Ferill 636. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1092 – 636. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum um grunnskóla, nr. 66/1995.

Flm.: Svavar Gestsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Margrét Frímannsdóttir,


Ögmundur Jónasson, Steingrímur J. Sigfússon.



1. gr.

    Á eftir 56. gr. koma þrjár nýjar greinar, svohljóðandi:

    a. (57. gr.)
    Öll börn eiga rétt á skólagöngu samkvæmt lögum þessum, sbr. 1. gr. Sveitarstjórn er skylt að tryggja barni skólavist sem næst dvalarheimili þess og að tryggja því flutning til og frá skóla þegar um lengri veg er að fara. Nú koma upp deilur milli sveitarfélaga um það í hvaða skóla barn skuli ganga og hvaða sveitarfélag skuli bera kostnað af skólavist barnsins og skal þá úrskurðarnefnd kveða upp úrskurð um málið, sbr. 58. gr.

    b. (58. gr.)
    Menntamálaráðherra skipar þriggja manna úrskurðarnefnd sem fjallar um deilumál milli sveitarfélaga sem upp kunna að koma vegna framkvæmda á lögum þessum. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár í senn. Skulu tveir nefndarmenn skipaðir samkvæmt tilnefningu Sam bands íslenskra sveitarfélaga en sá þriðji skipaður án tilnefningar og er hann formaður nefnd arinnar. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslusviði.

    c. (59. gr.)
    Þegar um er að ræða skólagöngu barna sem hafa verið vistuð fjarri lögheimilum sínum á vegum barnaverndarnefnda eða hliðstæðra aðila skal menntamálaráðuneytið greiða kostnað af dvöl barnsins þar til úrskurðarnefnd skv. 58. gr. hefur fellt úrskurð sinn.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Að undanförnu hefur komið í ljós að mikið vantar á að ákvæði grunnskólalaga varðandi rétt barna til skólavistar séu nægilega skýr þegar barn er vistað fjarri lögheimili sínu á fóstur heimili. Þetta frumvarp hefur þann tilgang að skipuð verði úrskurðarnefnd sem geti fellt úrskurði í slíkum málum, en þar til nefndin hefur fellt sinn úrskurð greiði menntamálaráðu neytið kostnað af skólagöngu barnsins til viðkomandi sveitarfélags. Með lögfestingu þessa frumvarps væri komið í veg fyrir það að börn yrðu langtímum saman leiksoppar kerfisins eins og dæmi eru um og meðal annars hefur verið greint frá í fjölmiðlum að undanförnu. Fumvarpið gerir ráð fyrir að þrjár nýjar greinar bætist við grunnskólalögin og að þar verði kveðið á um skýlausan rétt barnsins, um úrskurðarferlið og loks um að menntamálaráðuneytið borgi kostnaðinn uns úrskurður er felldur.