkisins hafi verið gott miðað við önnur lönd. Hér á landi fór snemma að tíðkast notkun útboða við innkaup og formfastar reglur voru settar um tilhögun þeirra. Má að nokkru leyti þakka það því að auk þess að leita fyrirmynda í Evrópu var á sínum tíma einnig fylgst með skipan þessara mála í Bandaríkjunum.
    Þau lög, sem nú eru í gildi og varða innkaup ríkisins, eru annars vegar lög nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, og hins vegar lög nr. 52/1987, um opinber innkaup. Breytingar voru gerðar á þessum lögum með lögum nr. 55/1993 vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en í þeim samningi eru gerðar miklar kröfur um hvernig haga skuli innkaupum opinberra aðila.
    Í maí 1993 samþykkti þáverandi ríkisstjórn útboðsstefnu ríkisins og var hún þáttur í því umbótastarfi sem stjórnvöld hafa unnið að til að koma á nýskipan í rekstri ríkisins. Gerðar voru kröfur um aukin útboð á vegum ríkisins og að skýrar reglur giltu um útboð þannig að jafnræðis væri gætt milli þeirra sem bjóða ríkinu viðskipti. Jafnframt var það markmið útboðsstefnunnar að auka hagkvæmni í rekstri ríkisins og efla samkeppni í einkageiranum. Nokkur reynsla er nú komin af þeim tilmælum sem fólust í stefnunni. Útboð hafa aukist verulega og gætir ánægju með það hjá seljendum vöru, þjónustu og framkvæmda.
    Á svipuðum tíma og útboðsstefnan var samþykkt gaf stjórn opinberra innkaupa út reglur um innkaup ríkisins. Þeim var ætlað að skýra samskipti og skapa traust milli kaupenda og seljenda. Jafnframt gaf stjórnin út handbók um innkaup innan Evrópska efnahagssvæðisins og var henni ætlað að vera opinberum aðilum leiðsögn í þeirri skyldu sem aðild að EES hafði í för með sér varðandi opinber innkaup. Nýlega voru reglur um innkaup ríkisins og ýmis atriði útboðsstefnunnar fest í sessi með því að sameina ákvæði þeirra reglugerð um opinber innkaup í reglugerð um innkaup ríkisins, nr. 302/1996.
    Frumvarp til breytinga á lögum um opinber innkaup og skipan opinberra framkvæmda var lagt fram sl. vor en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarp þetta er byggt á því frumvarpi. Helsta breytingin er að horfið er frá þeirri hugmynd að skipa sérstaka kærunefnd útboðsmála. Er gert ráð fyrir að farið verði með brot á lögunum samkvæmt almennum reglum þannig að verktakar, birgjar og þjónustuaðilar geti leitað til dómstóla og eftir atvikum sýslumanns sé brotið á rétti þeirra. Gert er ráð fyrir að ákvæði um sérstakt úrskurðarvald fjármálaráðherra sem gerir ráð fyrir að leitað sé til hans áður en mál eru borin undir dómstóla verði felld brott. Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við þessa skipan mála og bent á að fjármálaráðuneyti og önnur ráðuneyti eiga oft hagsmuna að gæta í innkaupamálum. Ekki er hins vegar skylt að láta sérstaka úrskurðaraðila fjalla um kærumál vegna brota á reglum EES-samningins um opinber innkaup. Í Noregi og Bretlandi er t.d. fjallað um þessi mál í almenna dómskerfinu. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á þeim ákvæðum laganna sem fjalla um viðmiðunarfjárhæðir en þær breytingar eiga rót að rekja til breytinga sem gerðar voru á tilskipunum um opinber innkaup síðasta haust. Tilskipun þessi var sett til að laga löggjöf Evrópusambandsins að reglum GATT-samningsins um opinber innkaup. Einnig er til skoðunar að Ísland gerist aðili að þeim kafla GATT-samningsins sem fjallar um opinber innkaup en slíkt mundi kalla á frekari lagasetningu.

    Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í a-lið er lagt til að viðmiðunarmörkin verði mismunandi eftir því hvers eðlis verkið er og hver býður það út. Flestir samningar munu falla undir 1. tölul. Núgildandi mörk eru 5 milljónir ECU og því munu viðmiðunarmörkin hækka lítillega næstu tvö árin a.m.k. Í b-lið er lagt til að skýrt verði kveðið á um við hvaða gengi skuli miða útreikning viðmiðunarfjárhæða þegar þær eru umreiknaðar í íslenskar krónur. Loks er lagt til í c-lið að mörkin í ECU breytist eins og innan Evrópusambandsins, þ.e. að þau taki mið að gengi ECU gagnvart SDR.

Um 2. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar sem kveða skýrar en nú á um hvenær skylt er að bjóða út einstaka verkáfanga. Núgildandi lagaákvæði eru óskýr og ekki í nægjanlegu samræmi við þau ákvæði í tilskipunum Evrópusambandsins um opinber innkaup sem þau eru byggð á.

Um 3. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á reglum um auglýsingar. Samkvæmt tilskipuninni um verksamninga nr. 93/37/EBE er skylt að auglýsa ákvörðun opinbers aðila sem tilskipunin tekur til um að gera sérleyfissamning um verkframkvæmd jafnvel þótt samningurinn sé þess eðlis að ákvæði tilskipunarinnar gildi að öðru leyti ekki um samninginn. Jafnframt er sérleyfishafa samkvæmt samningi um verkframkvæmd skylt að auglýsa þá ákvörðun sína að semja um hluta verksins við þriðja aðila jafnvel þótt honun sé almennt ekki skylt að bjóða út á Evrópska efnahagsvæðinu vegna þess að hann er hvorki opinber aðili, sbr. 1. gr. laganna, né einkaaðili sem fellur undir 2. eða 3. málsl. 1. mgr. 21. gr. Undir þá grein falla annars vegar aðilar sem sinna orkuveitu, vatnsveitu, fjarskiptum eða flutningum með almenningsvögnum á grundvelli einhvers konar sérleyfis en hins vegar aðilar sem bjóða út verk sem opinberir aðilar greiða a.m.k. helming kostnaðarins. Í núgildandi lögum kemur þessi skylda ekki skýrt fram og er því lagt til að hún verði lögfest. Gera má ráð fyrir að frekar fá tilvik falli þarna undir þar sem framangreind 21. gr. mundi oft eiga við um þessa aðila.

Um 4. gr.

    Hér er kveðið á um að ákvæði laga um opinber innkaup skuli gilda um atriði eins og meðferð ágreiningsmála, valdsvið Eftirlitsstofnunar EFTA og úrræði vegna athugasemda stofnunarinnar. Því er lagt til að þessi ákvæði séu felld brott úr lögunum um skipan opinberra framkvæmda. Eðlilegt er að þessi ákvæði séu í einum lögum og þykir heppilegra að þau séu í lögunum um opinber innkaup.

Um 5. gr.

    Í núgildandi lögum eru tvær reglugerðarheimildir, þ.e. í 35. og 36. gr. Er lagt til að önnur þeirra falli brott enda óþörf.

Um 6. gr.

    Hér eru tilgreind þau verk sem gert er ráð fyrir að falli undir 2. tölul. 22. gr. laganna.

Um 7. og 8. gr.

    Árið 1993 var í daglegu tali farið að kalla Innkaupastofnun ríkisins Ríkiskaup. Það heiti hefur fest í sessi sem nafn stofnunarinnar. Lagt er til að ákvæðum laganna sem vísa beint í heiti stofnunarinnar verði breytt í samræmi við það.

Um 9. gr.

    Í 10. gr. laganna er kveðið á um hvenær skylt er að bjóða út á Evrópska efnahagsvæðinu en það er eingöngu skylt þegar innkaupin fara upp fyrir ákveðin viðmiðunarmörk.
    Í þessari grein eru lagðar til nokkrar breytingar á þessum viðmiðunarmörkum. Í fyrsta lagi er skýrt kveðið á um að kaup á þjónustu eigi að bjóða út á Evrópska efnahagssvæðinu en lægstu viðmiðunarmörkin vegna slíkra innkaupa eru 133.914 ECU án virðisaukaskatts og mun það verða hin almenna regla við þjónustukaup ríkisins. Þá er lagt er til að tekin verði upp tilvísun í nýjan viðauka við þjónustukaup en að tilvísun í viðauka vegna vörukaupa falli niður enda hefur sá viðauki ekki lengur raunhæfa þýðingu. Þá er lagt til að viðmiðunarmörkin breytist framvegis með hliðsjón af breytingum á gengi ECU gagnvart SDR á tveggja ára fresti og breytist þannig með sama hætti og innan Evrópusambandsins.
    Í c-lið er lagt til að sérstök tilvísun til Pósts og síma falli brott og ákvæðið verði þannig almennt orðað og loks er lagt til að skýrt verði kveðið á um við hvaða gengi skuli miða útreikning viðmiðunarfjárhæða þegar það er umreiknað í íslenskar krónur.


Um 10. gr.

    Um a-lið (13. gr.).
    Samkvæmt tilskipun nr. 89/665/EBE sem fjallar um meðferð kærumála vegna brota á reglum EES-samningsins um opinber innkaup ber aðildarríkjunum að sjá til þess að ráðstafanir þær sem gerðar eru og varða meðferð kæru veiti heimild til þess að stöðva um stundarsakir útboð og gerð samnings eða framkvæmd ákvarðana sem kaupendur hafa tekið. Gert er ráð fyrir að hér á landi gildi almenn réttarfarsúrræði, aðilar sem telja rétt á sér brotinn geti leitað til sýslumanns og óskað eftir lögbanni og að um gerðina fari eftir lögum kyrrsetningu og lögbann. Hins vegar er í 1. tölul. 3. mgr. 24. gr. þeirra laga ákvæði þess efnis að lögbann verði ekki lagt við athöfn ef skaðabætur eru taldar tryggja hagsmuni gerðarbeið anda nægjanlega. Slík takmörkun er ekki í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar og er því lagt til að réttur til bóta komi ekki í veg fyrir að lagt verði á lögbann á athafnir sem tengjast innkaupum sem falla undir lögin. Gerðarbeiðandi yrði síðan að höfða staðfestingarmál með venjulegum hætti. Í slíku máli gæti hann t.d. krafist þess að ólögmæt ákvæði í útboðsauglýs ingu eða útboðsgögnum sem brjóta í bága við ákvæði laga þessara, reglugerða settra sam kvæmt þeim eða meginregla EES-samningsins væru felld brott.
    Um b-lið (14. gr.).
    Hér er fjallað um bótaskyldu og bótafjárhæðir. Um bótaskylduna fer samkvæmt almennum reglum og verða því skilyrði um orsakasamhengi og sennilega afleiðingu að vera fyrir hendi til þess að um bótaskyldu geti verið að ræða. Bótafjárhæðin er ekki takmörkuð. Seljandi gæti því átt rétt á bótum vegna tapaðs ávinnings enda væru líkur fyrir því að samið hefði verið við hann hefðu reglur ekki verið brotnar. Viðkomandi seljandi yrði að sanna orsakasambandið milli brotsins og þess að ekki var samið við hann og einnig verður hann að sýna fram á líklegt væri að samið hefði verið við hann ef reglurnar hefðu ekki verið brotnar.
    Í núgildandi lögum eru bætur takmarkaðar við kostnað bjóðanda við að taka þátt í útboði. Það hefur ekki verið talið nægjanlegt þar sem kostnaður bjóðenda við að taka þátt í útboði er ekki verulegur. Raunverulegt tjón getur verið meira, m.a. vegna tapaðra viðskipta sem leiðir af því að fá ekki umrædd viðskipti.
    Um c-lið (15. gr.).
    Í þessari grein er kveðið á um valdsvið Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði opinberra innkaupa og úrræði ráðuneytisins vegna athugasemda stofnunarinnar. Sams konar ákvæði er í gildandi lögum en það er byggt á bókun 2 við samninginn um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Eftirlitsstofnunin getur bæði hafið rannsókn að eigin frumkvæði og samkvæmt kæru en dæmi um hvort tveggja eru til hér á landi.
    Um d-lið (16. gr.).
    Í þessari grein er fjallað um skýrslugjöf en nú er ákvæði um þetta atriði í 30. gr. laga nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, sbr. 14. gr. laga nr. 52/1987, um opinber innkaup. Lagt er til að skyldan verði víðtækari og taki til allra samninga sem lögin taka til en ekki eingöngu til þeirra samninga sem eru yfir viðmiðunarmörkum EES-reglnanna. Jafnframt er lagt til að kaupendur sendi fjármálaráðuneytinu yfirlit yfir þá úrskurði og dóma sem kveðnir hafa verið upp í tengslum við innkaup sem eru yfir viðmiðunarmörkunum. Samkvæmt tilskipuninni um meðferð kærumála er skylt að senda skýrslu til ESA um meðferð kærumála á undangengnu ári eigi síðar en 1. mars. ár hvert. Þar sem ekki er lengur gert ráð fyrir að brot á lögunum sæti fyrst kæru til fjármálaráðherra er nauðsynlegt að fá upplýsingar um þessi mál frá kaupendum.
    

Um 11. gr.

    Hér er lagt til að 13. gr. gildandi laga sem fjallar um meðferð kærumála verði felld úr gildi en í stað þess er gert ráð fyrir að almenn ákvæði gildi um meðferð þessara mála, sbr. almennar athugasemdir. Jafnframt er lagt til að 14. gr. laganna sem vísar um ýmis atriði, svo sem meðferð kærumála og valdsvið Eftirlitsstofnunar EFTA, í lög um skipan opinberra framkvæmda verði felld brott. Eðlilegra þykir að ákvæði um þessi atriði verði í lögum um opinber innkaup, sbr. athugasemdir við 4. gr.

Um 12. og 13. gr.

    Í núgildandi lögum eru tvær reglugerðarheimildir, þ.e. í 15. og 16. gr. Er lagt til að önnur þeirra falli brott enda óþörf. Þar sem gert er ráð fyrir að núverandi viðauki við lögin falli brott, sbr. 14. gr., er lagt til að heimildir ráðherra til breytinga á viðaukanum falli niður.

Um 14. gr.

    Gert er ráð fyrir að núverandi viðauki sem fjallar um tiltekin vörukaup falli brott þar sem hann er óþarfur en í stað hans komi nýr viðauki sem fjallar um kaup á tilteknum tegundum þjónustu. Ekki verður skylt að bjóða út þá þjónustu sem fellur undir þennan viðauka fyrr en hún nær þeim mörkum sem tilgreind eru í 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna, þ.e. 206.020 ECU, jafnvel þótt hún sé á vegum Ríkiskaupa eða annarra stofnana ríkisins og ætti því að öðru óbreyttu að falla undir 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. og þar með gilda lægri viðmiðunarmörk. Við aukinn tekur til þerrar þjónustu sem tilgreind er í viðaukanum þegar hún fellur undir þau CPC-flokkunarnúmer sem fram koma í seinni dálkinum í viðaukanum.

Um 15. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 63/1970,


um skipan opinberra framkvæmda, og lögum nr. 52/1987,


um opinber innkaup, með síðari breytingum.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á nokkrum atriðum í fyrirkomulagi opinberra innkaupa og framkvæmda, svo sem á viðmiðunarfjárhæðum vegna verka sem bjóða þarf út á Evrópska efnahagssvæðinu og á málsmeðferð vegna brota á lögunum. Frumvarpið var áður flutt á vorþingi árið 1997 en hlaut ekki afgreiðslu þá. Helsta breytingin frá því frumvarpi er að ekki er gert ráð fyrir að kærumálum verði vísað til sérstakrar kærunefndar útboðsmála heldur verði dæmt um þau hjá almennum dómstólum.
    Ekki er talið að samþykkt frumvarpsins muni leiða til aukinna útgjalda ríkissjóðs.