Ferill 639. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1095–639. mál.



Frumvarp til laga



um breytingar á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, og lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Flm.: Árni R. Árnason.



I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Á eftir 3. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að flytja veiðileyfi frá báti sem stundar veiðar með þorskaflahámarki til báts sem stundar veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga.
     b.      Á eftir 1. málsl. 5. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að flytja veiðileyfi frá báti sem stundar veiðar með þorskaflahámarki til báts sem stundar veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sem leyfi hefur fengið til veiða með tilteknum fjölda sóknardaga“ í 5. málsl. 5. mgr. kemur: sem stundað hefur veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga síðast liðin tvö fiskveiðiár.
     b.      Í stað orðsins „Veiðiferð“ í 3. málsl. 6. mgr. kemur: Sóknardegi.

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.

3. gr.

    Í stað orðanna „1. apríl 1998“ í 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða III í lögunum kemur: 1. október 1998.

IV. KAFLI
Gildistaka.
4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Því frumvarpi sem hér er lagt fram er fyrst og fremst ætlað að sníða ákveðna agnúa af lagaákvæðum um veiðar smábáta, þ.e. krókaveiðar, og bregðast þannig við gagnrýni sem fram hefur komið. Það hróflar á engan hátt við þeim grundvelli sem undanfarin missiri hefur mótað breytingar á starfsumhverfi smábáta með krókaleyfi og byggist á samkomulagi milli sjávarútvegsráðuneytisins og Landssambands smábátaeigenda (LS). Þær tillögur að breyt ingum á þessum ákvæðum sem felast í frumvarpinu hafa verið ræddar við LS og er full sátt við það um þær. Sama gildir um sjávarútvegsráðuneytið sem hefur mjög hvatt til þess að þær nái fram að ganga. Tillögur frumvarpsins skýra sig að nokkru leyti sjálfar, en þó verða færð nokkur rök fyrir hverri þeirra.
    Tillögu um breytingar á 5. gr. laga um stjórn fiskveiða er ætlað að skilja greinilega á milli báta í þorskaflahámarkskerfinu og báta sem stunda veiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga, að því er endurnýjun varðar. Fjöldi sóknardaga þeirra báta sem starfa í því kerfi miðast við sameiginlegan hámarksþorskafla bátanna í kerfinu og meðalþorskafla á dag fiskveiðiárið á undan. Hefur afkastageta í sóknardagakerfunum verið langt umfram þau mörk að eitthvert jafnvægi geti myndast varðandi fjölda sóknardaga. Því hefur verið haldið áfram með kostn aðarsamar úreldingaraðgerðir á vegum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins, sem hefur boðið styrk sem nemur áttatíu af hundraði húftryggingarverðmætis bátanna, gegn afsali leyfis til veiða í atvinnuskyni og afsali endurnýjunarréttar. Varðar miklu að afkastageta í sóknardagakerfun um aukist ekki enn frekar.
    Allt aðrar aðstæður hafa skapast í þorskaflahámarkskerfinu sem svipar mjög til aflahlut deildarkerfisins varðandi þorskveiðarnar. Þar er heimilt að framselja einstaklingsbundnar þorskveiðiheimildir, sem byggja á aflareynslu, á milli báta. Með lögum nr. 144/1997 var fellt niður það skilyrði að bátur sem þorskaflahámark væri flutt frá yrði að afsala sér leyfi til veiða í atvinnuskyni og endurnýjunarrétti. Við slíkar breytingar verður því nú til nokkur fjöldi af bátum sem eigendur hyggjast ekki nota til veiða og vilja nýta til stækkunar eða end urnýjunar annarra báta. Það er því í raun nýtt vandamál sem menn sáu ekki fyllilega fyrir. Fráleitt er að afgangsafkastagetu úr þorskaflahámarkskerfinu verði veitt inn í sóknardaga kerfið við þær aðstæður sem þar eru nú. Því er gerð sú tillaga að kveða skýrt á um það að veiðileyfi verði ekki flutt frá báti sem stundar veiðar með þorskaflahámarki til báts sem stundar veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga.
    Fyrri tillagan um breytingu á 6. gr. laganna snertir í raun sama vandamál og tillögu um breytingar á 5. gr. er stefnt gegn. Með lögum nr. 144/1997 var heimilað að sóknardagabátur gæti hvenær sem er flust án veiðiheimilda yfir í þorskaflahámarkskerfið. Markmiðið með þeirri breytingu var að stuðla að minnkandi afkastagetu í sóknardagakerfunum, en endur nýjun báta í þorskaflahámarkskerfinu þar sem veiðiheimildir eru að meðaltali allverulegar. Hliðarverkun af þessari heimild virðist hins vegar vera að menn hafa áhuga á að nýr bátur hefji veiðar á sóknardögum þótt ætlunin sé að hann verði til frambúðar með þorsk aflahámarki . Gefst þá kostur á að nýta takmarkaðan fjölda sóknardaga einu sinni þótt það valdi þá einnig meiri fækkun þeirra daga á næsta fiskveiðiári. Mikill áhugi er á að koma í veg fyrir að svo óeðlilegur framgangsmáti og að framan greinir eigi sér stað. Er talið nægja í því sambandi að gera kröfu um að bátur hafi stundað veiðar á sóknardögum í tvö ár ef heimilt á að vera að flytja hann í þorskaflahámarkskerfið.
    Seinni tillagan um breytingu á 6. gr. er leiðrétting á mistökum. Upphaflega miðaðist sókn ardagur við almanaksdag. Síðar var því breytt þar sem menn töldu sig þurfa að eiga rétt á allt að 24 klukkustundum frá því að þeir héldu til veiða sem væri á mismunandi tímum. Var það þá orðað þannig að sóknardagur væri 24 klukkustundir frá upphafi veiðiferðar. Síðar kom upp ágreiningur við einstakar útgerðir sem héldu því fram að sóknardegi lyki ekki er veiðiferð lyki og afla væri landað, heldur mætti fara margar veiðiferðir á einum sóknardegi innan 24 klukkustunda. Full samstaða var um það við LS að ákvæðinu hefði aldrei verið ætlað að vera þess efnis sem þessar útgerðir héldu fram. Því var kveðið nánar á um þetta í lögum nr. 144/1997 þar sem kveðið er á um að sóknardagur sé allt að 24 klukkustundir og síðan að veiðiferð teljist lokið þegar afla er landað. Þetta orðalag er að sönnu skýrara en hið fyrra, en mistök ollu því að í síðari málsliðnum segir ekki að „sóknardegi“ teljist lokið þegar afla er landað. Þykir tryggara að leggja til að þetta verði leiðrétt.
    Loks er gerð tillaga um að heimild Þróunarsjóðs sjávarútvegsins til úreldingar á sóknar dagabátum verði framlengd frá 1. apríl nk. til 1. október nk. Ástæðan er sú að þrátt fyrir að sóknardögum krókabáta í sóknarkerfunum tveimur muni fyrirsjáanlega fækka verulega á næsta fiskveiðiári hefur enginn bátur nýtt sér núgildandi tilboð á þessu ári. Niðurstaða af endurvali sóknardagabáta fyrir 1. febrúar sl. er sú að rúmlega eitt hundrað bátar kusu að flytja sig frá sóknardagakerfunum og yfir í þorskaflahámark. Ein afleiðing þess er að meðal þorskveiðiheimild á bát í sóknardagakerfunum hefur lækkað úr um 13 lestum og niður í um 8 lestir. Miðað við það er næsta víst að sóknardagar í þeim kerfum verða umtalsvert færri á næsta fiskveiðiári en nú. Þykir ófært annað við þær aðstæður en að tilboð um úreldingar styrk standi lengur til boða en áður var ráðgert.