Ferill 642. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1345 – 642. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Frá 2. minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Jafnaðarmenn hafa lagt til, bæði á þessu þingi (146. mál) og því síðasta, að veiðiheimildir úr norsk-íslenska síldarstofninum yrðu boðnar út og að gerðar yrðu viðeigandi breytingar á lögunum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996. Það er skoðun jafnaðarmanna að með þeirri skipan mála væri líklegast að markmið fiskveiðistjórnunar um hagkvæmar veiðar og réttláta úthlutun veiðileyfa næðist fram.
    Eins og alkunna er hafa veiðar íslenskra fiskiskipa úr norsk-íslenska síldarstofninum ekki verið stundaðar svo neinu nemi í yfir 30 ár. Á allra síðustu árum hefur orðið breyting á því. Norsk-íslenski síldarstofninn hefur verið í framför eftir langvarandi lægð og er þess vænst að hann muni brátt ganga á gamlar slóðir. Með samningi um veiðar úr norsk-íslenska síldar stofninum milli síldveiðiþjóðanna við norðanvert Atlantshafi tryggðu Íslendingar sér veiði réttindi úr stofninum á hafsvæðum utan íslensku fiskveiðilögsögunnar og á næstu vertíð koma 202 þúsund lestir í hlut Íslendinga.
    Vegna þess hve langur tími er liðinn frá því að veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum voru stundaðar af íslenskum fiskiskipum er ekki á neinni veiðireynslu að byggja hjá þeim flota sem hyggst stunda þessar veiðar. Síldveiðiskipin, sem veiðarnar stunduðu fyrir þrjátíu árum, eru flest horfin úr íslenska flotanum og útgerðir margra þeirra hættar störfum. Íslend ingar standa því frammi fyrir aðstæðum sem eru alls ólíkar því sem þeir hafa vanist við veið ar úr öðrum fiskstofnum á Íslandsmiðum og utan þeirra þar sem oftast var byggt á margra ára veiðireynslu skipa sem voru í útgerð þegar stjórnkerfisleiðir voru valdar.
    Með frumvarpi jafnaðarmanna hefur sú stefna verið mótuð varðandi veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum að ákveðið verði í lögum að í stað ókeypis úthlutunar aflakvóta til tiltekinna veiðiskipa verði veiðiheimildir seldar þeim sem hug hafa á að stunda veiðarnar.
    Í umræðum um veiðileyfagjald, þ.e. sölu aflaheimilda, hafa komið fram ýmsar tillögur og hugmyndir um útfærslu, en með veiðileyfagjaldi er átt við gjaldtöku í tengslum við úthlutun veiðiheimilda. Í frumvarpi jafnaðarmanna er sú leið valin hvað varðar sölu veiðileyfa úr norsk-íslenska síldarstofninum að selja veiðileyfi í almennu útboði þar sem útgerðir allra
íslenskra skipa sem stundað geta síldveiðar hafa sama rétt til þátttöku. Þótt þessi aðferð sé valin í frumvarpi jafnaðarmanna ber ekki að hafa það til marks um að flutningsmenn séu þeirrar skoðunar að hana beri að velja öðrum fremur hvað varðar framkvæmd veiðileyfa gjalds í öðrum fiskveiðum. Þar koma aðrar aðferðir ekki síður til greina.
    Með útboði á aflaheimildum eru meiri líkur á að manneldismarkmið náist í síldveiðum vegna þess að séu veiðiheimildir fengnar gegn gjaldi í stað ókeypis aðgangs verður ríkari nauðsyn til þess að verðmæti aflans verði sem allra mest. Munu útgerðarmenn þá fremur huga að því að skipuleggja veiðar sínar þannig í stað þess að ná sem mestu magni án tillits til verðmætis.
    Á undanförnum árum hafa ýmsir aðilar, þar á meðal ráðherrar í núverandi ríkisstjórn, lýst þeirri skoðun sinni að útboð veiðiheimilda úr norsk-íslenska síldarstofninum komi vel til álita. Morgunblaðið rifjar það upp í leiðara sl. sunnudag á eftirfarandi hátt:
    „Á undanförnum mánuðum hafa nokkrir ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna ítrekað lýst þeirri skoðun að vel gæti komið til greina að selja réttinn til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og fært fram þau rök fyrir því að öðru máli gegndi um þennan stofn en fiski stofnana á Íslandsmiðum. Morgunblaðið hefur tekið þessi ummæli forystumanna stjórnar flokkanna alvarlega og trúað því að hugur fylgdi máli.
    Nú er bersýnilegt að stjórnarflokkarnir hyggjast ekki fylgja þessum hugmyndum fram heldur haga úthlutun veiðiréttar með öðrum hætti. Í ljósi fyrri yfirlýsinga ráðherra og þing manna er ekki til of mikils mælst að þeir geri grein fyrir því hvers vegna þeir hafa horfið frá fyrri hugmyndum í þessum efnum.“
    Svo mörg voru þau orð leiðarahöfundar Morgunblaðsins.
    Annar minni hluti harmar að meiri hluti Alþingis sé ekki tilbúinn til að fallast á tillögu jafnaðarmanna um úthlutun veiðiheimilda með uppboði og tekur undir þau orð leiðarahöf undar Morgunblaðsins að ekki sé til of mikils mælst að þeir sem áður höfðu lýst þeirri skoð un að það kæmi til greina að selja veiðiheimildir úr norsk-íslenska síldarstofninum geri efnislega grein fyrir því hvers vegna þeir hafi horfið frá fyrri hugmyndum í þessu efni.
    Sú niðurstaða sem birtist í frumvarpi sjávarútvegsráðherra er málamiðlun milli ríkis stjórnarflokkanna, málamiðlun milli þeirra sem ekki vilja að veiðar úr norsk-íslenska síldar stofninum „myndi grunn að fastri aflahlutdeild“, sbr. nefndarálit meiri hluta sjávarútvegs nefndar við afgreiðslu frumvarps til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, og þeirra sem vilja þegar fara að stýra veiðunum með úthlutun veiðiheimilda á grunni slíkrar reynslu, sbr. 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Niðurstaðan er bastarður sem hvorki mun uppfylla kröfur um hagkvæmar veiðar né réttláta úthlutun veiðiheimilda.
    Annar minni hluti mun ekki styðja þessa niðurstöðu en leggur til að í stað slíkrar mála miðlunar verði veiðarnar frjálsar enn um sinn, sbr. breytingartillögur þar um í sérstöku þing skjali, enda sé það næstbesti kostur við veiðistjórnun þegar aðstæður eru eins og nú varðandi norsk-íslenska síldarstofninn.

Alþingi, 30. apríl 1998.



Svanfríður Jónasdóttir,


frsm.


Lúðvík Bergvinsson.