Ferill 686. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1186 – 686. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, ásamt síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skipar forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands til fimm ára í senn að fengnu áliti fagráðs stofnunarinnar. Hann skal hafa háskólamenntun og þekkingu á verksviði stofnunar innar. Forstöðumenn setra eru ráðnir af forstjóra til fimm ára í senn.
    Forstjóri hefur á hendi stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hann gerir starfs- og fjárhags áætlun stofnunarinnar og staðfestir fjárhagsáætlanir setra og fylgist með fjárreiðum þeirra og ráðstöfun fjár. Fjármál einstakra setra eru að öðru leyti á ábyrgð forstöðumanna þeirra.
    Ráðherra skipar fagráð Náttúrufræðistofnunar Íslands til fjögurra ára í senn. Fastráðnir starfsmenn hvers seturs stofnunarinnar tilnefna einn mann í ráðið og forstöðumenn náttúru stofa með ríkisaðild í kjördæmum einn sameiginlega. Ráðherra skipar formann fagráðs án til nefningar. Varamenn skal skipa með sama hætti.
    Forstjóri boðar árlega í samráði við fagráð til fundar með starfsmönnum Náttúrufræði stofnunar og forstöðumönnum náttúrustofa til að samræma starfsemina og greina frá niður stöðum rannsókna.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um hlutverk og starfsskyldur forstjóra, for stöðumanna og fagráðs, svo og um aðsetur forstjóra á hverjum tíma.

2. gr.

    Í stað orðsins „stjórnar“ í 4. mgr. 6. gr. laganna kemur: forstjóra.

3. gr.

    4. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Náttúrugripi, þar með taldar örverur sem uppruna eiga á jarðhitasvæðum og erfðaefni þeirra, má ekki flytja úr landi nema með leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands og með þeim skilyrðum sem stofnunin setur hverju sinni.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í stað stjórnar stofnunarinnar er í frumvarpinu lagt til að komi fagráð, sem vera skal forstjóra til ráðgjafar um fagleg málefni og stuðla að sem bestu samræmi í starfsemi setra og náttúrustofa. Skal það skipað með sama hætti og stjórn var skipuð áður. Hlutverk þess verði í raun það sama og stjórnar áður að því undanskildu að það ber ekki ábyrgð á rekstri og fjárhag stofnunarinnar. Lagt er til að forstjóri stofnunarinnar beri alla ábyrgð á fjárreiðum hennar og rekstri í samræmi við lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Breyting þessi á 3. gr. laganna er m.a. lögð til vegna athugasemda sem fram koma í endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar um Náttúrufræðistofnun Íslands vegna ársins 1995 sem út kom í janúar 1997. Þar segir m.a. í kafla um stjórnskipulag Náttúrufræðistofnunar:
     „Í lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur kemur fram að ráðherra skipar stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands til fjögurra ára í senn. Stjórnin hefur samkvæmt lögunum á hendi yfirstjórn stofnunarinnar og skal hafa með henni fjárhagslegt og faglegt eftirlit. Þannig segir í lögunum: „[Stjórnin] fjallar um starfs- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar og fer yfir fjárhagsáætlanir setra og fylgist með fjárhag þeirra og ráðstöfun fjár.“ Forstjóri starfar í umboði stjórnar sem framkvæmdastjóri hennar og stofnunarinnar í heild. Samkvæmt lögum og reglugerð um stofnunina eru völd stjórnar mjög afgerandi en valdaframsal til forstjóra er mjög takmarkað. Þannig er dregið úr valdi og ábyrgð hans á ýmsum grundvallarþáttum rekstrar og stjórnunar, má þar nefna mannaráðningar, faglega yfirstjórn og fjármálastjórn. Ljóst er að svo veik staða forstjóra getur haft í för með sér ýmis stjórnunarvandamál auk þess sem ábyrgð á árangri rekstrarins verður óljós. Samstarf hefur gengið vel innan stofnunarinnar þannig að ekki hefur reynt á þessa annmarka.
    Meiri hluti núverandi stjórnar, eða tveir af þremur stjórnarmönnum, er tilnefndur af undir mönnum forstjóra, en stjórnin er skipuð fulltrúum fastra starfsmanna setranna tveggja, auk formanns sem ráðherra skipar án tilnefningar. Þá skipa forstöðumenn náttúrustofa með ríkis aðild einn fulltrúa sameiginlega samkvæmt lögunum.
    Ljóst er að staða og skipan stjórnar Náttúrufræðistofnunar getur leitt til margs kyns vandamála og telur Ríkisendurskoðun að taka þurfi þessa þætti til endurskoðunar.“
    Önnur breyting á 3. gr. laganna sem lögð er til er að nú skipi forstjóri forstöðumenn setra stofnunarinnar í stað ráðherra og er þessi breyting í samræmi við lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Skv. 6. mgr. 3. gr. laga nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, skipar umhverfisráðherra forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og forstöðumenn setra hennar til fimm ára í senn. Í nýjum lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sem öðluðust gildi 1. júlí 1996, er gerður greinarmunur á starfsmönnum eftir því hvort þeir gegna „störfum“ sem lögin ná til eða „embættum“, en í síðara tilvikinu er einungis átt við starf sem maður er skipaður til að gegna, sbr. 22. gr. þeirra laga. Þar eru taldir upp þeir starfsmenn ríkisins sem teljast embættismenn og kemur fram að í þeim hópi eru forstöðumenn ríkisstofnana, sbr. 13. tölul. 1. mgr. Jafnframt segir í síðari málsgrein 22. gr. að fjármálaráðherra skeri úr því hvaða starfsmenn falli undir 13. tölul. 1. mgr. og skuli fyrir 1. febrúar ár hvert birta lista í Lögbirtingablaði yfir þá starfsmenn.
    Þar sem forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands er eini embættismaður stofnunarinnar í skilningi áðurnefndra laga er lagt til að forstjóri verði einn skipaður af ráðherra og forstöðu menn setra og annað starfsfólk verði ráðið af forstjóra.
    Í samningi um líffræðilega fjölbreytni sem Ísland hefur staðfest er viðurkennt að þau verðmæti sem finna megi í lífríki einstakra landa tilheyri upprunalandinu og utanaðkomandi aðilum sé óheimilt að hagnýta sér slík verðmæti án samþykkis og eftirlits viðkomandi lands. Með breytingu á 4. mgr. 15. gr. laganna er stefnt að því að tryggja markmið samningsins að þessu leyti, en ekki hafa verið sett lög á Íslandi sem hafa beinlínis þann tilgang.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 60/1992,
um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands verði lögð niður en í stað hennar verði skipað fagráð. Skipan og hlutverk fagráðsins er svipað og stjórnarinnar samkvæmt núgildandi lögum að því undanskildu að það ber ekki ábyrgð á rekstri og fjárhag stofnunarinnar. Á síðasta ári nam kostnaður vegna stjórnarinnar um 0,5 m.kr. Ætla má að kostnaður við rekstur ráðsins verði ívið minni en að öðru leyti er ekki talið að framangreind breyting hafi í för með sér áhrif á útgjöld ríkissjóðs.