Ferill 667. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1359 – 667. mál.



Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um innflutning kjöts og dýra.

     1.      Hver er staða mála er tengjast 17. grein EES-samningsins að því er varðar bann við innflutningi á kjöti og lifandi dýrum?
    Ísland tók ekki yfir þann hluta ESB-löggjafarinnar sem varðar heilbrigði dýra og afurðir unnar úr dýrum í EES-samningnum, að undanteknum tilskipunum 91/493, 91/492 og 91/67 um heilbrigði og markaðssetningu fisks, fiskafurða, fiskeldisafurða og skeldýra. Áhrif lög gjafar ESB á innflutning á dýrum og afurðum dýra til landsins fylgja því ekki EES-samn ingnum.
    Um innflutning á dýrum og afurðum dýra fer eftir breytingum sem gerðar voru á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, við setningu laga nr. 87/1995, um breyt ingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

     2.      Hver er stefna íslenskra stjórnvalda að því er varðar þróun tímabundinna ákvæða EES-samningsins á þessu sviði? Hafa farið fram viðræður við Evrópusambandið þar að lútandi?
    Í I. viðauka EES-samningsins er svokallað endurskoðunarákvæði sem gerði ráð fyrir að sú skipan mála sem upphaflega var samið um skyldi koma til endurskoðunar árið 1995. Við ræður um þetta atriði fóru fram við framkvæmdastjórn ESB í tengslum við samninga um yfir töku íslenskra stjórnvalda á heilbrigðisreglum ESB varðandi fisk og fiskafurðir.
    Endurskoðuninni lauk í árslok 1996 og var niðurstaðan sú að báðir aðilar samþykktu að engar breytingar skyldi gera á reglum um innflutning dýra og dýraafurða gagnvart Íslandi. Nýtt endurskoðunarákvæði var samið í þessu skyni sem segir að hefja skuli viðræður á ný árið 2000. Ekki hefur enn verið gengið formlega frá ákvæðinu þar sem það er hluti af viðbót arpakkanum sem að meginmáli fjallar um fiskafurðir. Afgreiðsla hans hefur tafist nokkuð hjá ráðherraráði ESB, en engin ástæða er til að ætla að það breyti neinu um endurskoðunar ákvæðið.
    Stefna íslenskra stjórnvalda í þessum málum gagnvart ESB er því skýr. Fátt kallar á breytingar á núverandi fyrirkomulagi. ESB hefur átt í verulegum vandræðum með þennan málaflokk undanfarið og er skemmst að minnast kúariðu í Bretlandi og víðar og svínapestar í Hollandi og nágrannalöndum þess. Því ber að sýna fyllstu varúð við innflutning frá þessum ríkjum til Íslands. Útflutningur okkar til ESB á landbúnaðarvörum er um þessar mundir hverfandi. Ástæða þess er fyrst og fremst lágt markaðsverð, en ekki reglur á sviði heilbrigð ismála í ESB.

     3.      Hvaða aðgerðir og rannsóknir fara fram til að treysta áhættumat og varnir hérlendis gegn sjúkdómum er hlotist gætu af innflutningi á hráu kjöti og lifandi dýrum?
    Embætti yfirdýralæknis hefur yfirumsjón með opinberum aðgerðum til að dýrasjúkdómar berist ekki til landsins með lifandi dýrum, hráu kjöti eða á annan hátt, svo sem með fólki, fatnaði eða hvers konar búnaði. Öll dýr sem flutt eru til landsins fara í einangrun. Gæludýr fara í einangrunarstöð í Hrísey. Frjóvguð alifuglaegg eru klakin út í aðstöðu sem eingöngu er ætluð til þess og síðan fara ungarnir til uppeldis á svonefnd stofnbú sem framleiða egg til útungunar og framleiðslu lífdýra. Dýralæknar fylgjast mjög náið með heilbrigði allra dýra, eggja og erfðaefnis dýra sem flutt er til landsins.
    Rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna hvort og þá hvaða sjúkdómar séu fyrir hendi í íslensku búfé.
    Á vegum embættis yfirdýralæknis hafa á undanförnum fáum árum verið gerðar mælingar á mótefnum við ýmsum smitsjúkdómum í blóði alifugla og svína. Þessar mælingar eru fyrst og fremst gerðar til að sanna að tilteknir sjúkdómar finnist ekki hér á landi og þær nýtast við ákvörðun á því hvort heimila skuli innflutning á alifugla- og svínaafurðum.
    Innflutningur matvæla, þar með talið kjöt, er að stærstum hluta vörur sem fengið hafa hitameðferð. Innflutningur á hráu kjöti hefur aukist í samræmi við skuldbindingar Íslands í samningi um Alþjóðaviðskiptastofnunina. Hann er aðeins heimilaður frá löndum þar sem ástand búfjársjúkdóma er þannig að ekki sé talin hætta á að sjúkdómar berist til landsins. Þetta á einnig við um vörur sem fengið hafa hitameðferð og um aðrar afurðir búfjár, svo sem mjólkurafurðir og egg, og krafist er sótthreinsunar á búnaði til notkunar í landbúnaði sem kemur notaður til landsins.
    Áhættumat fer fram í hvert sinn sem óskað er eftir innflutningi kjöts frá löndum sem inn flutningur hefur ekki verið leyfður frá áður. Leitað er eftir upplýsingum um sjúkdómsástand í þeim löndum sem flytja skal inn frá og innflutningur því aðeins heimilaður að ekki fyrirfinnist þar skæðir smitandi búfjársjúkdómar. Með því er átt við sjúkdóma sem eru mjög smitandi og valda miklu tjóni, svo sem gin- og klaufaveiki, svínapest og Newcastle-veiki í alifuglum.
    Í frumvarpi sem landbúnaðarráðherra hefur lagt fram á 122. löggjafarþingi 1997–98, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, er lagt til að ráða skuli dýralækni sem hafi eftirlit með inn- og útflutningi búfjárafurða. Hann verður einn af sérgreinadýralæknum sem starfa undir yfirstjórn embættis yfirdýralæknis. Í frumvarpinu eru enn fremur ákvæði um að land búnaðarráðherra skipi dýralæknaráð sem í sitji fjórir dýralæknar. Ráðið skal ávallt fjalla um innflutning búfjár og um innflutning annarra dýra, búfjárafurða og aðra þætti sem snerta heilbrigðismál dýra og dýraafurða þegar þess er óskað af landbúnaðarráðherra eða yfirdýra lækni.

     4.      Hver er staða þessara mála samkvæmt samningsskuldbindingum Íslands sem aðila að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO?
    Við setningu laga nr. 87/1995, um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóða viðskiptastofnuninni, var gerð breyting á tvennum lögum er þetta varðar. Í fyrsta lagi var breytt lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Þar var m.a. tekið upp ákvæði sem heimilar landbúnaðarráðherra að banna innflutning á afurðum dýra og plantna sem gefin hafa verið vaxtaraukandi efni á framleiðsluskeiðinu eða kunna að fela í sér leifar lyfja og annarra aðskotaefna umfram það sem leyft er við framleiðslu hér á landi og geta verið hættuleg heilsu manna. Í öðru lagi var lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, breytt á þann hátt að í stað nær fortakslauss banns við innflutningi á dýrum og hráum dýraafurðum er landbúnaðarráðherra heimilað að leyfa innflutning þessara vara að fengnum meðmælum yfirdýralæknis, enda þyki sannað að ekki berist með þeim smit efni sem valda dýrasjúkdómum. Framkvæmd þessara laga fer eftir ákvæðum í reglugerð nr. 479/1995, um varnir gegn því að dýrasjúkdómar berist til landsins og um takmörkun á innflutningi afurða dýra, sem hafa fengið vaxtaraukandi efni, sem sett var 1. september 1995. Tilgangur reglugerðarinnar er að hindra að dýrasjúkdómar berist til landsins með innfluttum sláturafurðum, eggjum, mjólkurafurðum og öðrum vörum sem reglugerðin tekur til og að koma í veg fyrir að fluttar verði til landsins afurðir dýra, sem fengið hafa vaxtaraukandi efni á framleiðsluskeiðinu. Í reglugerðinni eru taldar upp þær afurðir dýra og vörur sem geta bor ið með sér smitefni sem valda dýrasjúkdómum, skilgreint hvað skuli koma fram á innflutn ingsvottorðum sem skulu fylgja innfluttum búfjárafurðum og ákvæði um sóttvarnaráðstafanir sem uppfylla þarf vegna innflutningsins, svo sem sýnatökur og rannsóknir sem yfirdýra læknir telur nauðsynlegar. Nánari útfærsla reglugerðarinnar fer fram með auglýsingum. Gefin hefur verið út auglýsing nr. 525/1996 vegna innflutnings á landbúnaðarvörum. Í henni eru tilgreind þau lönd og þær kjöttegundir sem heimilt er að flytja inn að uppfylltum skil yrðum um uppruna- og heilbrigðisvottorð. Það vottorð skal m.a. fela í sér staðfestingu á að varan sé af sláturdýrum sem ekki hafa verið gefin vaxtarhvetjandi efni á eldistímanum og að afurðirnar séu unnar í viðurkenndum afurðastöðvum og lausar við salmonellusýkingu. Þá hefur enn fremur verið gefin út auglýsing nr. 483/1995, vegna innflutnings á landbúnaðar vörum, sem tekur til vara sem hlotið hafa hitameðferð. Þar eru m.a. fyrirmæli um að vörunum skuli fylgja vottorð er sanni uppruna varanna og hitameðferð þeirra og birtur listi yfir lönd sem yfirdýralæknir viðurkennir heilbrigðisvottorð frá. Innflutningur frá þeim löndum er því leyfður að því tilskildu að heilbrigðisvottorð fylgi vörunum er sannar að uppfylltar séu þær kröfur sem auglýsingin lýsir.
    Þrátt fyrir varúðarráðstafanir sem viðhafðar hafa verið hafa nýlega borist alvarlegir dýra sjúkdómar til landsins. Þeir eru smáveirusýking í hundum og smitandi hitasótt í hrossum sem nú gengur yfir.
    Um stöðu mála samkvæmt skuldbindingum Íslands er enn fremur vísað til skýrslu um framkvæmd landbúnaðarhluta samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina sem birt hefur verið árlega og dreift til alþingismanna. Skýrsla þessi er unnin af ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara sem starfar á vegum landbúnaðarráðherra.

     5.      Hverjar eru megináherslur íslenskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi og í samningum um þróun alþjóðlegra sáttmála og skuldbindinga að því er varðar heilbrigðisþætti er tengjast innflutningi kjöts og lifandi dýra?
    Megináherslur stjórnvalda hafa beinst að því að halda dýrastofnum í landinu heilbrigðum og að innflutningur kjöts sé háður þeim skilyrðum sem sett eru íslenskri framleiðslu kjöts með hliðsjón af hollustu og heilnæmi afurðanna.
    Við gerð samningsins um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar var af Íslands hálfu lögð áhersla á að unnt yrði að beita verndaraðgerðum til að tryggja óbreytt heilsufar búfjár í landinu. Það byggðist á þeirri forsendu að Íslandi yrði gert unnt að framfylgja banni við innflutningi á þeim vörum sem gætu borið með sér smitsjúkdóma í dýr sem með vísindalegum rökum mætti sýna fram á að væri eina leiðin til að verja innlendan búfénað gegn hættulegum sjúkdómum sem ekki finnast á Íslandi.
    Frá því að þessar áherslur voru lagðar hefur heilbrigðisástand dýra til framleiðslu á kjöti versnað að því er varðar sjúkdóma sem upp hafa komið og óttast er að borist geti milli teg unda. Þá hefur einnig orðið alvarlegri umræða um ónæmismyndun vegna óhóflegrar notkunar víða um lönd á dýralyfjum, bæði til lækninga og sem vaxtaraukandi efni, m.a. til kjötfram leiðslu. Með síauknum kröfum um hagkvæmari og ódýrari kjötframleiðslu hefur álag á um hverfi gripa og gripina sjálfa aukist og hefur það leitt til að alvarlegum sjúkdómstilfellum í búfé hefur fjölgað. Svo er komið að sérfræðingar alþjóðastofnana á sviði búfjársjúkdóma telja að óhjákvæmilegt sé að grípa til sérstakra aðgerða er dragi úr smithættu. Takmarka verði fjölda gripa sem haldið er saman í hóp og líta verði eftir flutningi á lifandi dýrum milli landa og milli fjarlægra staða. Í norrænu samstarfi hefur sjúkdómum dýra og mengun mat væla verið veitt aukin athygli. Stjórnvöld þessara landa hafa ákveðið að taka upp samstarf til að tryggja hreinleika matvæla með því að vinna að hertum reglum um öryggi neytenda í viðskiptum með matvæli innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og í Evrópusambandinu. Mengun matvæla af salmonellusmiti og notkun á sýklalyfjum í fóður eru áberandi í umræð unni. Embættisnefndir norrænu landanna á sviði landbúnaðar og matvæla munu mynda starfshóp með tveimur aðilum frá hverju landi til að vinna að þessu þýðingarmikla verkefni.