Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 14:35:00 (2952)

1999-01-11 14:35:00# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[14:35]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ræða þetta mál almennt síðar í umræðunni en það er eitt afmarkað atriði sem ég vildi koma að í andsvari og beina um leið spurningu til hv. formanns sjútvn. Það varðar brtt. meiri hlutans, sem er tölusett 8 í nál. en mun vera bráðabirgðaákvæði, b-liður, þar sem gert er ráð fyrir því að frá og með næsta fiskveiðiári og næstu fiskveiðiár þar á eftir hafi Byggðastofnun árlega til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema 1.500 þorskígildislestum, miðað við óslægðan fisk, til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. ,,Skal þeim úthlutað í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir``, stendur hér í brtt.

Ég tel út af fyrir sig að meðan núverandi aflamarkskerfi er í gangi sé alveg brýn nauðsyn að til staðar sé ákveðinn viðlagamöguleiki, ákveðinn pottur til að bregðast við neyðartilvikum og þau hafa komið upp og munu koma upp áframhaldandi meðan þetta kerfi er við lýði og kannski þrátt fyrir það. Ég fagna því út af fyrir sig að þessi tillaga er inn komin en ég vil spyrja hv. formann nefndarinnar að því, hvernig er þessi tala fundin, þessar 1.500 lestir í þorskígildum, hvernig er það skilgreint og hvernig nefndin lítur á möguleika til að bregðast við vanda sem upp kemur þegar á þessu fiskveiðiári. Ég beindi sérstöku erindi til nefndarinnar sl. föstudag vegna þess algera neyðarástands sem upp er komið í kjördæmi mínu, í Austurlandskjördæmi, á Breiðdalsvík þar sem fiskvinnsla er algerlega strand vegna breytinga sem orðið hafa í eignarhaldi og yfirráðum yfir aflahlutdeild fyrir nokkru. Ég vildi gjarnan að hv. formaður nefndarinnar greindi frá því hvort um slík tilvik hafi verið rætt, ég veit hann þekkir þetta einnig úr kjördæmi sínu og gæti skýrt það hér.